Útvarpslög og samkeppnislög

Miðvikudaginn 12. maí 2004, kl. 22:49:22 (8043)

2004-05-12 22:49:22# 130. lþ. 113.1 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, JÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 113. fundur, 130. lþ.

[22:49]

Jóhann Ársælsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég orðaði það svona, já, að þetta væri ritskoðun. Það er kannski ekki rétta orðalagið því viðkomandi er hreinlega bannað að gefa út blað. Það er miklu drastískara en að skoða blaðið og skipta sér af því hvað stendur í því.

Það er bara þannig að hér er í fyrsta skipti á Íslandi, eftir því sem ég veit best, og ég bið hv. þingmann sem er nú lögfræðingur að upplýsa mig ef hann veit betur, verið að taka prentfrelsi af nokkrum aðila. Það er gert með þessu frv. Ég bið hv. þingmann að leiðrétta það ef það er einhver misskilningur hjá mér að þetta sé ekki alveg nýtt. (Gripið fram í: Prentfrelsi... ) Hvað á að kalla það annað en prentfrelsi þegar einhverjum er bannað að gefa út prentmiðil? Það liggur fyrir að fyrirtæki af því tagi sem þessu frv. er beint að, og við vitum öll hvaða fyrirtæki það er, er bannað að gefa út dagblað samkvæmt þeim frumvarpstexta sem liggur hér fyrir. Það kalla ég að taka prentfrelsið af því fyrirtæki. (Gripið fram í: Því er ekkert bannað.) Ég vil biðja hv. þingmenn að útskýra þetta fyrir mér, ef ég er svona andskoti tornæmur, ef þetta er eitthvað öðruvísi.