Afgreiðsla fjölmiðlafrumvarps

Miðvikudaginn 12. maí 2004, kl. 11:25:55 (7990)

2004-05-12 11:25:55# 130. lþ. 113.92 fundur 552#B afgreiðsla fjölmiðlafrumvarps# (um fundarstjórn), GAK
[prenta uppsett í dálka] 113. fundur, 130. lþ.

[11:25]

Guðjón A. Kristjánsson:

Hæstv. forseti. Á síðustu 11 klukkustundum hefur rúmlega þremur verið eytt í að ræða hér um stjórn fundarins. Hæstv. forseti, jafnskynsamur maður og hann er, hlýtur að sjá að slíkt verklag gengur ekki. Það hlýtur að vera miklu eðlilegra að taka upp viðræður um það að fá nefndarálitin frá efh.- og viðskn. og menntmn. inn í þessa umræðu svo að henni megi fram halda með eðlilegum hætti og hér takist að ræða þetta mál út frá þeim forsendum að um það hafi verið fjallað í þeim nefndum þingsins sem fengu málið til meðferðar.

Ég get ekki séð, hæstv. forseti, að það sé neinum til framdráttar að halda svo fram sem verið hefur á síðustu 11 klukkustundum með þetta mál. Það hlýtur að vera eðlileg og réttlát krafa þingmanna að forseti taki tillit til þess. Hæstv. forseti hlýtur sjálfur að sjá að það vinnulag að eyða mörgum klukkustundum á hverri vakt, ef svo má segja, í að fara yfir störf og stjórn forseta á fundinum getur ekki gengið.

Það hlýtur líka að vera mjög eðlilegt, hæstv. forseti, að áður en fram heldur 2. umræðu um málið komi hér inn nefndarálitin frá efh.- og viðskn. og menntmn. um það hvernig þær nefndir hafa farið yfir þetta mál.

Ég vil þess vegna beina þeirri eindregnu ósk til hæstv. forseta að hann endurskoði hug sinn í þessu máli og sjái til þess að nefndir geti lokið störfum sínum svo að við getum tekið til fullra verka við að ræða þetta mál með öll efnisleg gögn í höndunum.