Útvarpslög og samkeppnislög

Fimmtudaginn 13. maí 2004, kl. 14:11:23 (8095)

2004-05-13 14:11:23# 130. lþ. 114.1 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, Frsm. meiri hluta BjarnB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur, 130. lþ.

[14:11]

Frsm. meiri hluta allshn. (Bjarni Benediktsson) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil aðeins bregðast við ræðu hv. þm. Helga Hjörvars. Hann beindi til mín fyrirspurn um hvernig ég hygðist axla mína pólitísku ábyrgð. Það er nú einu sinni þannig að ég mun ekki einn og óstuddur geta komið frv. í gegn á þinginu. Í nál. meiri hluta allshn. er farið yfir þau lögfræðilegu álitaefni sem uppi eru í málinu og lúta að stjórnarskránni sérstaklega og þar eru færð fyrir því efnisleg rök hvers vegna nefndin telur að með þeim breytingum sem hún leggur til að gerðar verði á frv. hafi verið komið nægilega til móts við þau sjónarmið sem fram hafa komið við störf nefndarinnar um þessi álitaefni.

Því miður er það svo að við getum ekki skorið úr því endanlega í þessu starfi hvernig þessum hlutum er háttað. Ég vil þó vekja athygli á því að í nál. er sérstaklega gert ráð fyrir þeim möguleika að sú staða kunni að koma upp að einstakir aðilar geti sótt bætur á grundvelli frv. Við sérstakar aðstæður eins og nefnt er í nál. kann sú staða að koma upp.

Ég hjó eftir því í ræðu hv. þm. að hann fjallaði aðeins um stöðuna á fjölmiðlamarkaði og var þeirrar skoðunar að bregðast þyrfti við þegar einstök fjölmiðlafyrirtæki væru samanlagt komin með slíka markaðshlutdeild að hún teldist óhófleg. Ég vil þess vegna spyrja hv. þm.: Er eitthvert fjölmiðlafyrirtæki á Íslandi samanlagt með óhóflega markaðshlutdeild?