Útvarpslög og samkeppnislög

Miðvikudaginn 12. maí 2004, kl. 13:10:33 (8003)

2004-05-12 13:10:33# 130. lþ. 113.1 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, SigurjÞ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 113. fundur, 130. lþ.

[13:10]

Sigurjón Þórðarson (andsvar):

Herra forseti. Þessi hraði á málinu sem við erum að ræða er merkilegur. Hann hefur verið helst skýrður út frá því að verið sé að tryggja lýðræðislega umræðu og að mikil vá sé fyrir dyrum. Við höfum dregið það í efa en síðan hafa komið önnur sjónarmið. Það kom fram m.a. í útvarpsþætti á Bylgjunni þar sem hv. þm. Arnbjörg Sveinsdóttir hélt því fram að flýtirinn stafaði af einskærri umhyggju bæði fyrir fyrirtækinu sem frv. beinist gegn og fyrir því fólki sem vinnur hjá umræddu fyrirtæki. Eftir lestur upp úr bréfum starfsfólksins hér finnst mér æðiundarlegt að meta þetta með þessum hætti. Ég furða mig á því.

Ég hef verið að velta þessu fyrir mér. Hún hefur ekki dregið þessi orð sín til baka, hv. þm. Arnbjörg Sveinsdóttir, og verður maður þá að ætla að þau standi og það sé enn þá skoðun hennar að þetta sé af einskærri umhyggju fyrir starfsfólkinu og fyrirtækinu. Það er þá eins gott að fá botn í þetta mál sem fyrst og vil ég velta því upp hvort það geti verið að umræddur þingmaður hafi fengið einhver skeyti sem okkur í stjórnarandstöðunni hafi ekki borist, hvort það geti verið möguleiki í málinu. Mér finnast fjarstæðukenndar skýringar hjá hv. þingmanni að koma með það að þetta sé af einhverri umhyggju fyrir starfsfólkinu í ljósi allra þeirra tölvuskeyta sem mér hafa borist. Greinilega hefur fleiri þingmönnum borist þessi póstur því að mörg skeytanna voru lesin upp í hinni ágætu ræðu hv. þm. Björgvins Sigurðssonar.