Útvarpslög og samkeppnislög

Miðvikudaginn 12. maí 2004, kl. 20:43:54 (8017)

2004-05-12 20:43:54# 130. lþ. 113.1 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, EKH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 113. fundur, 130. lþ.

[20:43]

Einar Karl Haraldsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Þetta minnir mig á dóttur mína sem sat einhvern tímann mjög hugsi. Ég spurði hana: ,,Arna mín, hvað ertu að hugsa?`` og hún svaraði: ,,Ég er ekki búin að hugsa.`` Það er þannig með mig að ég hugsa ekki nógu hratt til þess að geta metið þessar nýju tillögur um útvarpsréttarnefndina. Það hljómar ágætlega að menn hafi þarna hæfi héraðsdómslögmanns og séu skipaðir af Hæstarétti. Spurningin er hvort það teljist vera pólitísk kosning ef einn er skipaður af ráðherra og það liggur náttúrlega í augum uppi að svo er. Ég er ekkert endilega viss um að það sé galli að hafa einhver pólitísk tengsl þarna því það þarf að útvega þessari nefnd einhvern starfsgrundvöll. Sannleikurinn er sá að í stjórnkerfi okkar gerist það varla nema fyrir atbeina ráðuneytanna.

Ég hef bara ekki hugsað þetta og mér vanari menn verða að svara þessu endanlega. Það sem ég hef aðallega verið að fetta fingur út í er það að ég sé ekki að hlutverk útvarpsréttarnefndar sé með neinum hætti skilgreint í frv. nema að því leyti sem snertir þau verkefni sem frv. sem hér liggur fyrir setur mönnum, þ.e. að vera nokkurs konar dómstóll.

(SKK: Er Samf. komin í andsvör við sjálfa sig?) (RG: Andsvar er það sama og ,,replik``, getur verið bæði jákvætt og neikvætt.)