Afgreiðsla fjölmiðlafrumvarps

Miðvikudaginn 12. maí 2004, kl. 11:32:03 (7994)

2004-05-12 11:32:03# 130. lþ. 113.92 fundur 552#B afgreiðsla fjölmiðlafrumvarps# (um fundarstjórn), BjörgvS
[prenta uppsett í dálka] 113. fundur, 130. lþ.

[11:32]

Björgvin G. Sigurðsson:

Virðulegi forseti. Ég gat um það við upphaf þingfundar að menntmn. hefði með hraði lokið umfjöllun sinni um frv. forsrh. um eignarhald á fjölmiðlum. Við vorum eitthvað á annan klukkutíma með sex gesti þar sem við fengum fram sjónarmið þess valinkunna fólks á lagafrv., þessum gjörningi.

Virðulegi forseti. Nú hefur nefndarmönnum ekkert tóm gefist til að vinna að áliti sínu, því áliti fagnefndar sem menntmn. er, og hv. allshn. óskaði sérstaklega eftir fyrir 2. umr. um þetta frv. Nú er umræðan farin vel af stað og við erum flest á mælendaskrá í henni, eins og lög gera ráð fyrir, og sinnum þeim skyldum okkar að vera við þingfund, taka þátt í umræðum og fylgjast með þeirri málefnalegu umræðu sem hefur farið hér fram af hálfu stjórnarandstöðunnar um málið. Þar með gefst okkur að sjálfsögðu, virðulegi forseti, enginn tími til að vinna að nefndarálitinu eða sinna þeirri lögbundnu skyldu okkar og þeirri ósk allshn. að skila inn ítarlegu og vönduðu áliti menntmn. sem mætti verða til að beina þessum ólögum í réttan farveg og koma í veg fyrir þann gjörning sem hér vofir yfir þingheimi, þeirri skömm sem blasir við þingheimi ef umrætt frv. verður að lögum.

Ég hef þá trú að álit menntmn., þ.e. minni hlutans í menntmn., stjórnarandstöðunnar, geti skipt verulegu máli í þessari umræðu allri. Ég hef bent á það áður að rétt eins og það er með algjörum ólíkindum að Framsfl. skuli ekki viðra viðhorf sín í þessari umræðu eða að hæstv. ráðherrar skuli ekki sýna okkur þann sóma, hinu háa Alþingi, að vera við þingfund, taka þátt í umræðunni, hlýða á spurningar og taka þátt í svörum, sé engin leið, virðulegi forseti, að halda því fram með nokkrum málefnalegum hætti að umræðan um frv. um eignarhald á fjölmiðlum geti farið fram þannig að um sé að ræða vandaða og boðlega umræðu án þess að fyrir liggi álit menntmn. á þessu máli. Menntmn. er lykilnefnd í því, hefur með útvarpslögin að gera og málefni fjölmiðlanna. Þetta mál snertir fyrst og fremst rekstrarumhverfi fjölmiðlanna, ljósvakamiðlanna, prentmiðlanna o.s.frv., og því getur enginn haldið því fram, virðulegi forseti, að hægt sé að fara í þessa umræðu af nokkru viti án þess að álit menntmn. liggi fyrir.

Nú höfum við ekki haft nokkurt einasta ráðrúm frá því að fundi nefndar lauk rétt um hálfellefu til að vinna álit okkar og því tek ég undir þá sjálfsögðu ósk félaga minna hér að fundi verði frestað um nokkra klukkutíma þannig að við getum komið saman og unnið nefndarálit okkar og skilað því hér inn í 2. og fyrir 3. umr. um málið.