Útvarpslög og samkeppnislög

Fimmtudaginn 13. maí 2004, kl. 14:20:34 (8099)

2004-05-13 14:20:34# 130. lþ. 114.1 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, SKK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur, 130. lþ.

[14:20]

Sigurður Kári Kristjánsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langar til að víkja að nokkrum atriðum og einkum einu atriði sem fram kom í ræðu hv. þm. og varpa fram spurningum til hans í kjölfarið á því sem fram hefur komið í umræðunni.

Hv. þm. var tíðrætt um svokölluð fyrirtækjablöð, nefndi þau og taldi að með frv. væri verið að leggja stein í götu fyrirtækja til þess að gefa út blöð og verið að skerða tjáningarfrelsi. Nú er ég ekki sammála því í sjálfu sér að svo sé verið að gera og hef reyndar gert grein fyrir sjónarmiðum mínum í þá átt í fjölmörgum andsvörum á Alþingi á undanförnum dögum. En það kom dálítið athyglisverður og nýr vinkill inn í umræðuna í gær frá frammámanni í Samf., hv. þm. Jóhanni Ársælssyni. Hann gerði sömu umkvartanir og hv. þm. Helgi Hjörvar í ræðu sinni og hélt því fram að verið væri að koma í veg fyrir það með frv. að fyrirtæki gætu gefið út blöð og auglýst sig og sínar vörur og sína þjónustu og tók sérstaklega fyrir Fréttablaðið í því sambandi. Þingmaðurinn lýsti því yfir að Fréttablaðið væri ekki fréttablað heldur auglýsingablað. Það héti reyndar Fréttablaðið en væri ekki fréttablað, heldur auglýsingablað.

Þetta er dálítið sérstakt en einhverra hluta vegna hefur enginn fjölmiðill haft áhuga á því að gera grein fyrir þessum sjónarmiðum þingmanns Samf. og skilgreiningu hans á Fréttablaðinu og eðli þess. (Forseti hringir.) En mig langar til þess að spyrja hvort hv. þm. Helgi Hjörvar sé sammála þessari greiningu flokksbróður síns á Fréttablaðinu.