Afgreiðsla fjölmiðlafrumvarps

Fimmtudaginn 13. maí 2004, kl. 10:32:23 (8086)

2004-05-13 10:32:23# 130. lþ. 114.94 fundur 558#B afgreiðsla fjölmiðlafrumvarps# (um fundarstjórn), BjörgvS
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur, 130. lþ.

[10:32]

Björgvin G. Sigurðsson:

Virðulegi forseti. Ég kveð mér hljóðs undir liðnum um fundarstjórn forseta þar sem ég ætla að taka undir fram komna kröfu um að fresta þegar í stað þingfundi þannig að mönnum gefist tóm til að halda áfram að vinna málin.

Nú háttar svo til að menntmn. Alþingis --- frá því segi ég til að styðja kröfu mína --- fundaði hér í gærmorgun og fékk til sín nokkra valinkunna einstaklinga. Þar komu fram upplýsingar sem við, stjórnarandstæðingar í menntmn., teljum að gefi til kynna að í því frv. sem hér er til umfjöllunar felist alvarleg aðför að tjáningar- og málfrelsi í landinu. Við teljum að frv. vegi að þessum grundvallarmannréttindaákvæðum íslensku stjórnarskrárinnar, herra forseti, það hreinlega vegi að tjáningar- og málfrelsi í landi, prentfrelsinu, öllu því sem lýtur að frelsi manna til orðs, æðis og athafna.

Nú hefur okkur, fulltrúum stjórnarandstöðunnar í menntmn., lítill tími gefist til að vinna það minnihlutaálit sem við ætlum að skila inn til þingsins að ósk hv. allshn. Þingfundur hófst í gær strax og fundi menntmn. lauk. Hann stóð til klukkan að verða hálfeitt í nótt. Við höfum að sjálfsögðu nýtt nóttina til að leggja drög að því áliti sem við ætlum að skila inn til þingsins en eins og margoft hefur komið fram áður í málflutningi okkar teljum við að 2. umr. um frv. forsrh. um eignarhald á fjölmiðlum geti ekki farið fram með neinum vitrænum eða boðlegum hætti án þess að álit menntmn. liggi fyrir. Það ætti að liggja umræðunni til grundvallar, enda skipta þær upplýsingar sem þar komu fram sköpum þegar talið berst að tjáningarfrelsinu í landinu.

Eins og ég hef áður sagt metum við það svo, fulltrúar stjórnarandstöðuflokkanna í menntmn., að hér sé um að ræða alvarlega aðför að tjáningarfrelsinu í landinu. Við gerum þá kröfu, virðulegi forseti, að okkur gefist tími og tóm til að vinna nefndarálit okkar og skila því hér inn á hið háa Alþingi þannig að það megi liggja umræðunni til grundvallar. Því geri ég þá kröfu að virðulegur forseti beiti sér fyrir því þegar í stað að þingfundi verði frestað þannig að okkur gefist tími til að vinna að álitinu. Það getum við að sjálfsögðu ekki gert með neinum boðlegum hætti meðan þingfundur stendur yfir enda erum við hér við umræðuna.

Því set ég fram þessa kröfu og óska eftir því að virðulegur forseti beiti sér fyrir því strax að þingfundi verði frestað þannig að við getum dregið saman þær upplýsingar sem við teljum að leiði í ljós þá alvarlegu aðför að tjáningarfrelsinu í landinu sem þetta frv. hefur augljóslega í för með sér að okkar mati.