Útvarpslög og samkeppnislög

Fimmtudaginn 13. maí 2004, kl. 17:22:42 (8107)

2004-05-13 17:22:42# 130. lþ. 114.1 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, GAK
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur, 130. lþ.

[17:22]

Guðjón A. Kristjánsson:

Hæstv. forseti. ,,Fjölmiðlar eru ein meginstoð opins samfélags og lýðræðislegrar stjórnskipunar. Þeir hafa einnig undirstöðuhlutverki að gegna við að tryggja málfrelsi. Á fjölmiðlamarkaði þarf að ríkja fjölbreytni svo að almenningur fái upplýsingar úr ólíkum áttum. Mjög varhugavert er að of fáir aðilar verði ráðandi um þátt fjölmiðla í skoðanamyndun samfélagsins. Slíkt skapar hættu á að ólíkum sjónarmiðum sé gert mishátt undir höfði og fjölmiðlarnir ræki ekki sem skyldi aðhalds- og gagnrýnishlutverk sitt. Fjölmiðlar verða að njóta frelsis og sjálfstæðis, vera fjölbreyttir að gerð og eiginleikum og óháðir hver öðrum til að öll framangreind markmið náist. Samþjöppun á fjölmiðlamarkaði er því afar varasöm. Einnig er nauðsynlegt að ætíð liggi ljóst fyrir hvernig eignarhaldi fjölmiðla er háttað.``

Hæstv. forseti. Þetta var tilvitnun, með yðar leyfi, í greinargerð með þáltill. sem rædd var hér í desember sl. sem ég ásamt fleiri hv. þingmönnum var flutningsmaður að. Meginefni þeirrar tillögu er svohljóðandi, með leyfi forseta:

,,Alþingi ályktar að kjósa nefnd skipaða fulltrúum allra þingflokka sem fái það verkefni að kanna starfsskilyrði fjölmiðla, hræringar á fjölmiðlamarkaði og hvert stefnir og huga að því hvort þörf sé lagasetningar eða aðgerða til að treysta stöðu sjálfstæðs og fjölbreytts fjölmiðlareksturs hér á landi.``

Í niðurlagi greinargerðar með tillögunni segir svo um verkefnið:

,,Verkefni nefndarinnar sem hér er gerð tillaga um er að kanna starfsumgjörð fjölmiðla á Íslandi, hvert stefni í þeim efnum og hvort styrkja megi sjálfstæði þeirra, frelsi og fjölbreytni með lagaákvæðum eða öðrum hætti. Mikilvægt er að nefndin starfi í nánu samráði við hagsmunaaðila og hraði störfum sínum.``

Hæstv. forseti. Þrátt fyrir að við vildum vissulega að nefndin hraðaði störfum sínum voru henni ekki sett tímamörk, enda töldu flutningsmenn að hér væri um mjög viðamikið verkefni að ræða og í ræðum flestra flutningsmanna og m.a. þess sem hér stendur kom glöggt fram að huga þyrfti mjög gaumgæfilega að þessum málum og taka þau til skoðunar og ég tók það sérstaklega fram í mínu máli að það væri eigi sjálfgefið að sú skoðun sem við lögðum til að færi fram og allir stjórnmálaflokkar á Alþingi kæmu að leiddi til sérstakrar lagasetningar á fjölmiðla eins og hér er verið að ræða um þar sem verið er að tala um takmörkun á eignarhaldi annars vegar og takmörkun á útvarpsleyfum hins vegar.

Það er einfaldlega svo, hæstv. forseti, að þrátt fyrir að þingmenn á hv. Alþingi hafi áhuga á að skoða stöðuna á fjölmiðlamarkaðnum er ekki þar með sagt að það þýði jáyrði við hverju sem er og a.m.k. ekki við þeim málatilbúnaði sem við erum að ræða hér.

Við ræddum þessi mál í sambandi við þá þáltill. sem ég vitnaði í, í byrjun desember, mig minnir að það hafi verið 2. desember. Það var síðan menntmrh. sem tók sér það verk á hendur að skipa sérstaka nefnd sem sett var á laggirnar með bréfi dags. 19. desember. Sú nefnd átti að skoða fjölmiðla og eignarhald á fjölmiðlum. Hún skilaði skýrslu sem ber heitið ,,Greinargerð nefndar menntamálaráðherra um eignarhald á fjölmiðlum á Íslandi``.

Hæstv. forseti. Mig langar að vitna hér í bls. 3 og 4 í þeirri skýrslu sem er inngangurinn að skýrslunni, en þar segir, með leyfi hæstv. forseta:

,,Grunnforsendan að baki verkefni nefndarinnar er hið almenna viðhorf um mikilvægi fjölmiðla í nútímalýðræðisþjóðfélagi, þar sem skoðana- og tjáningarfrelsi ríkir. Fjölmiðlar gegna lykilhlutverki sem vettvangur ólíkra viðhorfa til stjórnmála, menningar og samfélagslegra málefna í víðum skilningi, eins og nánar er rakið hér á eftir. Fjölmiðlar eru því mikilvæg forsenda þess að einstaklingar fái notið tjáningar- og skoðanafrelsis. Af þessu mikilvæga hlutverki fjölmiðla sprettur sú krafa í lýðræðisþjóðfélagi að almenningur hafi aðgang að fjölbreyttum og öflugum fjölmiðlum.

Við störf sín hefur nefndin því byggt á þeirri grundvallarforsendu að íslensk löggjöf eigi að vera til þess fallin að vernda þessa hagsmuni. Nefndin telur að um þetta markmið geti tæpast verið ágreiningur þótt ólík viðhorf kunni að vera uppi um það hvaða leiðir séu best til þess fallnar að markmiðinu verði náð.

[17:30]

Samkvæmt orðalagi skipunarbréfsins er umboð nefndarinnar takmarkað við það að meta hvort tilefni sé til að setja reglur um eignarhald á fjölmiðlum.`` --- Hæstv. forseti. Ég ætla að lesa þetta aftur: ,,er umboð nefndarinnar takmarkað við það að meta hvort tilefni sé til að setja reglur um eignarhald á fjölmiðlum``. Það var sem sagt verkefnið. --- ,,Setning beinna reglna um eignarhald í þröngum skilningi er þó aðeins ein þeirra leiða sem farnar hafa verið í öðrum löndum, til að vernda þá hagsmuni sem að framan eru raktir. Þegar nánar er skoðað kemur í ljós að hægt er að fara ýmsar aðrar leiðir til að ná sömu eða svipuðum markmiðum. Nefndin hefur því tekið þá afstöðu að eðlilegt sé að fjalla einnig um aðrar leiðir sem til greina koma en lagasetningu um eignarhaldið sem slíkt, enda kunni slíkar leiðir að einhverju eða öllu leyti að vera til þess fallnar að standa vörð um fjölbreytni á fjölmiðlamarkaði.``

Í niðurlagsorðum þessa inngangs segir svo, með leyfi forseta:

,,Í skipunarbréfi nefndarinnar voru sett fram þau tilmæli ráðherra að nefndin lyki störfum fyrir 1. mars 2004. Þótt orðalagið fæli aðeins í sér tilmæli að þessu leyti, sem ekki reyndist unnt að verða við, hefur nefndin engu að síður túlkað tilmælin svo að hraða bæri starfi nefndarinnar sem kostur væri.

Þegar vinna við greinargerðina hófst kom í ljós að viðfangsefni hennar er umfangsmikið og þær leiðir sem til greina koma varða mörg og ólík réttarsvið. Þá er viðfangsefnið um sum atriði flókið og krefst að nokkru sérþekkingar á einstökum sviðum lögfræði og viðskipta, auk þekkingar á ýmsum tæknilegum hliðum fjölmiðlunar sem sækja verður úr ólíkum áttum. Er óhjákvæmilegt að greinargerðin beri þess nokkur merki að nefndinni hefur verið markaður fremur þröngur tímarammi.`` --- Fremur þröngur tímarammi, herra forseti.

Hafði nefndin þó samkvæmt skipunarbréfi rúma tvo mánuði og tók sér þrjá til þess að klára greinargerðina og segir samt á einhverjum stöðum í henni að nefndinni hafi ekki unnist tími til að skoða ákveðna hluta málsins eins og varðandi EES o.fl. Síðan er okkur, hv. þingmönnum, ætlað að keyra málið í gegnum þingið á fáum vikum, hæstv. forseti.

Þrátt fyrir að það komi greinilega fram í innganginum að tímaramminn sé þröngur og að nefndin telji að þetta sé of skammur tími til að kortleggja málið, afla upplýsinga og setja þær skilmerkilega fram, hvað þá heldur að koma með beinan lagatexta og skoða hvaða afleiðingar hann gæti haft í þjóðfélaginu, sem er það mál sem við stöndum frammi fyrir núna, þ.e. frv. til laga, ætlar ríkisstjórnin að keyra málið í gegn. Þrátt fyrir að margir hafi verið kallaðir á fund allshn. til þess að fara yfir málið voru þeim aðilum sem til nefndarinnar komu ekki sýndar þær tillögur sem meiri hluti nefndarinnar kom fram með sem hér hefur verið talað um sem brtt. við frv.

Það sést greinilega, hæstv. forseti, þegar gögn málsins eru skoðuð, m.a. þær umsagnir sem nefndinni hafa borist, þ.e. hv. allshn., að menn kvarta undan því í hverri umsögninni á fætur annarri að tíminn sé naumur, þeim gefist ekki tími til þess að fara yfir þætti málsins. Þeir lýsa því yfir að þeir séu tilbúnir að koma með ábendingar og taka þátt í vinnu sem snýr að lagasetningu um fjölmiðla og starfsemi þeirra hér á landi, en telja að til þess þurfi jafnvel nokkra mánuði og lýsa sig reiðubúna til þess. Ýmsir málsmetandi menn sem reyndu að bregðast við ósk allshn. um að koma með tillögur og ábendingar til nefndarinnar tóku fram að tíminn væri ekki nægur og að óeðlilegt væri að vinna málið með þeim flýti sem verið er að gera.

Í lok umsagnar Þorbjörns Broddasonar, sem ég á síðar eftir að vitna í í ræðu minni, tekur hann saman þau atriði sem hann vill sérstaklega að menn hugleiði og hvað beri að gera og lokaorðin eru þessi:

,,Flýtum okkur hægt. Göngum úr skugga um að leiðirnar séu í samræmi við markmiðin. Víkkum sjónarhornið; lítum á stöðu blaðanna, Ríkisútvarpsins og nýrra miðla. Tryggjum með löggjöf algert gegnsæi eignarhalds á öllum fjölmiðlum. Tryggjum með löggjöf að útvarpsleyfi falli sjálfkrafa niður við eigendaskipti, hvað sem öðru líður. Eflum þekkingu á fjölmiðlum.``

Í raun og veru má segja að þau atriði sem ég vitnaði hér í sem eru lokaorð í umsögn Þorbjörns Broddasonar endurspegli nánast allan pakkann af þeim fjölmörgu umsögnum sem allshn. barst. Mörg samtök eins og BHM, ASÍ og BSRB hafa lýst því yfir að þau telji að þessi framsetning á málinu sem við erum að ræða, sú keyrsla sem hér á sér stað, væri algjörlega óeðlileg og að fara bæri miklu hægar í málið og taka til þess tíma í sumar og þessi samtök hafa lýst sig reiðubúin að leggja þeirri málsmeðferð lið og að málið kæmi þá aftur fram á haustdögum.

Það hefði verið skynsemi í því, hæstv. forseti, að standa þannig að málum og mig undrar það að jafn vel gefnir menn og í ríkisstjórninni eru, ef litið er til prófgráða þeirra og einkunna, skuli geta farið í málið með þeim hætti sem verið er að leggja upp með. Það er eins og menn hafi ekki gengið á einn staur heldur tvo.

Hæstv. forseti. Það er fjöldamargt í skýrslunni sem ástæða væri til að ræða og ég kem vafalaust að því af og til í ræðu minni. En ef reyna á að kortleggja fyrir fram þau atriði sem snerta málið er t.d. hægt að segja að við þurfum að ræða lög og reglur, hvort þau séu um eðlilega starfsemi fjölmiðla. Við þurfum að ræða hvort sú flýtimeðferð sem hér er á málinu er ekki algjörlega ófær og óeðlileg. Við þurfum að taka umræðu varðandi tímann eins komið hefur fram í máli mínu, hvað væri eðlilegur tími til að vinna verkið. Við þurfum að virða lýðræðislega málsmeðferð, við þurfum að virða og skoða meðalhófsregluna, að við séum ekki að setja stífari lög en eðlilegt getur talist til þess að ná einhverjum settum markmiðum. Við þurfum að skoða gegnsæi í eignarhaldi, við þurfum að tryggja ritstjórnarlegt sjálfstæði eins og kostur er. Við þurfum að tryggja fjölbreytni í fjölmiðlum, hún er hins vegar bara nokkuð góð að mínu viti nú um stundir hér á landi. Við þurfum að tryggja hvernig eignarhaldið á að vera og setja um það e.t.v. einhvern ramma, þó að ég sé alls ekki hlynntur þeirri útfærslu sem við ræðum hér. Skoða þarf nýja tækni og möguleika á dreifingu efnis, sem er jú kannski rétt handan við hornið og þó ekki því að vissulega er byrjað að dreifa sjónvarpsefni og útvarpsefni með öðrum hætti en ákveðnum tíðnum í loftinu.

Við þurfum að skoða hvort frv. beinist ekki að einu fyrirtæki sérstaklega og sé þar af leiðandi ótækt til afgreiðslu á hv. Alþingi. Það þarf að skoða hvaða áhrif frv., ef að lögum verður, hefur á réttindi þess fólks sem vinnur á fjölmiðlamarkaði, einkum hjá einu fyrirtæki, Norðurljósum, sem frv. virðist nánast eingöngu beinast að. Skoða þarf skuldir fyrirtækisins og hvað um þær verður ef frv. verður að lögum, m.a. lífeyrisskuldbindingar sem skipta auðvitað lífeyrissjóðina verulega miklu máli og eru lítt tryggðar eins og hér hefur komið fram. Það þarf að skoða hvort við séum að virða stjórnarskrána og hvort við séum að verja lýðréttindin.

Skoða þarf rekstur Ríkisútvarpsins, rekstrarform og tekjur, en hv. þingmenn úr öðrum stjórnarflokknum hafa flutt sérstaka tillögu um að einkavæða Ríkisútvarpið og við þyrftum að skoða hvaða afleiðingar það hefði. Það hefur komið fram í blaðagreinum og í umsögnum sumra manna til allshn. að stofna ætti hlutafélag um rekstur Ríkisútvarpsins. Þetta er auðvitað allt hluti af fjölmiðlamarkaðnum.

Við þurfum að skoða hvort við séum með takmörkun á eignarhaldi að setja höft á ritfrelsið umfram það sem heimilt er að leiða í lög. Og, hæstv. forseti, mér finnst einnig þurfa að skoða hvort fjölmiðlun eigi að geta þróast þannig að hún nái eingöngu til þéttbýlustu staða landsins. Það er auðvitað ekki einfalt mál en þarf að skoða og það þarf að velta því upp þegar einn fjölmiðill er búinn að ná ákveðinni dreifingu, þ.e. hefur ákveðið áhorf, hvort þá eigi að vera einhver regla um að innan ákveðins tíma skuli slíkur fjölmiðill ná til dreifingar um allt land með möguleikum á ákveðnu áhorfi eða ákveðinni hlustun. Því það getur ekki verið svo, hæstv. forseti, að það sé bara ákveðinn hluti þjóðarinnar sem hafi aðgang að ákveðnum fjölmiðlum og aðrir ekki til langs tíma. Það er ekki einfalt að setja slíkar reglur og einhvers staðar verða fyrirtæki í fjölmiðlarekstri að geta byrjað og þau byrja eðlilega iðulega þar sem markaðurinn er stærstur. En eftir að þau hafa náð fótfestu og ákveðnu áhorfi og dreifingu er eðlilegt að gera til þeirra víðtækari kröfur um að aðrir landsmenn sitji við sama borð hvað það varðar að nálgast efni þeirra.

[17:45]

Sem betur fer er tæknin að leysa það að kannski þurfi ekki allir að koma sér upp dreifikerfi og að hægt sé að miðla efni með ýmsu öðru móti en tíðnum og útvarpsrásum sem aðallega er byggt á í þessu frv., hæstv. forseti.

Við þessa upptalningu ætti mönnum að vera orðið ljóst að efnið er nokkuð víðfeðmt og ég veit að hæstv. forseti gerir sér mætavel grein fyrir því. En það er eins og ríkisstjórnin átti sig ekki á að málið er miklu víðtækara en sú aðför sem boðuð er gegn einu fyrirtæki með þeirri lagasetningu sem hér er verið að ræða. Það er í raun og veru sorglegt að menn skuli sitja uppi með það, nánast í kjölfar duttlunga, að reyna að koma í gegn lagasetningu sem tekur að stórum hluta á einu fyrirtæki. Það er frekar slæmt, hæstv. forseti, og á ekki að vera hlutverk okkar á Alþingi að setja slíka löggjöf sem eingöngu tekur til eins fyrirtækis og breytir þar eignarhaldi og rekstrarformi. En það er ekki annað að sjá, hæstv. forseti, þegar búið er að skoða þau gögn málsins sem okkur hafa þegar borist. Og eins og ég rakti áðan þegar ég fór yfir ein 18, 19 atriði sem málið varða þá er málið ekki einfalt. Það er ekkert sérstakt einkamál að setja lög um atvinnustarfsemi sem á að taka til fjölmiðla og á ekki að hafa nein áhrif annars staðar, því þegar verið er að setja lög um atvinnustarfsemi, hæstv. forseti, þarf auðvitað að taka mið af ýmsu öðru en bara viðkomandi rekstri og það kemur auðvitað glöggt fram í þeim samansaumi sem verið er að setja í 1. gr. frv. með takmörkunum á eignaraðild að auðvitað tengist þetta fyrirtæki vítt og breitt hinum ýmsu greinum þjóðfélagsins og er fjölmargt um það að segja, hæstv. forseti.

Í nál. minni hlutans í allshn. kemur fram að minni hlutinn telur að málið eigi alls ekki að fá framgang og það er markað mjög skýrt með því að minni hlutinn leggur til að málinu verði vísað frá og segir í niðurstöðu sinni, með leyfi forseta:

,,Í ljósi alls framangreinds`` --- sem kemur fram í nál. minni hlutans --- ,,leggur minni hlutinn til að frumvarpinu verði vísað frá með svofelldri rökstuddri dagskrá:

Með vísan til framangreinds samþykkir Alþingi að vísa málinu frá og taka fyrir næsta mál á dagskrá.``

Undir nál. skrifa hv. þingmenn Bryndís Hlöðversdóttir, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, Ágúst Ólafur Ágústsson og Sigurjón Þórðarson. Samþykk álitinu er hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir sem er áheyrnarfulltrúi í nefndinni.

Öll stjórnarandstaðan hefur því tekið sameiginlega afstöðu til málsins og leggur til að málinu verði vísað frá og það unnið betur.

Eins og ég gat um í upphafi máls míns, hæstv. forseti, lögðu nokkrir þingmenn fram þáltill. í byrjun desember um skoðun málsins. Síðan lagði Samf. einnig lagt fram sérstakt mál um fjölmiðla, þáltill. um gagnsæi og ritstjórnarlegt sjálfstæði á íslenskum fjölmiðlamarkaði. Og það er auðvitað einnig vikið að því í skýrslunni sem menntmrh. óskaði eftir að yrði unnin. Það eru því fjöldamörg atriði, hæstv. forseti, önnur en bara lagasetning á eignarhald og útbýtingu útvarpsleyfa sem gætu verið til þess fallin að hafa jákvæð áhrif í þá veru að fjölmiðlum hér á landi væru settar skynsamlegar reglur til þess að vinna eftir. Mér vitanlega hefur enginn á hv. Alþingi mótmælt því að þessi mál yrðu skoðuð vandlega jafnvel með tilliti til lagasetningar í þá veru að setja ramma eða reglur utan um starfsemi fjölmiðla.

Minni hlutinn telur upp á 1. bls. í inngangi að nál. sínu nokkur atriði og ég ætla að lesa hér, með leyfi forseta, upphafið að áliti minni hlutans:

,,Við meðferð nefndarinnar komu fram athugasemdir sem fela í sér alvarleg álitamál um hvort frumvarpið standist stjórnarskrá lýðveldisins Íslands og var þar einkum vísað til mannréttindaákvæða, atvinnufrelsis, tjáningarfrelsis, eignarréttar og jafnræðisreglu.

Frumvarpið felur í sér alvarlega íhlutun í fjölmiðlamarkaðinn, gengur mun lengra en nauðsynlegt er í lýðræðissamfélagi og brýtur í bága við meðalhófsreglu íslenskra laga.

Frumvarpið gæti reynst samkeppnishamlandi í stað þess að tryggja samkeppni, dregið úr aðgengi fjölmiðlafyrirtækja að fjármagni og nýrra aðila að markaðnum.

Frumvarpinu virðist beint gegn einni tiltekinni sjónvarpsstöð þrátt fyrir að orðalag þess sé klætt í almennan búning.``

Hæstv. forseti. Með þessum orðum rammar minni hlutinn inn afstöðu sína og viðvörunarorð um það sem sérstaklega þurfi að huga að í málinu. Mun ég e.t.v. síðar í ræðu minni vitna í eitt og annað sem er í nál. minni hlutans og einkanlega ýmsar umsagnir sem allshn. bárust.

Hæstv. forseti. Áður en lengra er haldið langar mig að vitna í nokkrar umsagnir með minnihlutaálitinu til þess að draga fram með skýrum hætti það sem snýr að því hversu knappan tíma við höfum, og vil áður en ég hef þær tilvitnanir minna á að hæstv. forsrh. sagði í þessum sal við 1. umr. málsins að að sjálfsögðu fengi Alþingi allan þann tíma sem á þyrfti að halda til að vinna málið vel og gaumgæfilega og að tekinn yrði til þess sá tími sem bæði þingmenn og nefndir þingsins teldu sig þurfa að hafa.

Það hefur gengið á ýmsu í því, hæstv. forseti, og er nærtækast að minna á að meiri hluti hv. allshn. þingsins tók málið út úr nefndinni örskömmu eftir að síðustu viðmælendur höfðu komið fyrir nefndina og jafnvel hafa komið fram mjög sterkar vísbendingar og ábendingar um það hjá minni hlutanum að meiri hlutinn hafi verið búinn að semja brtt. og að stórum hluta það álit sem hv. þingmenn meiri hlutans lögðu fram sem sína tillögu áður en lokið hafði verið yfirferð málsins með viðtölum við þá sem komu fyrir allshn.

Málsmeðferðin öll er á þann veg, hæstv. forseti, að sá rúmi tími sem tekið var fram í upphafi umræðunnar af hæstv. forsrh. Davíð Oddssyni að fengist til málsins hefur svo alls ekki reynst vera og í raun og sést einnig ágætlega sú málsmeðferð sem er í þinginu á því að stjórnarandstæðingar telja sig þurfa að gera góða grein fyrir máli sínu, sem ég tel mjög eðlilegt, en stjórnarliðar taka lítið til máls. Það virðist vera að fyrir liggi ákvörðun um það í stjórnarflokkunum að stjórnarliðar eigi ekki að tjá sig mikið um skoðanir sínar, það geti tafið framgang málsins.

Hæstv. forseti. Örfá orð í nokkrar tilvitnanir. Í fskj. II sem er umsögn Sigurðar Líndals segir, með leyfi forseta, í innganginum:

,,Mér hefur borist bréf allsherjarnefndar Alþingis, dagsett 4. maí 2004, þar sem þess er farið á leit að ég gefi umsögn um frumvarp til laga um breytingu á útvarpslögum, nr. 53/2000, og samkeppnislögum, nr. 8/1993. Þess var óskað að svar bærist eigi síðar en 7. maí 2004. Tekið skal fram að bréfið barst mér ásamt frumvarpinu um klukkan 11.30 þann 5. maí, þannig að ég hef einungis haft um það bil einn og hálfan dag til að vinna verkið auk þess sem ég hef verið í öðrum verkefnum undanfarna daga. En þrátt fyrir þetta tel ég rétt og skylt að reyna að veita umsögn þótt mér sé ljóst að hún hljóti að vera ófullkomin af framangreindum ástæðum.`` --- Af framangreindum ástæðum, tímaskorti.

Þannig hljóðar sá partur úr umsögn Sigurðar Líndals hvað varðar tímann sem þarf til verksins. Og slíkar setningar má auðvitað finna vítt og breitt í umsögnunum sem víkja að því að ekki hafi verið nægur tími til þess að vinna umsagnir um málið.

[18:00]

Í umsögn stjórnar Árvakurs segir:

,,Hvað meðferð þessa mikilvæga máls í heild sinni varðar, átelur stjórn Árvakurs hf. hversu skammur tími virðist ætlaður til umræðu um það, sem leiðir til alvarlegrar óvissu um farsælar lyktir þess og hugsanleg áhrif til lengri tíma litið.``

Varla verður stjórn Árvakurs sökuð um að hafa legið á liði sínu í stuðningi við ríkisstjórnarflokkinn þann stærri á undanförnum árum og varla þarf að væna þá menn um að þeir hafi nokkuð slíkt í huga að vega að ríkisstjórnarflokknum stærri, Sjálfstfl., en þeir taka samt skýrt fram að þetta sé engan veginn nægur tími til að vinna málið.

Þeir segja einnig, hæstv. forseti, með yðar leyfi:

,,Stjórnin telur hins vegar framkomið lagafrumvarp ganga of langt og fela í sér óþarflega röskun á starfsumhverfi fjölmiðlafyrirtækja í ljósvakamiðlun.`` --- Svo því sé nú komið til skila hér úr því að ég er að vitna í umsögn Árvakurs, hvaða afstöðu þeir höfðu til málsins.

Næsta tilvitnun varðandi tímann, hæstv. forseti, sem ég er að fara yfir núna er frá Útgáfufélaginu Heimi sem segir, með leyfi forseta:

,,Fresturinn til umsagnar er afar skammur og því hvorki hægt að reifa málið til hlítar né setja fram fullmótaðar tillögur til úrbóta.``

Verslunarráðið segir, hæstv. forseti, með yðar leyfi:

,,Verslunarráð telur að með frumvarpinu sé gengið miklu lengra en nauðsynlegt er telji menn brýnt að kveða á um eignarhald í fjölmiðlum í löggjöf.``

Verslunarráðið segir í niðurlagi umsagnar sinnar að það leggist gegn því að frv. nái fram að ganga.

Alþýðusamband Íslands segir svo, með leyfi forseta, m.a. í sinni umsögn:

,,Í upphafi er rétt að vekja athygli á því að Alþýðusambandinu barst frumvarpið, með ósk um umsögn, þann 6. maí. Þar var þess óskað að umsögn berist eigi síðar en 7. maí, eða rétt rúmum einum sólarhring síðar. Það er því ljóst að mjög takmarkaður tími hefur gefist til að skoða einstök efnisatriði frumvarpsins ...``

Síðar segir í sömu umsögn, með leyfi forseta:

,,Alþýðusamband Íslands telur að mikilvægt sé að hefja víðtæka og vandaða umræðu um endurskoðun á löggjöf um stöðu og starfsemi fjölmiðla hér á landi.``

Síðan segir enn fremur:

,,Í ljósi þeirra sjónarmiða sem hér hafa verið sett fram, leggur Alþýðusamband Íslands til að afgreiðslu þess frumvarps sem nú liggur fyrir Alþingi verði frestað.``

Í umsögn BHM segir, með leyfi forseta, í lið III:

,,Aðalfundur BHM telur meðferð málsins í ríkisstjórn, fyrir Alþingi og með þessum skamma fresti til umsagnar um málið ekki boðlega og ekki standast leikreglur lýðræðisins. BHM telur rétt að stofnanir bandalagsins og aðrar þjóðfélagsstofnanir fái lengri frest til þess að fjalla um svo veigamikið mál, bæði frumvarpið sjálft og þá ítarlegu skýrslu sem fylgir sem fylgiskjal með frumvarpinu. Gerir bandalagið ráð fyrir að geta veitt frekari efnislega umsögn um málið í haust`` --- í haust, hæstv. forseti --- ,,þegar hafa nokkrar vikur eða mánuðir til rökstuddrar umfjöllunar í stofnunum BHM.``

Í niðurlaginu segir:

,,Aðalfundur BHM 7. maí 2004 mælir eindregið gegn samþykkt frv.``

Síðan segir, hæstv. forseti, með yðar leyfi, í umsögn BSRB að því er varðar tímann til að vinna málið:

,,Á þessum skamma tíma sem gefinn er næst ekki að setja málið í skoðun og umræðu innan samtakanna eins og nauðsynlegt er þegar um jafnviðamikið mál er að ræða.

BSRB telur að þetta mál þurfi ítarlega skoðun og umræðu og eru samtökin reiðubúin að leggja sitt af mörkun verði tekin ákvörðun um að skjóta því á frest.`` --- Verði tekin ákvörðun um að skjóta því á frest, hæstv. forseti.

Þetta hlýtur að nægja, hæstv. forseti, auk þeirrar umræðu sem farið hefur fram á hv. Alþingi og í blaðaskrifum til að draga það skýrt fram að nánast allir aðilar sem að málinu hafa komið aðrir en þeir þingmenn í ríkisstjórnarflokkunum sem vilja málið í gegn með hraði, hafa talið að það væri engan veginn nægur tími til að vinna málið með þeim hætti sem hér er lagt upp með og hafa beinlínis farið fram á að málinu væri frestað og það unnið betur og miklu fleiri atriði skoðuð varðandi það en verið er að gera með þessu lagafrv. og það kæmi síðan hingað betur unnið á haustdögum, og nálgast viðfangsefnið þannig til að finna því stað hvað rétt sé að gera í málinu. Eins og komið hefur fram og er skoðun þess sem hér stendur þó að hann hafi verið einn af flutningsmönnum tillögu sem lögð var fram í byrjun desember um að skoða eignarhald og samsetningu frjálsra fjölmiðla og tryggja frjálsa fjölmiðlun í landinu þá var skýrt tekið fram að það væri ekki sjálfkrafa ávísun á lagasetningu og það gerðu margir fleiri sem tóku til máls 2. desember, hæstv. forseti, um þá stefnumótun að samþykkja tillögu um að allir stjórnmálaflokkar ættu aðild að nefnd sem skoða skyldi fjölmiðlastarfsemi hér á landi, eignarhald hennar og öll atriði sem að fjölmiðlum lúta, sem eins og ég gat um áður í máli mínu, hæstv. forseti, tengjast atvinnulífinu. Það er auðvitað svo, hæstv. forseti, að önnur fyrirtæki eiga hlut í fjölmiðlum og lög sem sett eru um fjölmiðla, sem er atvinnustarfsemi, eru ekki einangruð og algjör sérfyrirbæri sem hafa engin áhrif á aðra atvinnustarfsemi í landinu. Það er óeðlilegt að setja slíka löggjöf sem tekur ekki mið af atvinnustarfsemi og eignarformi að því er varðar atvinnufyrirtæki hér á landi.

Sá sem hér stendur mótmælir því málsmeðferðinni sem hér er höfð í frammi, telur hana í reynd óeðlilega og að sú keyrsla sem hér er lagt upp með á málinu þjóni ekki hagsmunum heildarinnar, verið sé að þjóna hagsmunum fárra sem líta málið öðrum augum en sá sem hér stendur hefur verið að gera grein fyrir.

Það er svo, hæstv. forseti, að meira að segja nefndin sem sett var á laggirnar, eins og ég gerði grein fyrir í upphafi máls míns þegar ég ræddi tímaskortinn og hraðann á málinu, fjölmiðlanefnd hæstv. menntmrh. tekur það skýrt fram í upphafi skýrslu sinnar að ekki sé nægur tími ætlaður til verksins og þó voru henni ætlaðir í upphafi tveir mánuðir og hún tók sér þrjá. Ef ég veit rétt var skýrsla nefndarinnar til í byrjun apríl en lá síðan hjá menntmrh. og ríkisstjórn nokkuð lengi og birtist okkur svo í endaðan apríl ásamt því frv. sem við ræddum í 1. umr. og er efni þeirrar umræðu sem nú stendur yfir þessa dagana.

Það eru góðra manna ráð að við flýtum okkur hægt, að við göngum úr skugga um að leiðirnar séu í samræmi við markmiðin, að við víkkum sjónarhornið og lítum á stöðu blaðanna, Ríkisútvarpsins og nýrra miðla, að við tryggjum með löggjöf algjört gagnsæi eignarhalds á öllum fjölmiðlum, að við tryggjum með löggjöf að útvarpsleyfi falli sjálfkrafa niður við eigendaskipti hvað sem öðru líður og eflum þekkingu okkar á fjölmiðlum, sem voru niðurlagsorð í umsögn Þorbjörns Broddasonar.

Ég tel, hæstv. forseti, að verði fjölmiðlafrumvarpið að lögum og verði samþykkt muni stjórnarandstöðuflokkarnir, ef þeir ná völdum í næstu kosningum eða koma að stjórn landsins, beita sér fyrir því að lögunum verði breytt ef koma á þeim í gegn hér í því formi sem þau eru nú.

Það hefur vakið athygli mína, hæstv. forseti, sem er auðvitað ekkert óeðlilegt, að fjölmiðlar og fjölmiðlafólk veita málinu mikla athygli sem eðlilegt er, málið stendur nærri fjölmiðlafólkinu og það skynjar það á eigin skinni, það kemur við hagsmuni þess og atvinnu.

Það er líkt með þessu máli, hæstv. forseti, og kannski með kvótakerfinu að menn notuðu ákveðnar forsendur og yfirvarp til þess að koma kvótakerfinu á. Þá var notað orðið fiskvernd, að menn þyrftu að skoða fiskverndina alveg sérstaklega og þess vegna þyrfti að setja þær reglur sem fylgdu kvótakerfinu. Það var að vísu yfirvarp, herra forseti. Ég ætla ekki að fara mörgum orðum um það en vil bara benda á þá köldu staðreynd að aflinn í þorski á árinu 1983 --- en það var þorskurinn sem sérstaklega átti að vernda --- var 283 þús. tonn og nánast sá sami árið eftir þegar kvótinn var kominn á þannig að hræðslan sem búin var til til þess að koma kvótakerfinu á átti ekki við rök að styðjast. Þess vegna var það yfirvarp að fiskverndin væri það sem horfa bæri til þegar atvinnuréttindi sjávarþorpanna voru skert, en það er það sem gert var með kvótakerfinu.

Hér er verið að vega að atvinnuréttindum á fjölmiðlamarkaði og atvinnurétti fjölmiðlafólks og það tekur auðvitað mjög eftir þeirri umræðu og fjallar mikið um hana, alveg á sama hátt og mjög var fjallað í sjávarþorpunum vítt og breitt í kringum landið og er enn þá fjallað og verður fjallað, hæstv. forseti, um atvinnuréttindi fólksins í sjávarbyggðunum, atvinnumöguleika þess og möguleika sjávarbyggðanna til að reka þar öflug fyrirtæki af ýmsum gerðum með fjölbreytileika eins og verið er að tala um hér, fjölbreytilega flóru atvinnustarfsemi einstaklinga og fyrirtækja sem haldi uppi atvinnu í þorpunum á sama hátt og fjölbreytt og eðlileg starfsemi fjölmiðla heldur uppi mikilli atvinnu fyrir fólkið sem þar vinnur.

Ég vek athygli á þessu, hæstv. forseti, vegna þess að það hefur stundum verið sagt í þjóðfélaginu að menn væru alltaf að tala um takmörkun fiskveiðanna, kvótann, frjálsa framsalið og allt sem því fylgdi. Það var ástæða til og það er ástæða til að tala um það. Sá sem hér stendur mun örugglega ekki hætta að tala um það þó að komi nýjar alþingiskosningar, ekki á meðan lögin eru í þeim búningi sem þau nú eru.

[18:15]

Kvótalögin geta hafa mikil áhrif á atvinnuréttindi fólks vítt og breitt um landið með alveg sama hætti og þessi lög gætu haft mikil áhrif á atvinnustöðu fólks sem vinnur á fjölmiðlum og stöðu fyrirtækja á fjölmiðlamarkaði en frv. snýr þó einkum að einu fyrirtæki vegna þess hvernig það er upp sett.

Það má því kannski segja sem svo, hæstv. forseti, að menn séu að nota málfrelsið hér á landi, ritfrelsið og eignaraðildina að fjölmiðlum sem yfirvarp til að setja þau lög sem nú er verið að ræða. Stjórnarflokkarnir vilja auðvitað koma þeim í gegn á sem stystum tíma og vinnulagið á Alþingi ber auðvitað keim af því að keyra á málið í gegn fyrir helgina. Umræðan er orðin frekar óþægileg fyrir ríkisstjórnarflokkana, þ.e. þá þingmenn þeirra sem styðja málið, og menn vilja auðvitað koma því sem allra fyrst af sér og klára málið í trausti þess að það gleymist.

Ég er hins vegar ekki viss um það, hæstv. forseti, að málið gleymist svo glatt ef það verður keyrt í gegn eins og það lítur út nú. Það er jú vegna þess að það snýr að fjölmiðlafólki og umræðan öll og sú valdbeiting sem á að fara að eiga sér stað snýr ekki að fólkinu í sjávarbyggðunum, hún snýr að fjölmiðlunum. Ég hygg að fjölmiðlafólkið muni betur það sem brennur á eigin skinni heldur en það sem brennur á sjávarbyggðunum. Ég er því ekki viss um að þessi umræða gleymist svo glatt, hæstv. forseti, og fjölmiðlafólkið mun geyma hana í minni sér. Þau fjölmörgu bréf sem við í stjórnarandstöðunni höfum fengið til að minna okkur á stöðu málsins, réttindi starfsfólksins sem vinnur hjá þessum fyrirtækjum og hvaða stöðu það er í, bera auðvitað vitni um að fólk skynjar það að lögin, ef þau ganga fram svo sem hér er boðað, munu geta haft mjög neikvæð áhrif á atvinnuöryggi þess á sama hátt og lög um sjávarútveginn geta haft mjög neikvæð áhrif á atvinnurétt fólks í sjávarbyggðunum.

Ég ætla rétt að vona, hæstv. forseti, að sú umfjöllun sem verið hefur um fjölmiðlafrumvarpið verði til þess að fjölmiðlafólk taki í meira mæli til sín þau málefni þjóðfélagsins þar sem verið er að fjalla um undirstöðurétt fólks sem er sá réttur að fólk hafi atvinnu og geti byggt afkomu sína á henni á þeim stöðum og í þeirri byggð sem það vill búa og að umræðan skerpi skilning fjölmiðlafólks á því að það á að vera réttur fólks að geta valið sér búsetu og það á að vera réttur fólks að geta haft atvinnu af því sem best hentar á hverjum stað, og það er auðvitað svo að í sjávarbyggðunum henta fiskveiðarnar og hafa alltaf gert og munu vonandi alltaf gera.

Hæstv. forseti. Ég held að ég standist ekki þá freistingu, af því að í upphafi máls míns þegar ég var að vitna í umsagnir vitnaði ég í umsögn frá Sigurði Líndal lagaprófessor, að minna á það að umræddur lagaprófessor, Sigurður Líndal, gaf stjórnvöldum oft á árum áður ýmsar umsagnir og ábendingar varðandi fiskveiðistjórnarlögin. Ef ég man rétt, hæstv. forseti, tóku stjórnvöld mikið mark á þeim ábendingum sem komu frá Sigurði Líndal, enda kannski full ástæða til. Hvers vegna er það svo núna, hæstv. forseti, þegar verið er að fjalla um þessa lagasetningu að þá gera stjórnvöld ekki mikið með það sem umræddur maður, Sigurður Líndal, bendir á í greinargerð sinni? Jú, það er auðvitað vegna þess að núna hentar það ekki málatilbúnaði stjórnvalda að hlusta á rök hans og reyndar fjöldamargra annarra manna, bæði löglærðra og ekki löglærðra, um að frv. og sú lagasetning sem við ræðum hér standist ekki ýmis ákvæði stjórnarskrárinnar og það gangi of langt í mörgum efnum og það sé óeðlilegt að setja lög með þeim hætti sem verið er að leggja upp með hér.

Hæstv. forseti. Einhvern tímann hefðu ráðherrar Sjálfstfl. og Framsfl. tekið mark á Sigurði Líndal. Það var a.m.k. gert þegar verið var að verja eignarréttarhefð útgerðarmanna á sínum tíma til kvótans. (KHG: Sigurður er orðinn frjálslyndur.) Ég vona það, hv. þm. Kristinn Gunnarsson, að Sigurður Líndal sé orðinn frjálslyndur maður, ég vona það sannarlega, eins og ég veit að hv. þm. er að verða og ég býð hann velkominn. (JBjarn: Það er bara svona.) Í frjálslyndra manna hóp? (JBjarn: Já, í frjálslyndra manna hóp.) Já, það geri ég. (KHG: ... er sæmd að því að vera frjálslyndur í skoðunum.) Ég tek undir það, hv. þm. (JBjarn: Við tökum undir það og hæstv. forseti brosir.)

Ég held, hæstv. forseti, að það sé kannski rétt að nefna af því að svo kann að fara að málið sem við ræðum, ef að lögum verður, lendi fyrir dómstólum, fari jafnvel fyrir Hæstarétt og að þar þurfi að kveða upp dóm í málinu, að þá óttast ég dálítið, hæstv. forseti, að Hæstiréttur fái svona ákveðið aðhald frá stjórnvöldum til þess að fjalla um málið, ef hægt er að orða það svo.

Hvers vegna segi ég það, hæstv. forseti? Jú, það er vegna þess að menn muna ábyggilega, margir, ýmis orð sem fallið hafa í tilefni hugsanlegra dóma í Hæstarétti eða túlkun þeirra. Má ég minna á, hæstv. forseti, þegar hæstv. forsrh. sagði eitthvað á þá leið að það væri bara eins gott fyrir Íslendinga að flytja til Kanarí ef fylgja ætti eftir ákveðinni niðurstöðu og túlkun varðandi dóm Hæstaréttar í kvótamálum fyrir nokkrum árum. Og ef ég man rétt sagði utanrrh. af sama tilefni að það væri sennilega bara rétt að fara að skoða það að breyta stjórnarskránni ef á þyrfti að halda út af því máli. Ég ætla rétt að vona að ef þetta mál þarf að ganga til dómstóla láti núverandi forsrh. og tilvonandi það vera að láta slík viðhorf í ljós til þess að hafa áhrif á niðurstöður dóma hér á landi.

En það er auðvitað ljóst, hæstv. forseti, af orðfæri ýmissa ráðherra varðandi fjölmiðla, einkum þeirra sem eru undir eignarbandi Norðurljósa, að hæstv. ráðherrar telja að að þeim sé vegið og þeim er í nöp við þá gagnrýni sem birtist í fjölmiðlunum, ýmsa umfjöllun fréttamiðla um störf þeirra. Fjölmiðlar eiga að vera gagnrýnir, þeir eiga að hafa ritstjórnarlegt sjálfstæði til þess að setja fram sína gagnrýni. Það breytir engu um það, hæstv. forseti, þó að sumir ráðherrar gefi fjölmiðlum ákveðin nöfn eins og til að mynda Baugstíðindi o.s.frv. þá vonast ég vissulega til þess að fjölmiðlar hér á landi haldi áfram að vera gagnrýnir og veiti stjórnvöldum sem og okkur þingmönnum aðhald í framsetningu mála.

Það er eitt sem undrar mig, hæstv. forseti, og tengist kannski því sem ég gat um í upphafi máls míns, þ.e. að hefðu þingmenn lagt fram mál á hv. Alþingi um að skoða eignarhald á fjölmiðlum og frjálsa fjölmiðlun í landinu, ritstjórnarlegt sjálfstæði og gagnsæi, hefðu í raun og veru allir þingmenn í stjórnarandstöðu með einhverjum hætti tekið undir það og minni ég þá á annars vegar þáltill. sem rædd var í byrjun desember og hins vegar tillögu Samf. um gagnsæi og ritstjórnarlegt sjálfstæði á fjölmiðlamarkaði. Það sem undrar mig, hæstv. forseti, er að ég tel að það hefði verið mjög líklegt að hægt hefði verið að ná víðtækri sátt um að vinna þessi mál ef til þess hefði verið gefinn eðlilegur tími og menn hefðu fengist til að skoða málið vel og vandlega og í samstarfi milli stjórnarflokka. Ég byggi þá skoðun mína á því m.a. sem ég var að vitna til áðan að stjórnarandstaðan hefur öll lýst þeim viðhorfum að það væri eðlilegt að skoða fjölmiðlastarfsemi í landinu, jafnvel með tilliti til lagasetningar eða reglusetningar varðandi starfsemi þeirra. Þar af leiðandi hefði verið hægt að ná fram friði um málið, að vísu ekki í einhverju flaustri og hasti núna á vordögum heldur með því að vinna málið skipulega, setja sér það markmið að vinna það í sumar og koma e.t.v. með það inn á næsta þing og þó væri það eiginlega ekkert skilyrði að málið kæmi inn á fyrstu dögum haustsins. Alla vega hefur sá sem hér stendur ekki séð að uppi væru svo erfið mál varðandi fjölmiðla í landinu að grípa þyrfti að til einhverra bráðaaðgerða eins og nú er verið að gera. Ég hef ekki orðið var við það, hæstv. forseti, að það væri ekki fjölbreytt fjölmiðlun hér á landi að undanförnu og ef eitthvað er hefur hún bara verið mjög fjölbreytt, þannig að ekki hefðu menn þurft að óttast að slíkt væri ekki til staðar. En í stað þess að velja friðinn og vinna málið í samkomulagi allra stjórnmálaflokka var ófriðurinn valinn, hæstv. forseti.

[18:30]

Flýtimeðferðin var sett í forgang og öllum viðhorfum annarra um málsmeðferð var hafnað fyrir fram, hæstv. forseti. Þó að fyrir lægi áhugi í öllum stjórnmálaflokkum um að skoða starfsemi fjölmiðlanna og vinna það mál vel og gaumgæfilega stöndum við uppi með það í stjórnarandstöðunni að þeirri málsmeðferð sem hægt var að koma á, að vinna vel og skipulega í samstarfi við að ná góðri lendingu um málið, var hafnað. Menn völdu átökin, menn vildu slaginn. Það er þannig.

Hæstv. forseti. Ef einhvers staðar er í boði góður ófriður þá velja menn hann í ríkisstjórninni, sækjast alveg sérstaklega eftir efnilegum ófriði, að djöflast hér og berjast fram með mál í illindum og átökum þó að e.t.v. hafi friður verið í boði ef rétt hefði verið staðið að málum. Það er vegna þess að hæstv. forsrh. sést ekki fyrir og krefst þess að málið sé klárað, ófriðurinn valinn eftir hans höfði. Utanrrh. velur það auðvitað að þjóna vilja forsrh., hann er erfingi stólsins. Hann ætlar ekki að fara að hætta neinu í þeim efnum að komast ekki úr stól utanrrh. í stól forsrh.

Það liggur við, hæstv. forseti, að maður hallist að þeirri kenningu að menn væru tilbúnir að éta úldinn hund til að komast í forsrn. Það er sem sagt hægt að teyma þá hvert sem er, hæstv. forseti, því að engu skal fórnað, engin sanngirni skal tekin inn í málið ef það gæti hugsanlega orðið til þess að forsætisráðherrastóllinn væri í veði.

Ég verð að orða þetta svona, hæstv. forseti, og vona að mér sé fyrirgefið að taka svona til orða. Þetta er nú þekkt máltæki, að menn éti úldinn hund til þess að ná einhverjum markmiðum og láti allt yfir sig ganga, jafnvel þó með klígju sé og þeir kúgist undir því valdi óttans sem verið er að keyra yfir þingmenn. Og mér liggur við að segja að þetta eigi einnig við um óbreytta þingmenn í stjórnarflokkunum, það sé verið að keyra yfir þá með svipuðum viðhorfum og að menn séu með hálfgerða klígju og séu að kúgast undir þeirri pressu sem á þá er lögð, undir valdi óttans, eigum við að orða það svo, hæstv. forseti? Ráðherrarnir í Framsfl. vita jú ekki hvort ráðherrastóllinn er í veði, það er ekki vitað hvaða ráðherra á að fara. Í Sjálfstfl. er heldur ekki vitað hver á að fá hvern ráðherrastól nákvæmlega. Það er nefnilega allt undir í vegtyllunum, hæstv. forseti.

Fólkið í landinu undrast óðagotið sem hér er uppi, sérstaklega í ljósi þess að það er ekkert sérstakt að fara algjörlega á hliðina varðandi fjölmiðlarekstur hér á landi. Fjölmiðlaflóran er fjölbreytt og þó að vissulega sé hægt að fallast á þau rök að setja beri umgjörð um starfsemi fjölmiðla hér á landi þá er ekkert að fara á hliðina, það þarf ekki slíkt óðagot í málinu.

En þetta er Ísland í dag, svona er mönnum stjórnað til verka af ríkisstjórnarflokkunum og greinilegt að dagskipunin hjá hæstv. forsrh. Davíð Oddssyni og arftaka hans tilvonandi, hæstv. utanrrh. Halldóri Ásgrímssyni, er að keyra málið í gegn með eins miklu hraði og mögulegt er í gegnum þingið með það að markmiði að reyna eins og frekast er kostur að forðast málefnalega umræðu og láta sem mest af umræðunni fara fram seint á daginn og fram á kvöld og fram á nótt. Já, hæstv. forseti, það er margt skrýtið í þessu máli.

Sumir hafa sagt að málið í heild sinni eigi rætur sínar að rekja og sé beint framhald af svokölluðu bolludagsmáli í fyrra, þar sé upphafið að málinu og þeim hasar sem fylgir því í dag. En það mál var nú allt hið furðulegasta og ég ætla ekki að gera það að sérstöku umræðuefni hér, mér finnst það eiginlega ekki viðeigandi, það er mjög alvarlegt mál sem við erum ræða.

Framsfl. er auðvitað rekinn áfram í málinu, í þessu furðulega löggjafarstappi. Ég held að ég verði að orða það svo, hæstv. forseti, að Framsfl. sé í gíslingu vegna þeirra vonaraugna sem hæstv. utanrrh. rennir til 15. september næstkomandi þegar hann á að fara að máta stólinn eftir Davíð. Ég held að það sé svo, hæstv. forseti.

Ég verð að segja alveg eins og er, hæstv. forseti, að miðað við orð hæstv. forsrh. við upphaf málsins þegar hæstv. forsrh. mælti fyrir því í þinginu við 1. umr. --- og við skulum ekki gleyma því að hæstv. forsrh. margendurtók það í kosningabaráttunni að orð hans væru eitthvað sem algjörlega stæði og menn gætu treyst á þau loforð --- þá undrar það mig mjög að menn skyldu vinna málið eins og það hefur verið unnið.

Ég hygg, hæstv. forseti, að þó að við teljum að vinna hefði þurft málið miklu betur í sumar og koma e.t.v. með það aftur í haust þá sýnist mér á málsmeðferðinni í nefndum þingsins að sennilega hefði verið hægt að ná viðunandi lendingu gagnvart þingnefndunum kannski, a.m.k. allshn., með því að gefa henni eins og fimm, sex daga í viðbót til að fjalla um málið og menn hefðu farið gaumgæfilega yfir það sem kom fram í umsögnum og eytt góðum tíma í það. Ef þannig hefði verið unnið, að gefa góðan tíma til umfjöllunar eftir að allar athugasemdir voru komnar inn, hefði e.t.v. verið um betri málatilbúnað á málinu að ræða en mér finnst vera á því í þeim búningi sem það er.

Þess vegna endurtek ég það, hæstv. forseti, að mig undrar það að menn skuli velja ófriðinn þegar friður er í boði, sérstaklega í ljósi þeirra viðhorfa að það voru jú þingmenn úr öllum flokkum búnir að lýsa yfir áhuga á því að skoða eignarhald á fjölmiðlum og jafnvel flytja um það tillögur og mál. Mér finnst því að meirihlutamenn í hv. allshn. megi alveg sýna viðleitni í að gefa okkur hinum skýringar á því hvers vegna þeir völdu ófriðinn ef friður var hugsanlega í boði, sérstaklega í ljósi orða hæstv. forsrh. við upphaf málsins að menn skyldu taka sér þann tíma sem menn þyrftu til þess að reyna að lenda málinu.

Ég veit ekki annað en að í umræðum í haust, í vetur og í vor hafi þingmenn lýst því í þessum ræðustóli, hæstv. forseti, að ekkert væri því til fyrirstöðu ef mönnum sýndist svo að vinna lengur fram eftir á vorin og byrja jafnvel fyrr á haustin og það væri jafnvel betra verklag að koma þeirri tilhögun á. Ég get því ekki litið svo á að menn séu að bera sig neitt undan því að vinna þessi verk á hv. Alþingi, en hitt er alveg ljóst að menn vilja auðvitað skoða vinnuna hér og taka kannski upp annað skipulag. En ég tel ekki að menn hafi verið að bera sig neitt undan því að vinna við málið og þess vegna átta ég mig hreinlega ekki á því hvað það er sem varð til þess að meiri hlutinn í allshn. velur að fara með málið í þennan farveg, koma með brtt. nánast beint í kjölfarið á því þegar búið var að tala við þá sem komu til nefndarinnar, og mér finnst þeir hv. þingmenn ekki hafa gefið skýringar á því hvers vegna þeir völdu það.

Var ekki hægt að taka tvo daga, þrjá daga til þess að skoða málin eftir að allir þessir aðilar höfðu veitt umsagnir eða mætt á fund nefndarinnar til að gera grein fyrir hvaða viðhorf gætu verið uppi í málinu? --- Komdu blessaður, hv. þm. Hjálmar Árnason, velkominn í salinn. (HjÁ: Þakka þér fyrir.) --- Ég held að það hefði verið hægt og ég er ekkert að segja að það hefði þýtt samkomulag í málinu, en það kann vel að vera að hægt hefði verið að nálgast málið meira til samkomulags en hér er uppi með því vinnulagi sem boðið er upp á.

Því segi ég það að mér er þessi flýtir óskiljanlegur vegna þess að hann flýtir ekkert málinu. Hann þýðir bara að við þurfum að rekja málið lið fyrir lið og velta því fyrir okkur hvers vegna í ósköpunum verið er að vinna það svona. Hvers vegna er verið að hraða því með þeim hætti sem hér er lagt upp með? Hvað lá á? Búið er að spyrja þeirrar spurningar oft úr þessum ræðustól, hvað lá á? Og fólkið úti í þjóðfélaginu spyr líka: Af hverju liggur svona mikið á? Hvað er gerast í rekstrarumhverfi fjölmiðlanna sem knýr á um það að málið sé unnið með þeim hætti sem hér er lýst?

Nú hefur því verið lýst sem vilja þeirra sem eiga Norðurljós að þeir vildu gjarnan fara með það félag á opinn markað og það hefði jú vonandi þýtt það að smátt og smátt hefði jafnvel fjölgað hluthöfum í því ágæta félagi og að eignarhald þar hefði þá kannski smátt og smátt breyst og orðið öðruvísi en það er í dag. Það kann vel að vera að menn geti deilt um það hvort markaðsráðandi fyrirtæki eins og Baugur eigi að eiga jafnmikinn hlut í fjölmiðlamarkaðnum og er í dag og að það þurfi að skoða. En samt er það svo, hæstv. forseti, að fjölmiðlamarkaðurinn, fjölmiðladreifingin, þ.e. möguleikarnir til að dreifa efni til fólks hér á landi eru fjölmargir og við erum bara að ræða hluta af þeim hér. Við erum að ræða útvarpsleyfin. Við erum að ræða það sem hefur verið í gangi á undanförnum árum. Við erum ekki að ræða netmiðlana, við erum ekki að ræða jarðstrengina, við erum ekki að ræða dreifingu gegnum gervitungl, svo dæmi sé tekið, hæstv. forseti. Við erum sem sagt ekkert endilega að ræða það sem er e.t.v. bara á næsta leiti að því er varðar fjölmiðlamarkaðinn og dreifingu efnis í gegnum fjölmiðla.

[18:45]

Hæstv. forseti. Ég held að ég verði að fá að leyfa mér að vitna í bréf, dags. 27. apríl 2004, frá Póst- og fjarskiptastofnun. Þar er verið að ræða um hina ýmsu möguleika varðandi dreifikerfi á efni og ég held að það sé rétt málsins vegna að ég vitni í bréfið á nokkrum stöðum, Það ber yfirskriftina ,,Almennar upplýsingar um stafrænt útvarp``. Ég ætla ekki að lesa það allt heldur mun ég grípa niður í það sem mér finnst upplýsandi og þurfi að komast til almennings, en þar segir m.a., með leyfi forseta:

,,Hvernig er útvarpsdagskrá dreift til almennings? Um langt skeið hafa verið í gangi þrenns konar hliðræn útvarpsdreifikerfi; sendingar í loftinu, kapalkerfi og gervitunglasendingar. Sendingar í loftinu kallast sendingar frá sendistöðvum á jörðunni sem dreifa dagskrá yfir ákveðið svæði sem oftast er afmarkað af fjöllum og hæðum í landslaginu. Notendur taka oftast við þessum sendingum með útiloftneti en þeir sem búa nálægt sendistöðvunum geta stundum látið sér inniloftnet nægja. Í kapalkerfum eru jarðstrengir lagðir frá miðstöð kerfisins inn í hús til notenda og dagskráin send um strengina. Til að taka á móti gervitunglasendingum verða notendur hins vegar að setja upp sérstök loftnet, venjulega í formi diska sem eru stærri um sig en loftnetin sem taka á móti merkjum frá sendistöðvum á jörðinni.``

Síðan segir, með leyfi forseta:

,,Sendingar í loftinu þurfa tíðniúthlutun en óvíst er hvort hægt sé á hverjum stað og tíma að uppfylla alla eftirspurn vegna þess að tíðnisvið fyrir útvarp eru takmörkuð. Þegar sent er frá sendistöð á jörðinni eru móttökuskilyrði misjöfn eftir fjarlægð notanda frá sendistöðinni og landslaginu á milli. Búnaður notenda er aftur á móti einfaldur og ódýr og í flestum tilfellum þarf auk hljóð- eða sjónvarpstækisins ekki annað en ódýrt loftnet.`` --- Síðan segir um kapalkerfin: --- ,,Kapalkerfi þurfa ekki sérúthlutun á tíðnum því að jarðstrengir geisla lítið sem ekkert út í loftið og öll kapalkerfi geta notað sömu tíðnir. Deyfing í jarðstrengjunum eykst með tíðni og deyfingin setur fjölda rása í kerfinu takmörk. Það er hægt að tryggja öllum notendum kerfisins jöfn gæði. Kapalkerfum fylgir hins vegar mikill stofnkostnaður vegna þess að dýrt er að grafa niður strengi í þéttbýli og í dreifbýli þarf langa strengi. Gervitunglasendingar ná yfir stór svæði og styrkur móttekins merkis er jafn en að vísu lítill vegna fjarlægðar gervitunglanna frá jörðu. Það þýðir að notendur verða að hafa tiltölulega stór loftnet í formi diska ásamt formögnurum. Kostnaður sem notendur verða að leggja í vegna móttökubúnaðarins er verulega hærri en kostnaður við að taka á móti sendingum frá sendistöðvum á jörðinni. Annar ókostur er hár kostnaður við gervitunglin og uppskot þeirra á braut umhverfis jörðu sem hefur í för með sér að greiða verður háa leigu fyrir notkun gervitungla fyrir dreifingu útvarps.``

Þetta eru, hæstv. forseti, í stuttu máli skýringarnar á þeim dreifingarmöguleikum sem fyrir eru. Síðan er spurt: ,,Hverjir eru kostir þess að breyta yfir í stafræna tækni?`` Þar segir, með leyfi forseta, ég ætla bara að vitna í eina málsgrein í þeim kafla:

,,Fleiri kostir stafrænnar útfærslu sem eru sameiginlegar fyrir allar þrjár gerðir sjónvarpsdreifikerfa er t.d. möguleiki þess að þjappa upplýsingum saman og nota minni bandbreidd fyrir hverja dagskrá.``

Síðan er aftur spurt: ,,Hvaða breytingar verða á dreifikerfum sjónvarps?`` Og þá segir, með leyfi forseta:

,,Gera verður ráð fyrir aðlögunartíma ... Hliðrænu dreifikerfin verða þannig að vera áfram í gangi eftir að stafrænar sendingar eru byrjaðar sem hefur í för með sér að tvöföld dreifikerfi verða rekin í ákveðinn tíma. Suma liði má samt nýta sameiginlega, t.d. jarðstöðvar sem senda sjónvarpsdagskrár upp í gervitunglin, jarðstrengina í kapalkerfunum og hús, möstur og ef til vill loftnet í sendistöðvakerfinu á jörðinni. Eftir stendur að það þarf meiri flutningsgetu í gervitunglunum, nýjan miðstöðvarbúnað og meiri flutningsgetu í kapalkerfunum og nýja senda fyrir dreifingu í loftinu en þessar hlutir krefjast talsverðrar fjárfestingar.``

Síðan segir, og er það hér til upplýsingar, með leyfi forseta:

,,Hvað líður stafrænu sjónvarpi í öðrum löndum? Stafrænar sjónvarpssendingar hófust fyrst um gervitungl upp úr 1995 og nú er svo komið að nær allar sjónvarpssendingar um gervitungl eru stafrænar. ...

Stafrænt sjónvarp hefur náð mestri útbreiðslu í Bretlandi en Spánverjar, Svíar og Ítalir eru taldir koma næst á eftir. Flest ríki ætla sér 6--10 ár eftir innleiðingu stafrænna sendinga í loftinu áður en lokað verður fyrir hliðrænar sendingar.``

Þannig er því lýst, hæstv. forseti. Svo er fjallað um stafrænt hljóðvarp:

,,Staðlar eru til fyrir stafrænt hljóðvarp og sérstökum tíðnisviðum hefur verið úthlutað fyrir stafrænar hljóðvarpssendingar. Engu að síður hefur stafrænt hljóðvarp ekki náð miklum vinsældum enn sem komið er og er helst kennt um háu verði móttökubúnaðar í samanburði við venjulegt hljóðvarpstæki á FM-, lang- og miðbylgjum.``

Loks er spurt: ,,Hver er staða stafræns sjónvarps á Íslandi í dag?`` Því er svarað svona:

,,Á breiðbandi Símans eru nú sendar út 40 sjónvarpsdagskrár með stafrænum hætti á ljósleiðara. Enn fremur hefur Orkuveita Reykjavíkur (áður Lína.Net) prófað dreifingu sjónvarps á ljósleiðara.

Fjöldi heimila hefur komið sér upp móttakara fyrir stafrænt sjónvarp um gervihnött. Slíkur búnaður gerir kleift að taka á móti hundruðum dagskráa.

Nokkrir aðilar hafa fengið heimild til útsendingar á stafrænu sjónvarpi á háu tíðnisviði. Þeir eru Íslandsmiðill, sem sendir á um 11 GHz og Norðurljós sem senda út á 2,5 GHz (Fjölvarp). Þessi tíðnisvið eru almennt ekki notuð erlendis til að dreifa sjónvarpsmerki á jörðu niðri.

Samkvæmt upplýsingum á vef Norðurljósa stefnir fyrirtækið að því að hefja stafræna sjónvarpsþjónustu á Fjölvarpinu þann 9. október 2004.

Enn fremur hafa nokkrir aðilar fengið úthlutað heimildum til að prófa stafrænar sjónvarpssendingar á UHF tíðnisviði. Þessir aðilar eru Norðurljós, RÚV, Stöð 1 og Háskóli Íslands.``

Hæstv. forseti. Eftir þessar tilvitnanir af minnisblaði Póst- og fjarskiptastofnunar ætti enn frekar að vera ástæða til að flýta sér hægt við það mál sem við erum að skoða. Í farvatninu er nefnilega ný tækni til dreifingar hljóðvarps og sjónvarps og það væri vissulega eðlilegt að skoða öll málin í samhengi. Þessi mál eru á fullri ferð og það er í raun og veru undarlegt í meira lagi að taka sér ekki góðan tíma við þá vinnu sem við erum að velta fyrir okkur varðandi lagasetningu heldur beina henni að einu atriði eða tveimur. Það er alveg sjálfsagt að fara í það að skoða og vinna umgjörð um fjölmiðla hér á landi og velta því máli upp hvernig sú framtíð lítur út. Hv. þm. Einar Karl Haraldsson fór mjög gaumgæfilega í það ræðu sinni í gærkvöldi og ég held að ég bæti ekki um betur varðandi það. En mér finnst vera fjöldamörg rök, ég er búinn að tína hér til nokkur, sem mæla með því að eðlilegra hefði verið að vinna málið miklu hægar og leita um það víðtækari sáttar og samstarfs en að vinna það eins og verið er að gera.

Eftir því sem við leiðum fram fleiri rök í málinu, hæstv. forseti, kemur sífellt fleira fram sem er vísbending um að verið sé að setja lög sem taki fyrst og fremst til eins fyrirtækis, Norðurljósa. Það virðist vera markmiðið. Ég tel að það séu afar ólýðræðisleg vinnubrögð, óðagotið og flýtirinn, og það sé ámælisvert og í raun er verið að þjóna sjónarmiðum sem ég átta mig ekki á og hæstv. forsrh. virðist standa fyrir, að málið skuli keyrt í gegn að kröfu hans og eftir duttlungum hans.

Hæstv. forseti. Ekki fór fram nein skoðun á heildarumhverfi fjölmiðlunar og dreifingu efnis eða áhrifum frv. á rekstrarumhverfi starfandi fjölmiðla áður en það var samið. Frumvarpið lítur aðeins til hefðbundins útvarps og sjónvarps en ekki til þeirra tækniframfara sem eru mögulegar eða verða mögulegar í náinni framtíð og þá á ég við dreifingu sjónvarpsefnis um breiðband, símaleiðslur og gervihnött. Það eru þess vegna mörg rök fyrir því að vinna málið betur, m.a. ný tækni, eins og ég hef vikið að, og auðvitað fjöldamörg önnur atriði. En það er svo, hæstv. forseti, að ef slagur er í boði skal hann tekinn frekar en sáttaleiðin, það er bara hinn kaldi veruleiki sem við stöndum frammi fyrir í þinginu. Ég veit að ég þarf ekki að minna á það aftur að þingmenn stjórnarandstöðuflokkanna hafa allir haft áhuga á að skoða þessi mál og lagt fram tillögur í því efni en niðurstaðan í því varð einfaldlega sú að menn völdu slaginn, menn völdu ófriðinn og sitja uppi með hann. Og það sem verst er, enginn úti í þjóðfélaginu skilur hvers vegna við erum að fara með málið í þennan farveg, í þennan átakafarveg, ef hugsanlega var friður í boði og hægt að vinna málið með eðlilegri hætti en við erum að gera nú. Þeim kostum var hafnað.

Einhvern tíma var sagt að ef menn lægju vel við höggi þá skyldi höggva. Ég held að menn liggi ekkert vel við höggi í þessu máli, það er fyrst og fremst ríkisstjórnin sem er að koma sér í þá stöðu að að henni verði vegið í framhaldi málsins því að þjóðin er á móti henni í málinu, þjóðin er á móti ríkisstjórninni, enda er málið hið versta og bara ómögulegt að vinna það með því lagi sem verið er að gera enda ber enga nauðsyn til þess.

Búið er að minna á atriði er varða stjórnarskrána, einkum atvinnufrelsið, tjáningarfrelsið, eignarréttinn, jafnræðisregluna og meðalhófsregluna. Það er búið að minna á EES-samninginn og Evrópureglur um staðfesturéttinn, þjónustufrelsið, fjármagnsflutninga, reglur um lögfræðilega vissu, bann við afturvirkni, mannréttindaákvæði og sáttmála um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi, svo eitthvað sé nefnt. Er þá eigi lítið lagt undir þegar allt þetta er upp talið, hæstv. forseti, og afar furðulegt að menn skuli vera að leika sér með lýðræðið á þann hátt sem verið er að gera hér. Ég verð að orða það svo, hæstv. forseti. Ég skil ekki hvers vegna menn fara með málið í þennan farveg, hvers vegna menn velja slag þegar friður gat verið í boði þó að hann hefði e.t.v. tekið einhverja mánuði.

Hver er það sem þykist sjá það fyrir að á næstu fjórum til átta mánuðum hefði þjóðfélagið farið á hliðina þó að lögin um fjölmiðla hefðu verið óbreytt eða reyndar bara sama umhverfi og er í dag? Hver gengur með þær grillur í höfðinu? Það hlýtur að vera hæstv. forsrh. Ég get ómögulega tekið undir það, hæstv. forseti, eins og ég hef áður sagt, að þjóðfélagið sé að fara á hliðina vegna þeirrar starfsemi sem núna á sér stað í fjölmiðlun hér á landi.

(Forseti (GÁS): Forseti vill spyrja hv. þm. hvort mikið sé eftir af ræðu hans.)

Já, upp undir klukkutími, hæstv. forseti.

(Forseti (GÁS): Er hv. þm. orðinn svangur?)

Já, ég mótmæli því ekki.

(Forseti (GÁS): Þá verður gert hlé á þessum fundi og á ræðu hv. þm. og honum fram haldið klukkan 20.00.