Útvarpslög og samkeppnislög

Miðvikudaginn 12. maí 2004, kl. 22:42:46 (8039)

2004-05-12 22:42:46# 130. lþ. 113.1 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, JÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 113. fundur, 130. lþ.

[22:42]

Jóhann Ársælsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Þetta síðasta fyrst. Með því lagafrv. sem hér liggur fyrir er bannað að Norðurljós megi eiga Fréttablaðið. Er það ekki rétt skilið hjá mér? Er það ekki bannað? Fréttablaðið er borið í hús. Þetta er auglýsingablað og er borið uppi með þeim hætti. (Gripið fram í: Er það það?) Það er fréttablað líka. (Gripið fram í: Er þetta auglýsingablað? Má ekki segja Fréttablaðið?) Það er alveg greinilegt að blaðið er fjármagnað með auglýsingum. Það er ekkert vafamál að það eru auglýsingarnar sem standa undir blaðinu. Ég get ekki séð annað en að ef menn vildu bera daglega út auglýsingablað með einhverju efni sem vekti áhuga fólks til þess að það mundi lesa auglýsingarnar yrði það kallað dagblað og þar með væri það bannað.

Ef menn ætla að setja lög á hv. Alþingi sem byggjast á því að það sé ólíklegt að eitthvað gerist, það sé ólíklegt að einhverjum einstaklingi detti í hug að verða fjölmiðlarisi hér á Íslandi og notfæra sér þann möguleika að vera undir allt aðra sök seldur en lögin gera ráð fyrir um fyrirtæki finnst mér það bara skrýtið. Ég spyr: Líta menn kannski svo á að þetta verði skilgreint þannig af útvarpsréttarnefnd að enginn einstaklingur fái í raun og veru útvarpsleyfi úthlutað þótt það standi í lögunum? Verður hann að vera með einhvers konar fyrirtæki til þess að halda utan um reksturinn? Ef það er ekki hlýt ég að álykta sem svo að viðkomandi sé ekkert háður þeim reglum sem þarna eru settar fram um að 25% eignaraðild sé hámarkið.