Útvarpslög og samkeppnislög

Fimmtudaginn 13. maí 2004, kl. 14:50:17 (8104)

2004-05-13 14:50:17# 130. lþ. 114.1 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, BrM
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur, 130. lþ.

[14:50]

Brynja Magnúsdóttir:

Frú forseti. Fjölmargir fræðimenn hafa komið fram og farið gegn þessu frv. og erfitt hefur reynst fyrir meiri hluta allshn. að finna einhvern sem getur sagt að frv. og nú þessar brtt. geti leitt til hins yfirlýsta markmiðs um aukið fjölræði og fjölbreytni á fjölmiðlamarkaði. Frumvarpið er ekki að ná tilgangi sínum og ætti því að detta dautt niður og menn ættu að snúa sér að einhverjum öðrum leiðum til að tryggja sjálfstæði fjölmiðla og gagnsæi þeirra.

Í blaðagrein sem birtist í Morgunblaðinu 2. maí eftir Pál Þórhallsson rekur hann ytri og innri aðstæður fjölmiðlaumhverfis, lagaumhverfis og samspil við frv. þetta. Ráðherranefnd Evrópuráðsins kom með tilmæli 1999 um aðgerðir til að stuðla að fjölbreytni í fjölmiðlun og það hefur verið viðfangsefni hennar í áratugi. Þegar dagblöðum fór að fækka vegna fjárhagsörðugleika og samruna brást ráðherranefndin við með ályktun nr. (74) 43 um samþjöppun og nefnir mikilvægi 10. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, um rétt almennings til upplýsingar. Síðar samþykkti Evrópuráðið tilmælin nr. (94) 13, um aðgerðir til að stuðla að gagnsæi fjölmiðla. Núna kemur ríkisstjórn Íslands fram með frv. til að reyna að taka á samþjöppun með það að markmiði að auka fjölbreytni og fjölræði í fjölmiðlum. Páll nefnir í grein sinni, með leyfi forseta:

,,Í tilmælum nr. (2000) 23 um sjálfstæði og hlutverk stjórnvalda á útvarpssviðinu segir þannig að setja beri reglur sem tryggi að þeir sem eiga sæti í opinberum eftirlitsnefndum sem hafi með höndum úthlutun útvarpsleyfa séu ekki undir áhrifum frá pólitískum öflum né séu þeir í slíkum tengslum við fjölmiðafyrirtæki að draga megi óhlutdrægni þeirra í efa.``

Hann dregur þær ályktanir að takmarkanir á því hverjir geti sótt um útvarpsleyfi sé íhlutun í tjáningarfrelsi og stangist á við 10. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Hann segir einnig að þegar ríki herðir mjög skilyrði fyrir því að veitt séu útvarpsleyfi verði að útskýra af hverju vægari leiðir voru ekki farnar til að ná sömu markmiðum. Hann bendir einnig á að taka þyrfti það til skoðunar á grundvelli jafnræðisreglna hvers vegna sumir megi sækja um leyfi en aðrir ekki og hvort sú mismunun sé málefnaleg. Að lokum bendir Páll á að reglur megi ekki vera það fortakslausar að þær útiloki með öllu að tilteknir aðilar geti fengið útvarpsleyfi.

Þegar ríki herðir mjög skilyrði fyrir veitingu útvarpsleyfa verður það að útskýra af hverju vægari leiðir voru ekki farnar. Í skýrslu fjölmiðlanefndar koma fram mismunandi leiðir til að stemma stigu við samþjöppun á fjölmiðlamarkaði en engin þeirra er eins róttæk og frv. sem nú liggur fyrir hinu háa Alþingi. Þetta frv. getur í raun og veru virkað samkeppnishamlandi og dregið úr aðgengi fjölmiðlafyrirtækja að fjármagni. Það beinist gegn einni tiltekinni sjónvarpsstöð. Fyrirtæki úti í bæ hafa sætt harðri gagnrýni stjórnarliða, fagmennska fréttamanna hefur verið sögð engin, fólk sagt vera að gera úlfalda úr mýflugu, frv. sé klárt og skýrt og gangi auðveldlega í gegn og því ætti frv. varla að vera fréttnæmt.

Nauðsynlegt er að koma með fjölmiðlafræðilegt sjónarhorn í þessa umræðu og hvernig þróunin hefur verið frá upphafi miðlunar. Því hef ég stuðst við samantekt prófessors Þorbjörns Broddasonar, Ritlist, prentlist, dægurmiðlar, til að geta gert slíkt á markvissan og skemmtilegan hátt, en þar kemur m.a. fram að þegar faðir prentlistarinnar, Gutenberg, fann aðferð til að steypa í móti prentstafi má segja að ákveðin tæknibylting hafi átt sér stað í boðskiptum. Með tilkomu þessarar nýju aðferðar breiddist prentlistin hratt út um Evrópu, fólk fór að prenta eitthvað annað en kirkjuleg orð og hófst mikil ritskoðun. Í Frakklandi voru menn sannfærðir um að stöðva þyrfti þessa vítisvél, villukenningar og annað sem ekki samræmdist stjórninni varð að banna. Það var ekki fyrr en í stjórnarbyltingunni að ritskoðunin hætti. Í Bretlandi var sett á stimpilgjald og samkvæmt því varð eigandi blaðs að borga penní á hvert blað sem hann prentaði og shilling á hverja auglýsingu. Þetta leiddi til hærra verðs og minni lesendahóps og einungis efnamenn gátu lesið blöðin. Blöðunum fækkaði unnvörpum og urðu fyrir vikið enn háðari yfirvöldum.

Fréttafrelsi var takmarkað víða um heim og það er ekki fyrr en í Bandaríkjunum að sett var viðbót við stjórnarskrána sem hljóðaði á þá leið að óheimilt væri að setja lög sem hindruðu málfrelsi eða prentfrelsi. Við erum svo heppin á Íslandi að hafa svipaða klausu, með leyfi forseta, segir í 73. gr. stjórnarskrárinnar:

,,Hver maður á rétt á að láta í ljós hugsanir sínar, en ábyrgjast verður hann þær fyrir dómi. Ritskoðun og aðrar sambærilegar tálmanir á tjáningarfrelsi má aldrei í lög leiða.

Tjáningarfrelsi má aðeins setja skorður með lögum í þágu allsherjarreglu eða öryggis ríkisins, til verndar heilsu eða siðgæði manna eða vegna réttinda eða mannorðs annarra, enda teljist þær nauðsynlegar og samrýmist lýðræðishefðum.``

Hér er gengið fram með þetta frv. sem einhvers konar gunnfána. Hér á lýðræðið að blakta við hún. Við verðum að viðurkenna að aldrei hefur fjölmiðlalandslagið á Íslandi verið fjölbreyttara. Því er erfitt að skilja hvaða ,,akút`` ástand er hér í gangi fyrst við verðum hreinlega að skella okkur í herliðið sem arkar áfram á ljóshraða og lítur hvorki til hægri né vinstri --- og forðast sérstaklega hægri áttina.

Napóleon Bónaparte útrýmdi blaðamennsku þegar hann var hæstráðandi. Hann sá ekki aðeins til þess að Frakkland fyndi fyrir sínu almætti heldur einnig í öðrum löndum og sagði Napóleon sjálfur að þrjú fjandsamleg fréttablöð væru hættulegri en þúsund byssustingir. Hér á landi er því svipað farið. Sakir um skort á málefnalegri umræðu í fjölmiðlum, blaðamenn sem ganga erinda eigenda sinna, engin fagmennska.

Hæstv. samgrh. Sturla Böðvarsson segir í grein 1. maí í einu vefritanna, með leyfi forseta:

,,Í Baugsblöðunum hafa ráðið för einstaklingar sem skeyta hvorki um skömm né heiður þegar koma þarf höggi á einstaklinga. Í þessu tilviki augljóslega, til að þóknast eigenda blaðsins.``

Og svo síðar:

,,Framganga þeirra sem fara með fjórða valdið í samfélaginu getur haft afgerandi áhrif. Það er hlutverk okkar stjórnmálamanna að setja reglur um eignarhald á fjölmiðlum. Þær reglur verða að taka eðlilegt tillit til þeirra gilda sem eru í heiðri höfð í samfélaginu að þjóðarrétti. Eigendur fjölmiðla geta ekki vænst þess að geta óáreittir beitt fjölmiðlum í krafti ofurvalds í eigin þágu og hafa með því áhrif á stjórnmálamenn og almenning. Eigi lýðræðið að vera virkt fara þeir sem hafa verið kjörnir til þess með hið opinbera vald á sviði löggjafar, framkvæmdarvalds eða dómsvalds. Þeir verða auðvitað að þola heiðarlega og öfluga umræðu um störf sín.``

En óþarfi er það að skella á þessari hlussu sem þetta litla frv. er í raun og veru, Ísland skelfur undan þunga þess, og eitt af því sem hæstv. forsrh. hefur um það að segja er, með leyfi forseta:

,,Frumvarpið er mjög skýrt og einfalt og klárt og auðvelt að skilja það þegar menn sjá það. Ég á því von á því að það gangi greiðlega í gegnum þingið og hljóti þar mikinn stuðning. Ég á ekki von á öðru.``

Þetta var 26. apríl á mbl.is og nú er kominn 13. maí og nætur liðnar og dagar og ansi margir klukkutímar og 2. umr. hafin.

Sem betur fer var þetta ekki flókið. Þetta var ekki óljóst og ófullkomið frv. vegna þess að þá hefði umræðan verið eitthvað lengri, þó að henni sé ekki lokið. Í sömu grein segir hæstv. forsrh., með leyfi forseta:

,,Það hefur verið haft fullt samráð við alla.``

Það er flott, segi ég, það er algjör óþarfi að vera að vorkenna nefndum sem hafa komið hér grátandi undan flýtinum á meðferð málsins. Það er alveg ótrúleg frekja í þessum nefndum, það hefur verið haft fullt samráð við alla.

Svona heldur þetta áfram. Ummæli hæstv. menntmrh. í Kastljósi 28. apríl sl. eru þó athyglisverð, sérstaklega í ljósi þeirrar varnar að ekki sé verið að ganga gegn einhverju einu fyrirtæki og lögin séu ekki sértæk. Með leyfi forseta:

,,Ég er ekkert rosalega sátt við það hvernig það er verið að ráðast á eina persónu í stjórnmálunum sem vill svo til að er forsætisráðherra landsins sem hefur leyft sér að gagnrýna fyrirtæki sem á Frétt og Norðurljós kannski meira heldur en aðrir í samfélaginu og þá er verið að ráðast hann og ég oft á tíðum dáist að því hvað hann stendur í lappirnar. Það er verið að væna hann um að hann sé ekki heill á geði beint eða óbeint í ritstjórnarpistlum og ýmsum blaðagreinum í Fréttablaðinu. Það er verið að tala um að það sé verið að binda gremju hans í lög o.s.frv. Ég hef aldrei upplifað jafnmiklar persónulegar árásir á einn eða neinn einstakling í samfélaginu sem leyfir sér að mótmæla einhverjum hagsmunum ákveðins fyrirtækis.``

[15:00]

Ummæli hæstv. fjmrh. 3. maí á Stöð 2:

,,Það er allt í sambandi við málsmeðferðina í þessu máli hefðbundið og hefur tíðkast um mörg mál. Það sem var hins vegar nýtt í þessu og má sjá til dæmis í dagblöðunum, sérstaklega DV og einkum DV, eru árásir á forystumenn þjóðarinnar, sérstaklega forsætisráðherra, sem mér liggur við að kalla sjúklegar. Það er ekki einleikið hvernig þetta blað, DV, leyfir sér að fjalla um forsætisráðherra.``

Svo kemur vörn þeirra fagmanna sem eru undir þessu. 8. maí birtist á mbl.is fréttatilkynning frá Sigríði Árnadóttur, fréttastjóra Stöðvar 2 og Bylgjunnar, þar sem hún biður Rannsóknastofnun Háskólans á Akureyri að fara yfir fréttaflutning RÚV og Stöðvar 2 og meta hvort einhver munur hafi verið á efnistökum í fréttaflutningi, með leyfi forseta:

,,Alhæfingar sumra stjórnmálamanna undanfarið um óheiðarleg vinnubrögð, undirlægjuhátt, svik við gildi, sem allir blaða- og fréttamenn eiga að halda í heiðri, er ekki gagnrýni sem mark er á takandi. Við krefjumst ekki kurteisi, en biðjumst undan dylgjum og ærumeiðingum. Vissulega göngum við erinda --- erinda áhorfenda, almennings. En ekki eigenda. Það er skylda okkar að velta hverjum steini. Veita aðhald. Upplýsa. Óháð og án afskipta eigenda.``

Hér kemur fagmennskan fram. Viðleitni til fagmennsku og sú vissa sem almenningur getur haft um fjölmiðla er fagmennska og setja verður þessa gagnrýni í tengsl við fjölmiðlafræðilegt mat á atburðum líðandi stundar og ástæður þess að frv., öll orðræðan, athugasemdir, ummæli, neikvæðni, jákvæðni og allt það heila sé svona mikið umfjöllunarefni fjölmiðlanna. Af hverju er fjölmiðlafrumvarpið svona fréttnæmt og af hverju er umræðan með þessum hætti? Hef ég því ákveðið að taka þetta fyrir í tólf fréttaforsendum Galtungs og Ruges. Galtung og Ruge eru fræðimenn hafa skrifað um þá þætti sem hafa áhrif á birtingu frétta. Fréttaforsendur þeirra standast vel tímans tönn þó svo að þau hafi skrifað þessa tímamótagrein seint á fjórða áratug síðustu aldar.

Fyrsta fréttaforsendan er tíðni og átt er við þann tíma sem tekur atburð að renna sitt skeið. Fyrst var byrjað að leka fjölmiðlaskýrslunni, síðan heyrðist af frumvarpssmíðum. Fjölmiðlar hafa verið ötulir við að upplýsa almenning um breytingar og þróun á stöðu mála. Reyndar er það þannig að eitthvað eins og fjölmiðlafrumvarpið, breyttur þjóðarhagur eða róttækar stefnubreytingar hafa það langa tíðni að hætt er við að slíkir atburðir fari fram hjá vitund almennings, eitthvað annað en jarðskjálfti eða mannsmorð. En sem betur fer hafa fjölmiðlar, ríkisreknir sem og einkareknir, haft puttann á málunum.

Næsta fréttaforsenda er styrkur. Því stærri sem atburðurinn er því meiri athygli hlýtur hann. Í þessu tilfelli er það umfang fjölmiðlanna, stærð þeirra, fjöldi fólks sem er í hættu að missa atvinnuna og svo hið litla stjórnarskrár- og mannréttindabrot.

Skýrleiki er þriðja fréttaforsendan. Ef heimildir eru óljósar, umfjöllunin er of kostnaðarsöm eða of tímafrekt er að koma sér inn í málin getur fréttaflutningur orðið óljós og þokukenndur. En í þessu máli er augljóst hvernig málin standa. Umsagnir um frv. og nál. meiri hluta og minni hluta liggja fyrir, það er hægt að sjá svart á hvítu ólík viðhorf eða réttara sagt: stjórnarliðar og þrjár umsagnir gegn rest.

Fjórða atriðið er merking. Skipti atburðurinn miklu máli fyrir okkur eru meiri líkur á að við veitum honum athygli. Galtung og Ruge nefna þennan þátt líka nálægð. Því nær sem atburðurinn er því meira máli skiptir hann. Það er hægt að skipta þessu í tvennt, menningarlega nálægð og snertingu. Fjölmiðlar á Íslandi skipta miklu máli hvað varðar menningarlega hlutann og snertingu. Miðað við Íslendingabók erum við öll skyld.

Fimmta fréttaforsendan er samhljómur. Galtung og Ruge greina þessa forsendu í tvennt, fyrirsegjanleika og eftirspurn, og segja að við séum fljótari að átta okkur á því sem við eigum von á en hinu sem við búumst ekki við. Þetta getur þó jafnframt falið í sér að við séum við einhverju búin eða að við vonumst eftir einhverju.

Flestir flokkar hér hafa farið fram með tillögur um fjölmiðla og umhverfi þeirra. Samf. lagði fram þáltill. um gagnsæi og ritstjórnarlegt sjálfstæði sem útbýtt var 31. mars 2004, rétt tæpum mánuði á undan þessu agalega lagafrv. Pirringur hæstv. forsrh. hefur ekki heldur verið nein launung og ekki bara út í byssustingi sem eru að angra hann heldur víða og miðað við hið nútímalega lýðræðisríki sem við búum nú við er hin bónapartíska aðferð alveg tilvalin, enda endurtekur sagan sig stöðugt.

Eftirspurn og fyrirsegjanleiki. Andstaðan við það og jafnframt sjötta fréttaforsendan er óvænti, eða skipt upp í tvennt ófyrirsegjanleiki og skortur. Offorsið, reiðin heiftin, tímaskorturinn í ljósi gildistöku eftir tvö ár, málsmeðferð og hin óskiljalega þögn. Ekki átti landinn von á þessari málsmeðferð og hvernig svínað er á lýðræðinu og er það vitaskuld eftirtektarvert.

Sjöunda fréttaforsendan er samfella og ekki er beint hægt að segja að samfellan hafi náð einhverju marki. Undir samfellu fellur miklu frekar eitthvað eins og björgun skipsins Guðrúnar Gísladóttur af hafsbotni. En hvað varðar samfellu þá er skilgreiningin þannig, með leyfi forseta:

,,Í þessu felst að atburðarás sem eitt sinn hefur hlotið skilgreiningu sem frétt mun halda þeirri stöðu áfram jafnvel þótt styrkur hennar minnki.``

Nú eru einungis þrjú ár í næstu kosningar og samfellan heldur áfram. Vonandi hefur styrkur hennar þá ekki minnkað það mikið að þjóðin hafi gleymt málsmeðferðinni. Kannski er einna helst hættan á að Alþingisvefurinn liggi niðri alla kosningabaráttuna eins og hefur gerst með vefrit með óheppilegar skoðanir, hin bónapartíska ritskoðun máski þar á ferð. Það verður þá a.m.k. blátt bann við henni.

Samsetning er áttunda fréttaforsendan og þá einungis til að auka fjölbreytileikann í fjölmiðlunum. Ef borist hefur mikið af einni tegund frétta er farið í annars konar fréttir til að auka á fjölbreytileikann.

Valdaþjóðir eru níunda fréttaforsendan. Það sem gerist meðal voldugra þjóða er iðulega merkilegra en það sem gerist hjá fátækum og valdsnauðum þjóðum. Jú, Ísland er voldug þjóð þó svo að lýðræðið hafi hopað aðeins og svona aðeins öðru hvoru.

Valdafólk er tíunda forsendan. Það sem kemur fyrir valdamenn fremur en almúgann er iðulega fréttnæmara, og þegar níðst er á kónginum, t.d. í Svíþjóð, er fjallað um það frekar en þegar kaupmaðurinn á horninu var bitinn af þremur hundum.

Persónutenging er ellefta fréttaforsendan. Sé hægt að persónutengja atburðinn verður frásögnin auðveldari en ella og meiri líkur eru á að sagt verði frá þeim atburði. Við vitum nokkurn veginn hvernig þetta atriði er að pluma sig í fjölmiðlum. Fréttaforsenda þessi stenst algerlega tímans tönn, reyndar líkt og allflestar þær sem hafa komið fram. Þegar þessir fræðimenn hafa sagt þetta seint á fjórða áratug síðustu aldar má maður nú ekki gerast hrokafullur og halda að í nútímalegu lýðræðisríki með fjölbreytileika fjölmiðlanna séu þeir að einblína á og einbeita sér að einni manneskju af einskærri tilviljun en ekki af gefinni ástæðu.

Síðasta forsendan eða sú tólfta tengist fyrstu forsendunni, tíðni, á þann hátt að jákvæðir atburðir taka yfirleitt langan tíma en neikvæðir gerast skyndilega, með leyfi forseta:

,,Oft eru neikvæðir atburðir mjög skýrir og merkingarbærir, þeir koma einnig mjög oft á óvart. Fyrir vikið höfum við vanist því að fréttir af fjarlægum slóðum eru oftar en ekki slæmar. Góðu fréttirnar, sumar hverjar a.m.k., skortir styrk. Tíðni þeirra hentar ekki, þær taka kannski langan tíma og þær skortir merkingu fyrir okkur og þær eru e.t.v. ekki tengdar einstaklingum heldur lúta frekar að breytingum á lífi og kjörum hópa og þjóða, þær snerta almenning.``

Ég veit nú varla hvort þessi neikvæði atburður hafi komið eitthvað sérstaklega á óvart. Samfylkingin hafði komið fram með þáltill. varðandi gagnsæi og ritstjórnarlegt sjálfstæði, síðan hafði komið fram sameiginleg þáltill. frá hinum flokkunum um könnun á starfsumgjörð fjölmiðla. Þessi fréttaforsenda á þó einna helst við umfjöllunina erlendis frá eins og t.d. pyntingar Bandaríkjamanna á föngum. Það kom virkilega á óvart að það sem Bandaríkjamenn hafa einna harðast fordæmt í stríðrekstri iðka þeir sjálfir.

Það var árið 1856 sem ritskoðun var afnumin með lögum hér á landi en þangað til gátu yfirvöld í raun og veru stöðvað útgáfu blaða ef þeim mislíkaði þau. En engu að síður er prentfrelsi okkar varið í stjórnarskrá og er því mjög skringilegt að standa í pontu hér árið 2004 og sjá atlögu að tjáningarfrelsi, að stjórnarskránni, að mannréttindasáttmála Evrópu og fleiri lagabálkum sem nefndir hafa verið í þeim ótalmörgu umsögnum sem borist hafa allshn. Frumvarpið er ekki að ná yfirlýstum tilgangi sínum og því ætti að vísa því frá og fara aðrar leiðir til að auka gagnsæi á eignarhaldi eða sjálfstæði ritstjórna.