Útvarpslög og samkeppnislög

Fimmtudaginn 13. maí 2004, kl. 22:15:26 (8135)

2004-05-13 22:15:26# 130. lþ. 114.1 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, GAK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur, 130. lþ.

[22:15]

Guðjón A. Kristjánsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég veit að hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson hlustaði á mál mitt fyrr í kvöld. Þar lagði ég út af því að mér fyndist málsmeðferð ríkisstjórnarinnar í þessu máli einkennileg og teldi að ríkisstjórnin veldi ófriðinn fremur en sáttina. Ég færði rök fyrir því með þeim hætti að m.a. sá sem hér stendur, fulltrúi Vinstri grænna og fleiri þingmenn hefðu flutt tillögu í byrjun desember um að skoða fjölmiðlamarkaðinn, eignaraðild, samsetningu starfsskilyrði o.s.frv. með það að markmiði að skoða m.a. hvort yfirleitt ætti að grípa til aðgerða eða setja einhverjar reglur. Síðan minnti ég á mál Samf. um gegnsæi og ritstjórnarfrelsi og taldi að miðað við mál manna hefði verið hægt að ná góðri sátt.

Þess vegna (Forseti hringir.) vil ég spyrja hv. þm. hvort hann sé sama sinnis og ég, að það hefði mátt ná sátt um málið ef það hefði verið unnið á annan hátt, horft lengra fram í tímann og tími gefinn til þeirrar vinnu.