Útvarpslög og samkeppnislög

Miðvikudaginn 12. maí 2004, kl. 13:12:40 (8004)

2004-05-12 13:12:40# 130. lþ. 113.1 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, BjörgvS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 113. fundur, 130. lþ.

[13:12]

Björgvin G. Sigurðsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Við getum ekkert annað en beðið í ofvæni eftir því að hv. þm. Arnbjörg Sveinsdóttir skýri sjónarmið sín um umhyggjuna fyrir starfsfólki Norðurljósa sem henni finnst skína af þessum gjörningi öllum. Hún metur það svo að áhlaupið á Norðurljós sé fyrst og fremst tilkomið af umhyggju ráðamanns fyrir starfsfólkinu sem hann hefur reyndar vaðið yfir með svo andstyggilegum hætti og svo undarlega sóðalegum brigslyrðum á undanförnum dögum, um að það sé ekkert annað en ómerkileg þý og handbendi eigenda sinna, að ég efast um að til sé nokkur samjöfnuður úr íslenskri stjórnmálaumræðu seinni áratuga. Það væri fróðlegt að fara í gegnum það við tækifæri hvort einhver ráðamaður hafi einhvern tíma gengið fram með jafnandstyggilegum hætti gegn hundruðum einstaklinga, gegn þeim hundruðum sem starfa á miðlum Norðurljósa, eins og hæstv. forsrh. gerði síðast í fréttum sjónvarps í gær þar sem hann lýsti stjórnarandstöðuna alla sem ómerkilega málpípu Baugs og sagði jafnframt að fréttamenn miðlanna gengju skýlaust erinda eigenda sinna, væru fótumtroðnir af eigendum sínum og gerðu lítið annað en að útmála skoðanir þeirra í einhverjum fréttafölsunum. Það var algerlega ótrúlegur málflutningur.

Mér gefst ekki tími til að lesa aftur upp úr bréfunum sem ég las upp úr áðan en beini því til þingheims að fara í tölvupóstshólfið sitt ef þeir hafa ekki þegar eytt þessum bréfum af því að þau hafa kannski valdið stjórnarmeirihlutanum sársauka, hafa kannski stungið í augun og vonandi í hjörtun á einhverjum hv. þingmönnum, enda um mjög einstakar bréfaskriftir að ræða þar sem fólkið lýsir þeim tilfinningum sem það upplifir þegar stjórnvöld veitast með þessum viðbjóðslega hætti að lífsafkomu þess.