Útvarpslög og samkeppnislög

Miðvikudaginn 12. maí 2004, kl. 13:48:03 (8005)

2004-05-12 13:48:03# 130. lþ. 113.1 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, MÁ
[prenta uppsett í dálka] 113. fundur, 130. lþ.

[13:48]

Mörður Árnason:

Forseti. Nú tek ég til máls í þessari 2. umr. um fjölmiðlafrv. sem svo er kallað, eða Davíðslög sem nú er farið að nefna hið ósamþykkta frv. Það er þannig að á því má taka á mörgum stöðum og hefur auðvitað verið gert á ýmsan hátt.

Ég hef hingað til við 2. umr. haft það hlutskipti að tala nokkuð um fundarstjórn forseta og hef einkum í þeim ræðum talað um hlut menntmn. í starfinu að þessu frv. Ég hef rakið það fyrir þeim sem hlustað hafa að málið var upphaflega lagt fram fyrir hönd, ég veit ekki alveg hverra en væntanlega hæstv. ríkisstjórnar. Það gerði hæstv. forsrh. sem var óvenjulegt vegna þess að málið er á málasviði menntmrh. og hún hefði með réttu átt að flytja þetta frv.

Nú skiptir kannski ekki miklu máli fyrir þingheim eða þjóðina hvaða ráðherra tekur að sér að standa í stólnum en þessi hæstv. ráðherra hefur þær kenjar að öll hans mál eiga að fara í tiltekna nefnd sem hann telur nánast eins og sína eign á þinginu eða einhvers konar lén sem hann hafi hér og hafi þá sérstöðu að taka fyrir öll hans mál auk þess að fjalla um þau mál sem í þingsköpum eru sérstaklega við hana kennd, þ.e. dómsmál, kirkjumál og byggðamál held ég að upptalningin sé. Þannig hafnaði þetta mál í allshn.

Það gerðist reyndar með athugasemdum okkar nokkurra sem töldum rétt að málið færi í menntmn., að menntmn. yrði aðalumfjöllunarnefnd málsins en aðrar nefndir tækju þá eftir atvikum á þeim þáttum sem að þeim sneru. Um þetta varð atkvæðagreiðsla og þau óvæntu úrslit urðu úr þeirri atkvæðagreiðslu, þar sem allir þingmenn tóku efnislega afstöðu til þessa álitaefnis, að stjórnarliðar greiddu atkvæði með því að málið færi í allshn. en stjórnarandstaðan studdi okkur nokkra í því að menntmn. yrði helsta umfjöllunarnefnd þessa máls.

Ég ætla ekki að rekja að sinni, geri það kannski síðar í ræðu minni, hvernig farið hefur um nefndarstörfin í menntmn. og í hinni nefndinni, efh.- og viðskn., sem fékk frv. sent frá allshn. Ég verð hins vegar að segja að það var lán í óláni að þessu leyti að í allshn. sitja góðir þingmenn, lagahestar miklir, bæði af hálfu stjórnar og stjórnarandstöðu, og málið fékk fljótt á sig þá helstu umfjöllun hvað í þessu frv. rækist á við stjórnarskrá, EES-sáttmála og helstu reglur í stjórnskipun og þeim mannréttindaplöggum sem við höfum annaðhvort samþykkt eða skrifað með einhverjum hætti undir.

Þetta hefur verið mjög gagnleg umræða og sýnt marga þverbresti sem ekki var hægt annað en berja í. Það sá jafnvel hv. flm. sjálfur. Ég hygg að í hádegisfréttum í gær hafi verið sagt frá því að brtt. meiri hluta allshn. hafi verið samþykktar í ríkisstjórninni. Ég hef aldrei heyrt þá frétt áður að ríkisstjórn hafi sest yfir brtt. meiri hluta nefndar og samþykkt þær en þær voru sem sagt sérstaklega teknar fyrir, greinilega, á ríkisstjórnarfundi og samþykktar þar, væntanlega til að auka samstöðu í ríkisstjórninni sem ekki hefur verið of mikil í kringum þetta mál.

Gangur málsins í allshn. var slíkur að það var ljóst að forustumenn meiri hlutans í allshn. bjuggu ekki til brtt. eða sömdu nefndarálitið, heldur var það gert úti í bæ. Það er það orðalag sem stundum er viðhaft um slíka hluti en ég hygg að það hafi ekki verið á fundi úti í bæ heldur öndvert í Kvosinni, austan lækjar í brekkunni upp af því sem nú heitir Lækjartorg.

Það var sem sé alls ekki úr vegi að allshn. ynni mikið að þessu máli vegna þeirra ágalla sem voru á frv. Það má þó ekki verða til þess að við gleymum því efnissviði sem frv. einkum varðar sem er efnissvið menntmn. Þess vegna gerðum við það, fulltrúar stjórnarandstöðunnar í menntmn., þegar málið loks kom þangað sem var um hádegi í gær, hygg ég að hafi verið, að þá var rætt hversu ræða skyldi, að leggja til að við tækjum ekki allt frv. að okkur til að fara í gegnum þá sömu vinnu og allshn. hafði gert heldur tækjum við að okkur ákveðna afmarkaða þætti þess frv. eða réttara sagt hefðum á það ákveðið sjónarhorn sem væri það að fjalla um fjölmiðlun sem atvinnugrein í landinu. Fjölmiðlun er atvinnugrein sem skiptir verulegu máli, sérstaklega á Reykjavíkursvæðinu, höfuðborgarsvæðinu, en auðvitað líka úti um landið, skiptir þar líka mjög miklu máli. Það má ekki gleyma því að byggð án fjölmiðlunar er nánast eins og andlitslaus maður. Hún á erfitt með að sýna öðrum hvernig lífi þar er lifað og hún á erfitt með að gera af sér sína eigin sjálfsmynd þannig að síst skal lasta hlutverk fjölmiðlunar á landsbyggðinni. Staðreyndin er þó sú að í mannafla og veltu eða öðrum þeim mælikvörðum sem notaðir eru á afl atvinnugreinar eða fyrirtækja er það mest á höfuðborgarsvæðinu. Þetta skiptir okkur verulegu máli, ekki síst vegna þess að fjölmiðlun á Íslandi sem atvinnugrein er í mikilli samkeppni við erlenda fjölmiðlun, sífellt meiri samkeppni. Ég hygg að það sé kannski ein af örfáum jákvæðum afleiðingum þessa uppistands í kringum núverandi frv. að fleiri og fleiri gera sér grein fyrir þeirri stöðu.

Okkur sem nú teljumst vera á miðjum aldri og var að þroska til varpað inn í miðjan 7. áratuginn, hvað þá þeim sem eru eldri, hættir til að hugsa um íslenska fjölmiðla og íslenska fjölmiðlun sem heimavöll. Annars vegar séu sjónvarp, útvarp og blöð á Íslandi en hins vegar séu fjölmiðlarnir úti í heimi sem maður nýtur þegar maður kemur þangað eða getur aflað sér hluta af útlöndum með því að vera í áskrift eða kaupa sér eitt og eitt vikublað í búð. Nú eru þessir tímar gjörbreyttir. Hvað dagblaðalestur varðar hygg ég t.d. að hann komi við verulegan hluta Íslendinga. Auðvitað fer það eitthvað eftir aldri og menntun en stór hópur skoðar á hverjum degi erlend dagblöð, fer á netið og flettir þar upp. Ég nefni sjálfan mig, ég les New York Times, Le Monde (Gripið fram í: Guardian.), Politiken. Aðrir nefna Guardian, hver hefur sinn smekk í þessu eftir áhuga, tungumálakunnáttu og þeim kynnum sem hann hefur haft af löndum.

Það er líka þannig og hefur verið lengi að menn geta hlustað á hvaða útvarp sem er. Í mínu ungdæmi settust menn fyrir framan gömlu tækin og sneru tökkum á stjörnubjörtum nóttum einkum því þetta var svolítið snúið og erfitt. Nú er það betur gert með því að fara í tölvuna og velja þar ákveðnar möppur þar sem útvarpsstöðum er raðað fram og aftur og hægt að hlusta á það sem maður vill. Ég er ekki viss um að margir geri þetta en möguleikarnir eru þó vissulega fyrir hendi, einkum hjá mönnum með sérstök áhugamál og kannski t.d. tónlistarmönnum en á þeim nokkrum áratugum sem nýliðnir eru hefur aðstaða manna til að vita hvað er að gerast í heiminum á sviði tónlistar, hvaða greinum hennar sem vera skal, gjörbreyst. Menn þurfa ekki annað en að renna huganum aftur til Rúnars Júlíussonar, Rúnars Gunnarssonar og þeirra félaga, frumkvöðla bítlsins, hvað þá ef maður fer enn aftar og talar um rokkarana sem voru með eyrað við léleg útvarpstæki eða reyndu að pikka upp gítarhljómana úr Kananum.

Sjónvarpið er þannig statt, svo að það sé aðeins rakið, að sjónvarpsstöðvarnar okkar eru í mikilli samkeppni við erlendar stöðvar. Hér eru tvö fyrirtæki með rekstur beinlínis á því sviði að útvarpa erlendum sjónvarpsstöðvum. Annað þeirra, breiðbandið, er í eigu Landssímans og hefur um 40 stöðvar undir, hygg ég. Hitt er Fjölvarpið í eigu Norðurljósa og ég man ekki hvað það hefur margar stöðvar. Þetta hvort tveggja er þannig að stöðvarnar eru sýndar beint. Þær eru sýndar óslitnar, það er skilyrðið, og þær eru þar með ótextaðar. Það er ekki sú skylda að texta það efni sem þarna er, laga það að íslenskum veruleika að því leytinu eins og er um íslensku stöðvarnar. Það er óvalið af þeim fyrirtækjum sem senda út hér og kemur sem sé beint af skepnunni. Það þýðir auðvitað líka eins og ég get um síðar í ræðu minni að hætt er við að það efni kunni að verða einhæfara en það sem fagmenn búa til dagskrá úr þótt ekki sé nema vegna þess að tungumálakunnátta okkar, þótt við hrósum okkur af henni, er fremur einsleit.

[14:00]

Íslendingar þykjast kunna ensku allvel. Margir tala Norðurlandamál eða skilja en meira er það oftast ekki og þess vegna þurfum við á því að halda að sendiherrar eða menningarsendiherrar, sjónvarpsþýðendur og aðrir slíkir fari höndum um efnið áður en við njótum þess þegar það kemur frá þótt ekki sé nema grannlöndum okkar eins og Þýskalandi eða Frakklandi, hvað þá frá Suður-Evrópulöndum eða enn fjær á korti tungumálanna.

Á hinn bóginn þótti okkur stjórnarandstæðingum í menntmn. rétt og lögðum það til að fjallað yrði um frv. út frá áhrifum þess á menninguna í landinu á nokkuð breiðum grunni, að við fjölluðum um áhrif þess á t.d. framboð innlends efnis, þjóðmálaumræðu í ljósvakamiðlum og pappírsmiðlum, á menningarlífið og íslenska tungu. Eitthvað af þessu blandast saman eins og kom fram í lýsingu minni áðan á samkeppnisstöðu íslenskra fjölmiðla. Við vildum enn fremur, það varð nokkuð merkileg samræða okkar í milli meðan við undirbjuggum okkur undir menntamálanefndarfundinn, athuga áhrif frv. á efnisframboð til barna og hugsanleg áhrif þess á íslenska barnamenningu. Því miður varð það alveg út undan í hinni stuttu umfjöllun í menntmn.

Þess vegna er kannski rétt að segja strax um það nokkur orð. Engin frekari athugun getur búið þar að baki í menntmn. sem var hindruð í að fjalla frekar um málið. Okkur gafst enginn tími til að kalla á t.d. leikskólakennara, fræðimenn í Kennaraháskóla Íslands og umboðsmann barna til að geta fyrir okkur og með okkur í þær eyður hvaða áhrif frv. gæti haft á íslenska barnamenningu og efnisframboð til barna. Þótt eitt af hlutverkum Ríkisútvarpsins hafi frá upphafi verið að sinna börnum og barnamenningu og það hafi gert það þokkalega vel urðu samt verulegar breytingar þegar einkaréttur Ríkisútvarpsins var afnuminn og til kom Stöð 2 og síðan aðrar stöðvar í einhvers konar samkeppni við Ríkisútvarpið. Í samleik þessara stöðva hefur þannig á þessum árum, líka vegna tækniþróunar, sjónvarpsefni við barna hæfi aukist mikið. Það má deila um hversu heppilegt það sé. Ég ætla ekki að skipta mér af slíkum deilum en það hefur færst í vöxt og er orðið nánast einrátt eða a.m.k. mjög títt að sjónvarpsefni barna í formi teiknimynda og því um líks sé talsett, ekki bara textað heldur einnig talsett. Það hefur m.a. leitt það af sér að nánast engar myndir sem eiga að vera við hæfi barna eru sýndar í kvikmyndahúsum án þess að þær séu talsettar. Hér hefur orðið á sinn hátt mjög gleðileg og ánægjuleg þróun í barnaefni og það má segja Stöð 2 til hróss og þeim mönnum sem börðust fyrir afnámi einkaréttarins og því sem menn hafa kallað frelsi í fjölmiðlun að það hefur orðið barnamenningu styrkur.

Það er hætt við að allur samdráttur bitni á þessu barnaefni. Kann að vera að auglýsendur haldi því að einhverju leyti uppi. Það hefur verið leiður fylgikvilli á barnaefni í Ríkisútvarpinu og á öðrum stöðvum að því fylgja auglýsingar sem stundum eru úr hófi fram og höfðað er til barna með ýmsum hætti fram hjá foreldrunum. Það er sennilegt að talsetningin yrði fyrir höggi ef frv. leiddi til þess að drægi úr fjölmiðlaframboði, fjölbreytni ykist hvorki í efnisframboði né dagskrárgerð í framtíðinni vegna þeirra raka sem að baki þessu frv. liggja. Þar fyrir utan mundi það trúlega bitna á innlendu framleiðslunni á báðum aðalstöðvunum og sem eitt sinn var reyndar á Skjá 1 líka.

Við fórum í menntmn. með nokkurn lista til athugunar um menn til að tala við í nefndinni. Á honum voru fræðimenn um þetta efni, Þorbjörn Broddason, Herdís Þorgeirsdóttir, Ragnar Karlsson á Hagstofu Íslands, Gunnar Helgi Kristinsson og Ólafur Þ. Harðarson frá háskólanum, Hilmar Thor Bjarnason sem er stundakennari við háskólann, ungur fjölmiðlafræðingur, Kjartan Ólafsson, Háskólanum á Akureyri, Róbert Haraldsson, heimspekingur í Háskóla Íslands, sem hefur látið fjölmiðlamál, m.a. siðareglur, til sín taka. Þá voru höfundar fræðibóka um fjölmiðla hver úr sinni áttinni en allir viðræðuhæfir og vonandi tillögugóðir. Við nefndum Birgi Guðmundsson, Háskólanum á Akureyri, sem hefur skrifað einmitt um héraðsfréttablöð og fjölmiðlun á landsbyggðinni sem ég talaði aðeins um áðan, Hannes Hólmstein Gissurarson sem hefur skrifað bók um fjölmiðlun sem notuð er sem kennsluefni í einhverjum skólum. Ég er ekki viss um hana en hef enga ástæðu til að efast um að það sé góð bók, skrifuð frá frjálshyggjusjónarmiðum hans. Hannes getur verið vandaður fræðimaður, við skulum hafa það orðalag þannig. Stefán Jón Hafstein var líka á listanum en hann hefur skrifað kunna bók sem heitir Sagnaþulir samtímans og opnaði á sínum tíma, 1987, augu margra fyrir eðli fjölmiðlunar og hvernig nútímafjölmiðlun fer fram í landinu. Stefán vinnur ekki við háskólann núna nema háskóla lífsins, er borgarfulltrúi í Reykjavík og einn af forustumönnum í borginni. Hann hefur tekið þátt í þeirri umræðu sem hér hefur farið fram og hefði verið mjög gagnlegt að fá hann til nefndarinnar, að ég tali ekki um þá skemmtun sem hefði verið að því að fá þessa þrjá saman, Birgi, Hannes Hólmstein og Stefán Jón. Við hefðum eiginlega þurft að fá Egil Helgason líka til að stjórna þeim þætti.

Egill Helgason var einmitt í næsta hópi sem við töldum rétt að menntmn. ræddi við eða hefði fréttir frá. Í honum áttu að vera reyndir blaðamenn. Þar höfðum við þá á ýmsum aldri, Jóhann Hauksson, sem er yfirmaður á Rás 2 og skrifaði grein í Morgunblaðið sem var hliðstæð áliti og umsögn sem hann gaf um fræga þáltill. hv. þm. Álfheiðar Ingadóttur og fleiri hv. þm., grein sem ráð væri að lesa á eftir og ég hugðist gera. Ég sé til hvort mér vinnst tími til. Jón Ásgeir Sigurðsson er orðinn einn af reyndustu útvarpsmönnum okkar, Halldór Halldórsson sem menn þekkja sem reyndan blaðamann og frægan og einmitt kunnan í fjölmiðlafræðum höfðum við á listanum sem og Agnesi Bragadóttur, einn helsta rannsóknarblaðamann okkar, og Kára Jónasson, hinn styrka fréttastjóra útvarps. Við nefndum líka Jóhönnu Vigdísi Hjaltadóttur sem er með umtalsverða reynslu af þingfréttum, Elínu Hirst nefndum við, Brynhildi Ólafsdóttur, ungan blaðamann sem nú nýlega fékk sérstök verðlaun fyrir framúrskarandi fréttamennsku og rannsóknir. Við nefndum líka þrjá af gamla skólanum sem ýmist eru að ljúka störfum eða þegar farnir að líta yfir farinn veg, Ólaf Sigurðsson, Árna Bergmann og Odd Ólafsson. Þeir sem þekkja til í blaðamennsku sjá að þessi listi er allfjölbreyttur, ekki bara að kyni og aldri heldur líka lífsskoðun, stjórnmálaviðhorfum o.s.frv.

Við nefndum líka fyrir menntmn. ritstjóra og aðra faglega yfirmenn. Suma þeirra fengum við reyndar á fundinn, Styrmir Gunnarsson var t.d. á fundi hjá okkur í dag. Þar var líka Gunnar Smári Egilsson en þar söknuðum við reyndar annarra sem við settum á listann, t.d. Illuga Jökulssonar og Mikaels Torfasonar, ritstjóra DV, Boga Ágústssonar, fréttastjóra á sjónvarpinu, Sigríðar Árnadóttur, kollega hans á Stöð 2 sem áður var einn af fremstu mönnum í liði Kára Jónassonar, Páls Magnússonar, sem víða hefur farið í fjölmiðlum, setið þar hringinn í kringum borðið og er reyndar einn af höfundum frægrar skýrslu frá 1996 um endurskoðun útvarpslaga sem ég hef vitnað til áður á þinginu og hyggst gera á eftir. Mér hefur aldrei gefist tækifæri til að lesa þann kafla í heild sem þar skiptir máli fyrir þessa umræðu. Páll hefur mikla reynslu og mikinn sjóð að sækja í. Við nefndum líka Rúnar Gunnarsson sem er yfirmaður innlendrar dagskrárgerðar á sjónvarpinu, hefur mikla reynslu í fjölmiðlun en þó einkum þeim þætti sem lýtur að dagskrárgerð. Hann er auðvitað kvikmyndamaður líka og ljósmyndari. Við nefndum líka Sverri Agnarsson. Ég veit ekki alveg hvað staðan sem hann gegnir hjá Skjá 1 heitir en hann er einn af virkustu fjölmiðlamönnum á þessu sviði sem liggur á milli framleiðslu- og peningamála og mundi kannski á ensku heita producent en á íslensku einna helst reddari. Hann hefur verið mjög frjór í því starfi, sennilega ein helsta auðlind Skjás 1 í mannslíki.

Þetta var auðvitað ekki tæmandi listi. Af þessum lista komu nokkrir en allt of fáir. Síðan nefndum við að sjálfsögðu fulltrúa frá félögum innan atvinnugreina menningarinnar, auk fulltrúa Blaðamannafélags Íslands og annarra faghópa blaðamanna. Við töluðum þar um hönnuði, auglýsingafólk, tónlistarmenn, bókaútgefendur, rithöfunda, leikara, vefhönnuði og sjálfstæða framleiðendur, einkum sjónvarpsefnis. Framtíð fjölmiðla og fjölmiðlunar á Íslandi skiptir fleiri máli en blaðamenn að atvinnunni til og starfsumhverfi. Fjölmiðlun, þessi beina og hreina sem við stundum hugsum um á þröngan hátt þegar um hana er rætt, er auðvitað eins og drottning í ríki sínu og tengist fjölmörgum öðrum sviðum á afar margvíslegan hátt. Það er eitt af einkennum á nútímafjölmiðlun að þau tengsl eru sífellt að verða meiri, magnaðri og fjölbreytilegri. Það á ekki bara við um samstarf fjölmiðlanna, hinna eiginlegu fjölmiðlamanna við þessa faghópa, heldur á það líka við um fyrirtækin, um reksturinn sjálfan sem æ meira er að verða sameiginlegur eða í einhvers konar samkrulli. Þróunin er sú, eins og síðar verður rakið, í heiminum að menningarfyrirtæki ýmis eru að vaxa saman eða a.m.k. að tengjast. Það er ýmist að þau eru öll saman undir einum hatti eða samtengd á annan hátt. Hér er bæði um að ræða tæknina og þróun í viðskiptum og fyrirtækjarekstri sem getur haft ýmsar hættur í för með sér en við verðum þó að taka mark á. Á þeim tímum sem við lifum getum við ekki alveg valið okkur hvernig tæknilegt umhverfi er í kringum okkur og hvaða kostir eru uppi um rekstur fyrirtækja og samtengingu þeirra þótt það sé að sjálfsögðu --- það skal ítrekað --- hlutverk almennings, almannavaldsins og okkar stjórnmálamanna að hafa þar áhrif á og setja þeirri starfsemi ramma.

[14:15]

Ég ætla að loknum þessum stutta inngangi að reifa nokkuð út frá þessum aðalsjónarmiðum tveimur hvernig þetta frv. sem hér er til umræðu geti náð tilgangi sínum, hvort það sé líklegt eins og það lítur út nú. Það hefur raunar alltaf litið eins út því það hefur ekki breyst í neinu því sem meginatriði geta talist nánast frá þeim fréttum um tvær setningar sem láku út um göt í Stjórnarráðinu. Það hefur ekki breyst í neinum meginatriðum og þá þarf að athuga hvort þau markmið sem það setur sér muni nást eða hvort þau munu kannski ekki nást og hvort það verður þá þannig eins og stundum fer þegar menn vilja stíga skrefin of ört að þeir hrasa og lenda aftar en þeir byrjuðu.

Markmið frv. er talið það að aðstoða við að í fjölmiðlun á Íslandi ríki æskileg fjölbreytni. Í athugasemdum við það stendur að það eigi að sinna þeirri kröfu í lýðræðisþjóðfélagi að almenningur hafi aðgang að fjölbreyttum, sjálfstæðum og öflugum fjölmiðlum. Nú hefur það verið rakið hér oftar en einu sinni í umræðunni að fjölmiðlafjölbreytni er hugtak sem er ekki fyrir okkur, alþingismenn, að fabúlera um, heldur er það ákveðið viðurkennt hugtak í fræðum og umræðu sem þarf að hafa sína skilgreiningu. Sú skilgreining er fyrir hendi. Hún er ósköp einfaldlega í þeirri skýrslu sem frv. er talið vera byggt á. Reyndar er viðurkennt af skýrsluhöfundum að skýrslan standi ekki nema að svolitlu leyti, að sýnd, á bak við frv. Skilgreiningin á fjölmiðlafjölbreytni kemur engu að síður fram í skýrslunni, í endursögn hennar á tilmælum Evrópuráðsins um fjölmiðlun frá 1999. Hér er þetta, á síðu 69--70 í þeirri gerð fjölmiðlaskýrslunnar sem birtist að baki frv. á þskj. 1525. Fjölmiðlafjölbreytni. Með því hugtaki segir í endursögn skýrsluhöfunda, með leyfi forseta:

,,... fjölbreytni í framboði fjölmiðla, sem fram komi m.a. í mörgum og ólíkum sjálfstæðum fjölmiðlum (structural pluralism) og fjölbreytni í tegundum fjölmiðla og innihaldi fjölmiðlaefnis, að því er varðar sjónarmið og skoðanir, sem aðgengileg séu almenningi.``

Þetta er skilgreiningin á fjölbreytni í fjölmiðlum. Við þurfum að velta henni fyrir okkur, auk hinna alvarlegu spurninga um hvort meiri hluti þingsins kunni að vera að ganga í bága við stjórnarskrá og að brjóta EES-reglur á okkur með þeim afleiðingum sem það hefur, bæði ímyndarhnekki og í beinhörðum peningum, fyrir utan þá skaðabótaskyldu sem raunar er viðurkennt af hálfu meiri hluta allshn. að kunni að fylgja breytingu þessa frv. í lög. Meiri hluta allshn. virðist reyndar vera alveg sama um það, enda á hann ekki að borga skaðabæturnar sjálfur. Það hefur reyndar loðað við meginstofninn í þeim meiri hluta sjálfstæðismanna, þeir eru ákaflega viljugir til að taka mikla áhættu í ríkisrekstri vegna þess að þeir vita að það kemur ekki niður á þeim sjálfum. Þeir munu fá launin sín áfram sem þingmenn, ráðherrar, embættismenn og verktakar í ríkiskerfinu af ýmsu tagi en skattborgararnir sem þeir þykjast bera virðingu fyrir í orði kveðnu þurfa bara að kafa dýpra í vasa sína. Þetta hefur einkennt Sjálfstfl. og væri kannski ráð að taka það til umfjöllunar. Ég veit ekki hvort ég ætti að fresta því til síðari ræðu minnar í þessari umræðu en auðvitað væri ráð að taka svolitla syrpu í sögu Sjálfstfl. í þessum efnum og sjónarmiðum hans því Sjálfstfl. --- Já, ég held, forseti, að ég geti ekki stillt mig um að gera það, sérstaklega af því að formaður allshn., hinn ungi og vopndjarfi hv. þm. Bjarni Benediktsson er hér í salnum. Sjálfstfl. hefur að sumu leyti lent í því sem gamall flokkur lenti í sem ég hafði nokkur kynni af, Alþýðubandalagið, en það hafði uppi á síðari tímum sínum --- og kannski loddi það alltaf við Alþýðubandalagið sem var þó að ýmsu leyti góður flokkur, ég vil taka það fram hér í þessari umræðu. (Gripið fram í: Já.) Ég sé að ýmsir félagar mínir hér í salnum taka undir það, með eftirsjá nánast. Ég sé eitthvert blik í auga og eru það félagar sem nú eru í ýmsum stjórnmálaflokkum reyndar. Alþýðubandalagið, eins góður flokkur og það var og oft gaman að vera þar nærri, einkum í umræðu og líka í skemmtan --- það var oft góð skemmtan í Alþýðubandalaginu (Gripið fram í.) --- þá loddi það við Alþýðubandalagið að það hafði mikla kenningu sem það hélt fram á hátíðarstundum og reyndi að innprenta mönnum sem það var að reyna að toga til liðs við sig. Kenningin var ákaflega heilög og mátti ekki mikið breyta henni. Það var afar strangt haldið utan um hana og allt hennar regluverk. Síðan þegar menn komust í þá aðstöðu að þurfa að fylgja kenningunni fram í verki dugði hún ekki. Þá varð að gera undantekningu og skapa bráðabirgðaástand þar sem menn voru í öðrum málum, fóru í önnur föt, geymdu kenninguna í jakkafataskápnum heima og stunduðu kaupin á eyrinni, jafngrimmilega og stundum grimmilegar en þeir aðrir sem þau stunduðu, misstu sumsé samband við kenninguna vegna þess að þeir gættu ekki að því að aga hana að þeim viðfangsefnum sem við var að fást hverju sinni.

Þetta sama virðist mér vera að koma fyrir Sjálfstfl., þann hluta hans sem hefur kennt sig við neólíberalismann og fylgt fram frjálshyggju í orði kveðnu. Þegar hann kemur að verkum dugar ekki þessi frjálshyggja og þá snúa þeir við blaðinu, kunna ekki að aga kenningu sína að þeim verkefnum sem við er að fást, heldur snúa við blaðinu og taka upp hina hefðina í Sjálfstfl. sem er hefð stjórnlyndis og valdstjórnar. Þetta tvennt hefur farið saman í þessum flokki, frjálshyggja með ýmsum hætti, gömul og ný á yfirborði og hátíðarstundum, en stjórnlyndi, og valdhyggja liggur mér við að segja, virðingarleysi fyrir lýðræðinu, takmörkuð vitund um það. Þetta hefur því miður spillt bæði Sjálfstfl. og líka íslensku samfélagi að verulegu leyti.

Ég legg til að hv. þm. Bjarni Benediktsson og þeir aðrir félagar hans sem yngri eru í Sjálfstfl. fari að loknu þessu þingi í sérstakar sumarbúðir og hugleiði hvernig þeir ætla að halda á þessum málum í framtíðinni þegar þeir eru lausir úr þeim viðjum sem þeir eru í núna. Það er auðvitað sorglegt að horfa á þá í viðjum þeirrar forustu sem nú er uppi í Sjálfstfl. og viðjum þess hlutverks sem þeir eru í, að vera að vinna sig í álit innan flokksins og þurfa þannig að taka að sér alls konar skítverk. Þeir þurfa að velta því fyrir sér fyrir hönd Sjálfstfl. hvað eigi að taka við. Ætlar Sjálfstfl. að verða hér þröngur hægri flokkur? Ætlar hann að verða kannski 15--20% flokkur sem er í tengslum við ákveðna fyrirtækjasamsteypu í landinu og hefur öll einkenni stjórnlyndis og valdhyggju? Og frekjufrelsis sem er hugtak sem er kynnt til sögunnar í gær? Það á ágætlega við þá tegund eða afbökun á frelsi sem sprettur upp úr þessari aðstöðu Sjálfstfl. Eða ætlar Sjálfstfl. að tengja sig aftur við atvinnulífið á Íslandi og reyna að hafa breiða höfðun í samfélaginu, að vera ásamt öðrum flokkum einhvers konar burðarflokkur í samfélaginu sem er boðberi ákveðinna sjónarmiða og skoðana sem ég er kannski ekki hrifinn af og tel mig vinna gegn? Ég virði þau viðhorf samt fyllilega og tel Sjálfstfl. á köflum hafa verið góðan fulltrúa fyrir þau.

Þetta held ég að hv. þm. Bjarni Benediktsson, formaður allshn. sem hefur farið með það sem hann átti eftir af áliti sínu þegar eftirlaunafrumvarpinu sleppti fyrir áramótin langvegis í þessu máli, eigi að hugleiða. Þetta held ég að hann og félagar hans, hinir viljugu ungu sjálfstæðismenn, þurfi að hugsa um í sumar. Óska ég þeim velgengni í því.

Ég ætlaði að fara hér í gegnum umsagnir og álit, einkum þau sem borist hafa allshn., en einnig nokkra pistla af öðrum stöðum og skoða þá. Sumir þeirra hafa verið lesnir hér áður og ég biðst afsökunar á því að endurtaka þann lestur. En ég les þá aftur vegna þess að þá þarf að skoða með þeim gleraugum sem ég nefndi, út frá sjónarhólnum: Stenst markmið frv.? Verður það að einhverju? Hvernig fer um fjölmiðlun sem atvinnugrein á Íslandi og hvernig fer um fjölmiðlun sem kjarnlæga grein í íslenskri menningu á okkar tímum?

Áður en ég geri það langar mig í tilefni af frétt í Fréttablaðinu í dag að fjalla örlítið um stofnun í Bandaríkjunum sem heitir Freedom House. Menn kannast við það hér vinstra megin í salnum, hv. þm. Bjarni Benediktsson kannast við þetta enska orð og veit að þetta þýðir frelsis- segjum ekki húsið en frelsisstofnunin kannski, eitthvað því um líkt. Þetta er bandarísk stofnun. Ég hygg að hún sé sjálfseignarstofnun en nýtur mikillar velvildar hjá bandaríska ríkinu og hefur gert lengi. Þótt hún væri ekki kaldastríðsfyrirbæri nýttist hún að mig minnir vel í kalda stríðinu við að benda á þá miklu galla sem voru á fjölmiðlun í kommúnistaríkjum og öðrum þeim ríkjum ýmsum sem þeim tengdust, auk þess að vera ákveðin svipa á ríki sem Bandaríkjamenn og fylgjendur þeirra litu til með á vægilegri hátt af því að þeir væru tíkarsynir okkar en ekki einhverjir aðrir í alræðisríkjum sem við þekkjum hér í heiminum sem fylgdu Bandaríkjunum að málum. Skýrsla þessarar stofnunar, Freedom House, kom út í Bandaríkjunum 28. apríl sl. og það er ekki alveg tilviljun því hún er gefin út í tilefni af degi frjálsrar blaðamennsku sem hér er 3. maí, eins og ég rifjaði upp í ræðu minni í 1. umr. þessa máls sem einmitt fór fram 3. maí, á degi frjálsrar blaðamennsku. Í þessari skýrslu er reynt að leggja mælikvarða á frelsi í fjölmiðlun í ríkjum heimsins.

Skemmst er frá því að segja að Íslendingar lenda í þessari skýrslu fyrir árið 2004 í 1. sæti ex aequo, 1. sæti þrídeildu má segja, ásamt hinum norrænu vinum okkar Dönum og Svíum. Við fáum þar átta stig. Það eru mínusstig gefin líka en við fáum átta stig og umsögnina ,,frjáls`` sem er mjög mikilvæg. Þessi einkunnagjöf byggist á þrennu. Hún byggist í fyrsta lagi á lagaumhverfi sem skilgreint er sem heildaryfirsýn yfir lög og reglugerðir sem hafa áhrif á innihald efnis í fjölmiðlunum og hneigð ríkisstjórnar eða ráðandi yfirvalda til að nota þessi lög gegn starfsemi fjölmiðlanna. Í þessari deild fáum við aðeins -1 þannig að hér er ekki talinn vera mikill ríkisrekstur í fjölmiðlum. Ég leyfi mér að vera með ákveðna fyrirvara gagnvart áliti þessarar stofnunar vegna þess að ég hefði talið að Ríkisútvarpið ætti að afla Íslendingum frekari neikvæðra stiga í þessu dæmi. Þeir gefa okkur sem sé -1 sem er mjög gott.

[14:30]

Í öðru lagi er talað um pólitísk áhrif. Þar eru gefin mínusstig fyrir það hvaða áhrif stjórnmálalegir þættir hafa, aðallega á fréttir. Þar er einmitt talað um ritstjórnarsjálfstæði sem hér hefur mjög verið nefnt, bæði í ríkismiðlum og markaðsmiðlum eða einkamiðlum. Þar fáum við aðeins tvö stig. Þó að okkur finnist ástandið stundum svona og svona á Íslandi er það í alþjóðlegu ljósi ákaflega gott. Flest mínusstigin fáum við fyrir efnahagsþrýsting, sem ég hráþýði svo. Þar fáum við fimm mínusstig. Þar er átt við hvernig eignarhaldi er varið, hvernig gagnsæið lítur út og hversu erfitt það er að koma upp nýjum miðlum. Síðan er fjallað um auglýsingamál og reyndar líka um spillingu, mútur o.s.frv. og þar fáum við fimm mínuspunkta sem er meira en á hinum sviðunum. Þess verður auðvitað að geta að á hinu fyrsta sviði laganna er hægt að fá 30 punkta en við fáum einn. Í stjórnmálunum er hægt að fá 40 mínuspunkta, við fáum tvo. Í efnahagsþrýstingi eða efnahagsáhrifum er hægt að fá 30 punkta, við fáum fimm. Þetta er mjög góð einkunn sem íslenskir miðlar fá og í raun furðugóð miðað við það sem við sem þekkjum fjölmiðlana hér hefðum ímyndað okkur.

Merkilegt er að í Fréttablaðinu í dag --- nú er það orðið þannig að eins og hæstv. forsrh. segir vita allir að starfsmenn Baugsmiðlanna eru, með leyfi forseta, ,,gersamlega misnotaðir af eigendum sínum``. Ég tel samt að það beri að vitna í Fréttablaðið og taka fullt mark á því. Ég hef reyndar líka fylgst undanfarna daga með þeim blaðamanni sem hér kemur við sögu, Sigríði D. Auðunsdóttur. Hún er greinilega ungur og vaxandi blaðamaður sem hefur hringt í Freedom House, í konu sem heitir Karin Karlekar og er sérfræðingur í fjölmiðlafrelsi hjá þessari stofnun, Freedom House. Hún spyr hana um íslenska frv., hefur þá væntanlega sent henni það áður. Fulltrúi Freedom House segir um frv., með leyfi forseta:

,,... að takmark laganna sé í sjálfu sér jákvætt, að koma í veg fyrir of mikla samþjöppun í eignarhaldi á fjölmiðlum og tryggja þannig fjölbreytni í fjölmiðlun.``

Síðan er vitnað beint í hana, með leyfi forseta:

,,Hins vegar er frumvarpið ekki rétt leið til að ná fram þessu markmiði. Með því að setja svona miklar takmarkanir á eignarhald er hætta á því að enn meiri samþjöppun verði á eignarhaldi. Sem dæmi gæti það gerst að fjölmiðlafyrirtæki sem nú starfa verði neydd til þess að láta útvarpsleyfi af hendi og hætti störfum. Fjölmiðlum gæti því fækkað.``

Þetta segir Karin Karlekar. Hún segir líka, með leyfi forseta:

,,... að það sé alveg ljóst að þörf sé á því að gera frekari rannsóknir á mögulegum afleiðingum laganna. Sem dæmi þyrfti að kanna hvort hugsanlegt væri að einhverjir fjölmiðlar þyrftu að hætta störfum. Eins hvort markaðsaðstæður á Íslandi séu þær að aðrir fjölmiðlar geti komið í stað þeirra sem hverfa af markaðinum.``

Hefur þetta verið rannsakað við undirbúning þess frv. sem hér er verið að fjalla um? Nei, það hefur ekki verið rannsakað. Menn vita hreinlega ekkert um það. Ég hef spurt við hvert hugsanlegt tækifæri flm. frv., hæstv. forsrh., og þá fylgismenn þessa frv. hér á þinginu sem hafa þorað að gefa sig upp í pontunni hvaða áhrif frv. muni hafa á fjölbreytni í fjölmiðlum, á hag fjölmiðlanna, á fjölda þeirra. Það fást engin svör. Menn forðast að svara þessari spurningu, hafa forðast að svara henni frá mér og öðrum sem vinna á þinginu, frá þeim sem spyrja úti í samfélaginu, utan þings, og forðast að svara eðlilegum spurningum erlends fjölmiðlafræðings sem vinnur hjá stofnuninni Freedom House í Bandaríkjunum. Karin Karlekar segir enn fremur þetta:

,,Rannsókn Freedom House á frelsi fjölmiðla gerir ráð fyrir því að of mikil samþjöppun í fjölmiðlaumhverfi geti dregið úr frelsi fjölmiðla og rétti fólks á fjölbreyttu flæði upplýsinga.``

Síðan bætir hún við:

,,Of strangur lagarammi varðandi eignarhald getur þó án efa haft sömu neikvæðu áhrif.``

Karin bendir samkvæmt frétt Fréttablaðsins á það að samkvæmt mati Freedom House, því sem ég talaði um hér áðan, hafi fjölmiðlar á Íslandi búið við eins mikið frelsi og mögulegt er og því sé líklega ekki jafnmikil þörf á að setja lög um eignarhald á fjölmiðlum og látið hefur verið í ljós. Hún segir líka, með leyfi forseta, ,,mjög líklegt að Ísland hrapi úr efsta sæti yfir þjóðir þar sem mesta fjölmiðlafrelsi ríkir ef lögin verða að veruleika.``

Þótt ég sé auðvitað ekki skárri í því en flestir aðrir, hafi gaman af að sjá hvað útlendingar segja um okkur og sé svolítið hégómagjarn gagnvart því sem kemur utan úr hinum stóra heimi les ég þetta samt ekki þess vegna, heldur vegna þess að niðurstaða Karinar Karlekar, sem ég þekki ekki neitt, af skoðun þessa frv. --- væntanlega er sú skoðun ekki mjög mikil heldur einhvers konar yfirlit en þessi stofnun þekkir sem sé til gangs mála á Íslandi og í fjölmörgum öðrum ríkjum --- er sú sama og lesa má úr flestum þeim álitum sem þetta varðar sérstaklega og allshn. hefur fengið. Hún er líka sú sama og hér hefur fengist í umræðunni á opinberum vettvangi síðustu vikurnar, að undanteknum nokkrum mönnum sem aðra skoðun hafa og ég rek kannski aðeins á eftir.

Mig langar að hefja hina eiginlegu umfjöllun mína um þetta á því að lesa úr áliti sem áður hefur verið lesið úr, Þorbjarnar Broddasonar, sem er prófessor við háskólann og er einn af okkar fremstu fjölmiðlafræðingum. Reyndar verður að taka fram að í því áliti sem hann sendi allshn. lýsti hann sig fúsan að ganga á fund allshn. ef hún svo óskar, sem er kurteislegt orðalag um það að hann vilji afar gjarnan koma sjónarmiðum sínum munnlega á framfæri við nefndina. Allshn. gat ekki orðið við þeim óskum að kalla á Þorbjörn Broddason sem hér hefur í 30--40 ár verið frumkvöðull í félagsfræði og er í raun og veru fyrsti fjölmiðlafræðingur þjóðarinnar.

Hann segir í umfjöllun sinni að sú greinargerð sem menntmrh. Tómas Ingi Olrich bað um að tekin yrði saman sé mjög fróðleg og það sé gagnlegt að taka saman slíka greinargerð um eignarhald á fjölmiðlum. Hann segir, að hún muni, með leyfi forseta:

,,... ásamt öðrum gögnum, reynast hinn þarfasti grundvöllur umræðunnar. Að þessu sögðu skal því bætt við að fátt eða ekkert bendir til þess að þörf sé á skyndilöggjöf til að bregðast við ástandinu. Við höfum allt að vinna og engu að tapa á yfirvegaðri málsmeðferð.``

Aftar í greinargerð sinni vitnar hann í upphaf athugasemda sem fylgja frv. og vitnar í orð um lykilhlutverk fjölmiðla í nútímalýðræðisþjóðfélagi, eins og það er orðað í texta frumvarpsflytjendanna:

,,Fjölmiðlar gegna lykil... `` Nei, fyrirgefið, ég held reyndar að nútímalýðræðisþjóðfélag komi ekki fyrir í texta frumvarpsflytjendanna. Mig minnir hins vegar að nútímalýðræðisþjóðfélagið komi fyrir í áliti meiri hluta allshn. og var kímt nokkuð í salnum í gær eða fyrradag þegar frá því var sagt hér í stólnum. En í athugasemdunum með frv. er þessi texti hér, með leyfi forseta:

,,,,Fjölmiðlar gegna lykilhlutverki sem vettvangur ólíkra viðhorfa til stjórnmála, menningar og samfélagslegra málefna í víðum skilningi. Þeir eru því mikilvæg forsenda þess að einstaklingar fái notið tjáningar- og skoðanafrelsis.`` Ekkert er ofsagt þarna,`` segir Þorbjörn. ,,Frumvarpið er sagt byggt á því að íslensk löggjöf eigi að vernda aðgang almennings að fjölbreyttum, sjálfstæðum og öflugum fjölmiðlum.``

Áfram segir Þorbjörn Broddason, með leyfi forseta:

,,Verði frumvarpið að lögum óbreytt er eigi að síður hætt við að skammtímaafleiðingar þess verði ekki aðeins þveröfugar, heldur jafnframt svo róttækar að aldrei muni reyna á megin frumvarpsins til að ná því markmiði ,,að fjölbreytni í fjölmiðlum sé nægilega tryggð hér á landi til lengri tíma litið`` svo aftur sé vitnað til athugasemda við frumvarpið.``

Það er eins og Þorbjörn og Karin Karlekar vinni hlið við hlið, en það gera þau ekki. Þorbjörn er hér uppi á Melum og Karin Karlekar er að ég hygg í borginni Washington í Bandaríkjunum. Þau segja samt nákvæmlega það sama, að það sé hætt við því að tilgangur frv. náist ekki, heldur verði skammtímaafleiðingar þess ekki aðeins þveröfugar við það sem til er ætlast, heldur svo róttækar að aldrei muni reyna á kraft frv. til að tryggja fjölbreytni í fjölmiðlum sem þýðir á mannamáli að fjölbreytnin breytist í fábreytni.

Þorbjörn segir svo síðar í texta sínum að niðurstaðan gæti orðið sú, með leyfi forseta:

,,... að fátæklegra verði um að litast á vettvangi íslenskra fjölmiðla; þeir verði færri og veikari eftir en áður og starfsfólk þeirra óöruggara um sinn hag. Ef ég hugsa mér að litið sé yfir sviðið svo sem ári eftir samþykkt laganna freistast ég til að grípa til klisjukenndrar samlíkingar: Uppskurðurinn heppnaðist en sjúklingurinn dó. Gjaldþrot eins eða fleiri einkarekinna fjölmiðla í kjölfar þeirrar uppstokkunar, sem frumvarpið krefst, hefur ekki endilega í för með sér eflingu þeirra miðla sem eftir lifa. Vaxandi atvinnuleysi í starfsgreininni spillir starfsanda og skapar óvissu, einnig meðal þeirra sem enn halda vinnu sinni. Vissulega getur þessi svartsýni mín orðið sér til skammar, en ég hef ekki síst í huga að nú lifa 15 einkareknar hljóðvarpsstöðvar af 41 sem stofnuð hefur verið frá árinu 1986; ekki færri en fjögur dagblöð hafa kvatt okkur á fáum árum; fjórar sjónvarpsstöðvar hafa hætt starfsemi frá 1997; allir fjölmiðlar Norðurljósasamsteypunnar römbuðu á barmi gjaldþrots til skamms tíma og Ríkisútvarpið er rekið með stöðugum halla. Loks dylst engum að Morgunblaðsmenn eiga á brattann að sækja þessi missirin.``

Þetta eru orð Þorbjarnar Broddasonar um það frv. sem hér um ræðir. Þau eru athyglisverð í sjálfu sér af þeim ástæðum sem ég áður hef rakið. Þau eru líka athyglisverð fyrir okkur sem erum að skapa þingsögu hér síðustu daga vegna þess að í umræðunni um fjölmiðlaskýrsluna seint að kvöldi í lok aprílmánaðar kom í ræðustól hv. þm. Halldór Blöndal, sem hér er því miður fjarstaddur, en hefur komið við sögu í þessari umræðu með ýmsum hætti. Hann vitnaði sérstaklega í Þorbjörn Broddason, í frétt sem höfð var af viðtali við hann --- ég man ekki í hvorum Baugspappírsmiðlinum en ég hygg að rétt hafi verið í Þorbjörn vitnað þó að alkunna sé, eins og menn vita af orðum hæstv. forsrh., að blaðamenn og starfsmenn hjá Norðurljósum séu, með leyfi forseta, ,,gersamlega misnotaðir af eigendum sínum``. Svo smekklega komst hæstv. forsrh. vor að orði í hádegisfréttum í gær. Hv. þm. Halldór Blöndal vitnaði til þeirra orða Þorbjarnar Broddasonar að hann gyldi varhuga við þeirri stöðu sem uppi væri í eignarhaldi í einkamiðlunum eða markaðsmiðlunum íslensku, þeirri stöðu að Baugur ætti stóran hlut í Norðurljósum sem réðu Stöð 2, Fréttablaðinu og Dagblaðinu.

[14:45]

Ég fór þá upp, forseti, í stólinn á eftir þessari ræðu Halldórs Blöndals og varaði hann við því að gera alla að bandamönnum sínum í kringum þetta frv. sem hefðu þessa skoðun. Svo vildi til að ég væri sjálfur sömu skoðunar, gyldi sjálfur varhuga við þeirri stöðu sem upp væri komin með eignarhaldi Norðurljósa og þeirri þrenningu sem þar er nú innan borðs og teldi ástæðu til að íhuga þá stöðu og bregðast einhvern veginn við henni. Ég var því miður ekki með þetta viðtal við Þorbjörn Broddason þá en rakst síðar á það og komst þá að því að hv. þm. Halldór Blöndal, 2. þm. Norðaust., hafði ekki lesið nema hálfa setningu. Þorbjörn Broddason sagði --- þetta er að vísu eftir minni --- í þessu viðtali að hann gyldi varhuga við þeirri stöðu sem upp væri komin o.s.frv. en hefði miklar efasemdir um að það frv. sem nú lægi frammi næði tilgangi sínum og óttaðist að það hefði þveröfug áhrif við það sem til væri ætlast. Þessu sleppti hv. þm. Halldór Blöndal af einhverjum ástæðum eða þá að hann hefur hreinlega ekki komist yfir að lesa lok málsgreinarinnar í gleði sinni yfir því að þarna birtist honum úr háskólanum, úr fjölmiðlafræðinni, bandamaður gegn veldi hins illa, sem á Íslandi líkamnast í Baugi og Jóni Ásgeiri Jóhannessyni, kannski þeim feðgum báðum, hjá ákveðnum hluta ráðamanna í Stjórnarráðinu.

Ég ætla næst að víkja aðeins að umsögn Ólafs Þ. Harðarsonar sem skrifar allshn. sem prófessor í stjórnmálafræði og forseti félagsvísindadeildar Háskóla Íslands. Erindi hans til allshn. er að svara því að félagsvísindadeild treysti sér ekki til umsagnar, m.a. vegna þess knappa tíma sem til ráðstöfunar var. Hann segir að honum hafi borist erindið deginum áður, bréfið er skrifað 7. maí, en svars sé óskað þann sama dag. Bréf barst 6. maí og svars var óskað 7. maí. Jafnvel harðduglegur maður með sína deild eins og Ólafur Þ. Harðarson treysti sér ekki til að gefa umsögn á þeim tíma. Hann svarar allshn. þó í nokkrum atriðum og segir að málið sem um ræðir sé bæði mikilvægt og viðkvæmt, með leyfi forseta:

,,Frumvarpið felur í sér takmarkanir á þremur grundvallarmannréttindum sem stjórnarskráin tryggir: tjáningarfrelsi, atvinnufrelsi og eignarrétti. Löggjafanum ber að sýna fyllstu varkárni þegar hann beitir heimildum sínum til slíkra takmarkana og umfram allt tryggja vandaða málsmeðferð.``

Þetta segir Ólafur Þ. Harðarson. Þetta eru ráð forseta félagsvísindadeildar Háskóla Íslands til alþingismanna þegar þeir fara í gegnum þetta frv. Hann segir líka neðar í bréfinu, án þess að taka afstöðu til frv. sjálfs, að fjölmiðlanefndin bendi í skýrslu sinni á að markmið löggjafar sé að tryggja fjölbreytni á fjölmiðlamarkaði. Til þess séu margar leiðir, segir Ólafur, telji menn nauðsynlegt að ríkið hafi þar afskipti. Síðan kemur þetta, með leyfi forseta:

,,Sú leið sem farin er í frumvarpinu gengur mjög langt. Nauðsynlegt er að greina vandlega hvaða háski kann að fylgja henni og jafnframt að skoða kosti annarra leiða, t.d. þeirra sem nota einhvers konar hlutdeild af fjölmiðlamarkaði (t.d. áhorf eða útbreiðslu) sem viðmiðun.``

Dr. Ólafur Þ. Harðarson tjáir það kurteislega en honum líst ekkert á það sem er að gerast. Þó að hann treysti sér ekki til að semja sjálfur eða láta deild sína eða samstarfsmenn í deildinni samþykkja einhvers konar umsögn vill hann taka það fram í svarbréfi sínu að hann vari við því sem hér er að gerast. Hann biður menn að kanna vandlega hvaða háski kunni að fylgja því sem menn eru hér að leggja út í.

Ég ætla í þriðja lagi, forseti, að vitna í texta sem ekki er álit. Allshn. --- formaður hennar, hv. þm. Bjarni Benediktsson, er nú genginn í salinn --- láðist, gleymdi eða datt aldrei í hug að boða til fundar við sig einn fremsta fjölmiðlafræðing á Íslandi, Herdísi Þorgeirsdóttur. Þess vegna hefur hún ekki skilað neinu áliti til allshn. Hins vegar skrifaði allshn. bréf til Háskólans á Bifröst og hann svaraði því bréfi. Það var eins og áður, bréfið barst sama dag og álitið átti að skila sér til baka. Við slíkum kröfum er ákaflega erfitt fyrir menn að verða, sérstaklega þegar menn vinna í háskólaumhverfi. Menn vilja þar ekki einungis vegna mannkosta sinna vanda mál sitt og vinna sín verk af prýði, heldur er þeim beinlínis skylt að gera það. Þeir væru reknir ella úr starfi, og með réttu, og þannig gat Háskólinn á Bifröst ekki uppfyllt þær kröfur og sendi allshn. það svar einfaldlega en tekur jafnframt fram að ef hann hefði gert það hefði Herdís Þorgeirsdóttir verið til þess sett.

Herdís Þorgeirsdóttir var hins vegar að beiðni okkar ein af þeim sem sluppu í gegnum nálarauga hv. þm. Gunnars Birgissonar, formanns menntmn., og fékk að koma og ræða við okkur í menntmn. í morgun. Hún var bara ein af sex sem boðaðir voru til fundarins og raðað var upp saman við borðsendann. Fundurinn stóð, eins og hv. þm. Gunnar I. Birgisson sagði okkur fyrr í dag, í rúma tvo tíma. Bæði vegna tímalengdarinnar og fundarformsins gafst lítið ráðrúm til þess að tala við menn af viti og upplýsingarnar urðu að vera í formi stuttra ávarpa. Herdís sagði í afar stuttu máli að þetta væri hápólitískt mál, bæri öll þess merki og að ekki hefði verið unnið að því á fræðilegan hátt út frá sjónarhóli lögfræði eða fjölmiðlafræði. Það væri klárt að á grundvelli Evrópuráðsins og Evrópusambandsins væri ótvíræð heimild um eignarhald á fjölmiðlum, sem enginn út af fyrir sig hefur efast um. Hún sagði að í Evrópusambandinu hefði á miðjum tíunda áratugnum verið reynt að koma á samræmdri löggjöf en það hefði þá ekki tekist. Það væri viðurkennt í bæði bandarískum rétti sem hún þekkir allvel og í evrópskum fræðum að fjölmiðlarnir eru stofnanir engum öðrum líkar og þess vegna eigi að gilda um þá sérstök lögmál, t.d. umfram venjulegar viðskiptareglur Samkeppnisstofnunar.

Það er samhljóða því sem við í Samf. höfum haldið fram og þess vegna flutt hér í vetur tvö frv. um endurbætur á fjölmiðlarétti sem ganga þó hvergi nærri að rótum fjölmiðlagróðurs okkar eins og það frv. sem hér er um rætt. Það er einmitt hluti af hinum vægari aðgerðum, í raun og veru hinum betri aðgerðum sem taldar eru t.d. fram í grein Páls Þórhallssonar og víðar og er stuðst við í Evrópurétti. Herdís segir að takmörkun á eignarhaldi sé auðvitað ekki brot á fjórfrelsinu eða mannréttindaákvæðunum í sjálfu sér en í Evrópurétti sé tiltekið að við slíkar takmarkanir verði að taka tillit til smæðar markaðarins og lögin megi ekki hindra vöxt í fjölmiðlum. Síðan sagði þessi ágæti fræðimaður og fyrrverandi ritstjóri prýðilegs og á sínum tíma mjög vinsæls mánaðarrits --- hygg að það hafi verið Heimsmynd --- að ákvæði í brtt. meiri hluta allshn. um 5% þak á eignarhlut markaðsráðandi fyrirtækja væri, með leyfi forseta, ,,bara grín`` sagði Herdís Þorgeirsdóttir um þá frábæru tillögu allshn. undir forustu hv. þm. Bjarna Benediktssonar sem nú arkar hér um salinn í vandræðum. Honum er órótt vegna þessa máls alls. Bara grín var sagt um það. Málamyndahlutur sem gengur ekki, voru orð Herdísar Þorgeirsdóttur um þessa góðu brtt. hv. þm. Bjarna Benediktssonar, sem hv. þm. Bjarni Benediktsson sótti sér á borð ríkisstjórnarinnar, þ.e. hún hraut af borði hinna tveggja turna í ríkisstjórninni, fráfarandi og viðtakandi hæstvirtra forsætisráðherra, til hv. þm. Bjarna Benediktssonar, og hann kom svo með eftir kvöldmat eitt kvöldið sem frægt er.

Það er bara grín. Málamyndahlutur sem gengur ekki.

Það sem Herdís segir --- er þó alveg ljóst að hún telur heppilegt að almennt, og líka á Íslandi, sé harðari löggjöf en við ýmis önnur viljum --- líka er að fjölræði í eignarhaldi tryggi ekki endilega fjölbreytni í skoðanamótun. Orðrétt, með leyfi forseta, frá því á fundinum í dag:

,,Fjölræði í eignarhaldi tryggir ekki endilega fjölbreytni í skoðanamyndun.``

Það sem Herdís segir er að sjálfsagt sé að setja lög um eignarhald með einhverjum hætti, þá megi hins vegar ekki skekkja markaðinn, þ.e. hér verði þá að taka á málefnum Ríkisútvarpsins í leiðinni og tryggja gagnsæi, og ritstjórnarlegt sjálfstæði verði að fylgja í þessum aðgerðum. Síðan bætir hún við að einnig verði sérstaklega að huga að því --- ekki gafst tími til að spyrja hana með hvaða hætti það ætti að vera --- að reyna að verja fjölmiðlana og starfsfólk þeirra gegn ásókn bæði pólitískra og viðskiptalegra hagsmuna.

Það vill til að auk þess að hafa hitt hana hér í dag átti ég í fórum mínum minnispunkta frá fyrirlestri sem hún flutti fyrir ári eða tæplega það. Ég man það, forseti, vegna þess að þetta var rétt eftir kosningar og auk fyrirlestrar Herdísar var pallborð þar sem m.a. sat Styrmir Gunnarsson sem var líka á fundi menntmn. í dag. Það var ákaflega gaman að sjá hann og aðra sem þar voru. Þar sátu saman fulltrúar hefða og nýjunga á blaðamarkaði, Styrmir Gunnarsson og Gunnar Smári Egilsson, hlið við hlið. Styrmir var að fara í pallborðið og ég spurði hann sérstaklega um álit hans á því hvers vegna Morgunblaðið hefði hagað sér misjafnlega við tvo frambjóðendur í kosningunum sem þá voru nýháðar, annars vegar frambjóðandann Ellert Schram sem skrifaði mannlífspistla í sunnudagsblað Morgunblaðsins og var úthýst úr blaðinu þegar í ljós kom að hann hugðist sitja í 6. sæti á framboðslista Samf. í Reykv. n. og hins vegar frambjóðandann Björn Bjarnason sem skrifaði pólitískar kjallaragreinar í miðopnu Morgunblaðsins vikulega og gerir hygg ég enn. Ég rekst a.m.k. stundum á hann þegar ég opna Morgunblaðið á sunnudögum, eða eru það laugardagar? Ég veit það ekki. Björn fékk sem sagt að vera. Styrmir svaraði þessari spurningu og brást nokkuð hvasst við og þess vegna man ég þetta. Maður man stundum hluti út frá því sem gerist í eigin lífi frekar en því sem er miklu merkilegra fyrir aðra, og sem þarna var auðvitað fyrirlestur Herdísar.

[15:00]

Þar hlýt ég að hafa náð mér í inngang eða einhvern hluta af inngangi, blað sem ég á hér frá henni, úr doktorsritgerð hennar. Ég ætla að flytja hann hér í hráþýðingu en þar er einmitt útgáfa af því að fjölræði í eignarhaldi tryggi ekki endilega fjölbreytni í skoðanamótun. Þar segir að samkeppnislög, reglur um krossmiðlun, þ.e. sameign útvarps og dagblaðs, og aðgerðir gegn samþjöppun virðist ekki vera nægileg lagaráð við ýmsum vanköntum eða göllum í fjölmiðlum þar sem þetta sem hér var nefnt tryggir ekki nægilega fjölbreytni í skoðunum eða sjónarmiðum. Þótt eignarhald sé takmarkað geta starfshættir á hverjum miðli áfram mótast af aðstæðum sem vinna gegn rannsóknarlegri blaðamennsku. Á ensku talar hún um ,,investigative journalism`` sem ég þori ekki að þýða sem rannsóknarblaðamennsku en menn geta þá gert það ef þeir vilja. Fjölræði í eignarhaldi er vissulega skref í þá átt að tryggja fjölbreytni í dagskrárframboði. Ég tek undir með henni að það sé eðlilegt að reyna að stefna að fjölræði í eignarhaldi. Það tryggir hins vegar ekki ritstjórnarlegt sjálfstæði. Ef ritstjórnarlegt sjálfstæði er á hinn bóginn tryggt, segir doktor Herdís Þorgeirsdóttir, má gera ráð fyrir því að fjölbreytt sjónarmið komi fram í hinum einstöku miðlum, jafnvel þótt eignarhaldið sé hið sama.

Þetta er merkilegur texti og það þarf fræðimann til að bregða honum upp. Hann fellur ekki að hefðbundinni skoðun í þessu efni, t.d. skoðun sem hefur verið nokkuð hefðbundin og áleitin hjá okkur sem erum til vinstri í pólitísku litrófi og höfum, að ég held, um of einblínt á áhrif eignarhaldsins á alla hluti. Á öldinni sem leið var uppi sú kenning að á flestum framleiðslutækjum ætti að vera sameiginlegt eignarhald, sem sé meiri áhersla lögð meðal jafnaðarmanna á eignarhald en í nútímanum sem er í fyrsta lagi öðruvísi en fortíðin og í öðru lagi þannig lagaður að skoðanir manna hafa breyst og mótast í smiðju reynslunnar. Nú höfum við ekki lengur þessar grimmu skoðanir og það er fróðlegt að Herdís, sem leggur mikla áherslu á lög um eignarhald, takmarkanir á eignarhaldi sem ráð við sjúkdómum sem upp koma í fjölmiðlaumhverfinu, segir þetta. Annars vegar segir hún að fjölræði tryggi ekki ritstjórnarlegt sjálfstæði og hins vegar að ef hægt er að tryggja ritstjórnarlegt sjálfstæði með einhverju móti megi gera ráð fyrir því að miðlarnir beri með sér fjölbreytt sjónarmið, jafnvel þótt eignarhaldið sé hið sama. Hér er auðvitað engin ósk um að eignarhaldið sé hið sama en hún heldur því fram að ritstjórnarlegt sjálfstæði skipti meira máli en eignarhaldið þegar til stykkisins kemur.

Ég ætla ekki að rekja Herdísi lengra, enda hef ég ekki farið í gegnum fræði hennar. Sá galli er við fræðimennsku hennar --- það má gjarnan berast henni héðan --- að hún er ekki nægilega aðgengileg á íslensku. Ég hygg að Herdís og aðrir, félagar hennar á Bifröst og í fræðaheiminum, eigi eftir að koma kenningum hennar fram á aðgengilegri hátt en nú er því þær eru vissulega merkar. Hún hefur t.d. haft hugmyndir um að lögvernda starfsheitið blaðamaður, hygg ég án þess að fara að fullyrða um of, sem blaðamenn ýmsir hafa ekki verið hrifnir af. Það er í framhaldi af þeirri hugsun Herdísar að ritstjórnarlegt sjálfstæði sé það sem mestu máli skiptir, ekki fyrir þá sem því eiga að beita, og ekki sem hefnd gegn eigendunum, heldur til að tryggja rétt almennings. Það er réttur almennings, hagur samfélagsins af fjölmiðlum sem er markalína okkar. Það er ekki eini tilgangur fjölmiðlunar en það er markalína okkar stjórnmálamanna sem erum að fjalla um fjölmiðlun og reyna að setja henni reglur. Við eigum hins vegar ekki að skipta okkur af því sem menn kunna að hafa gaman af eða gagn eða þurfa að gera í fjölmiðlun, það er þetta sem við eigum að hugsa um og á þessum slóðum er Herdís.

Ég er ekki langt kominn í ræðu minni, forseti, og þarf að taka nokkuð strangt á til að halda henni áfram. Ég er hér í þriðja álitinu sem ég var með og ansi mörg eru eftir.

Ég ætlaði næst að lýsa viðhorfum Blaðamannafélagsins. Þau koma fram í bréfi frá framkvæmdastjóra þess til allshn. Þar er auðvitað vitnað sérstaklega í ályktun sem samþykkt var á aðalfundi Blaðamannafélagsins fyrir nokkrum dögum, 26. apríl, þar sem fundurinn lýsir harðri andstöðu við frv. ríkisstjórnarinnar um eignarhald á fjölmiðlum og segir, með leyfi forseta, að ,,verði það að lögum munu strangari reglur gilda um slíkt eignarhald hér á landi en í flestum viðmiðunarlöndum okkar.``

Eins og margir vekja athygli á erum við með þessu frv. á leiðinni úr einhverju frjálslegasta fjölmiðlaumhverfi í heimi inn í reglur sem hvað eignarhald varðar eru strangari en víðast hvar í kringum okkur. Blaðamenn segja einnig í ályktun sinni, með leyfi forseta:

,,Með frumvarpinu er starf hundruða manna sett í uppnám og lífsviðurværi þúsunda í óvissu. Blaðamannafélagið hvetur alþingismenn til að taka málið til ítarlegrar skoðunar, ábyrgð þeirra er mikil, enda getur frumvarpið ef það verður að lögum leitt til þess að fjöldi manna missi vinnu sína.``

Þetta er nú skelfilegt auðvitað sem þeir hafa þegar sagt, sérstaklega í því ljósi sem í þessari ræðu er beint að frv. Síðan segja samt blaðamenn, með leyfi forseta, og það er sérlega athyglisvert:

,,Frumvarpið, eins og það liggur fyrir, er til þess fallið að draga úr mætti frjálsra fjölmiðla á Íslandi ...`` --- Ég bið hv. þm. Pétur Blöndal að taka eftir þessari setningu --- ,,... að draga úr mætti frjálsra fjölmiðla á Íslandi og skerða möguleika þeirra til framþróunar. Það veikir þessa fjölmiðla fjárhagslega, sem leiðir til þess að þeir verði vanmáttugri í gagnrýnni umfjöllun um málefni samfélagsins og síður líklegir til að veita valdhöfum nauðsynlegt aðhald.``

Af því að þingheimur hefur ýmislegt að gera ætla ég að gefa honum kost á að heyra aftur þetta álit Blaðamannafélags Íslands á frv. hæstv. forsrh.:

,,Frumvarpið, eins og það liggur fyrir, er til þess fallið að draga úr mætti frjálsra fjölmiðla á Íslandi og skerða möguleika þeirra til framþróunar. Það veikir þessa fjölmiðla fjárhagslega, sem leiðir til þess að þeir verði vanmáttugri í gagnrýnni umfjöllun um málefni samfélagsins og síður líklegir til að veita valdhöfum nauðsynlegt aðhald.``

Blaðamenn á aðalfundi sínum segja hér það sama og aðrir sem ég hef vitnað í, að ekki sé einungis sennilegt að frv. nái ekki tilgangi sínum og markmiði, heldur vinni beinlínis gegn þeim tilgangi og þeim markmiðum sem því eru sett af flm. og stuðningsmönnum ýmsum sem þora að færa einhver önnur rök að stuðningi sínum en þau að nú sé að koma 15. september.

Blaðamenn segja enn fremur sem að vísu skiptir minna máli fyrir sjónarhorn okkar en er engu að síður gott og hollt fyrir alþingismenn að hafa með í farteski sínu að það sé ótækt ,,að frumvarp, sem getur haft svo víðtæk áhrif á afkomu fjölda fólks og fyrirtækja, fái ekki vandaðri undirbúning en raun ber vitni og vandséð er hvernig slík vinnubrögð geti samrýmst lýðræðislegum háttum. Aðalfundurinn hvetur til málefnalegrar umræðu í samfélaginu um eignarhald á fjölmiðlum með mögulega lagasetningu í huga, en efnisatriði fyrirliggjandi frumvarps munu tæplega fá viðunandi umræðu á opinberum vettvangi eigi að samþykkja það sem lög fyrir þingfrestun í vor``. --- Hefur aðalfundur Blaðamannafélags Íslands sjaldan komist skýrar og betur að orði.

Á eftir þessu áliti blaðamanna ætla ég að vitna aðeins í ályktun sem hér hefur líka verið minnst á, frá Félagi fréttamanna. Félag fréttamanna er ekki stéttarfélag eða fagfélag þeirra sem fást við fréttir, eins og ætla mætti, heldur félag sem stofnað er innan Bandalags háskólamanna vegna þess að bandalagið þarf að hafa félag til að semja við ríkið fyrir hönd starfsmanna á fréttastofum Ríkisútvarpsins. Margir fréttamenn á Ríkisútvarpinu eru í Blaðamannafélaginu. Það er upp og ofan vegna þess að það er ekki samningstæknilegt stéttarfélag þeirra en þeir hafa hins vegar þá sérstöðu að vera starfsmenn Ríkisútvarpsins, starfsmenn keppinautar Stöðvar 2, sem margir hafa sagt að frv. sé einkum stefnt gegn, ásamt öðrum miðlum í eigu Norðurljósa.

Jón Gunnar Grjetarsson, formaður félagsins, skrifar fyrst bréf þegar hann fær erindi allshn. 7. maí 2004 og segir þetta um málsmeðferðina, með leyfi forseta:

,,Stjórn Félags fréttamanna lýsir furðu sinni á þeim mikla hraða sem viðhafður er við afgreiðslu á fjölmiðlafrumvarpi ríkisstjórnarinnar. Það er lágmarkskrafa að gefinn sé góður tími til að ræða og fara yfir svo margslungið mál sem fjölmiðlafrumvarpið tekur á. Það snertir ýmsar grundvallarspurningar um þjóðfélag okkar í framtíðinni --- um atvinnufrelsi, tjáningarfrelsi, eignarhald, leikreglur á fjölmiðlamarkaði, atvinnuöryggi hundruða manna o.fl. Stjórn Félags fréttamanna telur fráleitt að ætla að afgreiða frumvarpið á yfirstandandi þingi án fullnægjandi umræðu þjóðar og þings. Stjórnin lýsir undrun sinni á því hvers vegna allsherjarnefnd Alþingis hefur ekki leitað eftir áliti og umsögn Félags fréttamanna um frumvarpið.``

Fyrirgefið, þetta var einmitt þannig að allshn. sendi stjórninni ekki erindi, heldur bað Félag fréttamanna um að fá að gefa umsögn.

Það er að vísu misskilningur hjá Félagi fréttamanna, svona í framhjáhlaupi, því að í þingsköpum okkar --- ég veit ekki betur en að það ákvæði sé virkt því ekki eru öll ákvæðin í þingsköpum jafnvirk eins og hv. þm. Pétur Blöndal getur vel borið vitni um. Hann skoðaði þingsköpin í vetur, sem kunnugt er, og athugaði hvað af þeim væri virkt og hvað ekki. Við t.d. komumst í sameiningu að því í spjalli okkar að sennilega væri 53. gr. þingskapanna ekki mjög virk en hún gerir ráð fyrir því að þingmenn sæki alla þingfundi nema fyrirspurnafundi og boði forföll ella en ég sé það hér í salnum að þótt margir séu auðvitað viðstaddir eru ekki allir viðstaddir. Sennilega hafa ekki allir þeir sem ekki eru viðstaddir boðað forföll. (Gripið fram í: Og ekki margir mættir.) Margir góðir, hér er mjög góðmennt hvað sem fjöldanum líður og á það bæði við um forsetastólinn, stað starfsmanna og þá hv. þm. sem hér eru staddir.

Hins vegar má auðvitað spyrja hvað valdi forföllum hjá þeim sem sitja eiga í þeim bekkjum sem hér eru lagðir í norðurhlið húss þess sem við stöndum í og hefur verið aðsetur Alþingis frá árinu 1881. Mér til hægri handar eru sex stólar auðir og til vinstri handar forsetastóli eru líka sex stólar auðir. Þótt ég sakni kannski ekki mjög þessara ráðherra væri vissulega við hæfi að hér væru tveir þeirra, annars vegar hæstv. menntmrh. sem ætti að sitja hér með vit sitt og þokka og hins vegar hæstv. forsrh. sem ætti að sitja hér nálægt okkur með vit sitt og sinn sérstaka þokka. (Gripið fram í.) Af þessu tilefni spyr ég forseta hvort þessir hæstv. ráðherrar hyggist taka þátt í umræðum hér í dag eða hlýða á þær, eins mikla áherslu og þeir leggja á að þetta mál sé vel rætt og rækilega í þinginu og eins mikla áherslu og þeir hafa lýst yfir að þeir leggi á að gefa allar upplýsingar sem eftir er leitað og taka þátt í rökræðum og samræðum um það frv. sem þeir hyggjast setja í gegnum þingið á þremur vikum við afar hávær mótmæli sem ég hef hér minnst örlítið á. Núna síðast las ég upp úr bréfi frá Jóni Gunnari Grjetarssyni, formanni stjórnar Félags fréttamanna. Hefur hæstv. forseti gert ráðstafanir til þess að ráðherrarnir komi eða hefur hún látið þau vita að hér sé í gangi framhald 2. umr. um fjölmiðlafrumvarpið svokallaða sem á að verða að Davíðslögum og er þar með kennt við annan þeirra hæstv. ráðherra sem um er að ræða? (PHB: Málið er í höndum Alþingis ...)

(Forseti (ÞBack): Forseti vill upplýsa að það hefur ekki verið kallað á hæstv. ráðherra sérstaklega núna inn í salinn. Forseti telur þó mjög líklegt að viðkomandi ráðherrar viti af þessari umræðu hér í dag.)

Ég tel þetta næg svör. Forseti telur að þau viti það bæði, hæstv. menntmrh. og forsrh., að hér fari fram framhald 2. umr. um þetta mikla áherslumál íslensku ríkisstjórnarinnar og sérstaklega þeirra ráðherra tveggja, menntmrh. sem ekki flytur þó málið af einhverjum ástæðum, og forsrh. sem flytur málið af einhverjum ástæðum, kannski þeim að þetta er eitt af síðustu málum um fjölmiðlun sem hann á kost á að flytja sem forsrh. áður en þingi lýkur og upp rennur í haust eftir gróðurríkt og veðursælt sumar hinn mikli dagur 15. september sem í íslenskri sögu, framtíðarsögu, er farinn að taka á sig nánast þjóðsagnakenndan svip.

[15:15]

Forseti. Ég ætla næst að lesa úr sjálfri umsögn stjórnar Félags fréttamanna um það mál sem hér er um að ræða. Það var sent allshn. Alþingis 10. maí, reyndar eftir að fyrsti frestur var settur um þetta mál:

,,Stjórn Félags fréttamanna fagnar skjótum viðbrögðum allsherjarnefndar (starfsmanns) við ályktun stjórnar um fjölmiðlafrumvarp ríkisstjórnarinnar sem send var nefndinni síðdegis á föstudag. Félaginu var þá boðið að senda umsögn um frumvarpið fyrir klukkan 16.00 í dag, mánudag. Þrátt fyrir góðan vilja stjórnarmanna tókst þeim ekki yfir helgina að gera allt í senn; lesa fjölmiðlaskýrslu fjölmiðlanefndar,`` --- sem er 113 síður í þeirri útgáfu sem við höfum hér fyrir framan okkur þar sem hún er fylgiskjal við frv. forsrh., fjölmiðlafrumvarpið svokallaða --- ,,rýna vel í sjálft frumvarpið, renna í gegnum stjórnarskrána, lesa vel samþykktir EES um fjölmiðla, kynna sér mannréttindasáttmála SÞ og skýrslu Evrópuráðsins (sérstaklega greinarnar sem fjalla um fjölmiðla), kafa ofan í útvarpslögin, fletta upp dómsmálum sem snerta prent- og tjáningarfrelsi, gaumgæfa lög og reglugerðir um samkeppnismál, atvinnufrelsi og rétt vinnandi manna o.s.frv. Okkur gafst heldur ekki tími til að leita ráða hjá fróðu fólki um hin ýmsu atriði frumvarpsins. Aldrei reyndi því á smáatriði eins og að samræma skoðanir stjórnarmanna og koma áliti og umsögn á skiljanlegt mál. Með öðrum orðum, stjórnin ítrekar furðu sína á þeim ógnarhraða sem viðhafður er við afgreiðslu frumvarpsins. Það er lágmarkskrafa að gefinn sé góður tími til að ræða og fara yfir svo margslungið mál sem fjölmiðlafrumvarpið tekur á. Metnaður stjórnar Félags fréttamanna er meiri en svo að hún kæri sig um að senda frá sér efnislega umsögn á svo mikilvægu máli í tímahraki. Sú umsögn stæðist ekki kröfur okkar um vönduð og fagleg vinnubrögð.``

Hér misstu þingmenn af því að fá efnislega umfjöllun frá fréttamönnum á Ríkisútvarpinu, þeirri fréttastofu landsins sem ég hygg að búi við hvað mesta hefð. Hún er sennilega sjálfstæðasta fréttastofa landsins, þ.e. önnur þeirra, fréttastofa útvarpsins, og er a.m.k. sú fréttastofa sem skipuð er --- ég veit ekki hvort Morgunblaðið mundi ráða við það --- reyndustu og menntuðustu fréttamönnunum. Það var sorglegt.

Starfsmannasamtök Ríkisútvarpsins hins vegar treystu sér til þess og höfðu það af að senda eins konar umsögn þrátt fyrir bréf til allshn. frá 7. maí, þessum títtnefnda föstudegi 7. maí, þar sem samtökin fara fram á að fá vikufrest til að skila umsögninni. Meginniðurstaða starfsmannasamtakanna er sú að stjórn þeirra telur mikilvægt að settar séu, með leyfi forseta, ,,reglur um eignarhald á fjölmiðlum með það að markmiði að tryggja sjálfstæði og fjölbreytni fjölmiðla. Stjórnin telur hins vegar að hinar þröngu skorður sem eignarhaldinu eru settar í fyrirhuguðum breytingum á útvarps- og samkeppnislögum tryggi alls ekki markmið laganna.

Í þessu sambandi bendir stjórn SSR á 6. gr. 3. mgr. skýrslu um eignarhald á fjölmiðlum, þar sem segir: ,,Nefndin telur að forðast beri að reglur séu með þeim hætti að þær setji fyrirtækjum í fjölmiðlun ótilhlýðilegar skorður og raski rekstrargrundvelli þeirra. Gæta verði þess að reglur verði ekki svo hamlandi að þær vinni í reynd gegn þeim hagsmunum sem þeim er ætlað að vernda með því að fyrirtækin verði svo lítil að þau fái ekki þrifist.````

Þarna höggva starfsmannasamtökin í sama knérunn, vötn þeirra falla í sama fjörð og þau önnur vötn sem hér hefur verið fylgt í ræðu minni, að markmið frv. náist ekki, tilgangurinn sé úti í hafsauga, en það sé ekki einungis svo, heldur sé líka sennilegt að þau vinni gegn yfirlýstum tilgangi sínum og hamli sjálfstæði og fjölbreytni fjölmiðla.

Þetta voru starfsmannasamtök Ríkisútvarpsins.

Margir hafa komið auga á það að yfirmaður Ríkisútvarpsins, Markús Örn Antonsson, sem m.a. er fyrrverandi borgarfulltrúi og borgarstjóri Sjálfstfl. í því sveitarfélagi sem við erum nú í, hefur lýst yfir a.m.k. skilningi ef ekki stuðningi við þetta frv. í áliti sem hann gaf og ég ætla ekki að endurtaka mikið hér. Það fjallar nokkuð um samkeppni sjónvarpshluta Ríkisútvarpsins við Stöð 2. Þar er ýmislegt sagt af viti um úthlutun rása á Íslandi, lýst óánægju með Póst- og fjarskiptastofnun og síðan útvarpsréttarnefnd. Síðan er Markús Örn Antonsson einhver helsti boðberi Ríkisútvarpsins í óbreyttri mynd, í þeirri mynd sem það hefur verið síðustu 10--15 árin. Á þeim tíma hefur ekki gefist neinn kostur á breytingum vegna stjórnmálaástands í landinu og tregðu yfirmanna í Ríkisútvarpinu, Markúsar Arnar Antonssonar og manna hans. Ekki hefur verið hægt að endurskoða hlutverk Ríkisútvarpsins og laga það að því nýja umhverfi sem það er í. Hann vill hafa það þannig áfram og mælir með takmörkuðu eignarhaldi og að settar séu ýmsar reglur.

Sú setning sem ekki hefur verið vitnað mikið til í umsögn Markúsar Arnar Antonssonar er þessi hér, með leyfi forseta:

,,Hér verður ekki tekin afstaða til hinna einstöku skilyrða og leiða, sem frumvarpið gerir ráð fyrir.``

Markús Örn Antonsson tekur með öðrum orðum undir megintilgang frv., að tryggja fjölbreytni og sjálfstæði í fjölmiðlum, bendir á ýmislegt það sem að sé í þessu máli en segir um frv. sjálft þetta hér, með leyfi forseta:

,,Hér verður ekki tekin afstaða til hinna einstöku skilyrða og leiða, sem frumvarpið gerir ráð fyrir.``

Hann heldur áfram:

,,Með tilliti til grundvallaratriða um frjálsa atvinnustarfsemi og þess að umrædd samþjöppun á fjölmiðlamarkaði hefur farið fram með blessun þeirra stofnana sem annast veitingu leyfa og hið opinbera eftirlit, er eðlilegt og sanngjarnt að rúmur tími verði ætlaður til að koma málum í eðlilegt horf.``

Afstaða Markúsar Arnar Antonssonar til frv., ekki til hins yfirlýsta tilgangs þess sem ég hygg að þingheimur allur geti tekið undir, a.m.k. eins og ég skil hann, og ekki til þeirra markmiða að tryggja sjálfstæði, fjölbreytni og góða þjónustu við almenning í landinu á fjölmiðlasviði sem ég tel að sé hlutverk almannavaldsins og umhugsunarefni og verkefni okkar stjórnmálamanna, er þessi:

,,Hér verður ekki tekin afstaða til hinna einstöku skilyrða og leiða, sem frumvarpið gerir ráð fyrir.``

Útvarpsstjórinn á Íslandi, fyrrverandi borgarstjóri Sjálfstfl. í Reykjavík og borgarfulltrúi þar áður, reyndar með hléi þar sem hann var einmitt útvarpsstjóri, treysti sér ekki til að taka efnislega afstöðu til þeirra leiða sem hæstv. forsrh. hefur valið sér með frv. sínu og til þeirra leiða sem fylgismenn frv., þar á meðal hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson, sem einu sinni var ungur sjálfstæðismaður (Gripið fram í: Enn þá.) og er orðinn 31 árs og er sennilega enn þá hæfur í Sambandi ungra sjálfstæðismanna og á væntanlega félagsskírteini í Heimdalli, hafa tekið undir. (Gripið fram í: Þetta er eins og í Sovét, þeir eru ungir til fimmtugs.) Já, þeir eru ungir til fimmtugs í Sjálfstfl., þeir eru ungir furðu lengi, (Gripið fram í: ... 35 ára.) a.m.k. á ytra borði hvað sem líður hinni innri tilveru.

Hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson hefur orðið fyrir því að hans gamli klúbbur og bakland í Heimdalli hefur afneitað þessu fjölmiðlafrumvarpi með mjög einörðum hætti sem ég er að vísu fullkomlega ósammála en ber þó virðingu fyrir. Í þeim félagsskap viðgengst öfgakennd frjálshyggja. Hv. þm. hefur orðið fyrir því að hann fylgir Davíð því hér er um lífið að tefla en skilur Heimdall eftir úti á gaddinum. Hann velur því frekar sinn eigin frama en þann hugmyndagrundvöll sem fleytti honum inn á þingið og til þeirra starfa að fylgja frelsisskerðingarfrumvarpi hæstv. forsrh. Davíðs Oddssonar, sem er eins konar atvinnurekandi hv. þm. Sigurðar Kára Kristjánssonar, fram til sigurs hér gegn frjálsri fjölmiðlun, gegn störfum fjölda fólks í kjördæminu sem hann er kosinn í, hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson, og gegn allri venjulegri, mannlegri skynsemi í þjóðfélagsmálum og menningarlífi.

Útvarpsstjórinn er ekki í liði með hv. þm. Sigurði Kára Kristjánssyni í þessu efni. Hann er heldur ekki í liði með Heimdalli reyndar, það er langt síðan hann var þar, útvarpsstjórinn, en hann segir sumsé þetta svo að ég endurtaki það enn einu sinni um efni frv. þess sem hér liggur fyrir að hann treysti sér ekki til þess að taka afstöðu til, með leyfi forseta, ,,hinna einstöku skilyrða og leiða, sem frumvarpið gerir ráð fyrir``.

Þá vil ég segja frá því að annar maður sem er framarlega í fjölmiðlun á Íslandi og hefur unnið hér ýmis merkileg menningarstörf, sem vitnað hefur verið til sem stuðningsmanns frv., heitir Magnús Ragnarsson. Hann er einn af þeim sem komu í heimsókn til okkar í menntmn. í morgun á þennan merkilega fund sem ég held að öllum sem hann sátu eigi eftir að verða minnisstæður. Þarna voru samankomnir merkilegir menn í íslensku samfélagi. Magnús Ragnarsson skrifaði álit sem hefur verið túlkað sem stuðningur við frv. Það álit til allshn. lýsir að nokkru samskiptum hans eða Skjás 1 við Stöð 2 en þó ekki síður við Ríkisútvarpið. Magnús sagði á fundinum með okkur í morgun að hann tæki undir þær aðgerðir sem gætu orðið til þess að draga úr valdi Stöðvar 2 annars vegar og Ríkisútvarpsins hins vegar. Ég man ekki hvort hann lýsti yfir opinberum stuðningi við frv. Ég lái honum ekki. Hann rekur hér stöð sem er númer 2 af markaðssjónvarpsstöðvum og númer 3 á heildarmarkaðnum. Hún er með 40 fasta starfsmenn samkvæmt upplýsingum Magnúsar. Alls eru kannski um 60 sem þarna starfa, með lausamönnum, þannig að hér er fyrir nokkru búi að sjá þótt það sé ekki jafnstórt og á Stöð 2, að ég tali ekki um Ríkisútvarpið. Það kom svo í ljós þegar Magnús fór að ræða vandræði sín og Skjás 1 að þau virðast ekki einkum stafa af því að hér þurfi hörð lög um strangar takmarkanir á eignarhaldi á fjölmiðlum, heldur virðast þau stafa einkum af því að Samkeppnisstofnun er lítt fær til þeirra verka sem hún þarf að vinna á þessu sviði.

[15:30]

Þeir lýstu því báðir, Magnús Ragnarsson og Sigurður G. Guðjónsson, forstjóri Norðurljósa, sem var þarna í þessari samræðu og talaði fyrir hönd Stöðvar 2, hvað það væri erfiður vegur að fara í Samkeppnisstofnun með umkvörtunarefni, t.d. sem varða auglýsingamál og þann óhjákvæmilega núning sem verður við ríkisstöðina sem kostuð er af opinberu fjármagni o.s.frv. Þetta rekja þeir eins og að fara með Faðirvorið, þann óhjákvæmilega núning sem verður við ríkisstöðvarnar, á auglýsingamarkaði, við það að ná í efni til útlanda og í þeirri samkeppni um starfsmenn sem góðu heilli hefur staðið hér í nokkur ár. Sumt af því eru venjulegar áhyggjur manna í viðskiptalífinu. Til þess er viðskiptalífið að menn í þessari stöðu hafi áhyggjur af þessum hlutum og þarf ekkert meira að ræða það. Annað er þannig að um óeðlilegt samkeppnisumhverfi er að ræða. Þá er eðlilegt að Samkeppnisstofnun skipti sér af því og að hægt sé að leysa flest þau vandræði með samkeppnislögum. Það flækir líka þetta mál að útvarpsréttarnefnd hefur hingað til starfað á ákaflega ómarkvissum forsendum og tekið mjög ýmislega á málum. Að sumu leyti hefur hún deilt og drottnað. Hún hefur gert athugasemdir, alveg örugglega réttmætar, þær sem ég veit um og hef séð, við starfsemi og starfshætti stöðvanna. Vegna þeirra athugasemda liggur í loftinu að gula spjaldið geti orðið rautt og það virðist ekki vera nógu skýrt hjá útvarpsréttarnefnd hver grundvöllur þeirra reglna er þannig að það flækir mjög starfsumhverfi markaðsstöðvanna sem til hennar eiga að sækja öll sín leyfi.

Ég ætla ekki að fara að leggja Magnúsi Ragnarssyni orð í munn en óska honum velgengni á hans sviði. Hann er nýtekinn við þessari stöð. Ég hygg að hann eigi eftir að færa hana framar á þessum vettvangi. Niðurstaða mín er sú að áhyggjuefni og umkvörtunarefni Magnúsar Ragnarssonar séu mjög svipaðs eðlis miðað við hina ólíku stöðu og áhyggjuefni og umkvörtunarefni Sigurðar G. Guðjónssonar og fjalli einkum um það að Samkeppnisstofnun er ekki í þeim búningi, nýtur ekki þeirra fjárráða, hefur ekki þá starfskrafta, að geta sinnt þeim verkum sem óhjákvæmileg eru á þessu sviði, þessu sviði sem er flóknara en mörg önnur svið. Þar af stendur í raun og veru stuðningur Magnúsar Ragnarssonar og fleiri af hans mönnum við þetta frv. að þetta ástand sé óþolandi og það hjálpi þá a.m.k. að minnka risið á Stöð 2 hvað sem um annað kunni að verða.

Ef maður hugsar um hag Skjás 1 til skammtíma getur það hjálpað honum í þeirri stöðu fyrirtækis á sínum markaði sem hann er að risið á Stöð 2 lækki. Það er alveg rétt. Hætt er hins vegar við að ef Skjár 1 rís upp til þess með einhverjum hætti að ógna Stöð 2 á sínu sviði eða taka við af henni sem leiðandi markaðsmiðill verði Skjár 1 fyrir hinu sama og að báðir tapi á þessari leiðréttingu mála.

Jafnvel þeir menn sem taldir hafa verið í fjölmiðlum og hér í þingsal sérstakir stuðningsmenn og áhugamenn um það frv. sem hér er um að ræða, m.a. hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson sem hefur ákveðið að styðja frv. gegn ráðum Heimdallar, sem myndar kjörbakgrunn hv. þingmanns, eða myndaði fyrir síðustu kosningar, hafa þegar betur er á litið ekki verið stuðningsmenn nema til hálfs, eða stuðningsmenn nánast út úr vandræðum, eða stuðningsmenn sem ekki vilja bera ábyrgð á efnisatriðum þess frv. sem hér er til umfjöllunar. Það er stundum gott að skoða málin ofan í kjölinn og taka ekki bara mark á hinu ytra borði.

Ég ætla næst, forseti góður, að víkja aðeins af þeim vegi sem ég hef verið á. Af því að ég er hér í markaðsmiðlunum langar mig að segja þingheimi frá öðru sjónarmiði sem lýsir nokkurri gagnrýni á markaðsmiðlana. Ég geri það í ákveðnum tilgangi, auk þess að auka fjölbreytni í umræðunni og koma inn í hana viðhorfum sem hingað til hafa ekki í henni sést.

Ég ætla að gera það með því að lesa pistil sem Páll Baldvin Baldvinsson skrifaði á vefsetrið Land og syni sem kvikmyndamenn hafa helgað sér, sjálfstæðir sjónvarpsframleiðendur og áhugamenn um þessi efni. Páll Baldvin er sem kunnugt er menningarmaður, varð frægur fyrir það, kunnur hér um landið hjá öðrum en í sínum vinahóp fyrir að setja af stað merkilegar leiksýningar með miklum þrótti, og látum vil ég segja, snemma á níunda áratugnum. Hann hefur núna lengst af verið dagskrárstjóri Stöðvar 2 og er því öllum hnútum kunnugur. Hann segir þetta í pistlinum sem heitir ,,En hvað með einkastöðvarnar?`` og birtist ekki löngu eftir að kvikmyndagerðarmenn gagnrýndu Ríkisútvarpið, sjónvarp ótæpilega fyrir að sinna ekki innlendri dagskrárgerð og framleiðsluefni frá sjálfstæðum framleiðendum, einkum um leikið efni. Páll segir þetta, með leyfi forseta:

,,Það var fréttamaður hjá ríkinu sem spurði. Dagskrárdeildin hjá ríkinu var gagnrýnd harðlega fyrir að kaupa of lítið efni frá innlendum framleiðendum. Það birtust greinar og viðtöl og voru haldnir fundir en hvergi minnst á einkareknar sjónvarpsstöðvar. Það komst bara eitt að, ríkissjónvarpið, svona rétt eins og það skipti engu máli að í landinu væru fyrirtæki með áralanga sögu og þúsundir áskrifenda, sjálfviljugra áskrifenda, og nýrri fyrirtæki sem höfðu á síðustu missirum sópað að sér áhorfi. Það var bara ekki með. Kvikmyndagerðarmenn og fréttasnápar héldu helmingnum af sjónvarpsmarkaðnum til hliðar og einblíndu á ríkissjónvarpið.``

Hér verður að minnast þess eins og ég sagði áðan að þetta er skrifað á vef sem kvikmyndagerðarmenn og framleiðendur sjónvarpsefnis og ýmislegs myndefnis hafa helgað sér. Þess vegna er þessi kumpánlegi gagnrýnistónn. Hér eru menn að tala inn í sinn hóp, en það varðar okkur líka.

,,Var nema von að manngreyinu dytti í hug að spyrja. Hann hafði jú unnið á einkarekinni stöð í nokkur missiri og vissi að þar var líka innlent efni á dagskrá, sumt aðkeypt. En hvað með einkastöðvarnar? Okkur er tamt að tala fjálglega um forræði ríkissjónvarps og halda á loft hástemmdum og reyndar merkingarlitlum stöfum í lagabálknum um útvarp ríkisins. Þeir frasar eiga að réttlæta aukið fjármagn í framleiðslusjóði leikins efnis. Ríkissjónvarpið á að kaupa meira af innlendum framleiðendum, vinna meira með þeim og auka þátt innlendra dagskrárliða á kostnað þeirra erlendu. Stjórnendur ríkissjónvarpsins þumbast við, veifa tölum um ánægða notendur og mikið áhorf og þetta og hitt. Svo er loftið farið úr blöðrunni og næsta fjargviðri tekur við.

En hvað með einkastöðvarnar, hvaða skyldur hafa þær? Enginn fær útvarpsleyfi frá stjórnvöldum nema leggja fram einhvers konar dagskrárramma og til er nefnd valinkunnra öldunga úr öllum stjórnmálaflokkum sem þurfa að líta þar yfir og segja sitt, sem er víst oftast já við því sem formaðurinn segir, en hann hefur verið þar frá því nefndin var stofnuð og sinnir því starfi af samviskusemi ásamt öðrum verkum. Hann er stórtækur kryddinnflytjandi og húseigandi og er framkvæmdastjóri stærsta stjórnmálaflokks landsins og situr ofan í kaupið í stjórn eins stærsta banka landsins. Hann veit því alveg hvað hann er að gera, hefur aldrei stigið feilspor. Vammlaus maður.

Þegar svo er búið að samþykkja dagskrárrammann orðalaust og án skilyrða þá er gefið leyfi. Eigendur sjónvarpsstöðva þurfa jú að halda helstu lög í landinu, færa bókhald samkvæmt bestu venjum sem hefur gengið svolítið erfiðlega, ekki ruglast á skattskilum og virðisaukanum sem alltaf er verið að tékka. Svo verða þeir að þýða og texta og talsetja og gefa fólki andsvararétt ef það er svívirt mikið á skjánum, mega bara hafa auglýsingar í tiltekinn tíma á klukkustund og ekki selja kostun á fréttatíma. Annað er það nú ekki. Það er nú ekki verið að íþyngja þeim blessuðum, hvort sem þeir eru nú á takmörkuðum svæðum eða landinu öllu, eða bara í næstu álfum, með einhverjum skilyrðum af neinu tagi um dagskrár, hvað þá um hlutdeild innlendra framleiðenda í henni.

Þessi skipan mála hefur viðgengist án athugasemda allar götur frá 1985 þegar einkaréttur ríkisins af útvarpi var afnuminn. Síðan hafa allir stjórnmálaflokkar fengið sting í nárann ef einhver hefur fært það í tal að setja mönnum í einkarekstri einhver önnur skilyrði en þau að þeir færi bókhald rétt og texti útlenska þætti villulaust. Þetta er einstakt fyrirkomulag í heiminum. Það er að vísu yfirleitt ekki talið þurfa að taka það fram að innlenda dagskrárstefnu skuli sjónvarpsstöðvar stunda með skipulögðum hætti en víða tekið fram að innlendir framleiðendur skuli eiga nær þriðjung í dagskrá fyrir utan fréttir og íþróttir. Þetta er gert til að koma fótum undir innlendan iðnað og þykir skynsamlegt víðast hvar, styður atvinnulíf í myndiðnaði landanna. En slíkt gerist nú ekki hér. Þær eru ekki að hafa miklar áhyggjur af því, Valgerður og Þorgerður, innlendum framleiðendum, svo, svo, svo, strjúka pilsin bara niður um lendar sér og gera sig ábyrgar í framan og setja talandann í gang.

Hér eru sem sagt aðstæður þær að sumar sjónvarpsstöðvar hafa menningarlegu hlutverki að gegna, en aðrar engu tilteknu. Sumar eru á sérstöku leyfi fjármálaráðuneytis til að fara fram úr árlega, en aðrar mundu bara fara á hausinn. Sumar eru á ótakmörkuðu starfsleyfi, en aðrar bara á tímabundnu. Sumar á sérlögum yfir ríkisstofnanir, en aðrar á almennari lagabálkum. Engu þessara fyrirtækja sem öll starfa með skýru en skilyrðafáu leyfi stjórnvalda er gert að sinna jafnri skyldu um framleiðslu og sýningu á íslensku efni á eigin vegum, eða kaupum á því af þriðja aðila.

Ættum við ekki að hafa stærri áhyggjur af eignarhaldinu og þvaðra meira um það?`` spyr Páll Baldvin Baldvinsson í lok þessarar greinar sinnar. ,,Væri nú ekki hollt fyrir forustumenn í kvikmyndaiðnaði okkar að líta víðar og lengra en bara á ríkissjónvarpið þegar þeim þykir ekki nóg keypt? Því varla eru þeir svo vitlausir bisnessmenn að þeim þyki þægilegast að hafa bara einn kaupanda á markaði.``

Þetta var greinarkorn frá Páli Baldvini Baldvinssyni. Af hverju er ég með það hér í umræðunni? Jú, vegna þess að það lýsir vel þeim skoðanaskiptum og þeirri skoðanamótun sem fram fer innan hóps kvikmyndagerðarmanna og sjálfstæðra framleiðenda efnis og reyndar líka leikara og leikhúsmanna því þeir gera ákveðnar kröfur til allra íslensku sjónvarpsstöðvanna og allra íslensku ljósvakastöðvanna. Þær kröfur varða ekki eignarhald í fjölmiðlum. Þær áhyggjur eru allt aðrar, forseti, en áhyggjur flm. sem virðast stafa af því að öxull hins illa á Íslandi, Baugur og Norðurljós, sé í einhvers konar samsæri gegn sér og völdum sínum sem þarf að kveða niður áður en þau völd breytast hinn 1. september nk. Þær áhyggjur eru auðvitað starfslegar, byggja á hagsmunum þeirra, atvinnuhagsmunum og starfshagsmunum, en eru líka hugsjónaástæður og byggðar á metnaði. Þær eru þær að samfélagslegt hlutverk þessara stöðva sé tiltekið, hlutverkið sé það að vera spegill íslensks þjóðlífs, stöðvarnar eigi að styðja íslenska dagskrárgerð, bæði á eigin vegum og annarra, og það eigi jafnvel, eins og kemur fram hjá Páli Baldvini og hann er ekki einn um, að skilyrða útvarpsleyfi því að innlend dagskrá sé með einhverjum hætti tryggð í þeim stöðvum sem um er að ræða.

Það er ekki langur vegur frá þessari hugleiðingu til þeirrar að til þess að innlendar ljósvakastöðvar geti sinnt innlendu dagskrárefni í útvarpi eða sjónvarpi þurfa þær að hafa ákveðið umfang, ákveðinn styrk í starfsemi sinni, góðan rekstrargrundvöll og búa að fjármagni sem að sumu leyti verður að vera það sem á nútímaíslensku er kallað ,,þolinmótt`` þannig að arður þess verði ekki innheimtur daginn eftir eða um næstu mánaðamót, heldur stefni menn á lengri tíma. Það þýðir að þeir menn sem yfir slíku fjármagni búa verða að hafa nokkuð mikið af því. Maður sem vill leggja alla peninga sína í þolinmæði kemst illa af í markaðssamfélagi nútímans.

[15:45]

Þessi grein Páls Baldvins Baldvinssonar getur orðið okkur þörf hugvekja um það að eina leiðin til að innlend dagskrárgerð þrífist sé að fjölmiðlarnir á ljósvakamarkaði styðji við íslenska menningu, haldi áfram að rækta þann garð sem hér hefur verið plantað í með ýmsum hætti og hefur borið ýmsan ávöxt um aldir, óvenjuríkulegan af smáþjóð að vera sem allir viðurkenna og er auðvitað eftir allt saman ein helsta ástæðan fyrir því að við erum til sem þjóð, að við sitjum og stöndum hér í Alþingi Íslendinga, ekki bara vegna þess að við höfum byggt upp sjálfsmynd okkar og gert okkur kleift að hugsa um okkur sem þjóð sem ekki var sjálfsagt á ýmsum tímum Íslandssögunnar, heldur líka vegna þess að sú menning sem hér var sáð til í árdaga og síðan haldið áfram í gegnum ýmsar þrengingar og margvíslegar breytingar í Evrópusögunni og mannkynssögunni varð til þess að erlendis var litið á okkur sem sérstaka heild, sem sérstaka einingu, sem merkilegt fólk með merkilega sögu sem ætti það skilið að vera sjálfstætt og haga sér eins og það vildi. Það er ekki til lasts hetjum okkar í sjálfstæðisbaráttunni eða frumherjum þeim sem hér hanga á veggjum og styttur eru af á torgum eða dáðir eru í ljóðalestri eða öðrum þeim athöfnum sem menningunni tilheyra sem það er sagt að þau sjónarmið hafi skipt verulegu máli á 19. öld, bæði í hinu forna herraríki okkar, Danmörku, en ekki síður í hinum menningarlega stóra bróður Danmerkur, Þýskalandi, á 19. öld. Reyndar sjáum við það þegar farið er ofan í söguna að álit breskra höfðingja á Íslendingum var með ýmsum hætti eins og gaman er að kynnast í bókunum sem þeir skrifuðu um skrýtna Þingvallaklerka, lata hestamenn í Reykjavík og ýmis furðufyrirbæri. Álit þessara Breta skiptu okkur auðvitað verulegu máli í þróun íslenskrar sjálfstæðisbaráttu og mótun íslensks samfélags, þess sem við búum núna við. Það kann líka að vera að það álit Breta sem spratt af menningarstarfi okkar hér á Íslandi og má nú sjá kannski einna skýrast í mikilli hrifningu þeirra á Jóni á Bægisá, karlpíslinni, vegna þýðingar hans á Milton hafi líka skipt máli þegar stórveldi þurftu að véla um stöðu Íslands að loknum hildarleikjum í sögu Evrópu. Af því að þessi forseti sem nú er í stólnum er sestur í stólinn tók ég þennan útúrdúr um íslenska menningu sem ég veit að er eitt af hans góðu áhugamálum og ýmis mikilsverð verk á því sviði á starfssviði hans.

Ég ætla næst, forseti, að þessu loknu að lesa upp úr áliti Norðurljósa sjálfra, þeirra sem eyða skyldi. Ég ætla ekki að fara í lögfræðihluta þess, heldur ætla ég að lesa upp 5. kaflann í umsögn þeirra um frv. til laga um breytingu á útvarpslögum og samkeppnislögum. Undir það skrifa þeir félagar Sigurður G. Guðjónsson og Skarphéðinn Berg Steinarsson. Þetta er fyrir hönd stjórna Norðurljósa og dótturfélaga. Ég les þetta upp vegna þess að mér sýnist að í þessum 5. kafla reyni þeir að gera nokkur skil því fjölmiðlaumhverfi sem kynni að verða til ef þingmenn verða svo vitlausir að samþykkja það frv. sem hér er um að ræða. Þetta hljóðar svo, með leyfi forseta:

,,Frumvarpið hefur sett í uppnám öll áform Norðurljósa um stafræna uppbyggingu sjónvarps og hljóðvarps. Stafrænar útsendingar átti að hefja á Faxaflóasvæðinu þann 9. október nk. á 18 ára afmæli Íslenska útvarpsfélagsins. Með stafrænni tækni er hægt að nýta hverja rás til útsendinga á fjórum til átta dagskrám. Væru allar 16 MMDS rásir Íslenska útvarpsfélagsins gerðar stafrænar samtímis þýddi það að íbúum frá Akranesi til Grindavíkur og jafnvel á stærstum hluta Suðurlands gæfist kostur á að velja á milli allt að 130 dagskrárrása. Að stórum hluta byggist stafrænt sjónvarp á endurvarpi erlendra sjónvarpsstöðva, sjónvarpsstöðva þar sem eignarhaldið er allt annað en í Norðurljósum, enda leyfa aðstæður hér á landi ekki íslenskum fjölmiðlafyrirtækjum að standa í mikilli innlendri dagskrárgerð. Endurvarp erlendra sjónvarpsstöðva hlýtur að tryggja fjölbreytni, enda bjóða Norðurljós þá upp á sjónvarpsefni fyrir allan almenning sem framleitt er af ólíkum aðilum í eigu fjölbreytts hóps fjölmiðla- og framleiðslufyrirtækja um víða veröld, sjónvarpsefni sem þeir einir njóta nú sem hafa komið sér upp móttökubúnaði fyrir erlent gervihnattasjónvarp sem því miður felur oftar en ekki í sér margháttuð lögbrot af hálfu seljenda og notenda búnaðar og áskriftar að gervihnattastöðvum, einkum að því er varðar sölu á aðgengi að dagskrá Sky og annarra evrópskra greiðslusjónvarpsstöðva.``

Þetta er upphaf þessa 5. kafla. Það er sérlega athyglisvert sem bent er á í þessum kafla að á sjónvarpsmarkaði hér viðgengst eða fer a.m.k. fram sjóræningjastarfsemi í útsendingum sem byggist á því að menn kaupa sér móttökubúnað en fara fram hjá lögunum, útvarpslögum okkar, sem setja slíkri móttöku tiltekin skilyrði með því að versla hér við innlenda aðila, kaupa sér áskrift að útlendum stöðvum án þess að uppfylla þau skilyrði sem sett eru í útvarpslögum. Þetta kemur mjög niður á þeim stöðvum sem þessa þjónustu bjóða á heimavettvangi, þ.e. markaðsmiðlunum.

Ég held hér áfram í þessari umsögn Norðurljósa, með leyfi forseta:

,,Menntamálaráðherra, ráðherra útvarpsmála, hefur ekki látið skoða samkeppnisumhverfi íslenskra ljósvakamiðla. Fjölmiðlaskýrslan fjallar ekkert um sjónvarpsstarfsemi Landssímans, Landsvirkjunar í gegnum fyrirtæki sín, Fjarska og Íslandsmiðil. Landssíminn dreifir nú þegar dagskrám um 40 erlendra sjónvarpsstöðva um ljósleiðarakerfið í Reykjavík, Hafnarfirði, Kópavogi og Húsavík undir heitinu breiðvarp. Landssíminn þarf ekki útvarpsleyfi til þessarar starfsemi og honum eru engar takmarkanir settar um fjölgun rása eða dagskráa sem í boði geta verið nema þá fjárhagslega. Þær geta þess vegna verið um 3.000 sem er sá fjöldi sjónvarpsdagskráa sem má ná frá gervihnattastöðvum með tilheyrandi búnaði hér á landi. Starfsemi Landssímans á öðru sviði hefur hins vegar leitt til árekstra við sjónvarpsstarfsemi ÍÚ, t.d. í Hafnarfirði þar sem Landssíminn neitar að flytja fjölvarp Íslenska útvarpsfélagsins á breiðbandi sínu í Hafnarfirði og útilokar þar með alla samkeppni um dreifingu erlendra gervihnattarása, þar sem íbúum þeirra hverfa sem breiðband Landssímans nær til er óheimilt að setja loftnet á hús sín af skipulagsástæðum.

Landssíminn hyggst á næstu árum nýta sér ADSL-tækni til að dreifa sjónvarpi um koparlagnir sínar sem ná til 99,9% heimila í landinu. Landssímanum er jafnframt gert skylt að veita öðrum aðgang að þessu kerfi til fjarskipta. Til flutnings gagna sem flytja hljóð og mynd þarf ekki útvarpsleyfi því ekki er verið að dreifa útvarpi, hljóðvarpi eða sjónvarpi með rafsegulöldum. Hér er og verður á ferðinni gagnaflutningur í skilningi fjarskiptalaga. Sams konar starfsemi getur hitt fjarskiptafyrirtækið Og Vodafone tekið upp. Í reynd er það svo að þessi tvö fjarskiptafyrirtæki hafa í framtíðinni miklu meira um það að segja að þjóðin hafi aðgang að upplýsingum, sé upplýst, en hefðbundin útvarpsfyrirtæki.``

Það er mjög merkileg staðreynd, forseti, að allt í einu hafa þessi tvö fjarskiptafyrirtæki í raun og veru meiri áhrif til framtíðar en þau útvarpsfyrirtæki sem við erum hér að fjalla um, þ.e. þegar við erum að tala um fjölmiðlun sem heild, fjölmiðlun sem menningarlegt fyrirbæri, þátt í upplýsingu Íslendinga, en ekki aðeins að horfa á hugsanleg völd og áhrif í gegnum fjölmiðlana eins og hæstv. forsrh. sem flytur lagafrumvarp það sem hér er til umræðu er gjarnast að gera. Við erum að hugsa um, a.m.k. einnig, það sem stjórnmálamenn eiga að vera að hugsa um á fjölmiðlavettvangi, heill almennings, þörf hans fyrir þjónustu, menningarlega fjölmiðlun á Íslandi til þess að efla sjálfsmynd okkar, gera okkur hæfari, betri til að lifa eigin lífi á Íslandi og fóstra upp næstu kynslóðir. Fyrir þá sem ekki hafa fylgst þeim mun nánar með er þessi tæknilega framþróun ör, og alla jafna nokkuð flókið viðfangsefni. Oft finnst manni, þótt maður reyni að sýna því áhuga, að maður hafi annað betra við tíma sinn að gera en að setja sig inn í það en fyrir stjórnmálamenn er slíkt viðhorf ekki í boði.

Fjallar frv. sem hér er til umræðu um þessi fjarskiptafyrirtæki eða þá möguleika sem þau hafa á því að ná til heimila í landinu með erlent sjónvarpsefni? Nei, það er ekki svo. Það þarf ekki einu sinni útvarpsleyfi til að senda út 40 stöðvar eða 3.000 stöðvar eftir atvikum. Það er hægt að gera ef maður á koparlagnir eða getur selt gervihnattadiska, hvort sem er löglega eða ólöglega. Er líklegt að fjölmiðlun af þessu tagi styrki íslenska menningu eða sé í raun og veru mjög upplýsandi? Það er afar upp og ofan. Eins og ég lýsti hér fyrst í ræðu minni er t.d. mjög ólíklegt vegna íslenskra aðstæðna að efni annars staðar frá, réttara sagt á öðru máli en ensku, verði hér snar þáttur í framtíðinni í útsendingu af þessu tagi. Það er ólíklegt að þetta verði í framtíðinni efni sem við getum talið til þess að auka menningarlegan vöxt og viðgang á Íslandi hvað sem um efni annars er að segja. Það er óþarfi að fitja upp á trýnið með ýmislegt alþjóðlegt efni sem er kannski helst partur af samsömun okkar nú á tímum sem eru auðvitað að ákveðnu leyti alþjóðlegir. Það eru breytingar sem hafa gerst á ekkert mjög löngum tíma.

Ef ég má orða það nokkuð gróflega er Íslendingur kannski ekki Íslendingur nema til hálfs eða til þriðjungs, og að þriðjungi er hann að vissu leyti amerískur hvað menningu varðar og að þriðjungi alþjóðlegur. Það er þá þessi þriðjungspartur, sá íslenski, sem gerir okkur öðruvísi en annað fólk og heldur uppi sjálfsmynd okkar sem Íslendinga. Þetta er gróft orðað en þetta er samt hugsun sem ég tel vert að hafa í huga. Ég hlýt að hafa hana í huga því að æskuhetjur mínar voru ekki eingöngu Grettir Ásmundarson, Ingólfur Arnarson landnemi og aðrar slíkar íslenskar hetjur, ekki bara Jón Hreggviðsson, Bjartur í Sumarhúsum og Hjalti litli og hvað þetta fólk hét allt saman, heldur líka Andrés önd, Roy Rogers, og hvað hét hann, Bob Moran og Beverly Gray sem ég fékk frá móður minni og var bandarísk blaðastúlka. Við erum auðvitað samsettari að þessu leyti í menningarlegu uppeldi. Menningarleg samsömun okkar er víðari en fyrri kynslóða sem þó voru aldrei 100% íslenskar því það var sem betur fer aldrei til.

Við þurfum þó að gæta að þessum þætti, að halda áfram að vera Íslendingar að þessum þriðjungi sem um er að ræða og sem skiptir máli þegar til stykkisins kemur.

Lausnin felst ekki --- ekki, ég legg áherslu á það --- í að stöðva þessa þróun, þá þróun fjarskiptanna að við getum haft aðgang að öllum þessum stöðvum, 30 eða 3.000 hjá Landssímanum eða hjá Og Vodafone, ekki í því að reyna að trufla gervihnattasendingar eða koma í veg fyrir að fólk nái hér því erlenda efni sem það vill, ekki í því að reyna með einhverjum hætti að koma í veg fyrir samskipti okkar við erlenda tónlist og erlent útvarp í gegnum tölvuna, ekki að reyna með einhverjum öðrum hætti að stöðva þá þróun --- það er eins og þriðja kynslóðin af símanum sem alltaf er að koma en hefur aldrei komið í raun --- að eftir nokkur ár komi hér upp í raun og veru samsettar einstaklingsdagskrár sem hafa verið kallaðar PPV eða Pay Per View ...

(Forseti (HBl): Á hv. þm. mikið eftir af ræðu sinni?)

Já, töluvert.

(Forseti (HBl): Þá bið ég hv. þingmann að gera hlé á ræðu sinni. Þessum fundi er frestað til ...)

Ég átti eftir niðurlag setningar.

(Forseti (HBl): Gerðu svo vel.)

Ekki að gera þetta, heldur að efla íslensku stöðvarnar sem kjarna í íslenskri fjölmiðlun sem sérstakar verndarstöðvar og uppeldisstöðvar og starfsstöðvar innlendrar dagskrárgerðar og íslenskrar menningar. Hér lýk ég fyrri hluta ræðu minnar.

(Forseti (HBl): Þá er ræðu hv. þingmanns frestað. Fundur hefst að nýju klukkan 5.)