Útvarpslög og samkeppnislög

Fimmtudaginn 13. maí 2004, kl. 14:22:54 (8100)

2004-05-13 14:22:54# 130. lþ. 114.1 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, HHj (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur, 130. lþ.

[14:22]

Helgi Hjörvar (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég veit ekki hvaða tilgangi svona málflutningur á að þjóna en ég get sagt hv. þm. það að ég tel að ef núverandi útgefandi Fréttablaðsins hefði ekki komið til liðs við það kæmi það ekki út í dag með þeim hætti sem það gerir og ég tel að gjaldþrot fyrra Fréttablaðsins sýni að það er algjör forsenda að sterkt félag eins og Baugur standi á bak við það. Ég tel að það hafi verið mjög mikilvægt og gott að við fengum Fréttablaðið vegna þess að Fréttablaðið fer á íslensku á hverjum degi inn á öll heimili á höfuðborgarsvæðinu og má nálgast það um land allt. Það fer til allra hópa samfélagsins, það fer til innflytjenda, til fátækra, okkar fatlaðra og allra hópa í samfélaginu og það er ákaflega mikilvægt að það sé með þeim hætti gefið tækifæri á því að allir geti tekið þátt í upplýsingasamfélaginu.

Hitt tel ég að sýni fram á að hæstv. forsrh. hefur í heilt ár ætlað að knésetja þetta fyrirtæki, að við umræður fyrr í vetur lýsti hæstv. forsrh. því yfir að til greina kæmi að veita blöðum sem seld væru í áskrift sérstakan ríkisstuðning, og tók að því leyti til undir hugmyndir hv. þm. Guðrúnar Helgadóttur, fyrrv. forseta Alþingis, um ríkisdagblað. Það væri þá fjárstuðningur úr ríkissjóði sem aðeins rynni eða fyrst og fremst rynni til Morgunblaðsins en þá ekki til Fréttablaðsins sem á þeim tíma var eina blaðið sem Baugur gaf út. Ég vil spyrja hv. þm. Sigurð Kára Kristjánsson hvort hann sé stuðningsmaður ríkisdagblaðs og hugmynda um ríkisstyrki af þessu tagi.