Útvarpslög og samkeppnislög

Miðvikudaginn 12. maí 2004, kl. 17:22:14 (8013)

2004-05-12 17:22:14# 130. lþ. 113.1 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, EKH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 113. fundur, 130. lþ.

[17:22]

Einar Karl Haraldsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þm. hefur rétt fyrir sér í því að þær kröfur sem gerðar eru til íslensks sjónvarpsefnis og menningarlegs hlutverks einkastöðvanna eru allt of smávaxnar. Í útvarpslögum annarra þjóða er gerð krafa um hærra hlutfall en 10% frá sjálfstæðum framleiðendum. Þar mættum við vissulega gera betur.

Varðandi útvarpsréttarnefnd hefur hún í skýrslum sínum gert nokkra grein fyrir því hvernig skipting útvarpsefnis er og tekið þar fram eitthvað um hvernig það er framleitt. Skýrslugerðin er eins og tölvuvæðingin hjá útvarpsréttarnefnd, síðasta skýrslan er frá 1997. Þar eru sem sagt sjö ára gamlar upplýsingar það nýjasta sem almenningur getur komist að frá útvarpsréttarnefnd, og var það nokkuð vel af sér vikið. Það sýnir kannski hversu lítið og máttlaust stjórnvald útvarpsréttarnefnd er. Þar sem ég hef verið varamaður í nefndinni síðan síðast var kosið í hana og fundarhöld eru ekki mjög tíð í þeirri nefnd hef ég ekki nákvæmar upplýsingar um hvernig þessum eftirrekstri er háttað.