Útvarpslög og samkeppnislög

Miðvikudaginn 12. maí 2004, kl. 20:50:41 (8020)

2004-05-12 20:50:41# 130. lþ. 113.1 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, EKH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 113. fundur, 130. lþ.

[20:50]

Einar Karl Haraldsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Bjarni Benediktsson spyr spurninga, auk þess að birta dóm um ræðuhaldið. Ég vil þó benda honum á að ég hélt mig þar skýrt við tvær greinar og tvö atriði í frv. sem hann hefur gert brtt. við og ræddi þær ítarlega, enda full þörf á.

Það mun hafa komið fram á fundi efh.- og viðskn., í dag skilst mér, að það sé alveg ljóst að verði þetta frv. að lögum með áorðnum breytingum verði ekkert úr markaðsvæðingu Norðurljósa. (SKK: Hvað kemur í veg fyrir það?) Það að fyrirtækið nær ekki nægri stærð og fjölbreytni til þess að geta talist tækt á markaðinn. Það er einsdæmi að þannig sé staðið að málum fyrir tilhlutan ríkisvaldsins að slíkar fyrirætlanir séu stöðvaðar, auk þess sem maður hefði haldið að þeir boðberar frjálshyggjunnar sem hér sitja og fylgdu henni eiginlega þangað til fyrir hálfum mánuði, en virðast nú af henni gengnir, hefðu viljað láta reyna á hæfni markaðarins til þess að tryggja dreifða eignaraðild að slíku fjölmiðlafyrirtæki á markaði.

Varðandi samrekstur prentmiðla og ljósvakamiðla er ég á sömu skoðun og stjórn Árvakurs. Ég tel ekki rétt að setja svo íþyngjandi skilyrði, m.a. vegna tækniþróunar sem er í gangi. Hljóð, mynd og texti eru að renna saman í eitt og við getum ekki verið að koma í veg fyrir tækniþróun hér í landinu.