Útvarpslög og samkeppnislög

Fimmtudaginn 13. maí 2004, kl. 22:22:24 (8140)

2004-05-13 22:22:24# 130. lþ. 114.1 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, EKH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur, 130. lþ.

[22:22]

Einar Karl Haraldsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson lýsti því fyrir okkur hvernig formenn stjórnarflokkanna hefðu vanvirt flokksmenn sína með því að stytta sér leið og ákveða niðurstöðuna fyrir fram í því mikilvæga frelsismáli sem hér er til umræðu.

Í þessu sambandi vildi ég spyrja hvort vandamálið er ekki víðtækara en svo. Ég kynntist því þegar Fréttablaðið hóf göngu sína undir minni ritstjórnarforustu að þá neitaði forsrh. að tala við blaðið. Síðan kom tölvupóstur úr Valhöll þar sem við vorum skammaðir fyrir að tala bara við aðra flokksformenn en hann. Eins hafa nokkrir þingmenn Framsfl. og forustumenn í flokknum lýst því yfir að þeir tali ekki við DV. Síðan er DV skammað fyrir að ráðast á ríkisstjórnina og hunsa Framsfl. eða ráðast á Framsfl.

Spurning mín er þessi: Er ekki vandinn m.a. sá hvernig forustumenn stjórnarflokkanna eru farnir að koma fram í lýðræðislegri umræðu í landinu?