Útvarpslög og samkeppnislög

Fimmtudaginn 13. maí 2004, kl. 21:10:24 (8124)

2004-05-13 21:10:24# 130. lþ. 114.1 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, KLM (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur, 130. lþ.

[21:10]

Kristján L. Möller (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég sé að hæstv. forseti Alþingis hefur orðið við ósk minni um að koma í fundarsal og hlusta á þá umræðu sem hér hefur farið fram um viðtal sem tekið var við hv. þm. Halldór Blöndal, forseta Alþingis, á Stöð 2, sem sumir kalla annað en Stöð 2 en sleppum því.

Hv. þm. hefur verið í salnum og hlustað á athugasemdir okkar. Eins og ég gat um áðan og geri ráð fyrir að hann hafi heyrt hefur hann lagt sitt af mörkum og verið mjög duglegur við að gera framkvæmd þingsins erfiðari með alls konar vitleysislegum ákvörðunum sem hafa tafið mjög þingstörf. Ég lít svo á að hv. þm. sé okkur sammála. Þögnin er sama og samþykki í þessu tilfelli. Hv. þm. Halldór Blöndal, forseti Alþingis, mun því hafa áttað sig á glappaskotum sínum sem orðið hafa til að tefja þingstörf.

Jafnframt hefur komið fram, virðulegi forseti, og ég þakka fyrir þau svör, að stjórnarandstæðingar hafa ekki ruðst fram fyrir stjórnarsinna. Það er mjög athyglisvert að það hafi komið fram og þar með er ljóst að það sem hv. þm. Halldór Blöndal, forseti Alþingis, sagði í umræddu viðtali er rangt og er vitleysa. Það er þá í takt við ýmislegt annað sem snýr að fundarstjórn forseta.

Ég tók eftir því áðan að allt í einu komu tveir sjálfstæðismenn inn í salinn. Ég býð þá að sjálfsögðu velkomna vegna þess að þingmanna frá Sjálfstfl. hefur verið sárt saknað. Ég tók eftir því að hv. þm. Drífa Hjartardóttir gerði töluvert af því að kalla fram í og leit svo á að henni væri mál að komast í ræðustól. Þess vegna vil ég segja, virðulegi forseti, að ég held að hv. þm. Drífa Hjartardóttir ætti að drífa sig í ræðustól.