Útvarpslög og samkeppnislög

Fimmtudaginn 13. maí 2004, kl. 14:24:43 (8101)

2004-05-13 14:24:43# 130. lþ. 114.1 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, SKK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur, 130. lþ.

[14:24]

Sigurður Kári Kristjánsson (andsvar):

Frú forseti. Til þess að svara hv. þm. Helga Hjörvar með skýrum hætti get ég upplýst hann um það að ég er ekki hlynntur slíkum ríkisstyrkjum. Og það sem meira er þá er ég ekki hlynntur því að ríkið reki fjölmiðil, hvort sem það er blað, útvarp eða sjónvarp. Ég hef lagt fram á Alþingi á þskj. 407, sem er 337. mál þingsins, frv. til laga um breytingu á útvarpslögum, lögum um Ríkisútvarpið og lögum um tekjuskatt og eignarskatt, ásamt hv. þingmönnum Birgi Ármannssyni og Pétri H. Blöndal, sem mælir fyrir um einkavæðingu Ríkisútvarpsins. Ég held því að það liggi alveg fyrir hvert mitt álit er á ríkisstyrkjum og þátttöku ríkisins á fjölmiðlamarkaði.

Hins vegar svaraði hv. þm. ekki spurningu minni. Það hafa komið fram yfirlýsingar frá þingmanni Samf. sem heldur því fram að Fréttablaðið sé ekki fréttablað heldur auglýsingablað. Ég tel að með þeim yfirlýsingum sé hann að gefa blaðamönnum sem starfa á því blaði nokkuð langt nef og gera lítið úr störfum. þeirra. Ég tel líka að þær yfirlýsingar setji heldur betur í uppnám þingmál Samf. sem mælir fyrir um að setja skuli reglur til þess að tryggja sjálfstæði og frelsi blaðamanna. Ég átta mig ekki á því, ef Samf. lítur svo á að t.d. þetta tiltekna blað sé auglýsingablað en ekki fréttablað þá veltir maður því fyrir sér hvernig þær skilgreiningar skarast á við þau markmið sem fram koma í því þingmáli.

En ég spyr enn og aftur: Er hv. þm. Helgi Hjörvar sammála flokksbróður sínum um að þetta tiltekna blað sé auglýsingablað en ekki fréttablað?