Útvarpslög og samkeppnislög

Fimmtudaginn 13. maí 2004, kl. 20:43:21 (8112)

2004-05-13 20:43:21# 130. lþ. 114.1 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, JBjarn (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur, 130. lþ.

[20:43]

Jón Bjarnason (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég vek athygli hæstv. forseta á 8. gr. laga um þingsköp Alþingis þar sem stendur í 1. málsgrein:

,,Forseti stjórnar umræðum og sér um að allt fari fram með góðri reglu.``

Ég hygg að hæstv. forseti hafi gert sér grein fyrir þeirri ábyrgð sem hvílir á honum hvað þetta varðar. Mér finnst að hæstv. forseti ætti að skoða þá hug sinn varðandi þá kröfu sem gerð er til hæstv. forseta áður en hann ber vandamál á torg eða í fjölmiðla.

Samkvæmt fréttum á Stöð 2 í kvöld klukkan 18.30 var tekið viðtal, ekki við 2. þm. Norðaust. heldur forseta Alþingis. Þar talaði forseti Alþingis, forseti minn og forseti okkar þingmanna allra, við fjölmiðla um vandamál og málþóf á Alþingi.

Ég hefði skilið það ef viðtalið hefði verið við formann þingflokks Sjálfstfl. eða formann þingflokks Framsfl. Þeir gátu eðlilega komið með slíkar athugasemdir á sínum forsendum. En forseti þingsins, sem er forseti okkar allra, hefur að mínu viti ekki rétt til að bera störf sín í þágu allra þingmanna á torg og í fjölmiðla eins og þarna er gert þar sem vitnað er til þess að forseti Alþingis kallaði umræðuna sem hér fer fram málþóf. Stjórnarandstaðan kemur hins vegar af fjöllum og kannast ekki við það. Ég veit ekki annað en stjórnarandstaðan hafi verið hér og rætt málin. Stjórnarþingmenn geta hins vegar verið uppi á fjöllum, Hvannadalshnjúk eða hvar sem er. Þetta eru því mjög ómakleg ummæli hjá hæstv. forseta sem á að vera í þingsal. Hafi hann eitthvað við þingmenn að segja getur hann komið því á framfæri í þingsal. Hafi hann einhverjar athugasemdir varðandi störf eða mál þingmanna þá geri hann það í þingsal.

[20:45]

Ég vil taka það skýrt fram að ég skil 8. gr. þingskapa þannig að forseti stjórni umræðum og sjái um að allt fari fram með góðri reglu í þingsal en ekki úti á torgi.

Forseti Halldór Blöndal, sem hefur verið viðloðandi Alþingi frá 1961, segist aldrei hafa séð málþóf í líkingu við það sem hann nú telur standa yfir. Málþóf hverra? Ef hann hefur eitthvað út á störf þingmanna að setja þá getur hann gert það í þingsal en ekki í fjölmiðlum eða úti á torgi. Ef honum finnst að stjórnarsinnar hafi verið slappir í umræðunni þá getur hann svo sem hvatt þá til að taka meiri þátt. Hann gæti komið athugasemdum til formanna þingflokka stjórnarflokkanna um að honum finnist þeir slappir í umræðunni, sem þeir hafa og verið, og málin komist ekki nægilega vel til skila. En að bera á torg vangaveltur um störf í þingsal finnst mér ekki vera í verkahring forseta.