Útvarpslög og samkeppnislög

Miðvikudaginn 12. maí 2004, kl. 23:23:05 (8053)

2004-05-12 23:23:05# 130. lþ. 113.1 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, GÖrl (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 113. fundur, 130. lþ.

[23:23]

Gunnar Örlygsson (andsvar):

Herra forseti. Ég hefði haldið að hv. þm. Hjálmar Árnason, sem er hér á 9. ári, hefði meiri vitneskju um atvinnu- og viðskiptalífið en þetta. Ef maður ætlar að skrá fyrirtæki í Kauphöll Íslands má viðkomandi fyrirtæki ekki vera í þeim miklu höftum sem til að mynda þetta frv. hæstv. forsrh. setur þau í.

Það segir sig líka sjálft að lífeyrissjóðum eru settar skorður við að fjárfesta í fyrirtækjum sem eru ekki skráð á markað. Hverjir eru möguleikarnir í þessari stöðu fyrir lífeyrissjóðina ef fyrirtækinu verður skipt upp? Hvað er spennandi fyrir fjárfesta á Íslandi að kaupa 5% í fyrirtæki? Það er ávísun á lítil völd. Það er jafnvel ávísun á engan stjórnarmann í fyrirtækinu. Þetta frv. er ávísun á mjög lítinn fjölbreytileika í eignarhaldi og fjölmiðlun. Þó að tilgangurinn sé góður er leiðin óskynsamleg. Menn vita það í hjarta sínu, hv. þm., stjórnarliðar, og það veit öll þjóðin líka. Menn verða að sýna visku, staldra við og gefa þessu tíma. Það er það margt sem liggur undir, ekki bara störfin heldur líka miklir fjármunir.