Útvarpslög og samkeppnislög

Miðvikudaginn 12. maí 2004, kl. 11:43:24 (8000)

2004-05-12 11:43:24# 130. lþ. 113.1 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, BjörgvS
[prenta uppsett í dálka] 113. fundur, 130. lþ.

[11:43]

Björgvin G. Sigurðsson:

Virðulegi forseti. Hér hefur verið farið vítt og breitt um þetta mikla mál og mun ég koma víða við í þeirri umræðu sem fram undan er í þinginu í dag í þessari fyrri ræðu minni um frv. hæstv. forsrh. um eignarhald á fjölmiðlum.

Þingheimi til upplýsingar og kannski áminningar ekki síður ætla ég að byrja á því að lesa valinn kafla sem eiginlega fletti upp á sér sjálfur úr grundvallarriti heimspekinnar og allrar undirstöðu undir frjálslynt borgarasamfélag okkar tíma, lýðræðislegt, borgaralegt og frjálslynt samfélag. Bókin kom út árið 1859 og er eftir heimspekinginn John Stuart Mill, mjög merkilegt rit sem liggur til grundvallar flestum nútímastjórnmálastefnum sem hafa lýðræði og lýðréttindi hvers konar að leiðarljósi. Mun ég grípa nokkrum sinnum til hennar í umræðunni. Ég ætla að byrja á öðrum kafla, á bls. 53 í þessu ágæta riti. Bókin er skrifuð árið 1859 í Bretlandi, fyrir 150 árum tæpum, löngu áður en Evrópa gekk í gegnum tvær heimsstyrjaldir sem skóku hana sundur og saman. Setti óhug að mörgum á þeim tímum um hvað yrði um mannréttindi, lýðréttindi og frelsi hvers konar. En upp reis álfan og frelsið var endurreist með lýðréttindum hvers konar og að sjálfsögðu liggur þar til grundvallar prentfrelsið, málfrelsið og réttur okkar til tjáningar, eigna og athafna. En þessi varnaðarorð skrifaði John Stuart Mill fyrir 150 árum. Árið 1859 talar hann um liðna tíð, að einu sinni hafi þurft að gera það sem á eftir kemur í setningunni.

Með leyfi forseta:

[11:45]

,,Annar kafli. Um hugsunarfrelsi og málfrelsi. Sú tíð,`` segir John Stuart Mill árið 1859, ,,er nú vonandi liðin, er verja þurfti prentfrelsið með ráðum og dáð sem eina helztu tryggingu gegn spilltri og ofríkisfullri landstjórn. Nú verður að ætla, að óþarft sé að ráðast með rökum gegn þingi eða stjórn, sem á aðra hagsmuni í húfi en þegnarnir, skipar þeim fyrir um skoðanir og ákveður, hvaða kenningar og rökræður þeir megi heyra. Að auki hafa fyrri höfundar rætt þessa hlið málsins svo oft og með svo ágætum árangri, að ástæðulaust er að fjölyrða um hana á þessum stað.``

Þetta var mat Johns Stuarts Mills, þess mikla heimspekings sem ritaði grundvallarritið Frelsið, eins og ég gat um í upphafi máls míns, um lýðréttindi, frjálslyndi, jafnræði og borgaralegt nútímasamfélag. Hann taldi ekki þurfa að eyða sérstaklega púðri í að færa rök fyrir því að verja þyrfti prentfrelsið með ráðum og dáð. Hann taldi okkur, Evrópubúa á þeim tíma, einfaldlega komin miklu lengra í þróun mannréttinda og uppbyggingu heilbrigðs lýðræðissamfélags en svo að sérstaklega þyrfti að taka það fram í þessu grundvallarriti sem síðar varð, Frelsinu, að verja þyrfti prentfrelsið. Eins og segir hér aftur, með leyfi forseta, ,,sem eina helztu tryggingu gegn spilltri og ofríkisfullri landstjórn``.

Ja, hérna. Þetta er merkileg lesning, virðulegi forseti, og ætti að vera okkur öllum áminning um að þó að tíminn líði breytist hlutirnir oft ótrúlega hægt. Oft er eins og við séum komin nokkur árhundruð aftur í tímann þar sem við stöndum í því dag og nótt sólarhringana út að verja prentfrelsið og málfrelsið, eins og segir hér, ,,gegn spilltri og ofríkisfullri landstjórn``. Þetta er einmitt veruleikinn okkar í dag, að mínu mati, virðulegi forseti. Við stöndum í pontu núna dag og nótt, myrkranna á milli, til að verja málfrelsið, prentfrelsið, tjáningarfrelsið, grundvallarmannréttindi okkar Íslendinga gegn ofríkisfulli landstjórn. Það er nákvæmlega það sem við erum að gera hér á hinu háa Alþingi í dag, við erum að verja grundvallarmannréttindi íslensku þjóðarinnar. Þess vegna á það svo ljómandi vel við, virðulegi forseti, að lesa upp úr hinu 150 ára gamla riti Johns Stuarts Mills, Frelsinu, þar sem hann kemst að þeirri niðurstöðu, á þeim tíma á Bretlandseyjum, að ekki þurfi sérstaklega að hafa orð á því að þurfa að verja prentfrelsið og málfrelsið gegn spilltri og ofríkisfullri landstjórn eins og hann segir.

Tímarnir breytast, og oft til hins verra. Við stöndum í þeim pólitísku sporum uppi á Íslandi í dag að vera að verja málfrelsið og prentfrelsið gegn ofríkisfullri landstjórn. Sú er akkúrat staðan, svo merkilegt og sorglegt sem það er, virðulegi forseti, að tíma Alþingis skuli þurfa að verja í slíka hluti í stað þess að slíkt sé löngu að baki sem sjálfsagðir hlutir okkar borgaralega lýðræðissamfélags. Ég mun jafnvel koma síðar við í þessu ágæta riti eftir John Stuart Mill.

Víkur þá sögunni 150 ár fram í tímann og að fundi menntmn. í morgun þar sem við fengum, að þrábeiðni okkar, fulltrúa stjórnarandstöðunnar í menntmn., vísinn að því hvernig lýðræðislegt nefndarstarf fer fram. Við fengum sýnishorn af því. Við fengum ekki að taka þátt í lýðræðislegu nefndarstarfi vegna þessa máls. Því fer víðs fjarri en við fengum hins vegar smáleikrit. Tveggja klukkustunda leikrit var sett á svið þar sem við fengum að þykjast koma að þessu máli. Við fengum að þykjast vera að spyrja gestina, reyndar afskaplega upplýst og gott fólk. Allir vita samt að aðkoma menntmn. að málinu er bara skrípaleikur.

Við fengum í rúma tvo klukkutíma í morgun að þykjast vera að vinna að þessu frv. um eignarhald á fjölmiðlum. Það var svo sem ósköp skemmtilegt og upplýsandi að taka þátt í því að þykjast vera að vinna að þessu máli og þykjast starfa eftir lýðræðislegum leiðum og lýðræðislegum hefðum. Stundum er allt betra en ekkert, virðulegi forseti. Það má kannski segja sem svo í þessu tilfelli en við munum að sjálfsögðu nýta okkur þær upplýsingar sem þar komu fram til að fylgja málstað okkar og máli eftir á hinu háa Alþingi. Sem sagt, 150 ár fram í tímann, og þar fengum við á fund okkar það prýðilega fólk Herdísi Þorgeirsdóttur, doktor í fjölmiðlalögum, Sigurð G. Guðjónsson, forstjóra Norðurljósa, Styrmi Gunnarsson, ritstjóra Morgunblaðsins, Gunnar Smára Egilsson, ritstjóra Fréttablaðsins og Magnús Ragnarsson, forstjóra Íslenska sjónvarpsfélagsins, eiganda Skjás 1.

Það var fróðlegt að heyra viðhorf þeirra en við, virðulegi forseti, óskuðum eftir mörgum öðrum ágætum fræðimönnum, fréttamönnum og öðrum. Ég ætla að nefna þá hér til að það hafi komið fram hvernig menntmn. vildi nálgast þetta mál, hvernig við vildum koma að þessu máli og hvernig við sáum það fyrir okkur þegar við hófum störf og settum saman listann yfir þá sem við vildum hitta. Við ályktuðum að við værum að fara í a.m.k. vikuvinnu, úti á nefndasviði við að taka á móti gestum, viða að okkur upplýsingum og draga saman allar þær upplýsingar sem við teljum að þurfi til að við getum skilað boðlegu og vitrænu áliti nefndarinnar. Í því ljósi óskuðum við eftir eftirtöldum fulltrúum og að sjálfsögðu töldum við að meiri hlutinn í nefndinni vildi bæta við og við fengjum þá enn fleiri gesti á fund okkar, þeir mundu skipta tugum og við yrðum, eins og ég segi, a.m.k. í viku að vinna að þessu máli.

Þeir sem við óskuðum eftir, fulltrúar stjórnarandstöðunnar, voru Gunnar Helgi Kristinsson, Háskóla Íslands, áðurnefnd Herdís Þorgeirsdóttir, Hilmar Thor Bjarnason, Háskóla Íslands, Kjartan Ólafsson, Háskólanum á Akureyri, Ragnar Karlsson, Hagstofu Íslands, Ólafur Harðarson, Háskóla Íslands, Róbert H. Haraldsson heimspekingur, háskólanum og að sjálfsögðu Þorbjörn Broddason sem skilaði ítarlegu og vönduðu áliti inn til allshn. Okkur þótti það algjört grundvallaratriði að fá að hlýða á viðhorf hans. Af höfundum fræðibóka um fjölmiðla óskuðum við sérstaklega eftir að hitta Birgi Guðmundsson, Hannes Hólmstein Gissurarson og Stefán Jón Hafstein, allt að magra mati mikils verðir fræðimenn sem við töldum mikinn hag fyrir nefndina að fá að hlýða á. Af reyndum blaða- og fréttamönnum óskuðum við t.d. eftir að fá að hitta Jóhann Hauksson, Jón Ásgeir Sigurðsson, Halldór Halldórsson, Agnesi Bragadóttur, Kára Jónasson, Egil Helgason, Jóhönnu Vigdísi Hjaltadóttur, Elínu Hirst, Brynhildi Ólafsdóttur, Ólaf Sigurðsson, Árna Bergmann og Odd Ólafsson. Að sjálfsögðu töldum við að stjórnarliðar mundu bæta fjölda reyndra frétta- og blaðamanna við þennan hóp. Þetta var alls ekki tæmandi listi heldur nöfn reyndra fjölmiðlamanna sem skaut upp í hugann akkúrat á þeirri stuttu stundu sem við vorum að setja listann saman. Hvað varðaði ritstjóra og aðra faglega yfirmenn fjölmiðla nefndum við sérstaklega Styrmi Gunnarsson, Illuga Jökulsson, Mikael Torfason, þá tvo ritstjóra þess blaðs, DV, sem kannski hefur sætt hvað harðastri gagnrýni og ofstækisfullri gagnrýni stjórnvalda, Gunnar Smára Egilsson, Boga Ágústsson, Sigríði Árnadóttur, Pál Magnússon, Rúnar Gunnarsson og Sverri Agnarsson. Þetta voru hinir faglegu og ritstjórnarlegu yfirmenn fjölmiðla sem við óskuðum eftir.

Í raun og veru var meginmálið, má kannski segja, í kröfu okkar að fá að hitta fulltrúa frá félögum innan atvinnugreina menningarinnar og fulltrúa Blaðamannafélagsins og Félags fréttamanna sem þetta mál snertir fyrst og síðast. Hvernig sem allt saman veltur standa peningamennirnir af sér áföllin en það er fólkið sem vinnur á miðlunum, fólkið sem hefur lifibrauð sitt af því að starfa kringum eða á þessum miðlum sem frv. snertir fyrst og fremst. Það er það fólk sem við vildum fá að heyra í, heyra hvaða mat það legði á stöðuna og hvernig það sæi fyrir sér að mál mundu þróast.

Fyrst ég er kominn að þeim þætti ræðu minnar langar mig að fylla upp í þá mynd sem hefur orðið svolítið út undan í umræðunni sem hefur eðli málsins samkvæmt snúist meira um stjórnarskrána og pólitíska tilurð þessa máls, af hverju hæstv. forsrh. óð fram á völlinn með sértæk lög á fjölmiðla Norðurljósa einungis til að brjóta fyrirtækið á bak aftur, sprengja það upp þannig að það yrði leyst upp og yrði ekki til staðar sem slíkt. Við þessu urðu að sjálfsögðu feiknarleg viðbrögð hjá starfsmönnum þessara miðla sem skipta hundruðum. Skyldi engan undra að viðbrögð fólks yrðu sterk þegar það upplifir að sjálfur hæstv. forsrh. fari með báli og brandi gegn því, lífsafkomu þess og það sjái fyrir sér að hann muni keyra í gegnum þingið á örfáum dögum frv. sem kippir fótunum undan lífsafkomunni, eða stefnir henni alltént í verulega hættu. Það er alveg morgunljóst að ef frv. verður að lögum mun þrengja svo að starfsemi Norðurljósa að fyrirtækið mun þurfa að draga verulega saman seglin. Ég ætla sérstaklega að vitna til orða forstjóra Norðurljósa, Sigurðar G. Guðjónssonar, af fundi nefndarinnar í morgun. Aðspurður um möguleg áhrif á Norðurljós fullyrti hann einfaldlega að Norðurljós mundu ekki lifa í núverandi mynd. Þau þyrftu að losa sig við stærsta hluthafann og ákveðna miðla. Svo ræddi Sigurður um bótaskylduna, upp á 2,5--3 milljarða væntanlega, miðað við virði félagsins í dag. Það sem eftir stendur þegar, og ef, frv. verður að lögum og þessi aðför að lýðræðinu hefur tekist, þetta áhlaup á Norðurljós átt sér stað, verður að sjálfsögðu fyrsta skrefið fyrir fjárvana fyrirtæki að draga saman seglin í innlendri dagskrárgerð og fréttaþjónustu. Tilgangur frv. er í orði kveðnu að efla fjölbreytni í fjölmiðlun og skjóta stoðum undir lýðræðislega umræðu en með samþykkt þess þyrfti þetta stóra fyrirtæki að draga verulega úr innlendri dagskrárgerð og fréttaþjónustu hvers konar. Frv. mundi fyrst og fremst bitna á þessu, dregið yrði verulega úr fréttaþjónustu sem kostar Íslenska útvarpsfélagið, Norðurljós, yfir 300 millj. á ári. Nefndi forstjórinn að ef menn litu einungis þannig á málið væri sú staða uppi að menn færu að sýna ameríska þætti eins og Simpsons og Friends, færu niður á sama plan og hver önnur vídeóleiga, að sýna vinsæla þætti sem hafa ágætt áhorf, kosta smámuni miðað við það að halda úti fréttaþjónustu sem ekkert knýr fyrirtækið til að gera en er, eins og allir vita, geysilega mikilvægur þáttur í allri fjölmiðlaflóru okkar.

Ég ætla, með leyfi forseta, að lesa útdrátt úr nokkrum tölvupóstum sem ég hugsa að flestir hverjir hafi borist okkur þingmönnum öllum. Þeir skiptu tugum, ekki hundruðum en þeir gætu hafa farið yfir 100. Þetta voru allt persónuleg bréf sem starfsfólk hinna ýmsu fjölmiðla í eigu Norðurljósa skrifaði eitt og óstutt. Ekki var um fjölsendingu að ræða, staðlaðan fjölpóst sem fór til þingmanna, heldur var hér um að ræða mjög persónulegar hugleiðingar þessa fólks sem upplifir það að stjórnarflokkarnir, Sjálfstfl. og Framsfl., haldi uppi áhlaupi á það fyrirtæki sem það starfar hjá með það að markmiði að brjóta það á bak aftur með þeim afleiðingum að hluti þess gæti misst vinnu sína. Þá ætla ég, með leyfi forseta, að vitna til nokkurra tölvupósta án þess að nefna nöfn þess fólks sem þá ritar, enda hef ég ekki óskað leyfis bréfritara til að birta nöfn þeirra hér. Það er líka algjör óþarfi. Um er að ræða starfsfólk Norðurljósa, fólk sem vinnur við innkaup á efni, þýðingar, fréttaflutning, auglýsingasölu, fólk sem vinnur við flesta þá þætti sem lúta að rekstri fjölmiðla hjá Norðurljósum. Með leyfi forseta:

,,Ágætu þingmenn. Eins og þið vitið var lagt fram á Alþingi í gær frumvarp sem skerðir tilvistarmöguleika frjálsra ljósvakamiðla. Í framhaldi af því langar mig að segja ykkur frá helstu persónulegum hugrenningum mínum þessa dagana.

Ég er fimmtugur. Hóf störf hjá Íslenska sjónvarpsfélaginu síðla árs árið 1989. Síðan varð það að Íslenska útvarpsfélaginu og þá að Norðurljósum. Áður hafði ég unnið hjá Sambandinu frá 1976. Þar áður hafði ég aðeins unnið sumarstörf og störf til skemmri tíma á meðan ég var að finna mína hillu í lífinu. Það væri því synd að segja annað en að ég hafi verið húsbóndahollur í gegnum tíðina en ókosturinn við þetta er náttúrlega sá að reynslan á atvinnumarkaði var heldur fábrotin.`` --- Síðan rekur maðurinn að honum hafi fundist hann detta í þann lukkupott að fá starf hjá einum miðla Norðurljósa. Því spyr hann:

[12:00]

,,Hvernig getur einn maður haft þau áhrif að heilu lagabálkarnir fara í gegnum Alþingi landsins, aðeins ef hann beitir sér fyrir þeim? Hvernig stendur á því að einn maður má samkvæmt honum sjálfum ráða heilu Alþingi en annar maður má ekki eiga ráðandi hlut í fjölmiðlum? Hvernig stendur á því að sumir samflokksmenn hans sem eru andvígir frumvarpinu segja ekki neitt? Hvernig stendur á því að samflokksmenn mannsins á þingi viðurkenna í einkasamtölum að þeir séu algjörlega ósammála frumvarpinu, en að þeir missi vinnuna (þingmennskuna) ef þeir makki ekki rétt? Skyldi ráðherrann hafa aðra sýn á málið ef Ólafur Ragnar Grímsson hefði aldrei verið kosinn forseti? Hvernig á ég að fara að því að kljúfa afborganir af skuldbindingum mínum ef ég missi vinnuna í kjölfar þess að lögin nái fram að ganga á Alþingi?

Þessum skrifum er ekki ætlað að kryfja stöðu fjölmiðla á landinu,`` segir bréfritari, ,,enda eru mér fróðari menn um þau mál hæfari til þess. Ég er bara að hugsa um mig sjálfan, fjölskyldu mína og afkomu okkar.``

Síðan kemur fróðleg setning, virðulegi forseti, og kannski dapurleg í ljósi stöðunnar og þess meiri hluta sem fer núna með ofbeldi á Alþingi:

,,Við höfum alltaf kosið Sjálfstæðisflokkinn í gegnum þykkt og þunnt. En nú er okkur ljóst að við verðum að fara að leita okkur að öðrum vettvangi fyrir atkvæðin okkar. Því miður þá eyddum við þeim á þann flokk síðast. Ég vildi að ég hefði vitað þá það sem ég veit í dag. Í dag sé ég mjög eftir þeim atkvæðum. Flokkurinn kom illa út úr þeim kosningum, tapaði reyndar, og svo virðist sem nú sé verið að hefna sín á þeim miðlum sem reyndu að vera með gagnrýna umfjöllun um þjóðmálin þá. Ég bið ykkur öll,`` segir hann við þingheim ,,einlæglega að greiða þessu frumvarpi ekki atkvæði ykkar. Sum ykkar virðast hreinlega verða að gera það af því að ykkar eigin störf væru annars í hættu, en hafið það í huga að það vinna fleiri hjá Norðurljósum en þingmenn eru og fleiri mundu missa vinnuna hér en hjá ykkur. Fólk ætti erfiðara með að fá aðra vinnu en þau ykkar sem hugsanlega munduð missa vinnuna ef velvilji Ráðherrans hyrfi.`` --- Með stórum staf. --- ,,Hann ræður jú öllu.

Með vinsemd.`` Signaterað af bréfritara.

Þetta var eitt bréf af mörgum. Ég ætla að vitna hérna í fleiri, enda varpa þau ljósi á stöðuna. Þau varpa ljósi á þann þátt málsins sem lýtur að starfsfólki þessara miðla á þessum örsmáa fjölmiðlamarkaði sem er í okkar litla og ágæta landi. Fyrir aðeins örfáum mánuðum römbuðu frjálsu miðlarnir flestir, fyrir utan Morgunblaðið, bókstaflega á barmi gjaldþrots og fleiri hefðu nú trúað því að miðlar eins og Fréttablaðið og Stöð 2 hefðu einfaldlega farið í þrot ef ekki hefðu komið til nýir hluthafar. Ólíkt því sem mætti ráða af umræðunni af hálfu ráðamanna eru þeir reyndar nokkrir en ekki aðeins einn. Ætli fólkið sem vinnur á miðlunum hafi ekki hugsað þá og margir aðrir að sama væri nú hvaðan gott kæmi. Miðlarnir voru endurreistir, tilvera þeirra tryggð um sinn. Markmiðið var, virðulegi forseti, að koma þeim á markað eftir u.þ.b. ár og tryggja þannig dreifða eignaraðild að miðlunum. Fram hefur komið að stærsti hluthafinn í Norðurljósum, Baugur, æskir þess sérstaklega að koma fjölmiðlafyrirtækinu á markað og leysa til baka til sín hluta af þeim fjárfestingum sem fyrirtækið lagði inn í miðilinn í upphafi árs. Það er sjálfsagt mál og gerir frv. enn þá undarlegra í ljósi þeirra markmiða sem fyrirtækið hefur sett sér um rekstur á fyrirtækinu, þ.e. að koma því á markað og tryggja þannig dreifða eignaraðild. Það er ekki eins og Baugur ætli að eiga þetta fyrirtæki í meirihlutaeigu. Mikið gekk á þegar verið var að finna fleiri öfluga hluthafa og fjárfesta til að koma að fyrirtækinu. Eins og þekkt er kom Kári Stefánsson þar að og á, að mig minnir, 15% í Norðurljósum. Öllum þessum fjárfestum var að sjálfsögðu fagnað af þeim hundruðum sem hafa lifibrauð sitt og atvinnu af því að vinna hjá þessum miðlum og að sjálfsögðu af okkur sem unnum frelsi, lýðræði, mannréttindum og hvers konar frjálslyndi í heilbrigðu, lýðræðislegu, borgaralegu samfélagi þar sem grundvallarmannréttindin eru tryggð en þeim ekki kippt í burt að hluta og jafnvel verulegu leyti með einu sértæku lagafrumvarpi sem er stefnt gegn einum einstökum miðli.

Þetta var millikafli til að brjóta upp lesturinn á bréfunum. Ég valdi bréfin ekki af neinni sérstakri kostgæfni, frekar af handahófi, af því að öll þau bréf sem mér bárust frá starfsmönnum Norðurljósa verðskulda upplestur á hinu háa Alþingi. Þar tjáir fólkið sig hreint og umbúðalaust á mjög opinskáan hátt um hvernig það upplifir áhlaup stjórnvalda á fyrirtæki sitt, hvernig það upplifir það að stjórnvöld gerðu áhlaup að því að kippa fótunum undan fyrirtækinu sem fólkið vinnur hjá.

Næsta bréf, með leyfi forseta:

,,Ágæti þingmaður. Ég tilheyri þeirri undarlegu stétt fólks sem flestir vita að er til og kannast jafnvel við nokkur nöfn sem henni tilheyra, en enginn þekkir að öðru leyti. Ég er sem sagt sjónvarpsþýðandi. Flestir þýðendur eru sjálfstæðir verktakar og er ég í þeim hópi. Fram að þessu hafa stærstu verkkaupar mínir verið Íslenska útvarpsfélagið og Skífan, en frá þessum fyrirtækjum koma sirka 90% tekna minna.``

Þetta bréf, virðulegur forseti, les ég nákvæmlega upp til að varpa ljósi í 2. umr. um málið á það hve marga þetta snertir og þær fagstéttir sem vinna innan þeirrar greinar sem á að flokka undir menningu og miðlun. Að þeim er vegið með fyrirliggjandi frv.

En áfram með lesturinn, með leyfi forseta:

,,Af högum mínum er það að segja að ég hef í 20 ár verið með sykursýki og er því afar hentugt fyrir mig að geta hagað vinnutíma eftir eigin hentugleikum og því hvað heilsan leyfir mér hverju sinni.`` --- Svo kemur fram að manneskjan er að nálgast sextugt. --- ,,Þá kem ég að því sem hvílir hvað þyngst á mér þessa dagana. Eftir að hafa fylgst með umræðum um fjölmiðlafrumvarpið að undanförnu og ekki síst á Alþingi í gær byrjaði að myndast þessi líka bansetti hnútur í maganum á mér og það var ekki laust við að ég fyndi til ógleði. Mér sýnist nefnilega að frumvarp þetta sé flausturslega unnið og því fyrst og fremst beint að einu fyrirtæki og eigendum þess og brjóti þar að auki gegn stjórnarskránni en í henni er kveðið á um að eignarréttur sé friðhelgur nema almenningsþörf krefji. Ég hef enn ekki heyrt nein gild rök fyrir slíkri almenningsþörf. Þar af leiðandi get ég ekki séð nein rök fyrir því að knýja svo áhrifaríkt frumvarp í gegnum þingið á síðustu dögum þess.

Öll umræða er af hinu góða og vissulega má setja einhverjar reglur um eignarhald á fjölmiðlum en þær verður að ígrunda vandlega. Enn fremur blöskra mér ummæli ráðherra og ýmissa stjórnarþingmanna í garð fréttastofu Stöðvar 2 og ritstjórnar Fréttablaðsins og DV þar sem ráðist er að starfsheiðri fréttamanna og þeir vændir um að vera viljalaus verkfæri í höndum eigenda sinna. Ég vil því skora á þig, ágæti þingmaður, að greiða atkvæði gegn því frumvarpi. Þegar það verður að lögum verða þau lög vissulega barn síns tíma, þ.e. tíma geðþóttaákvarðana og einræðistilhneigingar ríkisstjórnar sem með rangindum kennir sig við lýðræði.``

Lýkur því bréfi og hlífi ég bréfritara við nafnbirtingu, enda hef ég ekki farið þess á leit að fá að birta nafn hennar og ætla að hlífa henni við mögulegum afleiðingum þess að koma hér fram undir nafni.

Í næsta bréfi kemur annar vinkill á málið, upplýsandi mjög. Manneskjan segir, með leyfi forseta:

,,Ég flutti til Íslands í byrjun september á síðasta ári eftir 16 ára búsetu á Spáni. Fljótlega eftir að ég kom til landsins hóf ég störf mín á Fréttablaðinu sem þá var til húsa á Suðurgötu 10 en hefur síðan flutt starfsemi sína í Fréttahúsið, Skaftahlíð 24. Þessi tími sem ég hef upplifað hjá fyrirtækinu hefur verið mjög gefandi og það hefur einnig verið spennandi verkefni að eiga þátt í uppbyggingu þessara fjölmiðla og sjá þá blómstra.

Í dag var ég á starfsmannafundi Norðurljósa þar sem ég fann hlýhug fólksins til þessa fyrirtækis sem það starfar fyrir en jafnframt hræðsluna vegna þess óvissuástands sem nú ríkir. Eftir setu á þessum fundi get ég ekki orða bundist,`` segir bréfritari, og sendir því okkur þingmönnum þessar línur. ,,Stolt af mínu landi, af mínu víkingablóði, af sigri okkar á Bretum í þorskastríðinu, af nóbelsskáldinu okkar, af Snorra-Eddu, af lífsþrótti okkar og þrautseigju, í landi þar sem veðurguðirnir eru oft óvægir við okkur, var ég oft hneyksluð á stjórnmálamönnum Spánar sem létu frændur fá verktakasamning og réðu fjölskyldumeðlimi í hin ýmsu embætti. Oft átti ég samræður við spænska vini mína þar sem ég tjáði þeim að slíkt væri óhugsandi í því litla samfélagi sem Ísland er.``

Taktu eftir, virðulegi forseti, ,,óhugsandi í því litla samfélagi sem Ísland er,`` segir bréfritari.

,,Síðan þá hafa augu mín verið að opnast meira og meira fyrir þeirri hryggilegu staðreynd að margir (sem betur fer ekki allir) stjórnmálamenn þessa lands eru verri en þeir spænsku og það viðgengst sú spilling að láta almannafé borga persónulegar veislur, að 14 ára barn sé í sendinefnd landsins í utanlandsferð, að forsætisráðherra lofar skattalækkunum upp á tugi milljarða en svíkur það og ætlar sér frekar að tryggja sjálfum sér margmilljónaeftirlaun þegar fólkið í landinu býr allt við verri kjör og heilbrigðiskerfið er ekki lengur verndari okkar, heldur óvinur. Þegar lífskjör almennings bötnuðu aðeins með tilkomu Bónusverslana sem stuðluðu að aukinni samkeppni og lækkun vöruverðs, þá var þessum sömu aðilum meinað að reka fjölmiðlafyrirtæki vegna þess að dagblöð í eigu þeirra fjalla ekki nægilega þóknanlega um Forsætisráðherrann,`` er skrifað hér með stórum staf. ,,Vegna þess að hann er óvinveittur okkur ætlar þessi sami forsætisráðherra að setja lög sem hafa áhrif á 700 fjölskyldur í landinu. Lögin taka með beinum og hreinum hætti til 700 fjölskyldna í landinu.`` --- Eins og hér segir í bréfinu: ,,... a.m.k. 2.400 manns sjá vegið að lífsafkomu sinni, allt vegna þess að stjórnvöld geta ekki tekið gagnrýni og vilja hafa það fyrirkomulag sem tíðkast í ráðstjórnarríkjum, að leyfa bara rekstur á fjölmiðlum sem þeim eru hliðhollir. Svo eru þessi stjórnvöld það barnaleg að þau halda að þessi gagnrýni og umfjöllun á þá sé ekki vegna þess að aðgerðir þeirra séu gagnrýnilegar, heldur vegna persónulegrar óvildar eigenda blaðanna á þeim sjálfum. Allur sá fjöldi blaðamanna sem starfa á þessum tveim blöðum er ásakaður af stjórnvöldum um að vinna gegn sinni eigin sannfæringu sem er að skrifa fréttir og segja satt og rétt frá.

Ég skora því á alla þingmenn þessa lands að láta ekki geðþóttaákvörðun eins manns hafa áhrif á lýðræði þessa lands, það lýðræði sem tók okkur margar aldir að öðlast og þroska. Einnig skora ég á þetta sama fólk að stofna ekki lífsafkomu 2.400 manns í hættu, en það er tæpt prósent af öllum landsmönnum, en við erum líka,`` eins og segir hér í bréfinu, ,,þegnar þessa lands. Ég skora því á alla þingmenn að samþykkja ekki þetta frumvarp.``

Þetta er magnaður lestur, virðulegi forseti. Til að ramma málið inn og bakka aðeins, þingheimi til upplýsingar og vegna samhengis ræðunnar, ætla ég aftur að vitna í annan kafla bókarinnar Frelsið, eftir John Stuart Mill, algjört grundvallarrit í allri uppbyggingu samfélags, lýðræðis, lýðréttinda, jafnréttis og manneskjulegs samfélags. Ég minni líka á það að John Stuart Mill var mikill frumkvöðull í allri baráttu fyrir réttindum kvenna og jafnréttindum kynjanna. Hann skrifaði fræga bók og frábært rit sem hét Kúgun kvenna. Hún verðskuldar oft tilvitnanir á hinu háa Alþingi þegar við ræðum jafnréttismálin.

Ég ætla aftur að vitna í þennan kafla í Frelsinu og minni enn á að hann var skrifaður fyrir 145 árum. Fyrir 145 árum skrifaði heimspekingurinn John Stuart Mill þessa bók, Frelsið, úti í Bretlandi og fjallaði um hvernig frelsinu væri best fyrir komið og það tryggt. Bókin er stórmerkilegt rit og væri eiginlega þeirrar messu virði að hún yrði öll lesin við þessa umræðu um aðförina að frelsinu sem felst í því frv. sem við erum að ræða hér. Ég held að sú lesning væri stjórnarmeirihlutanum ákaflega holl, og prýðilegt að Frelsið eftir John Stuart Mill væri að finna í þingtíðindunum.

Hefst þá lesturinn úr völdum kafla. Í upphafi annars kafla sem ber yfirheitið Um hugsunarfrelsi og málfrelsi segir John Stuart Mill fyrir 145 árum --- ég bendi aftur á það eins og ég gat um í upphafi máls míns að Mill talar þarna í þátíð. Hann segir, með leyfi forseta:

,,Sú tíð er nú vonandi liðin, er verja þurfti prentfrelsið með ráðum og dáð sem eina helztu tryggingu gegn spilltri og ofríkisfullri landstjórn. Nú verður að ætla, að óþarft sé að ráðast með rökum gegn þingi eða stjórn, sem á aðra hagsmuni í húfi en þegnarnir, skipar þeim fyrir um skoðanir og ákveður, hvaða kenningar og rökræður þeir megi heyra.``

Það er akkúrat það sem hér um ræðir, virðulegi forseti. Áfram, með leyfi forseta:

,,Að auki hafa fyrri höfundar rætt þessa hlið málsins svo oft og með svo ágætum árangri, að ástæðulaust er að fjölyrða um hana á þessum stað,`` segir John Stuart Mill fyrir 145 árum. Það er ástæðulaust að hans mati þá fyrir tveimur heimsstyrjöldum og einni og hálfri öld síðan að ræða sérstaklega um mikilvægi prentfrelsis og málfrelsis og hve sjálfsögð lýðréttindi, mannréttindi þetta eru.

Það er magnað að lesa þetta rit í samhengi við upplifun Íslendinga, venjulegra Íslendinga sem starfa hjá hinum ýmsu fyrirtækjum og sérstaklega því fólki sem starfar við fjölmiðlun í landinu þar sem oft er erfitt um störf og fólk nánast lifir við það frá degi til dags að búa við óöryggi um afkomu sína og störf. Fyrir utan Ríkisútvarpið og Morgunblaðið hafa miðlarnir staðið á brauðfótum, alveg frá upphafi, alveg frá tímum flokksblaðanna, alveg frá því að tími þeirra leið undir lok og tími hinna frjálsu dagblaða hóf göngu sína. Nýjasta dæmið var þegar Dagblaðið var kæft í ofstækisfullri hægri pólitík þannig að lestur þess hrundi. Það var leitun að þeim sjálfstæðismanni sem bæði tímdi að kaupa blaðið og nennti að eyða tíma sínum í að lesa það ofstæki sem kom fram í ritstjórnarskrifunum. Blaðið sagði oft ágætar fréttir en þegar kom að pólitísku leiðinni var það alveg með ólíkindum. Svo var því bjargað og gefið nýtt líf, blásið í það lífi af nýjum eigendum sem eru m.a. Baugur. Er það svo dæmalaust skammaryrði í íslenskri samfélagsumræðu að það er eiginlega alveg með ólíkindum.

Sé ég að undrunarsvipur kemur á hv. þm. Einar Má Sigurðarson sem er að búa sig undir að taka þátt í þessari umræðu hér á eftir. Mun ég lána honum að hans ósk þessa bók. Hann mun lesa hérna annan kafla úr henni en ég las áðan.

Aftur að starfsmönnum Norðurljósa og þeim tilfinningum sem hrærast í brjóstum þeirra þegar þeir sjá stjórnvöld, hæstv. forsrh., koma æðandi á fyrirtæki sitt eins og óðan mann með sértækt frv. þeirrar einu gerðar að sprengja upp fyrirtækið, leggja það í rúst, koma því úr rekstri, hafa af þessu fólki vinnuna, allt af því að hann hefur, að sögn, óbeit á eigendum fyrirtækisins.

Áfram sleppi ég nöfnum bréfritara og segir hér, með leyfi forseta:

[12:15]

,,Ég starfa sem tæknimaður hjá Íslenska útvarpsfélaginu. Þetta bréfkorn er það fyrsta sem ég rita til nokkurs kjörins fulltrúa á Alþingi Íslendinga. Þessi nýlega ritþörf kemur ekki til af góðu þar sem mér hreinlega ofbýður standardinn á þeirri umræðu sem nú er í gangi um svokallað fjölmiðlafrumvarp og vinnulag það sem haft var við undirbúning þess. Þá þingmenn sem eru tilbúnir til þess að leggja nafn sitt og æru við það vinnulag að hunsa þá aðila sem starfa á fjölmiðli á Íslandi í dag, samanber viðbrögð stéttarfélaga og stjórna miðla við undirbúning að svo stóru máli sem um ræðir, setur verulega niður.

Er kjörnum fulltrúum á Alþingi Íslendinga,`` spyr bréfritari, með leyfi forseta ,,sæmandi að væna alla starfandi blaðamenn miðla Norðurljósa um óheiðarleika og eins það að starfa sem viljalaus verkfæri núverandi eigenda Norðurljósa? Alvarlegar fullyrðingar sem dæma sig þó best sjálfar.

Vilt þú, kæri þingmaður, að innihald og efni fjölmiðla á Íslandi sé ritskoðað?``

Ég get svarað fyrir mig hérna í miðjum lestri að eins og hjá öðrum hv. þm. stjórnarandstöðunnar er svarið nei við því. Þess vegna stöndum við nú þann frelsisvörð um mannréttindi á Íslandi sem við gerum þessi dægrin gegn þeirri aðför að stjórnarskránni sem hér er um að tefla.

Áfram, með leyfi forseta:

,,Fram hefur komið í máli einstakra þingmanna og eins formanns fjölmiðlanefndarinnar að umfjöllun miðla Norðurljósa um þetta mál hafi styrkt þá í þeirri trú að lagasetningar sé þörf. Þetta eru varasöm rök fyrir lagasetningu. Til að undirstrika hve þetta frumvarp virðist lítt grundað, sé því ætlað að auka á fjölbreytileika fjölmiðlaflórunnar og styrkja lýðræðislega umræðu í landinu, þá er það lagt til að markaðsráðandi aðilar í annarri atvinnugrein geti ekki átt hlut í útvarpsstöðinni Sýn eða unglingastöðinni Popp tíví, en þeir mega eiga DV.

Þær fullyrðingar sem fram hafa komið í umræðunni undanfarna daga um að eignarhald fjölmiðla Norðurljósa setji hömlur á að andstæðar skoðanir fái að koma fram í fréttamiðlum Norðurljósa eru dæmalausar og krefjast ábendinga frá þeim sem svo haga máli sínu. Sé ástæðan sú ein fyrir mismunandi reglum um eignarhald á prent- og ljósvakamiðla að tíðnibönd þau sem ljósvaki notar séu takmörkuð auðlind þá skal bent á að ekki hefur enn komið til þess, mér vitanlega, að lögaðila með útvarpsleyfi hafi verið neitað um tíðnileyfi, hvorki til sjónvarps- né útvarpssendinga.

Kæri þingmaður. Vinsamlega kynntu þér þetta stóra mál frá eins mörgum hliðum og þér er unnt að komast yfir og taktu afstöðu út frá þinni eigin sannfæringu. Þannig og aðeins þannig er hægt að meta þig réttlátan út frá þínum gjörðum.`` Signaterað af bréfritara.

Það er að mörgu leyti átakanlegt að fá svona lesningu beint í æð, bréf sem fólkið skrifar í því uppnámi og jafnvel þeirri hræðslu sem það finnur til, þeim ótta sem það finnur til um lífsafkomu sína. Allir þekkja þá tilhugsun, a.m.k. flestir, hvernig er að standa frammi fyrir því að vita ekki hvað morgundagurinn ber í skauti sér hvað varðar lífsafkomu og það að brauðfæða fjölskyldurnar.

Því hlýtur það að vekja undrun að við tilurð og tilbúning þessa lagafrumvarps forsrh. skuli ekki sérstaklega hafa verið gætt að því að afkoma starfsmanna væri tryggð í gegnum starfsmannafélög þeirra, Blaðamannafélagið, Félag fréttamanna og önnur starfsmanna- og fagfélög sem þau heyra undir, VR o.s.frv. Enda höfum við heyrt hvernig hluti af verkalýðshreyfingunni hefur brugðist við, Alþýðusambandið, BSRB, Rafiðnaðarsambandið. Allir þessir aðilar hafa farið hamförum gegn frv. svo og þeir aðilar vinnumarkaðarins, ef svo má að orði komast, sem hafa komið að málinu líka, eins og Verslunarráðið, Samtök atvinnulífsins og fleiri.

Allir fordæma frv., dæma það ónýtt, út í hafsauga og kallað eftir því að menn dragi það einfaldlega til baka og fari að ráði frænda okkar Norðmanna sem hafa varið fjórum eða fjórum og hálfu ári í að endurskoða fjölmiðlalögin sín. Þar voru sett lög á fjölmiðla sem mundu þó hér uppi á hinu undarlega Íslandi þykja gríðarlega frjálslynd lög í ljósi þess frv. sem liggur fyrir Alþingi. Ég efast um að nokkur mundi taka eftir slíkri lagasetningu eftir þá orrahríð sem hefur geisað í sölum Alþingis og úti á götum Íslands og meðal borgaranna eftir að lýðnum varð ljóst að þetta frv. væri ekki bara hótun eða hótfyndni, heldur rammasta alvara.

Það er alveg með ólíkindum, virðulegi forseti, í hvaða stöðu við erum og ágætt að hafa það í huga meðan við hlýðum á raddir þeirra sem vinna á miðlunum. Ég hef ákveðið að verja meginmáli mínu í þessari ræðu í það að miðla sjónarmiðum og röddum fólksins sem vinnur á miðlunum. Það var, eins og ég sagði áðan, átakanlegt að lesa sig í gegnum þá tugi tölvupósta sem okkur bárust frá starfsmönnum fyrirtækja Norðurljósa og að setja sig með þeim hætti inn í það hugarástand sem skapast á þessum fjölmiðlum þegar fólkið finnur vegið að afkomu sinni, og nánast án nokkurrar umræðu. Fjögur ár í Noregi, 14 dagar á Íslandi. Það er hryggilegt að þurfa að standa hér þann frelsisvörð sem við stjórnarandstöðuþingmenn stöndum þessi dægrin eftir tilkomu þessa máls.

Að sjálfsögðu á að ræða stöðu fjölmiðla, að sjálfsögðu á að ræða og endurskoða rammann utan um fjölmiðla hvenær sem er, alltaf, síbreytilega og í ljósi aðstæðna og breytinga á markaði hvers konar. En að keyra málið fram með því offorsi sem hér er gert heyrir til algjörra undantekninga. Er fátítt í veröld víðri að svo sé staðið að lagasetningu.

Að næsta bréfi. Þar skrifar maður sem vinnur að fréttamiðlun nokkurs konar á einum af miðlum Norðurljósa. Með leyfi forseta:

,,Kæri þingmaður. Ég er enn ekki búin/n að heyra rökin fyrir því að það verði að afgreiða þetta frv. á þessu þingi frekar en á haustþingi. Það er einlæg ósk mín að þið endurskoðið þetta frumvarp í núverandi mynd og leyfið fleiri aðilum að koma með ábendingar að vinnslu þess fyrir haustþing.

Fyrir mér liggur það eins kristaltært og það gerist að engum, já engum, er gert gagn með því að flýta frumvarpinu í gegn með svo miklum asa eins og stefnir hér í. Ég hef starfað í útvarpi frá því á menntaskólagöngu árið 1989 og hef notið þeirrar lukku að fá að alast upp með frjálsu útvarpsstöðvunum alveg frá því sex árum eftir að einokun RÚV á útvarpsmarkaðnum var afnumin. Á þessu tímabili hef ég lært meira en nokkur skólaganga kennir um fjölmiðla um hvernig útvarpsrekstur þrífst á þessu litla landi og því gremst mér að horfa upp á forsætisráðherra ana svo hratt áfram með þetta mikilvæga mál. Ekki ein einasta útvarpsstöð hefur lifað af án þess að þurfa að hætta rekstri einhvern tíma á líftíma sínum án samstarfs við annan miðil enda ekki um stóran markað að ræða. Á milljón manna markaði yrði það hugsanlega hægt en ekki á 290 þúsund manna markaði.

Ég bið ykkur alþingismenn vinsamlega að skoða alla möguleika sem í boði eru ásamt réttum fagaðilum og fresta því að afgreiða frumvarpið í svo miklum flýti. Ég er fullviss um að hægt er að lenda á sanngjarnri niðurstöðu sem verður ekki til þess að hundruð ef ekki þúsundir missi vinnuna að ástæðulausu. Með von um jákvæð viðbrögð við afgreiðslu frumvarpsins.``

Já, það er vonandi að vonin lifi í brjóstum þessa fólks þó að svo fari fram sem horfir að frv. verði böðlað í gegnum þingið á þeim ógnarhraða sem hér um ræðir. Þarf nú mikið samstillt átak stjórnarandstöðunnar allrar til að tryggja að málið fái a.m.k. grundvallarmálsmeðferð. Hef ég komið nokkrum sinnum að því í umræðunni síðasta sólarhringinn hér úr ræðustól Alþingis hvernig menntmn. þingsins var fótumtroðin og henni nánast gert ókleift að koma að málinu, máli sem heyrir fyrst og síðast undir menntmn. Henni var nánast haldið frá málinu þó að lítils háttar og hálfgerð spaugstofa væri sett á svið þar sem við fengum að þykjast vera að vinna að málinu og þykjast vera með lýðræðislega aðkomu að þessu mikilvæga máli. Það vekur manni þá spurn: Af hverju tilkynntu menn bara ekki einfaldlega hér að nefndin fengi ekkert að koma að málinu? Hún á að skila áliti einhvern tíma í dag inn í 2. umr. eða fyrir 3. umr. þegar málið er langt komið og búið að fara meginhring sinn í gegnum meðferð hv. Alþingis. Þetta er alveg með ólíkindum.

Þá er það síðasta bréfið sem ég valdi af handahófi úr því bréfasafni sem okkur þingmönnum barst frá starfsmönnum Norðurljósa. Vil ég nota tækifærið og þakka starfsmönnunum fyrir að hafa fyrir því að senda okkur þessi bréf og upplýsa okkur um það hvernig þeim er innan brjósts í þeirri aðför sem hér á sér stað að atvinnufrelsi í landinu og lífsafkomu þeirra. Hefst þá lesturinn, með leyfi forseta:

,,Háttvirti þingmaður. Gerir þú þér grein fyrir því að afdrif fjölda manna eru í þínum höndum? Ef þú greiðir atkvæði með fjölmiðlafrumvarpinu óbreyttu ertu ábyrgur fyrir því að fjöldi starfsmanna gæti misst lífsviðurværi sitt. Hvernig eiga foreldrar að útskýra fyrir börnum sínum atvinnumissinn sem getur haft afdrifaríkar afleiðingar á jafnt hjónaband sem og fjárhagslegt öryggi fjölskyldunnar? Atvinnuleysi er döpur staðreynd og er æ algengara að háskólamenntað fólk sé atvinnulaust til lengri tíma. Langar þig að bera ábyrgð á óhamingju fjölda kvenna, karla og barna? Metur þú tryggð þína við flokkinn og frama í stjórnmálum meira en velferð fólksins sem fól þér með fullu trausti að vernda land og þjóð?

Vilt þú ekki frekar láta minnast þín í sögunni sem þingmannsins sem hlustaði á almenning og bjargaði frjálsum fjölmiðlum frá glötun heldur en þess sem studdi forustu sína út í rauðan dauðann?`` --- (Gripið fram í: Hver skrifar svona ...?) Ég vil ekki upplýsa um nöfn en þessi kona býr í Hafnarfirði og vinnur hjá Norðurljósum. Ég bað ekki um leyfi bréfritara til að birta nöfn þeirra þó að þau hefðu sjálfsagt orðið við þeirri ósk minni. Mér gafst heldur ekki tími til þess enda valdi ég þessi bréf eiginlega eins og maður dregur miða úr hatti eða velur sér gíróseðilinn sem maður ætlar að borga þann mánuðinn. Maður dregur úr bunkanum af því að öll voru bréfin fín og jafngild (Gripið fram í.) og mun ég les fleiri upp hérna í seinni ræðu minni við 2. umr. í nótt eða á morgun eða hvenær sem það verður. (Gripið fram í: Hvað er langt ...?) Þingmenn allir eiga að hafa fengið bréfin þannig að ég hvet menn til að fletta upp í tölvupóstshólfinu sínu og lesa þessi bréf aftur. Það er, eins og ég sagði hér áðan, virðulegi forseti, mjög upplýsandi en um leið átakanleg lesning að lesa hugrenningar fólks sem upplifir það að stjórnvöld í frjálsu lýðræðisríki við upphaf nýrrar aldar geri áhlaup á atvinnufyrirtæki þess af því að stjórnarherrunum er í nöp við eigendur fyrirtækisins. Ég get eiginlega ekki ímyndað mér hvernig þessu fólki líður, virðulegi forseti.

[12:30]

Þess vegna óskuðum við, fulltrúar stjórnarandstöðunnar í menntmn., sérstaklega eftir því að fulltrúar þessa fólks, fulltrúar fagfélaganna, allra þeirra hópa sem hafa atvinnu sína á miðlunum kæmu á fund menntmn. og gerðu nefndinni grein fyrir viðhorfum sínum. Eins og ég sagði áðan lifa peningamennirnir áföllin af og þeirra bök bogna ekki svo glatt þó að einhverjir molar hrjóti af borðum þeirra. Það er fólkið sem vinnur hjá miðlunum, það eru þessir 700 starfsmenn, þessir 2.400 fjölskyldumeðlimir, sem eiga hlut að máli, sem skipta öllu máli við meðferð þessa máls. Það er alveg með ólíkindum hvernig hægt er að keyra jafnmikilsvert mál í gegnum þingið með það fyrir sjónum hvað þetta snertir ofboðslega marga Íslendinga auk þess að brjóta trúlega öll mannréttindaákvæði stjórnarskrárinnar fyrir utan það sem lýtur að trúfrelsinu.

Mundi nú einhvers staðar heyrast hljóð úr horni ef svo væri farið að ýmsum öðrum fyrirtækjum í öðrum atvinnugreinum Íslandsbyggðar allrar. Þarf oft minna til til að allt ætli af göflunum að ganga.

En áfram með bréfið úr Hafnarfirði, með leyfi forseta:

,,Skoðanakannanir sýna að 70% þjóðarinnar`` --- eitthvað hefur mælst held ég yfir 80% núna --- ,,eru á móti fjölmiðlafrumvarpinu óbreyttu. Er almenn undrun og hneykslan meðal almennings á vinnubrögðum ríkisstjórnarinnar. Hvernig stendur á því að frumvarpinu er þrýst í gegn á ljóshraða þegar fjöldi löglærðra manna hefur lýst því yfir að frumvarpið sé afturvirkt og brjóti í bága við stjórnarskrá? Ríkið getur verið að skapa sér skaðabótaskyldu sem getur numið milljörðum króna ef lögin fara í gegn. Er samfélagið aflögufært um slíka upphæð?`` spyr bréfritari.

,,Hvers vegna var skýrslan hrifsuð af fjölmiðlanefndinni áður en henni gafst færi á að kanna hvort tillögurnar í skýrslunni stæðust EES-samninginn? Hvað er það sem segir að markaðsráðandi fyrirtæki misnoti aðstöðu sína meira en fyrirtæki sem er ekki með markaðsráðandi stöðu? Er ekki meira í húfi fyrir fyrirtæki með litla markaðshlutdeild en fyrirtæki sem er búið að tryggja sér markaðsráðandi stöðu?

Andrúmsloftið var dauft en spennuþrungið á starfsmannafundi Norðurljósa í morgun,`` segir bréfritari. ,,Starfsfólk Norðurljósa er búið að ganga í gegnum miklar hremmingar um margra ára skeið. Loksins var farið að sjá til sólar. Starfsfólkið er með kvíðahnút í maganum og grátstafinn í kverkunum. Nú á að fórna starfsfólki Norðurljósa í baráttunni um völdin. Starfsfólk Norðurljósa er hið raunverulega fórnarlamb í deilu Davíðs Oddssonar og Jóns Ásgeirs. Því er það ljóst að eigendur Norðurljósa munu fá skaða sinn bættan á sama tíma og lífi starfsmanna er rústað.

Allir hér eru sammála um að það þarf lagasetningu um eignarhald á fjölmiðlum en þingheimur verður að gæta hagsmuna okkar, starfsmanna Norðurljósa. Við höfum minnst áhrif en mestu að tapa. Eina von starfsmanna er sú að þú, þingmaður góður, látir hjartað og vilja almennings ráða för og leggir til þær breytingar sem tryggja að hagsmunum okkar sé ekki fórnað á altari sérhagsmunanna.

Atkvæðisréttur á Alþingi Íslendinga felur í sér mikla ábyrgð. Nú er framtíð okkar í hendi þér. Ekki bregðast trausti okkar. Kapp er best með forsjá.`` Signaterað af þessari mjög svo pennafæru konu úr Hafnarfirði sem ég hvet hér mjög eindregið til áframhaldandi skrifta, enda er þetta prýðilegur texti og vel skrifaður.

Að svipuðu máli. Umsögn barst frá Blaðamannafélagi Íslands sem margir þessir starfsmenn sem ég er að vitna til eiga aðild að. Allshn. barst umsögn frá Blaðamannafélaginu og ætla ég að renna í gegnum hana. Hún er skorinorð og ber þess að sjálfsögðu merki að félaginu var ekki frekar en fagnefndum þingsins gefinn nokkur einasti tími til að vinna að einhverju faglegu og ítarlegu áliti. Félagið dregur hér samt saman ágætan texta þar sem fram koma viðhorf félagsmanna.

Með leyfi forseta:

,,Aðalfundur Blaðamannafélags Íslands, haldinn 26. apríl 2004, lýsir harðri andstöðu við frumvarp ríkisstjórnarinnar um eignarhald á fjölmiðlum, en verði það að lögum munu strangari reglur gilda um slíkt eignarhald hér á landi en í flestum viðmiðunarlöndum okkar.

Með frumvarpinu er starf hundruða manna sett í uppnám og lífsviðurværi þúsunda í óvissu. Blaðamannafélagið hvetur alþingismenn til að taka málið til ítarlegrar skoðunar, ábyrgð þeirra er mikil, enda getur frumvarpið ef það verður að lögum leitt til þess að fjöldi manna missi vinnu sína,`` segir hér í áliti Blaðamannafélagsins.

Áfram, með leyfi forseta:

,,Frumvarpið, eins og það liggur fyrir, er til þess fallið að draga úr mætti frjálsra fjölmiðla á Íslandi og skerða möguleika þeirra til framþróunar. Það veikir þessa fjölmiðla fjárhagslega, sem leiðir til þess að þeir verða vanmáttugri í gagnrýnni umfjöllun um málefni samfélagsins og síður líklegir til að veita valdhöfunum nauðsynlegt aðhald.``

Gæti nú verið, virðulegi forseti, að þarna hafi Blaðamannafélagið komist að kjarna málsins, að hið sértæka frv. sé sett fram til að kippa fótunum undan Norðurljósum? Hver veit nema það sé einmitt hugsunin á bak við það? Að veikja hina frjálsu fjölmiðla þannig að þeir verði, eins og hér segir, ,,vanmáttugri í gagnrýnni umfjöllun um málefni samfélagsins og síður líklegir til að veita valdhöfunum nauðsynlegt aðhald``? Skyldi þó aldrei vera, virðulegi forseti, að eitthvað slíkt byggi hér að baki. Við fáum það kannski upplýst síðar í umræðunni þegar þingmenn stjórnarflokkanna hefja upp raust sína nú í 2. umr. um málið. Lítið hefur spurst til þeirra frá því að formaður allshn., virðulegur mjög, mælti fyrir nál. fyrir bráðum sólarhring, held ég.

Áfram með umsögn Blaðamannafélagsins, með leyfi forseta:

,,Ótækt er að frumvarp, sem getur haft svo víðtæk áhrif á afkomu fjölda fólks og fyrirtækja, fái ekki vandaðri undirbúning en raun ber vitni og vandséð er hvernig slík vinnubrögð geti samrýmst lýðræðislegum háttum. Aðalfundurinn hvetur til málefnalegrar umræðu í samfélaginu um eignarhald á fjölmiðlum með mögulega lagasetningu í huga, en efnisatriði fyrirliggjandi frumvarps munu tæplega fá viðunandi umræðu á opinberum vettvangi eigi að samþykkja það sem lög fyrir þingfrestun í vor.

Aðalfundur Blaðamannafélags Íslands fordæmir jafnframt að félagið var sniðgengið við skipan nefndar, sem skilaði skýrslu um eignarhald á fjölmiðlum sem nú liggur til grundvallar frumvarpinu, og að þátttöku fulltrúa félagsins og stéttarinnar í starfi nefndarinnar var hafnað.

Fyrir hönd stjórnar BÍ, Hjálmar Jónsson framkvstj.``

Þetta var athyglisvert.

Í smástund ætla ég að beina máli mínu að öðru sem hefur litla athygli fengið við umræðu um frv. Frv. er borið fram af ungum og upplýstum mönnum sem einu sinni töldust til frjálslyndra hægri sinna en gera það ekki lengur. Engu að síður teljast þeir til upplýstra og fróðra manna og þess vegna er með ólíkindum hvernig frv. kemur nánast með engu móti að þeirri byltingu sem í vændum er hvað varðar stafrænt sjónvarp. Það er nánast hlægilegt að á þessum síðustu tímum hinnar miklu tækniþróunar þegar hver byltingin rekur aðra í miðlun hvers konar, rafrænni og annars konar, skuli menn setja hér lög á fjölmiðla sem lúta sérstaklega að því að splundra ljósvakamiðlum í gegnum veitt útvarpsleyfi. Þar með á að takmarka tjáningarfrelsi okkar Íslendinga í gegnum það og frv. tekur ekki mið af þeirri byltingu sem fram undan er á næstu árum. Ætla ég að koma aðeins að því af því að ég er hér með upplýsandi gögn um stafrænt sjónvarp, bæði úr umsögn Norðurljósa um frv. og eins almennar upplýsingar um stafrænt sjónvarp frá Póst- og fjarskiptastofnun. Það er nefnilega athyglisvert að rýna svolítið í það hvað framtíðin muni bera í skauti sér í miðlun hvers konar í gegnum nýjustu tækni og vísindi. Við horfum fram á svo gagngerar breytingar að eftir nokkur ár mun hin gamla tækni heyra sögunni til.

Ég ætla að renna yfir valda kafla sem eiga að skýra það vel fyrir þingheimi og þeim sem á umræðuna hlýða hvað framtíðin ber í skauti sér þegar kemur að stafrænu sjónvarpi. Ég ætla að víkja aðeins að öðrum efnisþætti sem lítið hefur komið við sögu í þessari umræðu, eðlilega enn þá, enda umræðan rétt að byrja og á vonandi eftir að standa hérna í margar vikur.

Með leyfi forseta:

,,Frumvarpið hefur sett í uppnám öll áform Norðurljósa um stafræna uppbyggingu sjónvarps og hljóðvarps. Stafrænar útsendingar átti að hefja á Faxaflóasvæðinu þann 9. október nk. á 18 ára afmæli Íslenska útvarpsfélagsins. Með stafrænni tækni er hægt að nýta hverja rás til útsendinga á fjórum til átta dagskrám.``

Þetta eru nefnilega mjög merkilegar og upplýsandi upplýsingar. Þingheimur gæti viljað leggja þær á minnið. Áfram með lesturinn, virðulegi forseti, með þínu auðmjúka leyfi:

,,Væru allar 16 MMDS rásir Íslenska útvarpsfélagsins gerðar stafrænar samtímis þýddi það að íbúum frá Akranesi til Grindavíkur og jafnvel á stærstum hluta Suðurlands gæfist kostur á að velja á milli allt að 130 dagskrárrása.`` --- Talandi um byltingu í miðlun og upplýsingaveitu.

En áfram, virðulegi forseti:

,,Að stórum hluta byggist stafrænt sjónvarp á endurvarpi erlendra sjónvarpsstöðva, sjónvarpsstöðva þar sem eignarhaldið er allt annað en í Norðurljósum, enda leyfa aðstæður hér á landi ekki íslenskum fjölmiðlafyrirtækjum að standa í mikilli innlendri dagskrárgerð. Endurvarp erlendra sjónvarpsstöðva hlýtur að tryggja fjölbreytni, enda bjóða Norðurljós þá upp á sjónvarpsefni fyrir allan almenning sem framleitt er af ólíkum aðilum í eigu fjölbreytts hóps fjölmiðla- og framleiðslufyrirtækja um víða veröld ...`` --- Virðulegi forseti, ekki hér uppi á okkar kalda klaka, Íslandi, heldur um víða veröld.

En áfram:

,,... sjónvarpsefni, sem þeir einir njóta nú sem hafa komið sér upp móttökubúnaði`` --- sem heyrir til forréttinda þeirra sem hafa töluverð fjárráð en aðrir geta ekki leyft sér þann munað --- ,,fyrir erlent gervihnattasjónvarp sem því miður felur oftar en ekki í sér margháttuð lögbrot af hálfu seljenda og notenda búnaðar og áskriftar að gervihnattastöðvum, einkum að því er varðar sölu á aðgengi að dagskrá Sky og annarra evrópskra greiðslusjónvarpsstöðva. Menntamálaráðherra, ráðherra útvarpsmála, hefur ekki látið skoða samkeppnisumhverfi íslenskra ljósvakamiðla.

Fjölmiðlaskýrslan fjallar ekkert um sjónvarpsstarfsemi Landssímans, Landsvirkjunar í gegnum fyrirtæki sín, Fjarska og Íslandsmiðil`` --- og kem ég þar að einmitt athyglisverðum punkti sem fékk allt of litla athygli í umræðu um skýrsluna títtnefndu. Þetta er eins og að fjalla um Íslendingasögurnar. Við erum ekki að fjalla um raunveruleikann, við erum ekki að fjalla um morgundaginn. Skýrslan og frv. fornaldarlega fjalla um gærdaginn. Við skiljum hér eftir þann hluta sem verður algjörlega yfirgnæfandi í allri ljósvakamiðlun eftir örfá ár. Því hef ég ákveðið að verja tíma mínum til að fjalla sérstaklega um þetta, enda nýr flötur á málinu og algjört grundvallaratriði í allri umræðu um lög um eignarhald á fjölmiðlum að taka inn í þá umræðu þá byltingu í stafrænu sjónvarpi sem það hefur í för með sér og þá gjörbreytingu á öllu eignarhaldi á þeim miðlum og framleiðslufyrirtækjum á fjölmiðlaefni sem íslenskir neytendur hafa aðgang að. Við erum að tala um, eins og hér segir, með þessum breytingum 130 sjónvarpsrásir, langflestar útlendar. Hver er þá tilgangur með því að setja lög á eignarhald á ljósvakamiðlum Íslands, bara til að kippa fótunum undan einu veikburða fjölmiðlafyrirtæki sem er fjarri því að vera búið að ná landi eins og komið hefur fram í umræðunni, skuldar enn þá 5,7 milljarða kr.?

[12:45]

Mér finnst hlægilegt, herra forseti, að ræða um frv. og láta eins og ekki sé enn þá búið að finna upp tölvuna, að stafræn miðlun sé ekki til. Við erum að ræða um fjölmiðlaumhverfi sem var með svipuðum hætti og árið 1966 þegar Ríkisútvarpið hóf göngu sína sem sjónvarp, þegar Ríkisútvarpið hóf að sjónvarpa. (Gripið fram í: Hvað með netið?) Já, og svo kemur að netinu, ég kem síðar að því. Við erum að ræða um fjarskiptamál og miðlun útvarps- og sjónvarpsefnis án þess að taka inn í myndina hina stafrænu fjarskiptabyltingu. Þess vegna vek ég máls á þessum upplýsingum og þess vegna er ég að fræða þingheim um þessi mál. En áfram, með leyfi forseta:

,,Landssíminn dreifir nú þegar dagskrám um 40 erlendra sjónvarpsstöðva um ljósleiðarakerfið í Reykjavík, Hafnarfirði, Kópavogi og Húsavík undir heitinu breiðvarp. Landssíminn þarf ekki útvarpsleyfi til þessarar starfsemi og honum eru engar takmarkanir settar um fjölgun rása eða dagskráa sem í boði geta verið nema þá fjárhagslega. Þær geta þess vegna verið um 3.000 sem er sá fjöldi sjónvarpsdagskráa sem má ná frá gervihnattastöðvum með tilheyrandi búnaði hér á landi. Starfsemi Landssímans á öðru sviði hefur hins vegar leitt til árekstra við sjónvarpsstarfsemi ÍÚ, t.d. í Hafnarfirði þar sem Landssíminn neitar að flytja fjölvarp Íslenska útvarpsfélagsins á breiðbandi sínu í Hafnarfirði og útilokar þar með alla samkeppni.

Landssíminn hyggst á næstu árum nýta sér ADSL-tækni til að dreifa sjónvarpi um koparlagnir sínar sem ná til 99,9% heimila`` --- taktu eftir því, virðulegi forseti, 99,9% íslenskra heimila, hvorki meira né minna, ,,og Landssímanum er jafnframt gert skylt að veita öðrum aðgang að þessu kerfi til fjarskipta. Til flutnings gagna sem flytja hljóð og mynd þarf ekki útvarpsleyfi því ekki er verið að dreifa útvarpi, hljóðvarpi eða sjónvarpi með rafsegulöldum.`` --- Sem sagt, í gegnum þá tækni gærdagsins sem frv. hæstv. forsrh. lýtur eingöngu að. En áfram, með leyfi forseta:

,,Hér er og verður á ferðinni gagnaflutningur í skilningi fjarskiptalaga. Sams konar starfsemi getur hitt fjarskiptafyrirtækið Og Vodafone tekið upp. Í reynd er það svo að þessi tvö fjarskiptafyrirtæki hafa í framtíðinni miklu meira um það að segja að þjóðin hafi aðgang að upplýsingum, sé upplýst, en hefðbundin útvarpsfyrirtæki.`` --- Þetta er lykilsetningin og ég ætla að lesa hana aftur, með leyfi forseta: ,,Í reynd er það svo að þessi tvö fjarskiptafyrirtæki hafa í framtíðinni miklu meira um það að segja að þjóðin hafi aðgang að upplýsingum, sé upplýst, en hefðbundin útvarpsfyrirtæki.`` --- Þetta er kjarni málsins, virðulegi forseti. Landssíminn og Og Vodafone hafa nefnilega miklu meira um það að segja í kjölfar hinnar stafrænu byltingar hvaða miðlum landsmenn hafa aðgang að heldur en þau fyrirtæki sem eru núna að útvarpa og sjónvarpa á rafsegulöldum ljósvakans í gegnum hin hefðbundnu útvarpsfyrirtæki og handhafar hinna hefðbundnu útvarpsleiða. Það er alveg með ólíkindum að sú umræða sem nú geisar um fjölmiðla, stöðuna á fjölmiðlamarkaði og öll þau mál skuli fara fram án þess að hæstv. forsrh. skuli með áhlaupi sínu á fyrirtæki Norðurljósa og þeirri ógnun á lífsafkomu 2.400 Íslendinga taka það inn í mynd sína að hér er vofandi yfir okkur fjarskiptabylting í gegnum stafræna miðlun, stafrænt sjónvarp. Hann er að setja lög á útvarpsmiðlun gærdagsins til þess eins að koma höggi á íslenska viðskiptamenn sem hann, að sögn, hefur óbeit á. Ég hef spurt fullt af fólki að því sem maður gæti talið að þekkti til af hverju hann hefur þessa óbeit á eigendum Baugs en enginn hefur getað sagt mér það. Það man enginn en það verður kannski upplýst seinna við umræðuna af hverju óbeitin stafi og af hverju sú óbeit mun nú jafnvel kosta hundruð ef ekki þúsundir Íslendinga atvinnu sína með þeim hörmulegum afleiðingum að vegið er að mannréttindaákvæðum stjórnarskrárinnar.

Íslenskur fjölmiðlamarkaður, og ég segi íslenskur af því að margar þessara rása sem við eigum í vændum eru erlendar, verður miklu fátæklegri á eftir. Lýðræðisleg umræða verður miklu minni ef áhlaupið tekst og fótunum verður kippt undan einhverjum af miðlum Norðurljósa þannig að þeir verði ekki lengur í rekstri og geta ekki lengur miðlað okkur fréttum og upplýsingum sem af einhverjum ástæðum eru ráðamönnum alls ekki þóknanlegar.

Minni ég aftur á lestur minn úr John Stuart Mill og kannski er tilvalið að hafa þá setningu aftur yfir af því að við erum aftur komin að þeim þætti málsins, þeim grundvallarþætti málsins sem ég var að varpa ljósi á hve fáránlegur væri með því að upplýsa þingheim og almenning um þá stafrænu miðlunarbyltingu sem er í vændum. Ég ætla í þriðja sinn að lesa þessa völdu málsgrein í þessari frábæru bók, Frelsinu eftir John Stuart Mill, einu af grundvallarritum okkar lýðræðislega fjölmenningarsamfélags sem grundvallast að sjálfsögðu á hugsjóninni um frelsi einstaklingsins til orðs, æðis og athafna, eða gerði það fram að þessu, þangað til Sjálfstfl. ákvað að vega svolítið hressilega að mannréttindaákvæðum stjórnarskrárinnar í skjóli Framsfl., svo ótrúlegt sem það má nú hljóma í eyrum gamals félagshyggjufólks víða um land sem jafnvel fram á þennan dag trúði því að félagsleg taug væri eftir í skrokki Framsfl. En með leyfi forseta ætla ég að lesa aftur þessa einstöku málsgrein sem John Stuart Mill skrifaði fyrir 145 árum. Hann skrifaði þetta til að varpa ljósi á það að á þeim tíma vorum við komin það langt í þróun mannréttinda og lýðræðissamfélagsins að við þurftum ekki að ræða það í Frelsinu hvernig vernda eigi prentfrelsið, með leyfi forseta:

,,Annar kafli. Um hugsunarfrelsi og málfrelsi. Sú tíð er nú vonandi liðin, er verja þurfti prentfrelsið með ráðum og dáð sem eina helztu tryggingu gegn spilltri og ofríkisfullri landstjórn. Nú verður að ætla, að óþarft sé að ráðast með rökum gegn þingi eða stjórn, sem á aðra hagsmuni í húfi en þegnarnir, skipar þeim fyrir um skoðanir og ákveður, hvaða kenningar og rökræður þeir megi heyra. Að auki hafa fyrri höfundar rætt þessa hlið málsins svo oft og með svo ágætum árangri, að ástæðulaust er að fjölyrða um hana á þessum stað.`` --- Hann telur sem sagt að prentfrelsið fyrir 145 árum síðan á Bretlandseyjum og í Evrópu sé útrætt mál, prentfrelsið, málfrelsið, lýðfrelsið sé tryggt með svo vönduðum og ítarlegum hætti að það þarfnist ekki frekari uppáskrifta í bókinni um frelsið. Það er alveg með ólíkindum að lesa þetta núna öllum þessum árum seinna þegar við stöndum í þeim hryggilegu sporum, þingmenn stjórnarandstöðunnar, að standa vörð um mannréttindi í landinu vegna þess dæmalausa frv. sem hér liggur fyrir þinginu.

Ég hef rætt um stafrænu byltinguna. Ég hef farið yfir nokkuð mörg bréf sem mér og öðrum þingmönnum bárust frá hinum ýmsu starfsmönnum Norðurljósa. Það var eina leið mín til að koma sjónarmiðum starfsmanna Norðurljósa að í umræðum í þinginu af því að á fundi menntmn. gerðum við fulltrúar stjórnarandstöðunnar skýlausa kröfu um það að fulltrúar starfsmanna kæmu á fund nefndarinnar og greindu frá viðhorfum sínum en því var hafnað, eins og svo mörgu öðru í þeirri sýndarmennsku og þeim skrípaleik sem málsmeðferðin er hérna í þinginu og í nefndum þingsins. Þess vegna kaus ég að fara þá leið, án þess að geta nafna bréfritara, að lesa upp örfá þessara bréfa, þá átakanlegu og mögnuðu lesningu sem fólkið ritar þegar það upplifir og sér áhlaupið, áhlaup ráðamanna, Framsóknar og Sjálfstfl., koma æðandi gegn sér með þeim afleiðingum að lífsafkomu þeirra er verulega ógnað. Maður á varla orð þegar maður hefur rennt í gegnum þessi bréf frá starfsfólkinu og hvaða tilgang það upplifir hjá stjórnvöldum með því að setja þessi lög, þann einan að stjórnvöld nái fram hefndum gegn ákveðnum aðilum í íslensku viðskiptalífi og noti þá ósvífnustu aðferð, held ég að megi segja, í nokkru vestrænu lýðræðisríki enda eru þessi lög algjörlega einstök sinnar tegundar ef þau ná fram að ganga.

Það var eitt sem ég vildi líka koma að í umræðunni. Ég las mér til gagns og skemmtunar lítinn ritling á dögunum sem heitir Sjálfstæðisstefnan og er að finna á vefslóðinni www.xd.is. Í lok ritlingsins stendur: ,,Stærstur hluti ritlings eftir Davíð Oddsson; útgefinn í Reykjavík 1981 auk viðbóta, t.d. úr öðru útgefnu efni um stefnu Sjálfstæðisflokksins.`` --- Að meginhluta er þessi ágæti bæklingur eftir Davíð Oddsson. Kemur hérna einn kostulegur kafli sem heitir Frjáls einstaklingur -- frjálst atvinnulíf, með leyfi forseta, þar sem höfundur ritlingsins er að skilgreina Sjálfstfl. sem stjórnmálaafl og skilgreina hlutverk hans í stjórnmálaflórunni. Þetta þykir svo merkilegt og lífseigt rit að því er haldið frammi á heimasíðu Sjálfstfl. 23 árum eftir að það var ritað. Þetta er sem sagt grundvallarrit, að maður skyldi ætla, í stefnu Sjálfstfl. þó að við mörg höfum aldrei lagt mikinn trúnað á faguryrðin sem þaðan streyma á köflum því að verkin sýna merkin. (Gripið fram í.) Er óbeit okkar margra jafnaðarmanna á flokknum á þeim byggð frekar en faguryrðum úr stefnuskrá. En svo segir hér, með leyfi forseta:

,,Staða og hlutverk Sjálfstæðisflokksins í þessum átökum hafa verið ljós. Hans var að standa vörð um rétt einstaklinganna og berjast fyrir auknu sjálfræði þeirra og efldum áhrifum í atvinnulífinu. [...] Talsmenn flokksins hafa haldið því fram, að sá vinningur, sem athafnasamur einstaklingur geti haft af útsjónarsemi, atorku og framtaki, sé óviðjafnanlegur hvati fyrir allt atvinnulífið. Þessi orka sé óþrjótandi.``

Síðan kemur heilmikill kafli um ómöguleika ríkisrekstrar og ríkisafskipta og svo klykkir höfundur út undir millifyrirsögninni Hlutverk ríkisins: ,,Ríkisafskiptaflokkar og ríkisforsjármenn gleyma einatt þeim sannindum, að ríkið lifir ekki sjálfstæðu lífi.``

Fleiri kostulega passusa er að finna í þessu öndvegisriti Sjálfstfl., Sjálfstæðisstefnunni þar sem hæstv. núverandi forsrh. og fleiri fara á hreinum kostum í ljósi þeirrar stöðu sem upp er komin og hve illa Sjálfstfl. hefur farið með vald sitt á undanförnum árum og missirum.

Margt annað hefur borið að þinginu á síðustu dögum sem vert er að ræða og skoða sérstaklega á hinu háa Alþingi, ekki síst ágætt álit eftir Þorbjörn Broddason, umsögn um frv. til laga sem hann ritar 7. maí 2004 þar sem hann fer vel og vandlega yfir ýmsa þætti málsins. Þar kemst hann svo að þeirri niðurstöðu að þetta frv. eigi alls ekki rétt á sér og segir í lokin hvað beri að gera, telur upp í stikkorðum, með leyfi forseta:

[13:00]

,,Flýtum okkur hægt.

Göngum úr skugga um að leiðirnar séu í samræmi við markmiðin.

Víkkum sjónarhornið; lítum á stöðu blaðanna, Ríkisútvarpsins og nýrra miðla.

Tryggjum með löggjöf algert gegnsæi eignarhalds á öllum fjölmiðlum.

Tryggjum með löggjöf að útvarpsleyfi falli sjálfkrafa niður við eigendaskipti, hvað sem öðru líður.

Eflum þekkingu á fjölmiðlum.``

Svo segir Þorbjörn, með leyfi forseta:

,,Vaxandi atvinnuleysi í starfsgreininni spillir starfsanda og skapar óvissu, einnig meðal þeirra sem enn halda vinnu sinni. Vissulega getur þessi svartsýni mín orðið sér til skammar, en ég hef ekki síst í huga að nú lifa 15 einkareknar hljóðvarpsstöðvar af 41 sem stofnuð hefur verið frá árinu 1986; ekki færri en fjögur dagblöð hafa kvatt okkur á fáum árum; fjórar sjónvarpsstöðvar hafa hætt starfsemi frá 1997; allir fjölmiðlar Norðurljósasamsteypunnar römbuðu á barmi gjaldþrots til skamms tíma og Ríkisútvarpið er rekið með stöðugum halla. Loks dylst engum að Morgunblaðsmenn eiga á brattann að sækja þessi missirin,`` segir Þorbjörn Broddason í áliti sínu þar sem hann finnur þessu frv. flest til foráttu, þó með mjög málefnalegum og greinargóðum hætti, ekki síst í ljósi þess hve skamman tíma hann hafði til að vinna álit sitt. Hann er vandvirkur og framúrskarandi fræðimaður (Gripið fram í: Hann hefur átt þennan stafla.) og átt stafla í þetta kannski sem hefur nýst honum vel í þessu. Hann segir enn fremur, með leyfi forseta:

,,Nefnd um eignarhald á fjölmiðlum kastar fram mörgum hugmyndum að leiðum til að ná fram þeim markmiðum sem hún hefur að leiðarljósi. Í frumvarpinu er valin ein þessara leiða og er hún ein sér, eins og hún birtist þar, alvarlegum annmörkum háð. Hér skulu nefndir tveir; annars vegar er ekki tekið á gegnsæi eignarhalds, en það tel ég brýnasta skrefið og hið fyrsta sem ætti að stíga.`` --- Brýnasta skrefið er að hans mati það sama og þingmenn Samf. lögðu fram hérna fyrr í vetur till. til þál. um, sjálfstæði ritstjórna og gagnsæi í eignarhaldi. Þorbjörn tekur mjög afdráttarlaust undir tillöguflutning Samf. og segir berum orðum að það sé fyrsta skrefið sem eigi að stíga í staðinn fyrir að vaða fram með báli og brandi, ógna afkomu fyrirtækisins og allri tilurð þess. Síðar segir hann, með leyfi forseta:

,,Í öðru lagi getur ákvæðið um fortakslausa útilokun fyrirtækja með markaðsráðandi stöðu af einhverju tagi frá eignarhlut í ljósvakamiðlum valdið miklum erfiðleikum við fjármögnun útvarps- og sjónvarpsreksturs.``

Það er nefnilega málið, virðulegi forseti, að ef Norðurljósum eða eigendum þeirra verður gert að skipta fyrirtækinu upp blasa við miklir erfiðleikar við fjármögnun fyrirtækisins, enda eins og fram hefur komið í umræðunum rambaði fyrirtækið á barmi gjaldþrots fyrir örfáum mánuðum. Það var í janúarmánuði sem svo áraði.

Þorbjörn Broddason rammar niðurstöðu sína inn eiginlega í einni setningu: ,,Uppskurðurinn heppnaðist en sjúklingurinn dó.``

Þetta er sú varúð sem hann geldur við frv., að líkur séu á því að uppskurður stjórnvalda heppnist að því leytinu að fyrirtækið er mölbrotið á bak aftur og því gert að leysast upp í frumeindir með þeim afleiðingum að sjúklingurinn gefur upp öndina. Það getur hins vegar vel verið, þó að Þorbjörn meti það ekki svo, að það sé nefnilega tilgangur stjórnvalda að kála sjúklingnum, ekki bara framkvæma vel heppnaðan uppskurð heldur einnig að koma sjúklingnum fyrir kattarnef. Það ætla ég samt ekki að leggja mat á, virðulegi forseti.

Til að liðka fyrir störfum þingsins þar sem ég hef talað í bráðum einn og hálfan klukkutíma í þessari 2. umr. og margir, ég held einir 19 eða 20, þingmenn bíða á mælendaskrá og margir þeirra með upplýsandi og merkar ræður í farteskinu, ætla ég að fara að ljúka máli mínu. Ég mun taka þátt í umræðunum í gegnum þær þingræður sem hér eru eftir en vil að endingu vísa þingheimi á það að ég hef undir höndum bókina Frelsið eftir John Stuart Mill sem ég hef jafnvel í hyggju að lesa meira upp úr í síðari ræðu minni eða við 3. umr. til að bókin sé aðgengileg að hluta í þingtíðindum Alþingis. Það er augljóst mál að eftir að sjálfstæðismennirnir vígreifu gengu af trúnni á frjálshyggjuna hafa þeir líka annaðhvort gleymt eða aldrei fengið upplýsingar um það í stjórnmálaskóla Sjálfstfl. á sínum tíma að frelsið er grundvallarundirstaða alls okkar borgaralega frjálslynda samfélags. Allt þetta er fyrir borð borið í því ofstækisfulla og ofbeldisfulla frv. til laga um eignarhald á fjölmiðlum sem hér liggur fyrir Alþingi að afgreiða á næstu dögum. 14 dagar á Íslandi, fjögur ár í Noregi, rammar hugmyndina ágætlega inn en kannski er allt falt fyrir 15. september, líka mannréttindaákvæði íslensku stjórnarskrárinnar. Nú reynir á Framsfl.

Er allt til sölu fyrir 15. september? Það er stór spurning og henni hefur ekki verið svarað enn af því að framsóknarmenn hafa verið sjaldséðari en hvítir hrafnar í sölum Alþingis síðustu daga (Gripið fram í: Það hafa aldrei verið ...) og þakka ég þingheimi athyglina við ræðuflutninginn.