Afgreiðsla fjölmiðlafrumvarps

Miðvikudaginn 12. maí 2004, kl. 11:39:09 (7998)

2004-05-12 11:39:09# 130. lþ. 113.92 fundur 552#B afgreiðsla fjölmiðlafrumvarps# (um fundarstjórn), JÁ
[prenta uppsett í dálka] 113. fundur, 130. lþ.

[11:39]

Jóhann Ársælsson:

Hæstv. forseti. Þegar fjallað var um fundarstjórn forseta einhvern tíma eftir miðnættið í nótt og sú umræða hafði staðið nokkuð lengi benti ég á að skynsamlegra hefði verið að verða við þeirri ósk sem þá var uppi um að gert yrði stutt fundarhlé á meðan menn skoðuðu hvort hægt væri að ná samstöðu um vinnubrögð en að láta umræður um fundarstjórn forseta standa svo lengi sem þá hafði verið.

Nú gerist það aftur að hæstv. forseti vill ekki verða við því að menn fái að klára sín mál í nefndum og hér hafa staðið umræður um fundarstjórn forseta um langa stund. Ég segi alveg eins og er að það er orðið ljóst að ekki hefur orðið tímasparnaður af því að koma ekki til móts við stjórnarandstöðuna í þessu máli. Ég held að það yrði tímasparnaður af því og væri skynsamlegt hjá hæstv. forseta að fresta nú þessum fundi, gefa nefndum þingsins sem eftir eru --- reyndar er fundur að fara að hefjast í iðnn., skilst mér, núna í hádeginu --- tækifæri til að fara yfir sín mál og reyna að klára þau álit sem til var stofnað heldur en að vera í ósætti við stjórnarandstöðuna með framgang mála hér, eins og raun ber vitni. Mér finnst hæstv. forseti ekki meta þá stöðu rétt sem er búin að vera uppi gagnvart störfum þingsins og hann þurfi að taka svolítið til í hugskoti sínu og velta fyrir sér hvort hann geti ekki haldið þannig á málum að þeim þoki betur fram en raun ber vitni.

Ég legg þetta til í mikilli vinsemd við hæstv. forseta því að ég hef alltaf haft þá von að að því kæmi --- hann er nú farinn að telja daga sína sem forseti Alþingis --- að hann vildi ljúka því starfi með því orðspori að hann hefði þó undir lokin farið að starfa sem hæstv. forseti alls þingsins og með þarfir bæði stjórnarandstöðu og stjórnarliða í huga. Ég hvet hæstv. forseta til að velta þessum hlutum vel fyrir sér því að það verða átök um fleiri mál á þessu vorþingi, ef mig grunar rétt, og hæstv. forseti þarf þá að vanda sig. Annars munu þingstörf standa langt fram á sumar.