Útvarpslög og samkeppnislög

Fimmtudaginn 13. maí 2004, kl. 20:53:18 (8115)

2004-05-13 20:53:18# 130. lþ. 114.1 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, GÁS (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur, 130. lþ.

[20:53]

Guðmundur Árni Stefánsson (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég vil árétta spurningu hv. þm. Kristjáns L. Möllers. Er það upplifun hæstv. forseta að stjórnarandstæðingar hafi með skipulegum hætti troðið stjórnarliðum um tær og troðið sér fram fyrir þá á mælendaskránni?

(Forseti (BÁ): Forseti segir ekki að þeir hafi troðið sér fram fyrir neinn á mælendaskrá, enda eru menn almennt ekki teknir fram fyrir á mælendaskrá gegn vilja þeirra sem þar sitja fyrir.)

Ég þakka fyrir. Það var nákvæmlega þetta sem ég vildi fá fram. Á sama hátt hefur sitjandi forseti staðfest að ummæli Halldórs Blöndals, hæstv. forseta Alþingis, eru röng (Forseti hringir.) og að engu hafandi.

(Forseti (BÁ): Forseti hafnar því að lagt sé út af orðum hans með þessum hætti.)

Ég þakka hins vegar forseta fyrir að hafa staðfest í einlægni að hér er ekki um neitt ofbeldi að ræða heldur þvert á móti viljaleysi stjórnarþingmanna til að taka þátt í umræðunni. Það er ákaflega erfitt að taka þátt í umræðunni í þingsal án þess að vera á staðnum. Ég vek athygli á því að þeir hv. stjórnarliðar, að Kristni H. Gunnarssyni undanskildum, sem eru hér á mælendaskrá og eiga væntanlega að tala fyrr en síðar eru ekki á staðnum. Það er því erfitt að koma því við.

Ég vek athygli á ákvæði þingskapa sem lúta að rétti forseta til að skáka til mönnum á mælendaskrá og tryggja með því að ólík sjónarmið geti vegist á og geti víxlast. Það hittist þannig á að sá sem hér stendur stýrði og stjórnaði fundi við upphaf umræðunnar á þriðjudag og gætti þess eins og hann gat að jafnræði væri milli flokka, á milli stjórnar og stjórnarandstæðinga, til að sjónarmið gætu vegist á. Þess vegna er enn undarlegra að þetta skuli koma upp á þriðja degi umræðunnar, þegar aðeins tveir stjórnarliðar hafa nýtt sér rétt sinn til að taka til máls. Umræðunni um málþóf skal því enn hafnað. Ég vil þakka sitjandi forseta fyrir að hafa staðfest skilgreiningu mína.

Ég vil árétta tilboð mitt. Ég vænti þess að það tilboð standi einnig af hálfu annarra fulltrúa stjórnarandstöðunnar. Þeir eru vissulega sáttir við að forseti beiti því valdi sínu sem hann hefur samkvæmt þingsköpum til að tryggja að ólík sjónarmið vegist á og færi til í einu vetfangi þá tvo liðsmenn stjórnarinnar sem eru á mælendaskrá, þannig að þeir megi tala á næstu mínútum, verði þriðji eða fjórði ræðumaður í röðinni. Ég hvet forseta til að taka þessu góða tilboði.