Afgreiðsla fjölmiðlafrumvarps

Fimmtudaginn 13. maí 2004, kl. 10:13:00 (8076)

2004-05-13 10:13:00# 130. lþ. 114.91 fundur 555#B afgreiðsla fjölmiðlafrumvarps# (aths. um störf þingsins), JóhS
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur, 130. lþ.

[10:13]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Mjög athyglisverður fundur var í efh.- og viðskn. í gær og þá sýndi það sig að það var nauðsynlegt að efh.- og viðskn. fjallaði um málið. Þar kom m.a. fram og var upplýst af forsvarsmönnum Norðurljósa að líklegt væri að tæplega 6 milljarða lán fyrirtækisins mundi gjaldfalla við þetta breytta rekstrarumhverfi fyrirtækisins, þar á meðal 2 milljarðar sem lífeyrissjóðirnir eiga hjá þessu fyrirtæki. Og það var athyglisvert að engin veð standa á bak við skuldir fyrirtækisins við lífeyrissjóðina þannig að hjá lífeyrissjóðunum gætu tapast um 2 milljarðar kr. og að tæplega 6 milljarðar kr. gætu gjaldfallið og það gæti leitt til gjaldþrots þessa fyrirtækis. Þetta er mjög alvarleg staða og þetta eru nauðsynlegar upplýsingar inn í þessa umræðu.

Það er líka athyglisvert að eftir þessa umræðu í nefndinni í morgun, eftir að hv. þm. Össur Skarphéðinsson bar fram tillögu sína um að skila áfangaáliti sem fékk meiri hluta í nefndinni, hefur myndast nýr meiri hluti í henni. Til marks um það hvað nefndarmenn telja stöðu þessa máls alvarlega fékk dagskrártillaga formannsins sjálfs um að afgreiðslu málsins væri lokið í nefndinni einungis eitt atkvæði. (PHB: Fjögur.) Tillagan fékk eitt atkvæði. Hinir sátu hjá. Málinu hefur ekki verið lokið í nefndinni og verður þar til umfjöllunar áfram vegna þess að það er nauðsynlegt að fá fulltrúa Kauphallarinnar á fund nefndarinnar. Þetta fyrirtæki, Norðurljós, ætlaði að láta skrá sig í Kauphöllina á þessu ári en nú er ólíklegt að það gangi eftir vegna þeirra takmarkana og hindrana sem settar eru á rekstrarumhverfi þess. Við munum því óska eftir því í framhaldinu að fá fulltrúa Kauphallarinnar á fund okkar sem og fulltrúa lífeyrissjóðanna.