Útvarpslög og samkeppnislög

Fimmtudaginn 13. maí 2004, kl. 14:16:06 (8097)

2004-05-13 14:16:06# 130. lþ. 114.1 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, Frsm. meiri hluta BjarnB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur, 130. lþ.

[14:16]

Frsm. meiri hluta allshn. (Bjarni Benediktsson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér þykir hv. þm. gera lítið úr efnismikilli umfjöllun meiri hluta allshn. um þau álitaefni sem upp hafa komið í störfum nefndarinnar og segir mig, þrátt fyrir þann ítarlega rökstuðning sem þar er að finna, hafa að engu ábendingar um lögfræðilega fleti málsins. Það þykir mér vera býsna fast að orði kveðið.

Hv. þm. vék að því í ræðu sinni áðan að samkeppnislögin hefðu ekki gagnast sem skyldi til að koma í veg fyrir eignasamþjöppun. Ef ég skildi hann rétt var hann þeirrar skoðunar að annaðhvort hefðu stjórnvöld ekki beitt þeim heimildum sem er að finna í samkeppnislögunum eða að samkeppnislögin sem slík hefðu ekki gagnast í þeim tilgangi að stýra þessum markaði í farsælt horf.

Ég vil vekja athygli hv. þm. á því varðandi eignasamþjöppunina að samkvæmt umsögn sem nefndinni barst frá Útgáfufélaginu Heimi hf. þá er hlutdeild Norðurljósa í frjálsu miðlunum 63%. Ef Ríkisútvarpið er tekið með er hlutdeild Norðurljósa í ljósvökum og dagblaði 47%. Þar er því umtalsverðan hlut að ræða. Ég hygg að hann hafi einkum verið að beina orðum sínum að þeirri þróun og eignasamþjöppun sem þar hefur átt sér stað, samþjöppun fjölmargra fjölmiðla undir einu þaki, þegar hann fjallaði um þá óæskilegu þróun sem átt hefði sér stað þrátt fyrir samkeppnislög.