Útvarpslög og samkeppnislög

Fimmtudaginn 13. maí 2004, kl. 21:07:10 (8123)

2004-05-13 21:07:10# 130. lþ. 114.1 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, MÁ (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur, 130. lþ.

[21:07]

Mörður Árnason (um fundarstjórn):

Forseti. Ég hef aldrei verið forseti Alþingis en ég hef verið fundarstjóri á fundum og stjórnað ýmsu verki sem mér hefur verið falið. Við slíka stjórn hef ég talið að hlutverk mitt væri að sjá til að menn færu að réttum formsreglum. Ég hef hagað þeim störfum í samræmi við það meginmarkmið fundarstjóra að vera þjónn þeirrar samkomu sem valið hefur hann til þjónustu við sig. Slíkur maður hefur rétt til eigin skoðana og á að tjá þær þegar það á við en hann á ekki að láta þær hafa bein áhrif á gang mála á fundinum.

Þetta virðist vera öðruvísi á Alþingi undir stjórn hv. þm. Halldórs Blöndals, sem kosinn hefur verið forseti í nokkur ár, með mismörgum atkvæðum að vísu. Hann virðist telja að það fylgi hlutverki sínu að vera eins konar fréttaskýrandi og jafnframt dómari svipað og gerist í listdansi á skautum þar sem menn rétta upp spjald með númeri eða á hrútasýningum þeim sem hæstv. forseti mun hafa vanist í gamla daga þegar hann var að hefja stjórnmálaferil sinn. Þá var afurðum bænda í héraði og háttvirtra kjósenda lýst með tilteknum hætti og voru hafðir til þess sérstakir matsmenn sem þó báru ekki titilinn ,,forseti``, ef ég man rétt af kynnum mínum af slíkum mönnum. --- Þakka þér fyrir.

Hv. 2. þm. Norðaust. rétti mér miða og á honum stendur, þingmönnum til upplýsingar: ,,Passaðu þig á vatninu.`` Ég veit ekki alveg hvort forseti er farinn að lauma einhverjum töflum í vatnið til þess ýmist að halda mönnum betur vakandi eða kannski til þess að draga úr þróttinum.

Hæstv. forseti Alþingis á hins vegar ekkert með að gefa umræðum á þingi eitthvert nafn. Hann á allra síst að gera það í sjónvarpinu. Það verður forseti þó að hafa eftir skaplyndi sínu en það er hins vegar langt fyrir utan hlutverk hans og ámælisvert að forseti ætli þingmönnum það, þegar þeir ræða um landsins gagn og nauðsynjar frammi fyrir slíku frv. sem hér er á borðum okkar að þeir séu í einhverjum fundarbragðatrixum, svo að ég vitni í ungan þingmann, til að koma andstæðingum úr ræðustól eða meina þeim að komast í hann. (ÖS: Hver er hinn ungi þingmaður?) Hinn ungi þingmaður er einn af fyrrverandi frjálshyggjuþingmönnum Sjálfstfl. Ég vil ekki fara nánar út í það.

Þessu hlýt ég að mótmæla, eins og aðrir þeir sem hér hafa komið upp, og krefjast skýringa á háttalagi forseta Alþingis.