Útvarpslög og samkeppnislög

Miðvikudaginn 12. maí 2004, kl. 21:06:36 (8028)

2004-05-12 21:06:36# 130. lþ. 113.1 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, ÖS (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 113. fundur, 130. lþ.

[21:06]

Össur Skarphéðinsson (um fundarstjórn):

Herra forseti. Það er erfitt að gera þessum hæstv. forsetum til hæfis. Hér koma þingmenn og þakka forsetanum, hæstv. forseti vísar því á bug og vill helst ekki fá svona. Ég get í sjálfu sér snúið mér í annan farveg, herra forseti, og átalið hæstv. forseta. Þegar maður skoðar þetta mál er það mála sannast að niðurstaðan hlýtur að vera sú að það er hæstv. forseti sem ber ábyrgð á þessum vinnubrögðum. Það er hann sem hefur með heldur miklu offorsi sett þetta mál vanreifað á dagskrá. Það sem ég er að gera hér, og hæstv. forseti hefur vandað um við mig vegna þess, er að ég greini frá því, eins og mér ber sem þingmanni, að nýjar og grafalvarlegar upplýsingar hafa komið fram um málið í efh.- og viðskn. Það í fyrsta lagi staðfestir að það var rétt hjá okkur að krefjast framhaldsfundar. (Gripið fram í.) Í öðru lagi, herra forseti, er það mjög merkilegt að þegar við flytjum þessi tíðindi hingað til þingsins gerist það að hver einasti þingmaður Sjálfstfl. flýr úr salnum. Hv. formaður allshn. Bjarni Benediktsson var hér áðan en hann er horfinn úr salnum. Að vísu stendur 6. varaforseti hér álengdar, á sæti í nefndinni og hlustar á mál mitt en það kom fram hér fyrr í dag að fulltrúar Sjálfstfl. í allshn. gera sér ekki grein fyrir þeim upplýsingum sem ég var að greina frá. Ég var að segja að fulltrúi Samtaka banka og verðbréfasjóða hefði upplýst um það að það fyrirtæki sem verst verður úti vegna laganna fær ekki skráningu í Kauphöllinni. Þetta eru nýjar upplýsingar í málinu. Ég greindi frá því líka, herra forseti, að það hefði komið fram að sex lífeyrissjóðir í landinu eiga hjá þessu fyrirtæki 2 milljarða án nokkurra veða. Það þýðir á mæltu máli, herra forseti, að ef rétt er sem forráðamenn fyrirtækisins halda fram, að það kunni að missa fótanna ...

(Forseti (HBl): Þetta er um fundarstjórn forseta, er það ekki, hv. þingmaður? Ég hef treyst dómgreind þinni og ég heyri að hún er á sínum stað.)

Herra forseti. Ég vildi líka geta sagt hið sama, að það mætti treysta dómgreind hæstv. forseta ...

(Forseti (HBl): Ég vona að hv. þingmaður hafi sömu dómgreind og áður.)

Herra forseti. Ég óska eftir því að fá að tala hér í friði fyrir sífelldum inngripum hæstv. forseta. Ég er að finna að fundarstjórn forseta. Ég er að finna að því að hæstv. forseti hefur þröngvað þessu máli vanreifuðu á dagskrá. Ég er að greina hæstv. forseta frá því að nýjar og alvarlegar upplýsingar komu fram í málinu á fundi efh.- og viðskn. sem þýðir að það verður að ræða þau mál lengur í efh.- og viðskn. Sömuleiðis er ég að mælast til þess, herra forseti, (Forseti hringir.) að allshn. ... ég þarf meiri tíma vegna þess að hæstv. forseti hefur tekið af mér tíma með dónalegri frammítöku sinni.

(Forseti (HBl): Til máls tekur hv. 10. þm. Norðvest. Sigurjón Þórðarson.)

Herra forseti. Ef þú rekur mig úr ræðustólnum mun ég að sjálfsögðu víkja úr stólnum en ég hef ekki átt tök á því að nýta tíma minn til þess að koma fram með þær ábendingar varðandi fundarstjórn forseta sem ég reyndi að koma fram til þess að greiða fyrir þingstörfum ...

(Forseti (HBl): Ég vil biðja hv. þingmann að sýna kurteisi. Það fer honum betur.)