Útvarpslög og samkeppnislög

Miðvikudaginn 12. maí 2004, kl. 23:30:07 (8059)

2004-05-12 23:30:07# 130. lþ. 113.1 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, JGunn (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 113. fundur, 130. lþ.

[23:30]

Jón Gunnarsson (andsvar):

Herra forseti. Hún var undarleg, ræðan hér áðan hjá hv. þm. Hjálmari Árnasyni. Hann eyddi tíma sínum aðallega í að lesa úr gömlum ræðum annarra hv. þm. Þar talaði hann mikið um samþjöppun á matvörumarkaði og reyndi að leiða rök frá þeirri umræðu til þess að við þyrftum að reyna að kyrkja þá fjölbreyttu flóru fjölmiðlafyrirtækja sem er á Íslandi.

Mig langar að biðja hv. þingmann að hugsa aðeins aftur í tímann og velta fyrir sér hvað framsóknarmenn sögðu og skrifuðu þegar Framsókn vildi sameina Búnaðarbanka Íslands og Landsbanka Íslands. Þá var ekki lítið sagt. Hvernig stóð á því að sú ætlan þeirra gekk ekki eftir? Samkeppnisstofnun stoppaði þá af á þeim tíma. U-beygjur eins og hv. þm. talar um --- mig langar að spyrja hann hver hefur tekið U-beygju frá því að vilja sameina tvo stærstu banka á Íslandi í eitt fyrirtæki í þann málflutning sem hann var með hér áðan.