Afgreiðsla fjölmiðlafrumvarps

Fimmtudaginn 13. maí 2004, kl. 10:26:17 (8082)

2004-05-13 10:26:17# 130. lþ. 114.94 fundur 558#B afgreiðsla fjölmiðlafrumvarps# (um fundarstjórn), ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur, 130. lþ.

[10:26]

Ögmundur Jónasson:

Hæstv. forseti. Ég kveð mér hljóðs undir þessum lið, um fundarstjórn forseta, og mælist til þess að hann taki það upp í stjórn þingsins að þinghaldinu eða umfjöllun um þetta mál verði frestað. Hér hefur komið fram að meiri hluti efh.- og viðskn. Alþingis telur að þetta mál sé alvarlega vanreifað og stríði hugsanlega gegn stjórnarskrá landsins. Álit þessa efnis var samþykkt á fundi efh.- og viðskn. í morgun.

Ég tek undir það sem fram kom í máli hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar sem fór yfir atkvæðagreiðslur í nefndinni, niðurstöður þeirra og leiðrétti það sem þar var missagt, m.a. af þeim sem hér stendur. Ég ítreka að fram hafa komið upplýsingar í efh.- og viðskn. sem eru mjög alvarlegs eðlis, ekki aðeins að það séu áhöld um að hægt verði að skrá starfandi fjölmiðlafyrirtæki, sem er tæplega 700 manna vinnustaður, í Kauphöllinni og að rekstrarforsendum þess fyrirtækis sé stórlega ógnað heldur hefur það einnig verið upplýst að hjá fyrirtæki sem er skuldsett upp á tæpa 6 milljarða kr. eru 2 milljarðar í eigu lífeyrissjóða. Ekki nóg með það, þessir 2 milljarðar í eigu lífeyrissjóða eru án veðs. Er það ekki ábyrgðarhluti fyrir Alþingi að samþykkja lög sem stefna þessum verðmætum lífeyrissjóðanna í hættu, a.m.k. í tvísýnu?

Ég mælist til þess að forseti þingsins taki það upp í stjórn þingsins að þessu máli verði skotið á frest. Það er eðlilegt að þessum þingfundi verði frestað meðan það mál er tekið til umfjöllunar.