Útvarpslög og samkeppnislög

Miðvikudaginn 12. maí 2004, kl. 23:39:59 (8067)

2004-05-12 23:39:59# 130. lþ. 113.1 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, ÖS (ber af sér sakir)
[prenta uppsett í dálka] 113. fundur, 130. lþ.

[23:39]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Ég er borinn þeim sökum að ég hafi ekki sömu viðhorf til samþjöppunar á matvælamarkaði og ég hafði fyrir nokkrum árum. Það er alrangt. Ég vil að það komi alveg skýrt fram að ég hef ekki horfið frá þeirri skoðun minni að þá lágu fyrir staðreyndir sem bentu til þess að tiltekið viðskiptaveldi, Baugur, hefði misnotað markaðsráðandi stöðu til að hækka verðlag á matvælum upp úr öllu valdi. (Gripið fram í.) Ég hafði fyrir mér, herra forseti, skýrslu sem þá kom fram sem bráðabirgðaskýrsla frá Samkeppnisstofnun og sýndi fram á þetta. Ég spurði hæstv. viðskrh. um úrræðin. Hún sagði að þessi úrræði væru fyrir hendi. Spurning mín ætti auðvitað að vera: Hvers vegna voru þau ekki notuð?

(Forseti (HBl): Ég vil ...)

Þannig að það er rangt ... ég skal hætta, herra forseti.

Það er rangt þess vegna að ég hafi í nokkru skipt um skoðun varðandi samþjöppun á matvælamarkaði. Ég veit að hæstv. forseta er kunnugt um það.