Útvarpslög og samkeppnislög

Miðvikudaginn 12. maí 2004, kl. 17:20:14 (8012)

2004-05-12 17:20:14# 130. lþ. 113.1 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, MÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 113. fundur, 130. lþ.

[17:20]

Mörður Árnason (andsvar):

Forseti. Ég minnist þess ekki að Páll Baldvin hafi sagt þetta berum orðum. Hann er auðvitað m.a. að gagnrýna sína menn fyrir að beina ekki spjótum í allar áttir í senn, nánast, og ég minntist á þessa grein Páls vegna þess að ég var að sýna hér hin raunverulegu áhyggjuefni manna í þessum geira, að þau væru ekki þau að fyrirtæki væru of sterk, heldur miklu frekar að fyrirtæki væru of veik og síðan að skilyrði þau sem þeim eru sett af almannavaldinu séu kannski ekki nógu ströng í menningarlegum efnum. Þetta ákvæði er í útvarpslögunum sem betur fer og eftir því er nú sennilega farið. Ég veit hins vegar ekki hvernig eftir því er gengið t.d. af hálfu útvarpsréttarnefndar sem hv. þm. Einar Karl Haraldsson er nú varamaður í. Hann getur kannski svarað þeirri spurningu.

Ég kannast ekki við það að útvarpsréttarnefnd gangi mikið eftir þessu eða gangi mikið almennt eftir þeim skilyrðum sem hún á að ganga eftir við leyfisveitingar eða rekstur íslenskra sjónvarpsstöðva. Ég man ekki betur en að síðast --- sem var bara í morgun --- þegar ég fór inn á vefsetur útvarpsréttarnefndar hafi þar allt efni verið svo fornt að það hafi verið sett inn á vefinn á öldinni sem leið, a.m.k. meira og minna.

Undan þessu er kvartað en ekki því sem þetta frv. á að leysa. Frv. leysir engin umkvörtunarefni af þessu tagi, af auglýsingatagi, spurningar um ritstjórnarlegt sjálfstæði, spurningarnar um gagnsæi, engin af hinum raunverulegu umkvörtunarefnum blaðamanna, áhugamanna, lesenda, framleiðenda og starfsmanna. Það er meginmálið.