Útvarpslög og samkeppnislög

Miðvikudaginn 12. maí 2004, kl. 17:13:57 (8008)

2004-05-12 17:13:57# 130. lþ. 113.1 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, MÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 113. fundur, 130. lþ.

[17:13]

Mörður Árnason (andsvar):

Forseti. SPRON-málið var mjög sérstakt mál og ég skal fúslega viðurkenna að það þurfti að bíta á jaxlinn til að greiða atkvæði að lokum í því máli vegna þess hvernig því var háttað. Það vill hins vegar svo til að hv. þm. er ekki alveg saklaus af úrslitum þess máls því honum tókst, og það er auðvitað gríðarlegt afrek, að sameina þingheim gegn athöfnum sínum á þessu sviði frá því að hann varð að launuðum starfsmanni Búnaðarbankans við að sölsa undir bankann þennan sparisjóð og undir aðra banka fleiri sparisjóði í landinu.

Málið stóð þannig að samþykkt höfðu verið lög á Alþingi. Við því hafði reyndar verið varað. Hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir varaði við því á sínum tíma að þau lög væru gölluð. Það kom í ljós að þau voru það þannig að Alþingi var þarna með nokkrum hætti að leiðrétta sínar fyrri gjörðir. Það skiptir líka máli í þessu sambandi að um var að ræða samning og ekki starfsemi sem var í gangi.

Ég viðurkenni hins vegar að það var samanbitnum jöxlum sem þurfti að greiða atkvæði um þetta mál en það er svo, sagði Einar Benediktsson, að ,,þegar býður þjóðar sómi, þá á Bretland eina sál``.