Útvarpslög og samkeppnislög

Miðvikudaginn 12. maí 2004, kl. 23:28:46 (8058)

2004-05-12 23:28:46# 130. lþ. 113.1 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, HjÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 113. fundur, 130. lþ.

[23:28]

Hjálmar Árnason (andsvar):

Herra forseti. Já, ég tel eðlilegt að aðilar úti í bæ komi ekki að samningu frv. Það erum við á Alþingi sem gerum það. Ég ítreka enn og vísa til fjölmiðlaskýrslunnar sem að mínu mati er mjög vönduð og tel mig hafa góðar upplýsingar um að við samningu hennar hafi verið haft samband við fjöldann allan af fólki sem hefur starfað við fjölmiðla og/eða er starfandi á fjölmiðlamarkaði. Menn kortlögðu þennan viðkvæma, öfluga og mikilvæga fjölmiðlamarkað með því að hafa samband við alveg óheyrilega marga aðila sem starfa við fagið og drógu síðan upp mynd á grundvelli þeirra upplýsinga. Þar að auki eru nokkrir þeirra sem unnu þessa fjölmiðlaskýrslu gamalreyndir hundar á fjölmiðlamarkaði og hafa gífurlega yfirgripsmikla þekkingu á honum. Verkum þeirra treysti ég afskaplega vel.