Útvarpslög og samkeppnislög

Miðvikudaginn 12. maí 2004, kl. 17:18:14 (8011)

2004-05-12 17:18:14# 130. lþ. 113.1 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, EKH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 113. fundur, 130. lþ.

[17:18]

Einar Karl Haraldsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Mörður Árnason hefur flutt hér fróðlega og yfirgripsmikla ræðu út frá þeim sjónarhóli sem hann stendur gjarnan á, þ.e. sjónarhóli íslenskrar menningar. Ég vildi gera smáathugasemd við það sem hann vitnaði til í grein Páls Baldvins Baldvinssonar þar sem fram kom að enginn áskilnaður væri í útvarpslögum um framleiðslu á íslensku efni eða frá sjálfstæðum framleiðendum.

Í 10. gr. útvarpslaga er áskilnaður um það að 10% af útsendingartíma einkastöðvanna, a.m.k. 10% af árlegu dagskrárfé, skuli varið til evrópskra verka sem framleidd eru af sjálfstæðum framleiðendum. Sjónvarpsstöðvarnar skulu leggja áherslu á að svo stór hluti af verkum sjálfstæðra framleiðenda sem unnt er sé sýndur innan fimm ára frá því að gerð þeirra lauk. Þetta ákvæði á ekki rætur sínar að rekja til áhuga hæstv. menntmrh. á íslenskri menningu í einkastöðvum, heldur er hér um að ræða að efna tilskipun Evrópusambandsins um þessi efni. Hins vegar er ekki skilgreint í lögunum hvað teljist vera sjálfstæður eða óháður framleiðandi. Það er miður. Það hefur t.d. verið gert mjög nákvæmlega í finnsku útvarpslögunum.

Auðvitað veit ég að hv. þm. veit þetta en það hefði verið betra ef hann hefði leiðrétt þessa missögn úr grein Páls Baldvins svo að hið rétta kæmi fram.