Afgreiðsla fjölmiðlafrumvarps

Fimmtudaginn 13. maí 2004, kl. 10:06:25 (8073)

2004-05-13 10:06:25# 130. lþ. 114.91 fundur 555#B afgreiðsla fjölmiðlafrumvarps# (aths. um störf þingsins), PHB
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur, 130. lþ.

[10:06]

Pétur H. Blöndal:

Herra forseti. Minni hv. þingmanns er frekar stutt. Fyrst kom fram dagskrártillaga um að nefndin skilaði umsögnum til hv. allshn. og héldi áfram umfjöllun málsins. Hún var samþykkt með fimm atkvæðum gegn einu, mínu atkvæði. Síðan bar ég upp dagskrártillögu um að nefndin skilaði umsögn til allshn. og lyki umfjöllun. Það var fellt á jöfnu, með fjórum atkvæðum gegn fjórum. Sú var staðan.

Um er að ræða umsagnarbeiðni frá hv. allshn. sem gaf okkur frest. Fyrst fengum við frest til föstudags og ég fékk hann framlengdan til mánudags. Þá lagði ég til að nefndin skilaði umsögn til allshn. þannig að hún gæti komið til umfjöllunar í nefndaráliti hennar. Það var fellt á þeim tíma. Eftir það erum við í rauninni að ræða einhverja umsögn sem menn vita ekki hvar endar. Í morgun var mikið rætt um það hvaða leiðir væru færar til þess að umsagnir hv. efh.- og viðskn. gætu komið til umfjöllunar og gætu komið fram á þinginu. Mér finnst að menn séu farnir að stunda ákveðna tilraunalögfræði. Það er svo sem ágætt að leita leiða en auðvitað áttu menn að skila umsögnum innan þess frests sem allshn. gaf. Það væri eðlilegast. Menn ákváðu hins vegar að halda áfram að ræða og í morgun var fellt að ljúka umfjöllun málsins þannig að ég er búinn að boða til fundar í fyrramálið milli 8 og 10 svo að menn geti enn frekar fjallað um málið til að skila umsögn til allshn. sem löngu er búin að skila nefndarálitum til Alþingis, bæði meiri hluti og minni hluti þeirrar nefndar.