Útvarpslög og samkeppnislög

Fimmtudaginn 13. maí 2004, kl. 20:00:16 (8108)

2004-05-13 20:00:16# 130. lþ. 114.1 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, GAK
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur, 130. lþ.

[20:00]

Guðjón A. Kristjánsson (frh.):

Hæstv. forseti. Það er komið að því, hæstv. forseti, að velta fyrir sér atriðum eins og eignarhaldi og takmörkunum á því. Þar kemur tvennt upp í hugann til að byrja með.

Í fyrsta lagi má fyrirtæki í markaðsráðandi stöðu eiga undir 5% eignarhlut en hins vegar á það ekki við ef það er undir 2 milljörðum kr. í tekjum. Þetta vekur ákveðnar spurningar, hæstv. forseti, þ.e. þessar brtt. Annars vegar er þetta atriði með 5% eignarhlut og hins vegar mörkin við 2 milljarða kr. tekjur. Auðvitað þarf að spyrja vissra spurninga í sambandi við þau ákvæði.

Þriðja atriðið sem vekur spurningar eru árin tvö, eftir því sem mér hefur skilist af fréttum, eftir að brtt. komu fram. Vissulega ber að taka það fram að í allri umfjöllun allshn. lá það ekki fyrir, a.m.k. held ég að það hafi ekki legið fyrir fyrr en búið var að ræða við alla aðila, að til stæði að hafa ákvæðið þannig að gildistöku laganna yrði algerlega frestað til júní 2006, um rúmlega tvö ár. Þess vegna hefur komið upp spurningin: Geta lögin talist afturvirk í einhverjum tilvikum þótt búið sé að fresta gildistöku laganna í tvö ár?

Eftir því sem maður hefur kynnt sér í fjölmiðlum og umsögnum einstakra manna eftir að þessar tillögur komu fram --- þær voru ekki ræddar við gestina í nefndarstarfinu, ég veit ekki til þess --- virðist sem þrátt fyrir ákvæðið um árin tvö geti frv. talist afturvirkt, þ.e. að með því væru aðilar skikkaðir til að taka á sig þær kvaðir sem fylgja sem gæti í einhverjum tilvikum verkað líkt og um afturvirkni væri að ræða.

Nú er ég ekki lögfróður maður, hæstv. forseti. Ég skal ekki dæma um það en maður heyrir að menn telja enn að þessi ákvæði geti, þrátt fyrir breytingarnar, talist afturvirk.

Í þessu sambandi, hæstv. forseti, er rétt að minna á að í kosningabaráttunni síðasta vor, þegar rætt var um hugmyndir stjórnarandstöðuflokkanna um að breyta fiskveiðilöggjöfinni þar sem menn töluðu yfirleitt um fimm ára aðlögun, þá var það talinn allt of stuttur tími. Hæstv. forsrh. sem er 1. flutningsmaður þessa máls sagði m.a. á fundum að kvótamálið væri þannig vaxið að allt mundi fara upp í loft ef menn ætluðu að setja ákvæði um að ná fram ákveðinni breytingu á fiskveiðistjórnarlögunum á fimm árum. Hann taldi að allt færi upp í loft. Hann taldi slíkt tal gjörsamlega ábyrgðarlaust og annað eftir því, hæstv. forseti. Ég gæti fundið þessi ummæli og lesið þau upp en ég held að ég muni þau nokkurn veginn. Þau orð féllu á fundi austur á Egilsstöðum þar sem hæstv. forsrh. sagði m.a. að stjórnarandstaðan mundi setja allt í uppnám, gengi á eignarréttindi manna o.s.frv. með slíkum breytingum og það væri óeðlileg framsetning.

Hér er hins vegar verið að tala um tveggja ára aðlögun og maður spyr: Hvað hefur breyst frá því á síðasta vetri til dagsins í dag að því er þetta varðar hjá hæstv. forsrh.?

Í öðru lagi, hæstv. forseti, varðandi 2 milljarða kr. í tekjur. Hvers vegna 2 milljarða kr.? Ég hef ekki áttað mig á eða fengið skýringar á því að setja mörkin við 2 milljarða kr. Ég skil heldur ekki hvers vegna menn setja mörk við 5%. Hvers vegna ekki 8%, hvers vegna ekki 10% eða 12%, eins og heimild er í fiskveiðistjórnarlögunum fyrir að eitt fyrirtæki megi eiga af aflaheimildum á Íslandsmiðum? Ég átta mig því ekki á rökunum fyrir þessum tölum. Ég hef þó séð í umfjöllun um brtt. að menn hafa talið að 2 milljarða kr. ákvæðið samrýmist ákaflega vel því að ákveðið fyrirtæki eigi í Skjá 1 og hins vegar að 5% ákvæðið passaði ákaflega vel til að hreyfa ekki við eign Íslandsbanka í Skjá 1. Maður spyr sig: Getur það virkilega verið að tölurnar séu fengnar með þessari aðferð? Getur það virkilega verið svo, hæstv. forseti?

Þegar sett eru takmörk á eignaraðild fyrirtækja, þó að þau séu ráðandi í öðrum greinum, vakna spurningar um hvort ákvæðið sé eðlilegt með þessum hætti. Ég segi fyrir mig að maður hefði getað hugsað sér að ákvæðið hljóðaði þannig að markaðsráðandi fyrirtæki mættu ekki eiga meira en 30% eða 35% í sjónvarpsstöð og eitt slíkt ekki eiga meira en 15%, svo einhver tala sé nefnd. Ég hef ekki fengið neina sérstaka skýringu á þessari tölu varðandi 5% og hvers vegna hún er notuð en ekki einhver önnur.

Ýmsar spurningar vakna við skoðun á brtt. meiri hluta allshn. Þó stendur fyrst og fremst upp úr að þrátt fyrir brtt. telja sumir að lögin standist ekki enn þá ákvæði stjórnarskrár. Það hefur m.a. verið haft eftir Sigurði Líndal að hann telji að lögin séu enn því marki brennd að þau standist ekki stjórnarskrá.

Hæstv. forseti. Málið í þeim búningi sem það hefur verið fært í er engan veginn nægilega gott. Þess vegna hefur stjórnarandstaðan tekið þessa afstöðu, bæði á grundvelli þess hvernig vinnan við málið í heild sinni hefur verið og einkanlega vegna efnisatriða málsins. Því er hafnað af stjórnarandstöðunni að þetta mál gangi fram. Það er í raun sama krafa, hæstv. forseti, og meiri hluti þjóðarinnar hefur gefið til kynna í skoðanakönnunum. Meiri hluti þjóðarinnar hefur samkvæmt skoðanakönnunum hafnað þessu máli og telur vafasamt að svona sé staðið að málum, hæstv. forseti.

Eignarhaldið á fyrirtækinu Norðurljósum er sett í mikið uppnám. Þetta er skuldsett fyrirtæki. Það hefur komið fram að það skuldar 5,7 milljarða kr. ef ég man rétt, hæstv. forseti. Hluti af þeim skuldum eru sagðar skuldir við lífeyrissjóði. Ég hef ekki nákvæmar upplýsingar um hvernig þær skuldir eru til komnar en það væri náttúrlega afar fróðlegt, og vonandi fást upplýsingar um það í hv. efh.- og viðskn. á fundi í fyrramálið, hvernig þessar skuldir eru til komnar. Eru þetta lán, hæstv. forseti, eða jafnvel uppsöfnuð vanskil á lífeyrisskuldbindingum sem fyrirtækið hefur í gegnum erfiðleika á undanförnum árum safnað upp og verið breytt í lán án þess að fyrir því séu trygg veð? Hvað ef svo er? Ef svo er, hver er þá réttarstaða þeirra sem eiga greiðslur í lífeyrissjóðnum?

Ég vona satt að segja, hæstv. forseti, að ef þetta frv. verður að lögum sé um að ræða lán frá lífeyrissjóðunum. Þarna er um geysilegar upphæðir að ræða, 2 milljarða kr., ef réttar upplýsingar hafa komið fram í umræðunni. Ég vona að það sé lán frekar en uppsöfnuð vanskil sem breytt hafi verið í lán og þar af leiðandi að hluta vangreiðsla inn í lífeyrissjóðina af launum viðkomandi starfsmanna. Sé um vanskil að ræða erum við að tala um réttindi fólks, að lífeyrisréttindi þeirra í framtíðinni séu í beinni hættu vegna þessara aðgerða. Við höfum svo sem ekki upplýsingar um það en vonandi fást skýr svör við þessu í efh.- og viðskn. í fyrramálið og er ekki seinna vænna að fá þær upplýsingar ásamt upplýsingum um hvað verður um fyrirtækið og áform þess um skráningu á opnum markaði. Ætlunin var að komast í Kauphöllina og það skiptir máli miðað við viðskiptaáætlanir fyrirtækisins.

Því hefur verið haldið fram, hæstv. forseti, að frv. feli í sér alvarlega íhlutun í fjölmiðlamarkaðinn og gangi mun lengra en nauðsynlegt er í lýðræðissamfélagi. Það feli í sér brot á meðalhófsreglu, þ.e. að aldrei skuli ganga lengra en nauðsyn ber til. Við skulum minnast þess að í hinni frægu skýrslu nefndar menntmrh. er bent á fjöldamörg önnur atriði til að lagfæra stöðuna á fjölmiðlamarkaði til að fá fram fjölbreytni og dreifða eignaraðild og bæta skipan mála varðandi gagnsæi í eignaraðild að fyrirtækjum, ritfrelsi og sjálfstæði ritstjórna. Þess vegna er, hæstv. forseti, mikils vert að við göngum ekki á meðalhófsreglu íslenskra laga. Ég veit að hæstv. forseti er sammála mér um að það væri afar alvarlegt ef gengjum lengra en nauðsynlegt er til að ná fram lýðræðislegum og eðlilegum markmiðum.

[20:15]

Hæstv. forseti. Ég held að það hefði mátt tryggja jafnvægi og lýðræðisleg markmið með ýmsu öðru en frv. sem hér er til umræðu eins og það var kynnt í 1. umr. og eins og það er enn, því miður, eftir brtt. meiri hlutans.

Talið er að frv. sé samkeppnishamlandi, að það gangi gegn samkeppnislögum, muni draga úr aðgengi nýrra aðila að markaðnum og í raun fela í sér óhæfilegar samkeppnishindranir. Það kemur berlega fram í umsögn Samkeppnisstofnunar. Stofnunin gefur frv. falleinkunn að þessu leyti og leiðir líkur að því að það muni snúast upp í andhverfu sína og leiða til einsleitni í eignarhaldi á fjölmiðlum.

Þegar umsögn Samkeppnisstofnunar til allshn. og efh.- og viðskn. er skoðuð er þar auðvitað fjöldamargt áhugavert en því miður fjalla þær umsagnir um frv. eins og það var, í þeim búningi sem það var fyrir brtt. Þar segir að ákvæðin gangi gegn markmiði samkeppnislaga. Það er ein niðurstaðan. Þar er einnig fjallað um bann við að fyrirtæki í óskyldum rekstri sé veitt útvarpsleyfi, bann við að eiga meira en 25% hlut. Samkeppnisstofnun leggur til að það ákvæði verði fellt brott úr frv., þ.e. í tengslum við óskyldan rekstur.

Það er ljóst, hæstv. forseti, að Samkeppnisstofnun gerir miklar athugasemdir við þetta mál. Þeir velta fyrir sér hugtakinu ,,sameiginleg markaðsráðandi staða`` og fara nokkrum orðum það. Þeir minna á ýmis mál í því sambandi. Við þingmenn munum eftir Landsbanka og Búnaðarbanka, þegar stóð til að sameina þau fyrirtæki o.s.frv. En Samkeppnisstofnun telur málið ekki í góðum búningi og hið sama gildir um fjöldamörg önnur álit sem vitnað hefur verið til. Í raun má segja það sama um nær allar aðrar umsagnir sem bárust allshn. Flestir telja mikla annmarka á að frv. gangi fram í þeirri mynd sem það var lagt fram.

Mér finnst, hæstv. forseti, mikil lítilsvirðing hafa verið sýnd fólki sem kallað var til allshn. að vinna málið eins og þar var gert. Ég mundi kalla það lítilsvirðingu ef ég væri kallaður á fund allshn. til að gera grein fyrir og hafa skoðun á máli sem þar væri til umfjöllunar og málið væri kynnt eins og frumvarp hæstv. forsrh. var við 1. umr. Þannig var farið að í allshn., farið yfir málið eins og það var. Síðan voru afgreiddar brtt. sem breyttu frv. nokkuð en jafnvel síðustu gestir allshn. fengu ekki aðgang að fyrirhuguðum breytingartillögum. Við höfum a.m.k. ekki verið upplýst um annað á Alþingi. Þeim gafst ekki kostur á að gefa umsögn um þær. Fólk mætti fyrir allshn. til að fjalla um frv. sem þar lá fyrir þótt meiri hlutinn hefði þegar gert sér grein fyrir því, eftir hinar fjölmörgu aðfinnslur, að þeir mundu þurfa að breyta frv.

Þess vegna er eðlilegt, hæstv. forseti, að fengist hefði meiri tími til að skoða frv. í allshn. og fá aðila sem þar voru kallaðir til til að fjalla um frv. eftir að því hafði verið breytt. Eins og ég hef áður getið um í ræðu minni, hæstv. forseti, hafa aðilar sem komið hafa á fund allshn., t.d. Sigurður Líndal, látið hafa eftir sér í fjölmiðlum eftir að hafa séð frv. svo breytt að frv. stæðist enn ekki ákvæði stjórnarskrár og ýmislegt í því orkaði tvímælis.

Hæstv. forseti. Nú fer að styttast í máli mínu. Ég mun geyma eitthvað af þeim 19 atriðum sem ég taldi upp í upphafi máls míns og taldi að þyrftu sérstakrar skoðunar við og sérstaka umræðu. Ég geymi eitthvað af þeim til síðari ræðu minnar. Vonandi verður þá líka komið fram álit og meiri upplýsingar frá efh.- og viðskn. um málið. Mér finnst mikilvægt að 2. umr. ljúki ekki fyrr en allar upplýsingar sem nefndin getur fengið um þetta mál eru komnar á skjöl og inn í umræðuna. Ég vona sannarlega að við reynum að fjalla um öll þau álitamál áður en þessari umræðu lýkur.

Fjallað hefur verið um Ríkisútvarpið og stöðu þess. Ég hyggst verja síðustu mínútum ræðu minnar, hæstv. forseti, í að ræða stöðu Ríkisútvarpsins í tengslum við þessa umræðu. Ég áskil mér hins vegar rétt til að koma seinna í umræðu um málið og taka aftur til máls.

Það er ljóst að Ríkisútvarpið gegnir mikilvægu hlutverki í þágu lýðræðisins í þjóðfélagi okkar enda ber Ríkisútvarpinu samkvæmt lögum að gæta óhlutdrægni, vernda skoðanafrelsi og útvarpa fjölbreyttum skoðunum. Ríkisútvarpið er eina útvarpsstöðin sem hefur þetta lögbundna hlutverk og því er brýnt að standa vörð um það. Fjölmiðlar í einkaeigu hafa engum slíkum skyldum að gegna og geta því ef þeir kjósa, sem ég sé ekki ástæðu til að fárast yfir, hunsað lýðræðislega umræðu. Þeir geta gengið fram hjá umræðu ef því er að skipta. Ríkisútvarpið hefur hins vegar ákveðnar skyldur, sérstaklega að því er snýr að hlutleysinu og að öll sjónarmið komi fram.

Hagsmunir eigenda einkastöðvanna geta ráðið því hverjir fá að tjá sig o.s.frv. Einkastöðvar geta að sjálfsögðu birt efni eftir eigin geðþótta. Ég verð hins vegar að segja, og endurtaka það til að það valdi ekki neinum misskilningi, hæstv. forseti, að ég hef ekki orðið var við það á undanförnum mánuðum og missirum að neitt hafi hallað á lýðræðislega umræðu, að menn gætu ekki komið fram skoðunum sínum o.s.frv. Ég tel að slík vinnubrögð séu ekki fyrir hendi í raun og veru í þjóðfélagi okkar nú um stundir þótt eignarhald á fjölmiðlum sé eins og það hefur verið. Það er mitt mat, hæstv. forseti.

Hins vegar tel ég óhætt að fullyrða að enginn ljósvakamiðill stendur Ríkisútvarpinu framar hvað varðar fjölþætta og vandaða dagskrárgerð. Hugmyndir um einkavæðingu þess hefðu líklega í för með sér að það vandaða efni hyrfi að mestu vegna þess að það er ekki nógu markaðsvænt í augum eigenda á frjálsum markaði. Markmið einkareksturs er og verður ávallt að skila eigendum sínum hagnaði þó að vissulega hafi einkareknir fjölmiðlar á undanförnum árum átt undir högg að sækja eins og dæmin sanna. Menn hafa þar lent í rekstrarerfiðleikum. En markmið einkarekstrarins er og verður að ná hagnaði.

Það er hætt við því að lýðræðisleg umræða og dýrt menningarefni mundi víkja á hinum harða einkamarkaði. Ég tel að Ríkisútvarpið, eins og það hefur verið, hafi tryggt ákveðinn farveg fyrir menningarefni og tryggi ákveðið hlutleysi í umræðu og að fjallað sé um mismunandi sjónarmið.

Mér finnst að hvergi hafi verið færð fyrir því gild rök, hæstv. forseti, að breyta Ríkisútvarpinu í hlutafélag. Ég heyrði hins vegar að útvarpsstjóri sagði eitthvað á þá leið að það yrði til að liðka fyrir rekstrinum ef RÚV yrði hlutafélag í eigu ríkisins. Ég kem ekki auga á rökin fyrir því máli hans og átta mig ekki á því. Hann sagði eitthvað á þá leið að stofnunin gæti með því brugðist skjótt við samkeppni og verið skjót til ákvarðana. Ég sé ekki hvað er því til fyrirstöðu að stofnuninni verði breytt þannig að hún geti brugðist skjótt við samkeppni án þess að hún verði gerð að hlutafélagi. Ég átta mig ekki á því, virðulegi forseti.

[20:30]

Í hlutafélagsforminu felst sú hætta að til greina kæmi að selja hlutafélagið, þ.e. Ríkisútvarpið. Það er óhætt að segja að fordæmin séu slæm. Talsvert hefur verið um að ríkið hafi selt hlutafélög sín. Í því sambandi hefur margt verið nefnt til sögunnar. Í tengslum við umræðuna hefur verið nefnd salan á bönkunum. Það hefur verið nefnt að Landsbankinn hafi í raun, þegar upp var staðið, ekki verið seldur á 11,3 milljarða kr. heldur 9,5 milljarða kr. eða eitthvað slíkt. Eignaraðild þeirra sem keyptu meginhlutann í bankanum er nú talin 25 milljarðar kr., ef ég man rétt það sem komið hefur fram í dagblöðum í dag.

Hæstv. forseti. Sú einkavæðing sem verið hefur í gangi í þjóðfélaginu hefur að mörgu leyti falist í að þjappa saman völdum og eignum á fáar hendur. Á sínum tíma var m.a. talað um að bankana skyldi selja og koma í dreifða eignaraðild. Það hefði auðvitað verið miklu betra fyrirkomulag og hefði verið hægt að setja takmörk við endursölu hlutanna o.s.frv. Málin mundu því horfa verulega öðruvísi við en nú í þjóðfélagi okkar þar sem tiltölulega fáir menn eiga miklar eignir og ráða miklu um framtíð og stjórn peningamála á markaði. Þeir hafa þar af leiðandi ítök í atvinnulífinu og hafa mikið að segja um umskipti og uppskipti þar eins og dæmin sanna.

Sama má segja um sjávarútveginn. Þar hafa orðið mikil eignauppskipti og framsal í kvótakerfinu. Sala kvóta hefur orðið til þess að risið hafa upp nokkur stór og öflug fyrirtæki. Nú eru tíu stærstu fyrirtækin komin með yfir 50% af öllum aflaheimildum landsmanna í sína eigu. Það er ljóst, hæstv. forseti, að ríkisstjórnin hefur vitandi vits stuðlað að því á undanförnum árum að í þjóðfélaginu safnaðist auður á fárra hendur. Völd hafa einnig færst á fárra manna hendur og margt sem ber að athuga í því sambandi.

Hæstv. forseti. Ég ætla að láta það verða niðurlagsorð mín í þessari ræðu að ég hef ekki séð að málum sé þannig háttað á fjölmiðlamarkaðnum að þar sé allt upp í loft vegna eignarhalds á fjölmiðlum. Ég verð hins vegar var við það að hæstv. forsrh. líkar afar illa að hann skuli ekki hafa meiri tök á fjölmiðlunum en verið hefur. Menn muna kannski eftir því að menn hafa verið kallaðir á teppið hjá ráðherra, eins og sagt er, til að ræða skoðanir þeirra. Það hefur verið fundið að því þegar menn hafa sett fram skoðanir sem hæstv. forsrh. hefur ekki líkað. Ég minni á grein eða smásögu sem sem séra Örn Bárður Jónsson skrifaði fyrir nokkrum árum um sölu Esjunnar. Hún vakti afar litla kátínu á stjórnarheimilinu vægast sagt. Einnig má minna á grein Hallgríms Helgasonar um bláu höndina svo eitthvað sé nefnt.

Það er því ljóst að blessuðum ráðherrunum, svo að ég fari með einhver blessunarorð í þessari ræðu, er ekki alls kostar sama hvað um þá er skrifað. Þeir virðast ekki geta unað því að í þjóðfélaginu hafi fjölmiðlar rétt á að fjalla um hæstv. ráðherra eins og þeim þykir hæfa og telja sig hafa frelsi til.

Ég vara við því, hæstv. forseti, að lagafrv. sem hér er til umræðu mun takmarka eignarhald á fjölmiðlum verulega án þess að fyrir því séu málefnaleg rök. Það mætti jafnvel gera því skóna að það takmarkaða eignarhald setji ritfrelsi og prentfrelsi takmörk. Það má færa fyrir því rök að þannig sé málið í pottinn búið og takmörk á prentfrelsi megum við aldrei í lög leiða.