Útvarpslög og samkeppnislög

Fimmtudaginn 13. maí 2004, kl. 14:29:21 (8103)

2004-05-13 14:29:21# 130. lþ. 114.1 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, AKG
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur, 130. lþ.

[14:29]

Anna Kristín Gunnarsdóttir:

Virðulegi forseti. Hvað liggur á? Hvers vegna liggur svona mikið á? Þeirri spurningu hefur ekki verið svarað. Norðmenn tóku fjögur ár í að búa til þá löggjöf um fjölmiðla sem í gildi er þar í landi þessa dagana og þeir eru nú að endurskoða þá löggjöf og færa til meira frjálsræðis. Sú löggjöf er engu að síður mun frjálslegri en íslenska löggjöfin verður ef það frv. sem hér er til umfjöllunar ásamt breytingartillögum verður að lögum.

[14:30]

Fyrir Alþingi liggja fjölmargar umsagnir sem eiga það sameiginlegt að leggja á það áherslu að vanda beri vinnuna og verkið og undrast það flaustur sem einkennir verklag Sjálfstfl. og Framsfl. Dæmi um slíkar umsagnir eru umsagnir ASÍ, BHM, BHMR, Þorbjörns Broddasonar, Sigurðar Líndals og Árvakurs, útgáfufélags Morgunblaðsins. Í umsögn Árvakurs segir, með leyfi forseta:

,,Stjórnin telur hins vegar fram komið lagafrumvarp ganga of langt og fela í sér óþarflega röskun á starfsumhverfi fjölmiðlafyrirtækja í ljósvakamiðlun.``

Síðar í sömu umsögn segir, með leyfi forseta:

,,Hvað meðferð þessa mikilvæga máls í held sinni varðar, átelur stjórn Árvakurs hf. hversu skammur tími virðist ætlaður til umræðu um það, sem leiðir til alvarlegrar óvissu um farsælar lyktir þess og hugsanleg áhrif til lengri tíma litið.``

Ég minni aftur á að Norðmönnum þótti ástæða til að taka fjögur ár í umfjöllun um sitt frv. þó að ég sé hér með ekkert endilega að mæla með því að svo langur tími verði tekinn, en á milli má nú vera.

Ragnar Aðalsteinsson og Sigríður Rut Júlíusdóttir lögmenn, Einar Páll Tamimi, lögfræðingur og kennari við Háskólann í Reykjavík, og Stefán Geir Þórisson lögmaður fjalla öll um frv. með tilliti til EES-samningsins. Þau gefa öll frv. falleinkunn, einnig eftir að tillit hefur verið tekið til brtt. sem fram eru komnar.

Lögmennirnir Jakob Möller, Einar Páll Tamimi og Sigurður Líndal hafa allir lýst því yfir að frv. muni ekki standast þrátt fyrir brtt. Samkeppnisstofnun telur frv. ekki standast samkeppnislög þrátt fyrir brtt. meiri hluta allshn. og margir fleiri hafa tekið í sama streng og stöðugt fleiri efast. Því spyr ég enn, eins og fólkið um allt Ísland er að spyrja: Hvað liggur á?

Ég ætla að vitna í Sigurð Líndal, með leyfi forseta, en hann segir:

,,Ef reynslan verður sú að frumvarpið --- ef að lögum yrði óbreytt --- snerti einungis eitt fyrirtæki með sérstökum hætti umfram önnur, jafnvel svo að það biði verulega hnekki, er það sérstakt athugunarefni hvort lög sem í reynd hefðu þessi áhrif, þótt orðalag þeirra væri almennt, samrýmdust 72. gr. stjórnarskrárinnar, þannig að ekki yrði unnt að líta svo á að þau fælu í sér almennar takmarkanir, heldur svo sérstakar að þau fælu í sér eignaupptöku þegar til framkvæmda kæmi. Þá er álitaefnið hvort dómstólar breyttu þeim í eignarnámslög og þau stæðust sem slík, en bætur yrðu dæmdar. Þar sem hætt væri við að tjón snerti svo marga og yrði svo gríðarlegt að enginn vegur væri að meta það er hitt miklu líklegra að lögunum yrði vikið til hliðar.``

Þessi umsögn segir okkur ásamt mörgum fleirum hvað það er, virðulegi forseti, fáránlegt að flýta sér með vinnslu frv. og skilja eftir svo marga óvissuþætti sem raun ber vitni.

En hvers vegna eru þessi vinnubrögð viðhöfð? Mín skoðun er sú að hér ríki alls ekkert ógnarástand í fjölmiðlun og að það sé engin vá fyrir dyrum, eins og komist er að orði í greinargerð meiri hluta allshn. Ég er sátt við ástandið, við stöðuna á fjölmiðlamarkaði á Íslandi í dag og tel hana vera góða. Ég tel að það sé fyllilega hægt að komast hjá hættum sem einhverjir sjá með öðrum ráðum sem hér er bent á og það er í mörgum umsagnanna bent á ráð sem við höfum þegar til að varast að falla í gildrur.

En eftir því sem málinu vindur fram og fleiri upplýsingar berast mætti ætla að löggjafarvaldið teldi það hlutverk sitt að bjarga einu fyrirtæki á fjölmiðlamarkaði með því að eyðileggja annað, sama þótt það kosti lífeyrissjóðina a.m.k. 2 milljarða, fjölda fólks atvinnuna og leiði auðsjáanlega til aukinnar fábreytni á fjölmiðlamarkaði og veiki framleiðslu íslensks menningarefnis, að ég tali ekki um brot á stjórnarskránni eins og bent er á í mörgum greinum í fjölmörgum umsögnum virtra lögmanna sem liggja fyrir Alþingi og nefndum þess.

Í vetur höfum við séð tvö dæmi um frv. sem keyra átti í gegnum þingið með miklum hraða, þ.e. eftirlaunafrumvarpið og fjölmiðlafrumvarpið. Nú spyr ég: Hvað eiga þau sameiginlegt? Jú, þau eiga það sameiginlegt að ríkisstjórnarflokkunum finnst óþægilegt að efni þeirra sé í umræðunni og vilja koma henni af sem fyrst. Svo hefur verið látið um mælt að best sé að keyra óþægileg mál sem hraðast í gegn því þótt allt verði vitlaust í samfélaginu verði fólk búið að gleyma öllu eftir tvo daga. Þess vegna liggur svona mikið á, auk þess sem forsrh. er að nýta sér það tangarhald sem hann hefur á Framsfl. fram að 15. september. Framsóknarmenn, sem hvorki láta sjá sig né heyra, leika eins og venjulega hlutverk hins sanngjarna málamiðlara en stjórnast í raun af hagsmunagæslu og geta í hvorugan fótinn stigið.

Margir hafa reynt að mana framsóknarmenn og aðra stjórnarliða til að taka þátt í umræðunni sem hefur verið nær alfarið á höndum stjórnarandstöðunnar, en ekki tekist. Hugsanleg ástæða fyrir því að stjórnarþingmenn þegja þunnu hljóði hvað sem á dynur er að þeir vita að þeir munu fá á sig lögsókn vegna málsins og að hvert orð sem sagt er af hálfu stuðningsmanna frv. er hugsanlega málsgagn í skaðabótamáli. Það er því óhætt fyrir þá að tala varlega. Ein undantekning hefur þó orðið á því sem ég lýsti hér að framan en það var þegar hv. þm. Hjálmar Árnason berstrípaði hin raunverulegu markmið í gærkvöldi, þ.e. markmiðið er einfaldlega að snúa vopnunum gegn einu fyrirtæki. Hjálmar er eini þingmaður Framsfl. sem enn hefur tekið þátt í umræðunni. Sjálfstæðismenn hafa þó látið sjá sig hér, m.a. tekið þátt í andsvörum.

Ég ætla, með leyfi forseta, að vitna í Sigurð Líndal þar sem hann fjallar um eignaupptöku í umsögn sinni. Nei, ég var víst að því áðan, fyrirgefðu forseti. En þessi tilvitnun í Sigurð minnir okkur á hve það er stórt mál sem við erum að tala um og kostnaðarsamt ef það verður raunin sem við erum með hér í höndunum. En það er í trausti þess að þjóðin gleymi sem stjórnarflokkarnir haga málum eins og raun ber vitni á Alþingi. Málin sem koma við almenning og eru almenningi erfið eru sett fram í byrjun kjörtímabils, skattaálögur, skerðing þjónustu, niðurskurður heilbrigðisþjónustu, fjöldatakmarkanir í framhalds- og háskóla, svik við aldraða og öryrkja, öllu þessu er dembt á í byrjun tímabilsins í trausti þess að það verði gleymt undir lokin. Skattalækkanirnar sem lofað var fyrir kosningar, afnám eignarskatts, lækkun neðra þreps virðisaukaskatts og lækkun tekjuskatts mun hugsanlega birtast fyrir næstu kosningar.

En þessa dagana horfum við fram á atlögu að tjáningarfrelsinu. Lögmennirnir Gestur Jónsson, Gísli G. Hall, Gunnar Jónsson, Margrét Einarsdóttir og Ragnar H. Hall segja í umsögn sinni um tjáningarfrelsi, með leyfi forseta, og fyrst er það skilgreining á tjáningarfrelsinu:

,,Þrátt fyrir mikilvægi þessara mannréttinda er heimilað í 3. mgr. 73. gr. að setja tjáningarfrelsinu skorður. Draga má skilyrði þar að lútandi saman þannig:

Í fyrsta lagi verður það aðeins gert með lögum.

Í öðru lagi verður það aðeins gert í þágu allsherjarreglu eða öryggis ríkisins til verndar heilsu eða siðgæði manna eða vegna réttinda eða mannorðs annarra.`` --- Ég endurtek: í þágu allsherjarreglu eða öryggis ríkisins, til verndar heilsu eða siðgæði manna eða vegna réttinda eða mannorðs annarra.

,,Í þriðja lagi verða þær skorður sem settar eru að teljast nauðsynlegar í lýðræðisríki.

Ljóst er að tjáningarfrelsi verður ekki takmarkað með öðrum hætti en felst í þessum skilyrðum. Hér er um undantekningarreglur að ræða, sem samkvæmt viðurkenndum lögskýringarreglum verður að skýra þröngri lögskýringu.``

Þetta var skilgreining lögfræðinga á því hvaða skilyrði verða að vera fyrir hendi ef leyfa á takmörkun tjáningarfrelsis. Í niðurlagi umfjöllunar sinnar um tjáningarfrelsi segja sömu lögfræðingar, með leyfi forseta:

,,Því verður ekki móti mælt að ákvæði frumvarpsins ganga í mörgum atriðum lengra í átt til takmörkunar á tjáningarfrelsi en efni tilmælanna gefur tilefni til. Við teljum ótvírætt að það sé hvorki nauðsynlegt né í samræmi við lýðræðishefðir. Jafnframt teljum við að efni þess sé til þess fallið að valda stórkostlegu tjóni þeim aðilum sem efni frumvarpsins beinist gegn, en engin leið er að átta sig á mögulegu umfangi slíks tjóns á þeim skamma tíma sem ætlaður er til umfjöllunar um frumvapið á Alþingi. Er í því sambandi áréttað að ákvæði frumvarpsins skerða eingöngu hagsmuni Norðurljósa hf., dótturfélaga þeirra og hagsmuni þeirra sem þeim tengjast. Hér er því niðurstaðan sú að ákvæði frumvarpsins, einkum og sér í lagi ákvæði til bráðabirgða, séu andstæð 73. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. 10. gr.``

Ragnar Aðalsteinsson og Sigríður Rut Júlíusdóttir fjalla einnig um tjáningarfrelsi í umsögn sinni og segja í lokaorðum sínum eftir vandaða umfjöllun, með leyfi forseta:

,,Í 3. málslið 1. mgr. 10. gr. mannréttindasáttmála Evrópu um tjáningarfrelsi segir að ákvæðið skuli ekki hindra ríki í að gera útvarps- og sjónvarpsfyrirtækjum að starfa samkvæmt sérstöku leyfi. Er ákvæði þetta var samþykkt var það annars vegar af tæknilegum ástæðum, þ.e. vegna takmarkaðs tíðnisviðs, en einnig vegna þess að sum ríki vildu viðhalda einkaleyfi ríkisins til útvarpsreksturs. Mikilvægi ákvæðis þessa hefur minnkað mjög, annars vegar vegna þess að Mannréttindadómstóll Evrópu hefur komist að þeirri niðurstöðu að óheimilt sé að viðhalda einkaleyfi ríkis til útvarpsreksturs og hins vegar vegna tækniframfara sem tengjast notkun tíðnisviðsins. Þá er og minnt á að skammt er þar til allt útvarpsefni verður sent viðtakendum með stafrænum hætti og því verður ekkert sem takmarkar fjölda útvarpsstöðva. Við útgáfu útvarpsleyfa ber að hafa í huga að réttur ríkis til að takmarka útgáfu þeirra er og háður ákvæðum 2. mgr. 10. gr. sáttmálans. Takmarkanir verða að vera nauðsynlegar í lýðræðislegu þjóðfélagi m.a. vegna þjóðaröryggis, landvarna eða almannaheilla.``

[14:45]

Nú skulum við spyrja okkur hvort það sé eitthvað slíkt sem er í húfi hér. Þetta ömurlega öfugmælafrumvarp sem hefur það að yfirvarpi að tryggja fjölbreytni á fjölmiðlamarkaði mun að öllum líkindum tryggja fábreytni, samanber umsögn Samkeppnisstofnunar, með leyfi forseta:

,,Samkeppnisstofnun fær ekki séð að þetta ákvæði sé nauðsynlegt til þess að tryggja markmið frumvarpsins um æskilega fjölbreytni í fjölmiðlun. Jafnvel má leiða að því líkur að ákvæðið stuðli frekar að einsleitni í eignarhaldi þar eð þeim fyrirtækjum kann að fækka að óþörfu, miðað við tilgang frumvarpsins, sem þátt geta tekið í eignarhaldi og þar með rekstri fjölmiðla. Þannig fæst ekki séð hvernig það getur takmarkað fjölbreytni og aukið samþjöppun að markaðsráðandi fyrirtæki taki þátt í því að stofna nýjan fjölmiðil. Ekki fæst heldur séð að það geti takmarkað fjölbreytni að markaðsráðandi fyrirtæki styrki með eignarhlut sínum möguleika lítils fjölmiðils að keppa við stærri fyrirtæki, m.a. þau sem njóta ríkisaðstoðar eða eru í markaðsráðandi stöðu. Þvert á móti eru slíkar aðgerðir til þess fallnar að auka fjölbreytni og draga úr samþjöppun. Í þessu samhengi verður að hafa í huga að ákvæði samkeppnislaga leggja bann við hvers konar misnotkun á markaðsráðandi stöðu. Samkeppnislög eiga því að koma í veg fyrir að markaðsráðandi fyrirtæki í óskyldum rekstri nýti styrk sinn með óeðlilegum hætti á fjölmiðlamarkaði.``

Síðasta setningin sýnist mér afar mikilsverð því þarna er Samkeppnisstofnun í raun að benda á að henni sé ætlað að hafa eftirlit með því sem frv. á m.a. að snúa að en gerir í raun ekki því þó að yfirvarpið sé eitt þá er tilgangurinn augljóslega allt annar með frv.

Frú forseti. Virðingu þjóðarinnar er misboðið. Þetta mál mun ekki gleymast enda eru allar líkur á því að þjóðin standi frammi fyrir því rétt fyrir næstu kosningar að þurfa að borga á milli 2 og 3 milljarða kr. skaðabótadóm, verði frv. að lögum. Sá dómur og sú fjárhæð sem ég held að íslenska þjóðin öll vildi gjarnan nota á annan hátt og skynsamlegri verður áreiðanlega nægileg áminning til þess að fólk hugsi sig vel um og láti ekki blekkjast, jafnvel þó að dregnar verði kanínur upp úr töfrahatti eða einhverju veifað sem á að ginna kjósendur að kjötkötlum Framsfl. og Sjálfstfl. eins og oft hefur verið.