Útvarpslög og samkeppnislög

Fimmtudaginn 13. maí 2004, kl. 20:49:58 (8114)

2004-05-13 20:49:58# 130. lþ. 114.1 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, KLM (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur, 130. lþ.

[20:49]

Kristján L. Möller (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Vegna hins dæmalausa viðtals við forseta þingsins, Halldór Blöndal, þá vil ég spyrja forseta hvort hv. þm. Halldór Blöndal sé ekki örugglega í húsinu.

(Forseti (BÁ): Ég hygg að svo sé.)

Væri hægt að kalla hann til fundar vegna þess að umræðan snýst að mestu um störf hans?

(Forseti (BÁ): Þessi umræða er farin að snúast um fréttir fjölmiðla fremur en fundarstjórn forseta.)

Nei. Ég kem reyndar að því á eftir.

(Forseti (BÁ): Það væri gott að hv. þm. kæmi að því. En ég hygg að Halldór Blöndal viti af þessari umræðu.)

Ég held að það sé rétt hjá hæstv. forseta sem hann hyggur, að Halldór Blöndal viti af þessari umræðu. Það er svo samkvæmt töflu hér frammi að Halldór Blöndal er í húsinu. Ef ég þekki hæstv. forseta Halldór Blöndal þá horfir hann á og fylgist með. Þar er hið vökula auga að fylgjast með ræðustól Alþingis. (GÁS: Það er enginn stjórnarliði hérna.) Ég vil geta þess að enginn fylgismanna þessa máls er í salnum. Hér eru bara stjórnarandstæðingar og andstæðingar málsins. Hér eru engir framsóknarmenn sem styðja málið og engir sjálfstæðismenn. En Halldór Blöndal er í húsinu. Ég vænti þess að hæstv. forseti komi og taki þátt í umræðunni. En þegar hann fór í fréttirnar og talaði um störf þingsins datt mér í hug að árinni kennir illur ræðari. Ég hygg nefnilega að það sé svo að margt í fundarstjórn hæstv. forseta, virðulegi forseti, hafi orðið til að búa til sennilega 60--70 af þeim ræðum um fundarstjórn forseta sem hann fjallaði um í fjölmiðlum. Ég hygg að ef betur hefði verið haldið á málum af hæstv. forseta þingsins hefði umræðan jafnvel verið langt komin. Þá hefði gefist tími til annars en að ræða um störf forseta.

Forseti hefur verið alveg einstaklega klaufalegur, hálfgerður klaufabárður, við að stjórna þinginu. Hann hefur gert allt hálfvitlaust með reglulegu millibili. Ég vil því, virðulegi forseti, gera athugasemdir við ummæli hans í fjölmiðlum. Jafnframt vil ég spyrja þann forseta sem nú er í forsetastól hvort við stjórnarandstæðingar höfum ruðst fram fyrir stjórnarsinna sem beðið hafa um orðið. Raunin er að aðeins einn sjálfstæðismaður hefur talað og sennilega af illri nauðsyn. Hann varð að fylgja eftir nefndarálitinu. Einn framsóknarmaður talaði í 30 mínútur í gær og flutti ræðu sem hann flutti einnig við 1. umr. Sagt er að það sé eina ræðan sem komin er inn á vef Alþingis, ræða hv. þm. Hjálmars Árnasonar, af því að ræðuritarinn gat farið í tölvuna og gert ,,copy og paste``. Það er eina ræðan sem er yfirlesin og tilbúin frá síðustu tveimur dögum.

Virðulegi forseti. Ég trúi því ekki öðru en að hinn vaski forseti þingsins, hv. þm. Halldór Blöndal, fari að ganga í salinn til að liðka fyrir störfum þingsins.