Útvarpslög og samkeppnislög

Fimmtudaginn 13. maí 2004, kl. 22:16:59 (8136)

2004-05-13 22:16:59# 130. lþ. 114.1 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, KHG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur, 130. lþ.

[22:16]

Kristinn H. Gunnarsson (andsvar):

Herra forseti. Það skiptir miklu máli hvernig menn standa að því að undirbyggja mál. Ef menn hefðu farið í þetta mál eins og ég rakti áðan, með því að draga fyrst saman efni, kynna tiltekin sjónarmið og efna til pólitískrar umræðu, bæði innan þings og utan í einhvern tíma, þá hefðu menn væntanlega fljótlega náð saman um tiltekin markmið, vinsað út það sem menn væru ósammála um og byggt á því sem menn hefðu náð samstöðu um.

Ég tel því líklegt að deilur um málið hefðu verið miklu minni og pólitísk umræða markvissari, fremur en undir þessum formerkjum þar sem menn þurfa eiginlega að kynna sér málin á upphafsreit og hafa ekki tileinkað sér alla þá þekkingu og fengið upplýsingar sem þarf til að gera málið upp endanlega.