Útvarpslög og samkeppnislög

Fimmtudaginn 13. maí 2004, kl. 22:26:13 (8143)

2004-05-13 22:26:13# 130. lþ. 114.1 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, JGunn
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur, 130. lþ.

[22:26]

Jón Gunnarsson:

Frú forseti. Umræðan um breytingar á útvarpslögum og samkeppnislögum er búin að standa góða hríð. Þetta er í fyrsta skipti sem ég kem í ræðustól til að ræða það mál og ég held að enginn hv. þm. hafi komið hingað oftar en einu sinni enn sem komið er til að fjalla um það mikla mál sem fyrir okkur liggur.

Það er þó kannski með hálfum huga og ákveðnum ugg í brjósti að ég kem upp og ætla að hefja það sem ég hafði hugsað mér að væri nokkuð yfirgripsmikil ræða um málefnið vegna þess að það hefur verið svolítið furðuleg umræða í gangi í þjóðfélaginu og í fjölmiðlunum um að við þingmenn sem erum á Alþingi séum með málþóf við það að nýta okkur þann sjálfsagða rétt okkar að taka til máls undir jafnmikilvægu máli og hér um ræðir. Frekar hefði mér þótt, frú forseti, að ástæða hefði verið til fyrir fjölmiðla og umræðuna í þjóðfélaginu að velta fyrir sér hvernig á því stendur að hér standi nánast klukkutímum saman á hverjum degi einungis stjórnarandstaðan og tali við sjálfa sig. Það er ekki nokkur leið að draga hv. stjórnarþingmenn út úr þeim myrka helli þar sem þeir hafa komið sér fyrir núna í þeirri varnarstöðu sem þeir eru komnir í í málinu, til þess að skiptast á skoðunum við þá um hvað þeim finnst um einstök efnisatriði frv., hvað þeim finnst með þau meginmarkmið sem frv. setur fram og hvað þeim finnst í raun um þann anda sem í frv. er. Ég verð þó að segja að það birti aðeins yfir mér áðan þar sem ég sat og hlustaði á ræðu hv. þm. Kristins H. Gunnarssonar. Mér fannst eins og þarna kæmi í fyrsta skipti í langan tíma einhver skynsemisrödd úr þessum myrka helli stjórnarsinna. Hér stóð þingmaður sem gerir sér fulla grein fyrir því að með því að taka þá afstöðu mun hann a.m.k. þegar til skemmri tíma er litið og jafnvel til lengri tíma litið eiga mjög erfitt uppdráttar í sínum flokki og mjög erfitt uppdráttar í því stjórnarsamstarfi sem nú er, því einu er ég þó búinn að gera mér grein fyrir á þeim stutta tíma sem ég hef setið á Alþingi, þ.e. frá því í október í fyrra, að hér ríkir flokksagi. Hér er ekki um það að ræða eða maður getur alla vega ekki séð það í því máli sem við erum að ræða að þingmenn ætli sér hver og einn að hafa einhverja skoðun á málinu, skoðun sem menn mynda sér sjálfir út frá því að lesa í gegnum mjög viðamikil og flókin gögn málsins, með því að hlusta á þá fjölmörgu sem komið hafa og hitt nefndir þingsins og lagt á borð mjög viðamiklar umsagnir sem gefa það til kynna að hér sé vert að fara rólega, hér sé vert að skoða hlutina og hér verði menn að passa sig á því að rasa ekki um ráð fram.

Ég hef aldrei látið það eftir mér þó að mig hafi oft langað til þess að koma upp í pontu á hinu háa Alþingi og ræða um fundarstjórn forseta. Áðan var rætt um fundarstjórn forseta vegna þess að 1. forseti þingsins, Halldór Blöndal, hafði sagt það í fjölmiðlum að stjórnarliðar kæmust ekki að til að ræða málið og að 99 sinnum hefðu stjórnarandstæðingar komið upp í pontu til að ræða um fundarstjórn forseta. Ég hefði í sporum hæstv. forseta sleppt því í raun og veru að segja frá þessu því að mínu viti er þetta ekkert annað en áfellisdómur yfir því hvernig störfum þingsins hefur verið stjórnað undanfarna daga og ég verð að segja alveg eins og er, kannski af reynsluleysi sem nýr þingmaður, að skipulag á störfum Alþingis eins og ég hef upplifað það frá því að ég byrjaði störf í október í fyrra er í raun alveg með eindæmum. Það er nánast aldrei hægt að gera sér grein fyrir því hvaða störf bíða manns að morgni þegar maður kemur til starfa. Starfsáætlun til skemmri tíma litið, til morgundagsins eða til loka vikunnar liggur ekki frammi af því að verið er að halda stjórnarandstæðingum í einhverri spennitreyju með það hvernig störf þingsins verða. Í gær vorum við þingmenn hér, þ.e. þeir sem sátu í salnum og hlýddu á ræður eða fluttu ræður og við vissum ekki betur en þingstörf ættu að standa til klukkan fjögur að nóttu eða morgni eftir því hvernig menn líta á það. Að sjálfsögðu gerðum við okkur grein fyrir því að við yrðum að manna þingsali til klukkan fjögur og sinna þeirri þingskyldu því að vert er að minna á að sú skylda hvílir á öllum hv. þm. að sækja þingfundi nema lögleg forföll hamli. Við gerðum ráð fyrir að vera hér til klukkan fjögur. Um miðnætti sá maður að komin var ókyrrð á stjórnarliðið, þau tvö eða þrjú sem hér sátu létu sig hverfa. Hér var ræðumaður í ræðustól, hann kláraði sitt mál, þá stóð hæstv. forseti á fætur, sló í bjölluna, var svona hálfundirfurðulegur á svipinn og sagði: Málið er tekið af dagskrá og fundi slitið. Það var eins og það væri eitthvað sniðugt að snasa stjórnarandstöðuna, láta hana halda að hún yrði að vera hér til klukkan fjögur að morgni en slíta svo fundi um rúmlega miðnætti, alveg rosalega fyndið. Við erum ekki að tala um fundi eða skipulag á einhverju málfundafélagi, við erum að tala um hið háa Alþingi og hvernig störfum er þar stjórnað.

Það mál sem við ræðum hér, þ.e. frv. til laga um breytingu á útvarpslögum, nr. 53/2000, og samkeppnislögum, nr. 8/1993, kom fram með nokkuð undarlegum hætti. Við vorum búin að vera önnum kafin hér í því skipulagsleysi sem ég hef lýst við að reyna að þoka málum áfram í nefndum og í þingsal og það liggur fyrir geysilega langur listi þingmála sem stjórnarliðið leggur áherslu á að klárist á þessu þingi. Byrjað var að tala um að fara yrði að setja á kvöldfundi, setja fundi á á föstudögum og setja fundi á um helgar því það lægi mikið á að klára mörg af þeim mikilvægu málum sem bíða afgreiðslu. Sum þeirra mála þurfa á afgreiðslu að halda vegna þess að við erum að uppfylla einhverja samninga við önnur þjóðríki og við getum ekki látið bíða að koma þeim málum í gegn en allt í einu, viti menn, eru öll mál tekin út af dagskrá á hinu háa Alþingi og það kemur eitt mál inn á dagskrána. Því máli fylgja þau skilaboð að það mál þurfi að klára áður en nokkurt annað mál verði tekið fyrir. Er furða þó að maður hafi velt fyrir sér, þegar svona var komið, að nú hlyti að vera mikil vá fyrir dyrum. Váin væri það mikil að þjóðþingið, Alþingi Íslendinga, yrði að leggja til hliðar öll önnur störf sem búið væri að vinna að frá 1. október á síðasta ári til dagsins í dag, leggja til hliðar öll þau störf vegna þess að nú væri komið eitt krefjandi og knýjandi mál sem yrði að fá framgang áður en við gætum haldið áfram í öllum hinum málunum.

Ég held að það sé alveg óþarfi að eyða miklum tíma í að rifja upp hvernig málið er fram komið. Ég held að hv. þm. Jóhann Ársælsson hafi hitt naglann á höfuðið, eins og hann gerir stundum, þegar hann sagði: ,,Þetta byrjaði allt á bolludaginn.`` Við vissum að það lá fyrir að nefnd á vegum menntmrh. átti að skila skýrslu um eignarhald á fjölmiðlum á Íslandi. Sú vinna var í gangi og við, held ég, öll sem hér erum vorum ánægð með að nú skyldu menn fara að skoða þennan markað því uppi höfðu verið raddir um að hann þyrfti að skoða. Það var reyndar mjög undarlegt og maður velti fyrir sér hvað væri um að vera þegar heyrðist af því að skýrslan, eftir að hún hafði legið lengi á borðum ráðherra, var kynnt í ríkisstjórn, að þá um leið hefði verið kynnt frv. til breytingar á lögum um útvarpslög. Þá fór maður að velta fyrir sér hvað væri nú um að vera. Það hvarflaði reyndar aldrei að manni að frelsisins menn, sem svo vilja kalla sig a.m.k. á hátíðarstundum, væru að leggja fram frv. sem meira og minna væri sértækt og bannaði einu fyrirtæki að stunda þá starfsemi sem það væri að stunda nú þegar í dag.

Frumvarpið, borið fram af þessum frelsishetjum, var því marki brennt eftir því sem okkur er sagt, við höfum ekki séð það, að það hefði ekki verið hægt að kynna það fyrir þingi og þjóð þannig að framsóknarmenn, hinir hugumstóru, lögðu í það mikla verkefni að bjarga málinu eins og framsóknarmanna er siður og það stóð í nokkra daga í þrefi og þjarki milli Sjálfstfl. og Framsfl. Að endingu náðu þeir niðurstöðu og formenn þessara flokka, hæstv. forsrh. Davíð Oddsson og hæstv. utanrrh. Halldór Ásgrímsson, komu fram og sögðu: Við erum búnir að ná samkomulagi um frv. Nú er hægt að leggja það fram og þetta er ekki stærra mál en svo að það á að vera hægt að afgreiða það á örfáum dögum.

Þetta er ekki í fyrsta skipti frá því ég hóf störf á Alþingi sem ég átta mig á því að þegar formenn stjórnarflokkanna, hæstv. forsrh. Davíð Oddsson og hæstv. utanrrh. Halldór Ásgrímsson, komast að samkomulagi um eitthvert mál að þá er það mál ákveðið. Formsatriði eins og að setja það í gegnum þingflokka sína, formsatriði eins og þeir líta á að setja það í gegnum Alþingi, eru einhver leiðindaformsatriði sem verður að sinna og þeim skal sinnt á eins skömmum tíma, með eins litlu veseni og eins litlum umræðum og mögulegt er.

Öll frv., eins og ég sagði áðan, sem lágu fyrir bíða og þau bíða enn. Þau bíða meðan við sláumst við drekann ógurlega því það steðjar hætta að prinsinum eða á ég kannski að segja: Það steðjar hætta að kónginum. Honum verður að bjarga og við leggjum öll önnur verk til hliðar eins og gerðist í ævintýrunum í gamla daga þegar hætta steðjaði að kónginum. Allir menn kóngsins eru kallaðir til, bæði þeir sem hafa fast sæti í hirð kóngsa og eins má segja að kallaðir séu til allir leiguliðar og landsetar kóngsins.

Ef málið væri ekki eins grafalvarlegt og það er gæti maður haldið áfram og velt því upp á þennan veg eins og einhverju Grimmsævintýri sem maður las sem barn og skemmti sér við, Grimmsævintýri sem maður vissi að hefði aldrei gerst og gæti aldei hafa gerst. En því er ekki að heilsa í þessu máli. Hér er ekkert ævintýri á ferðinni. Hér erum við með málið fyrir framan okkur og erum við stjórnarandstæðingar meira og minna einir að ræða það hver við annan.

Fótgönguliðarnir sem hér eru á ferðinni við að bera fram frv. og ég leyfi mér að segja fótgönguliðarnir sem bera það fram vegna þess að frá því að frv. kom fram og var lagt fyrir þingið hef ég ekki séð hæstv. forsrh., sem þó kemur með frv. inn í ríkisstjórn, í fundarsölum Alþingis til að reyna að ræða það við okkur sem hér erum heldur eru hér eingöngu örfáir hv. þingmenn Sjálfstfl. sem hafa fengið það verkefni að berjast við stjórnarandstöðuna í málinu og maður veltir því fyrir sér hvort einhver þeirra eigi kannski að erfa konungsríkið síðar meir. Ekki veit ég hvort prinsessan mun fylgja, en eftir því sem maður best getur gert sér grein fyrir leggja menn það mikið á sig við að verja þennan órétt að maður gæti haldið að bæði auðæfin og valdið muni örugglega fylgja.

Sá sem hér stendur er á sínu fyrsta þingári og hefur aldrei vanist því að taka löng sumarleyfi. Ég tel að okkur liggi í raun ekkert á í þessu máli og ég er tilbúinn, og ég veit að svo er um fleiri hv. þm., að standa hér í allt sumar og fara yfir málið ef þörf krefur. Ég er ekki vanur að fara í sumarfrí fyrr en í ágúst á hverju ári þannig að ég lýsi mig reiðubúinn til þess, og veit að svo er um fleiri, að standa hér meðan á þarf að halda til þess að fara vel yfir málið og reyna eins og hægt er að koma þó einhverji viti í það ef hægt er en ég held þó að betra væri að setja málið til hliðar í bili og endurskoða það alveg frá grunni og gera það með allt öðrum hætti en hér er lagt til.

Sá atgangur sem verið hefur í þessu máli vekur mann óneitanlega til umhugsunar um það ægivald sem formenn stjórnarflokkanna hafa yfir liðsmönnum sínum. Í raun virðist ekki vera sjálfstæður vilji í einum einasta hv. þm. Sjálfstfl. og það sem maður hefur séð á undanförnum dögum er blind flokkshollusta. Menn taka við skipunum og það skín af mönnum í þessu máli, þegar þeir reyna að verja það, þrælsóttinn sem menn sjá þegar menn eru að reyna að veifa röngu tré, hafa enga trú á því sem þeir sjálfir eru þó að reyna að verja en verða að gera það vegna þess að þeim hefur verið skipað til verka. Í Framsfl. er það raunar ekkert skárra. Það er hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson, eins og kom fram í ræðu hans áðan, sem stendur á sannfæringu sinni í málinu, lætur ekki kúga sig í nafni flokkshollustu heldur lýsir því yfir að hann hafi skoðað málið, hann hafi verulegar efasemdir um það og hann muni greiða atkvæði gegn því eins og það er lagt fram hér.

Lítum aðeins á málið sem við erum að fara yfir. Það er sagt reist á greinargerð nefndar menntmrh. um eignarhald á fjölmiðlum. Sú greinargerð er nokkuð viðamikil. Nefndinni var skipað til verka með bréfi sem dagsett var 19. september árið 2003 og ég ætla að leyfa mér, með leyfi forseta, að lesa innganginn að skýrslu nefndarinnar því að inngangurinn segir okkur svolítið til hvaða verka nefndinni var skipað og hvernig þeir tóku á því verkefni sem þeir áttu að inna af hendi. Hefst þá lesturinn, með leyfi hæstv. forseta:

[22:45]

,,Með bréfi dagsettu 19. desember 2003 skipaði menntamálaráðherra nefnd til að skoða reglur um eignarhald á fjölmiðlum á Íslandi. Samkvæmt skipunarbréfinu er verkefni nefndarinnar að skila greinargerð til menntamálaráðherra um það hvort tilefni sé til að setja sérstaka löggjöf um eignarhald á fjölmiðlum. Nefndinni er einnig falið að semja frumvarp að slíkri löggjöf, verði það niðurstaða ráðherra að hennar sé þörf.``

Þarna kemur skýrt fram að nefndin átti að skoða hvort tilefni væri til að setja sérstaka löggjöf um eignarhald á fjölmiðlum. Eftir að sú skoðun hefði farið fram átti, ef það væri skoðun ráðherra að að breyta þyrfti löggjöf, sama nefnd að hafa það hlutverk. Nefndin hefur lagt alla þessa vinnu í að skoða málið og mundi því fá það hlutverk að reyna að færa niðurstöður sínar í frumvarpsform og frv. yrði síðan lagt fyrir Alþingi. En eins og alþjóð veit gerðist það ekki heldur var frv. lagt fram um leið og skýrslan var formlega lögð fyrir ríkisstjórn og kynnt fyrir öðrum ráðherrum en Davíð Oddssyni og hæstv. menntmrh. Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur. Hæstv. forsrh. var tilbúinn með frv. og lagði það fram um leið. Ég ætla að lesa meira úr innganginum að skýrslu nefndarinnar, með leyfi forseta:

,,Grunnforsendan að baki verkefni nefndarinnar er hið almenna viðhorf um mikilvægi fjölmiðla í nútímalýðræðisþjóðfélagi, þar sem skoðana- og tjáningarfrelsi ríkir. Fjölmiðlar gegna lykilhlutverki sem vettvangur ólíkra viðhorfa til stjórnmála, menningar og samfélagslegra málefna í víðum skilningi, eins og nánar er rakið hér á eftir. Fjölmiðlar eru því mikilvæg forsenda þess að einstaklingar fái notið tjáningar- og skoðanafrelsis. Af þessu mikilvæga hlutverki fjölmiðla sprettur sú krafa í lýðræðisþjóðfélagi, að almenningur hafi aðgang að fjölbreyttum og öflugum fjölmiðlum.

Við störf sín hefur nefndin því byggt á þeirri grundvallarforsendu að íslensk löggjöf eigi að vera til þess fallin að vernda þessa hagsmuni. Nefndin telur að um þetta markmið geti tæpast verið ágreiningur, þótt ólík viðhorf kunni að vera uppi um það hvaða leiðir séu best til þess fallnar að markmiðinu verði náð.

Samkvæmt orðalagi skipunarbréfsins er umboð nefndarinnar takmarkað við það að meta hvort tilefni sé til að setja reglur um eignarhald á fjölmiðlum. Setning beinna reglna um eignarhald í þröngum skilningi er þó aðeins ein þeirra leiða sem farnar hafa verið í öðrum löndum, til að vernda þá hagsmuni sem að framan eru raktir. Þegar nánar er skoðað kemur í ljós að hægt er að fara ýmsar aðrar leiðir til að ná sömu eða svipuðum markmiðum. Nefndin hefur því tekið þá afstöðu að eðlilegt sé að fjalla einnig um aðrar leiðir sem til greina koma en lagasetningu um eignarhaldið sem slíkt, enda kunni slíkar leiðir að einhverju eða öllu leyti að vera til þess fallnar að standa vörð um fjölbreytni á fjölmiðlamarkaði.``

Svo mörg voru þau orð. Strax í inngangi að skýrslu nefndarinnar kemur fram að hún telji að í lýðræðisþjóðfélagi sé krafa um að almenningur hafi aðgang að fjölbreyttum og öflugum fjölmiðlum. Ég vona að hv. þm. Drífa Hjartardóttir, sem situr í salnum ein stjórnarþingmanna að hæstv. forseta undanskildum, hlusti á það sem ég er að segja þannig að hún geti tileinkað sér þennan boðskap. Hún mætti svo fara í þann myrka helli, sem ég var að tala um áðan, og reyna að breiða út (Gripið fram í.) fagnaðarboðskapinn.

Nefndinni var sett það hlutverk eitt að athuga hvort tilefni væri til að setja reglur á eignarhald. Það lá alveg ljóst fyrir í upphafi að nefndin átti að skoða hvort setja ætti reglur um eignarhald. Hún átti ekki að skoða aðrar leiðir. Hún átti ekki að skoða hvort hægt væri að fara mildari leiðir. Hún átti bara að skoða eignarhaldið. En um leið og nefndin hefur störf, sér það verkefni sem henni er falið og fer að velta fyrir sér hvernig farið skuli í gegnum það, eins og góðra nefnda er siður, þá útvíkka nefndarmenn sjálfir verksviðið. Þeir segja að það sé ekki hægt að skoða sviðið eingöngu með tilliti til þess hvort setja þurfi reglur um eignarhald. Þeir segja, eins og ég sagði áðan, að það þurfi að skoða hvort ekki sé hægt að ná sömu markmiðum og menn ætla að ná með skorðum á eignarhaldi með því að setja vægari reglur um eitthvað annað og telja að með því sé hægt að standa vörð um fjölbreytni á fjölmiðlamarkaði, að hér séu öflugir, frjálsir fjölmiðlar í einkaeign.

Ég er ekki gamall maður eins og sést þar sem ég stend í ræðustól en man þó eftir svart-hvítu sjónvarpi. Reyndar man ég eftir sjónvarpslausu Íslandi. Ég man eftir því að hafa sem barn á Suðurnesjum horft á það sem við kölluðum kanasjónvarpið. Það var stór stund þegar íslenska sjónvarpið byrjaði. Ég hef aldrei upplifað aðra eins fjölbreytni í fjölmiðlum og ég upplifi í dag. Það er sama hvort um er að ræða dagblöð, útvarp, sjónvarp, margmiðlun í gegnum internetið eða tímarit. Nefnum það. Fjölbreytnin er slík á fjölmiðlamarkaðnum að hún hefur aldrei verið önnur eins. Hér er talað um að setja verði reglur til að tryggja fjölbreytni á fjölmiðlamarkaði.

Gott og vel, fjölbreytnin er fyrir hendi. Það er veruleg fjölbreytni á markaðnum og því hljótum við að velta fyrir okkur hvernig við tryggjum að hún haldi áfram sem slík. En nei, þeir sem samið hafa frv. sem hér liggur fyrir ætla að taka á þeirri miklu fjölbreytni með því að setja lög til að rífa niður þá öflugu fjölmiðla sem byggðir hafa verið upp vegna þess að þeim er ekki sama um hvernig fjölmiðlarnir starfa. Ég held að það sé mergurinn málsins, hæstv. forseti. Kannski hafa allt of fáir talað það hér í ræðustól. Á Alþingi að reynum við að halda okkur við þau efnisatriði sem hér liggja fyrir án þess að fara út og suður. Við reynum að vera kurteis hvert við annað en tilgangur frv. virðist þegar grannt er skoðað sá að hafa áhrif á það hverjir hafi afl til að segja fréttir vegna þess að hinir fjölbreytilegu fjölmiðlar sem nú eru á markaðnum hafa sagt fréttir sem ekki öllum líkar.

Þarna erum við komin að allt öðrum hlutum en eignarhaldi á fjölmiðlum. Þarna erum við í fullri alvöru --- ég segi það af fullri alvöru úr ræðustól Alþingis --- að tala um að menn vilji setja lög á Íslandi sem séu til þess fallin að koma í veg fyrir að þeim sem hafa verið að segja fréttir á ákveðinn hátt á undanförnum vikum og mánuðum verði gert það kleift áfram. Þetta kallast skerðing á tjáningarfrelsi. Þetta kallast ritskoðun. Þetta eru orð sem ég hélt að maður þyrfti aldrei að taka sér í munn á Íslandi á árinu 2004. Maður veltir því fyrir sér hvort til séu þeir menn sem hafa þau völd og áhrif að þeir láti sér detta í hug að hafa áhrif á það með lagasetningu hver fái að segja hvað, hvenær og um hvern.

Váin sem er fyrir dyrum og ég talaði um áðan er þrátt fyrir allt nokkuð mikil. En hún er ekki sú sem þeir sem sömdu þetta frv. halda að hún sé. Hún er sú að þeir sem sömdu þetta frv. komist upp með að breyta lögum á Íslandi þannig að það verði ekki lengur sjálfsagt að hver sem vill geti sagt það sem honum býr í brjósti og borið ábyrgð á því sjálfur.

Ef farið er með rangt mál í fjölmiðlum, prentmiðli eða ljósvakamiðli, um ákveðna persónu eða lögaðila þannig að réttu máli sé hallað þá eiga allir sama rétt á að leita réttar síns, burt séð frá því hvort viðkomandi heitir Jón Gunnarsson eða hæstv. forsrh. Davíð Oddsson. Ef ekki er fjallað með eðlilegum hætti um tiltekinn aðila í fjölmiðlum gildir sami rétturinn fyrir alla. Það er hægt að hafa samband við viðkomandi fjölmiðil. Menn gera athugasemd við það sem fram kemur og óska eftir því að koma á framfæri leiðréttingu með jafnáberandi hætti og hin ranga frétt var fram sett. Gangi það ekki og nái það ekki þeim markmiðum sem að er stefnt er hægt að leita til siðanefndar blaðamanna og biðja þá um að leggja á það mat og úrskurða um hvort þar hafi verið of langt gengið.

Ef menn enn telja sig ekki ná fram rétti sínum hefur hver og einn rétt á að fara með slíkt mál fyrir dómstóla, höfða meiðyrðamál og fá ummælum hnekkt fyrir dómi. Þetta er sá réttur sem hingað til hefur verið tryggður í lögum. Það fyrirkomulag hefur verið talið nægja til að hver sá sem telur á sér brotið geti leitað réttar síns, burt séð frá því hvaða stöðu hann hefur og hvað hann hefur áður gert. Nefndin heldur áfram, með leyfi forseta:

,,Þegar vinna við greinargerðina hófst kom í ljós að viðfangsefni hennar er umfangsmikið og þær leiðir, sem til greina koma, varða mörg og ólík réttarsvið. Þá er viðfangsefnið um sum atriði flókið og krefst að nokkru sérþekkingar á einstökum sviðum lögfræði og viðskipta, auk þekkingar á ýmsum tæknilegum hliðum fjölmiðlunar, sem sækja verður úr ólíkum áttum. Er óhjákvæmilegt að greinargerðin beri þess nokkur merki að nefndinni hefur verið markaður fremur þröngur tímarammi. Nefndarmenn telja þó að í henni sé haldið til haga flestum þeim þáttum sem nauðsynlegt er að komi til skoðunar þegar pólitískar ákvarðanir eru teknar um framhaldið. Nefndin bendir jafnframt á að við frekari lagalega og tæknilega útfærslu einstakra hugmynda og tillagna, sem settar eru fram í lokakafla greinargerðarinnar, gæti þurft að skoða einstök atriði frekar en hér er gert og ekki er hægt að útiloka að við þá vinnu komi upp álitamál sem nefndin hefur ekki séð fyrir og ekki tekið sérstakt tillit til.``

Frú forseti. Í lok inngangs skýrslunnar kemur í ljós að nefndin taldi sig ekki einu sinni fá þann tíma sem hún þurfti til að fara í gegnum þetta viðamikla mál. Hún skilar skýrslunni og segir að vegna þess hversu tíminn hafi verið knappur þurfi að skoða suma hluti betur. Hún er í raun að vara okkur við því, þegar hún leggur fram þessa skýrslu, að vegna þess hve tíminn var knappur hafi ekki ekki gefist tóm til að fara mjög djúpt í hlutina. Hún er auðsjáanlega að tala um að áður en pólitískar ákvarðanir séu teknar þurfi að skoða hlutina betur.

Í skýrslu sinni, frú forseti, fer nefndin vítt og breitt yfir markaðinn og gerir það að mestu leyti vel þrátt fyrir knappan tíma. Hún dregur í raun fram stöðuna á markaðnum í lokakafla greinargerðar sinnar. Nefndin talar um að í hljóðvarpi séu rásir Ríkisútvarpsins með 52% af hlustun, Rás 1 og Rás 2 gnæfa yfir aðrar stöðvar með 48% hlustun. Af einkareknu stöðvunum hafa stöðvar í eigu Íslenska útvarpsfélagsins hf. 44% af markaðnum í heild.

Við höfum öll heyrt það á undanförnum dögum að ástæðan fyrir því að setja þurfi lög sem takmarki eignarhald á fjölmiðlum sé að það sé ekki nægileg fjölbreytni í fjölmiðlunum og að tryggja þurfi eðlilega og sanngjarna samkeppni. Ef við skoðum útvarpið og sjónvarpið kemur í ljós að ríkið hefur, bæði í útvarpi og sjónvarpi, stærsta hluta kökunnar. Síðan koma einkastöðvar sem eru að mestu leyti í eigu Íslenska útvarpsfélagsins, með 44% í útvarpi og 37% í sjónvarpi. Þar hefur ríkissjónvarpið 43% áhorf og Skjár 1 21%.

Það kemur í ljós, þegar farið er yfir markaðinn, að það er ekki yfirgnæfandi staða hjá þessu fyrirtæki, Norðurljósum, sem lögin virðast að mestu sniðin að, þ.e. að koma í veg fyrir að samsteypan Norðurljós geti haldið áfram að starfa með þeim hætti sem hún gerir í dag.

Á ljósvakamarkaðnum gnæfir ríkið yfir aðra. Hver er samkeppnisstaða þeirra sem taka þá ákvörðun að reka útvarp eða sjónvarp? Þeir sjá fram á að keppa við risa á markaðnum sem hefur skylduáskrift allra þeirra sem kaupa útvarpstæki eða sjónvarpstæki. Því fylgir að hver einasti verður áskrifandi að viðkomandi miðlum. Þessi risi á markaðnum fær fjármuni frá ríkinu á fjárlögum, fasta fjármuni. Takist risanum ekki að reka sig á föstum áskriftartekjum og auglýsingatekjum sem hann fær á hinum frjálsa markaði, þá eru í fjáraukalögum, ár eftir ár, settar fleiri hundruð milljónir til að rétta stofnunina við, þann halla sem á henni er. Þetta er samkeppnin sem hinar frjálsu útvarps- og sjónvarpsstöðvar mega búa við. Hvað hafa þær? Þær þurfa að sýna sig og sanna með dagskrárefni og því sem þær bjóða upp á til að fá fólk, sem þegar borgar áskrift að ríkismiðlunum, til að borga einnig fyrir áskrift af sínum miðlum. Þær keppa svo við Ríkisútvarpið og ríkissjónvarpið á auglýsingamarkaðnum.

[23:00]

Ég hefði í raun haldið, miðað við stöðuna, að það teldist nægileg hindrun fyrir aðila sem ætla sér í slíkan rekstur að horfa upp á þessa gerð markaðar, þar sem ríkisvaldið er stærsti einstaki rekstraraðilinn á markaðnum. Ríkisútvarpið getur nánast hagað rekstri sínum eins og það vill vegna þess að eigandinn, við skattgreiðendur bætum hallann þegar upp er staðið eftir árið, hvort sem hann er 200 millj. kr., 300 millj. kr. eða 400 millj. kr.

Ríkið gefur ekki út blað. Það er ekkert ríkisdagblað, sem betur fer. En það er fjölbreytni á dagblaðamarkaðnum. Morgunblaðið hefur þar mjög sterka stöðu og hefur lengi haft. Þrjú dagblöð koma út fimm sinnum í viku eða oftar. Morgunblaðið lesa, samkvæmt því sem stendur í skýrslu nefndarinnar, 56% landsmanna. Fréttablaðið lesa 69% landsmanna og Dagblaðið 17%. Á markaðnum eru þrjú dagblöð, tvö tiltölulega stór og eitt minna.

Ég hefði haldið að á dagblaðamarkaði væri fjölbreytni og samkeppni tryggð. Þar er ekki samþjöppun með einu dagblaði sem ræður nánast öllum markaðnum í krafti stærðar og afls og ber fréttir inn á gólf landsmanna á hverjum morgni, sem einhverjum líkar ekki. Svo er ekki. Á Íslandi eru gefin út þrjú dagblöð sem eru öll nokkuð öflug.

Hvað rekur okkur til að standa hér kvöld eftir kvöld og nótt eftir nótt og hamast við að leiða í lög --- við sem stöndum hér og tölum hömumst reyndar við að reyna að koma í veg fyrir að slíkt verði leitt í lög --- inn í nóttina og fram á næsta morgun, eitthvað til að verja fjölbreytni í fjölmiðlun? Hvað er það við eignarhald á fjölmiðlum sem telst válegt? Hvaða vá er fyrir dyrum þegar stærsti einstaki rekstraraðilinn á ljósvakamarkaði er ríkið og tvö tiltölulega jafnstór dagblöð og eitt minna eru á markaði? Lái mér hver sem vill fyrir að skilja þetta ekki.

Ástæðan fyrir því, frú forseti, að ég ver svo löngum tíma í að ræða það sem nefndin gerir er einfaldlega sú að í nál. meiri hlutans kemur fram að frv. sé sett fram vegna þess að skýrsla nefndar menntmrh. gefi tilefni til þess og setja þurfi lög eftir því sem hún leggur til. Mig langar, með leyfi forseta, að lesa örlítinn kafla úr nál. meiri hlutans. Ég ætla ekki að lesa mikið úr því enda er það engin skemmtilesning. Ég hef ekki mikinn áhuga á að lesa lengi úr nál. meiri hlutans eins og það liggur fyrir. En hér er örlítill kafli sem langar til að lesa, með leyfi forseta:

,,Markmið frumvarpsins er að sporna við því að samþjöppun eignarhalds á fjölmiðlum hamli gegn æskilegri fjölbreytni og fjölræði í fjölmiðlun og skapa þeim nauðsynlegt frelsi og sjálfstæði til að geta haft jákvæð áhrif og veitt stjórnvöldum og atvinnulífi heilbrigt aðhald í nútímalýðræðisríki.``

Ég hef lesið þessa setningu nokkrum sinnum. En ég hafði ekki gert mér grein fyrir því, fyrr en ég las hana upphátt, hve mögnuð hún er. Ég held að ég lesi hana aftur, með leyfi forseta:

,,Markmið frumvarpsins er að sporna við því að samþjöppun eignarhalds á fjölmiðlum hamli gegn æskilegri fjölbreytni og fjölræði ...`` --- Fjölræði. Ég verð væntanlega að fara í Orðabók Háskólans þegar ég lýk máli mínu og athuga hvers konar fjölræði við þurfum í fjölmiðlun. En áfram með setninguna, með leyfi forseta: ,,... æskilegri fjölbreytni og fjölræði í fjölmiðlun og skapa þeim nauðsynlegt frelsi`` --- markmiðið með þessum lögum er að skapa fjölmiðlum nauðsynlegt frelsi --- ,,og sjálfstæði`` --- sjálfstæðir þurfa þeir að vera --- ,,til að geta haft jákvæð áhrif ...`` --- Hafa fjölmiðlar á Íslandi haft svo mikil neikvæð áhrif að nú þurfi að setja lög um að þeir hafi jákvæð áhrif? Ég hafði ekki gert mér grein fyrir því hvað textinn í nefndarálitinu er gegnsær og skýr um tilgang og markmið frv. --- ,,... og veitt stjórnvöldum og atvinnulífi heilbrigt aðhald ...`` --- Væntanlega hafa þá fjölmiðlar hingað til veitt stjórnvöldum og atvinnulífi óheilbrigt aðhald, það liggur í orðanna hljóðan. Þannig að nú á að veita ,,heilbrigt aðhald í nútímalýðræðisríki.``

Þannig skal það vera í nútímalýðræðisríkinu Íslandi þar sem þingið ræður öllu eins og því ber og framkvæmdarvaldið leggur fyrir þingið mál og við förum yfir þau, gefum okkur þann tíma sem við þurfum og tökum síðan ákvörðun um það hvort þau verði leidd í lög. Þannig er nútímalýðræðisríkið Ísland ekki.

Áfram ætla ég að vitna í nefndarálitið. Þetta var stuttur kafli sem ég ætlaði að lesa. Ég hef ekki komist enn í gegnum hann vegna þess að ég fór eiginlega á flug þegar ég sá hvað stóð í þessari mögnuðu fyrstu setningu. En í álitinu segir, með leyfi forseta:

,,Fjölmiðlar gegna lykilhlutverki í þágu stjórnarskrárvarins skoðana- og tjáningarfrelsis í landinu.``

Þetta er alveg hárrétt og þarna hittir nefndin naglann á höfuðið. Fjölmiðlarnir gegna einmitt þessu lykilhlutverki og hafa gegnt því hlutverki æ betur með aukinni fjölbreytni. En nú á að setja lög sem stöðva það eða koma að einhverju leyti í veg fyrir það.

Áfram, með leyfi forseta:

,,Af því sprettur krafan um fjölbreytni í fjölmiðlun, þar á meðal eignarhaldi þeirra.`` --- Það þarf að vera fjölbreytni, bæði í fjölmiðluninni sjálfri, því efni sem boðið er upp á sem og í eignarhaldinu.

,,Í niðurstöðu skýrslu sem liggur frumvarpi þessu til grundvallar ...`` --- og þar kemur að því sem ég var að segja, af hverju ég er að vitna í þessa skýrslu aftur og aftur. Hér segir, með leyfi forseta:

,,Í niðurstöðu skýrslu sem liggur frumvarpi þessu til grundvallar kemur fram að veruleg samþjöppun hafi orðið á eignarhaldi fjölmiðla hér á landi og reyndar svo mikil að hún eigi sér fáar hliðstæður. Í frumvarpinu er á grundvelli þessarar niðurstöðu og með hliðsjón af tilmælum Evrópuráðsins um eflingu fjölmiðlafjölbreytni lagt til að leitast verði við að hafa æskileg áhrif á gerð og uppbyggingu fjölmiðlamarkaðarins með því að auka nokkuð við skilyrði fyrir því að geta fengið og haldið leyfi til að reka útvarp.``

Hæstv. forseti. Ég vildi að ég hefði haft lengri tíma í dag þegar las yfir nefndarálitið til að velta fyrir mér í fullri alvöru hvað þetta þýddi allt saman sem hér stendur. Hér er leitast við ,,að hafa æskileg áhrif á gerð og uppbyggingu fjölmiðlamarkaðarins ...`` --- Æskileg áhrif fyrir hvern? Æskileg áhrif fyrir okkur sem njótum fjölmiðlanna? Æskileg áhrif fyrir þá sem eiga fjölmiðlana eða æskileg áhrif fyrir þá sem ekki þola hluta fjölmiðlanna?

Þetta skal gert ,,með því að auka nokkuð við skilyrði fyrir því að fá leyfi``. Það á að rústa heilu fyrirtæki með yfir 700 starfsmönnum og það segir í nefndaráliti meiri hluta allshn. að það sé gert ,,með því að auka nokkuð við skilyrði fyrir því að geta fengið og haldið leyfi til að reka útvarp``.

Ja, sveiattan, frú forseti. Þetta er undarlegri lesning en mig óraði fyrir þegar ég las álitið hratt yfir í dag. Ég held að þetta sé einmitt það sem hvetja þarf fólk til að kynna sér og lesa, þ.e. það sem meiri hluti allshn. segir um tilgang frv. Þeir sem lesa nefndarálit meiri hlutans og skilja það sem þar stendur --- ja, það fer hrollur um bakið á manni þegar maður skynjar hvað liggur á bak við textann.

Nefndin sem bjó til skýrslu þá sem frv. byggir á sagði ekkert um að leggja þyrfti fram frv. eins og hér er. Hún sagði ekki að það þyrfti að einbeita sér að því að breyta eignarhaldinu á fjölmiðlunum. Hún sagði allt aðra hluti. Eigum við aðeins að velta fyrir okkur hvað sú nefnd sagði um markaðinn á Íslandi, þ.e. fjölmiðlamarkaðinn? Það er kafli í skýrslu nefndarinnar á bls. 83 sem heitir Kostir samþjöppunar. Við höfum öll orðið vitni að því í atvinnulífi landsmanna að það hefur orðið samþjöppun á eignarhaldi. Fyrirtæki hafa sameinast og stækkað til að verða öflugri svo þau geti mætt þeim kröfum sem gerðar eru í nútímarekstri. Það hefur einnig nýst til að mæta erlendri samkeppni í innflutningi og útflutningi. Hið sama er í raun að gerast á fjölmiðlamarkaðnum. Um þá hlið málsins segir nefnd hæstv. menntmrh. í skýrslu sinni, undir kaflaheitinu Kostir samþjöppunar, með leyfi forseta:

,,Við mat á þeim úrræðum, sem til greina kemur að mæla fyrir um til að hamla gegn óæskilegum áhrifum samþjöppunar á fjölmiðlamarkaði, er óhjákvæmilegt annað en að líta til smæðar íslenska markaðarins. Nefndin telur að forðast beri að reglur séu með þeim hætti að þær setji fyrirtækjum í fjölmiðlun ótilhlýðilegar skorður og raski rekstrargrundvelli þeirra.``

Nefndin telur að vegna þess hve smár íslenski markaðurinn er þurfi að líta á það sérstaklega og eigi að setja reglur þá verði menn að forðast að setja reglur með þeim hætti að það setji fyrirtækjunum ótilhlýðilegar skorður og raski rekstrargrundvelli þeirra sem nú starfa. Hv. þingmenn ættu að setja þetta á bak við eyrað og velta fyrir sér hvort lagafrv. sem hér liggur fyrir gæti þessara sjónarmiða, að setja ekki ótilhlýðilegar skorður eða raska rekstrargrundvelli fyrirtækja í fjölmiðlun.

Í sama kafla segir, með leyfi forseta:

,,Gæta verði þess að reglur verði ekki svo hamlandi að þær vinni í reynd gegn þeim hagsmunum sem þeim er ætlað að vernda með því að fyrirtækin verði svo lítil að þau fái ekki þrifist. Slíkar reglur eru til þess fallnar að vinna gegn því markmiði að almenningur eigi aðgang að fjölbreyttum fjölmiðlum sem vettvangi fyrir ólík viðhorf til pólitískra og menningarlegra málefna.

Tryggja verður íslenskum fyrirtækjum aðstæður þar sem þau fá þrifist og eflst. Frá viðskiptalegu sjónarmiði verður því heldur ekki neitað að því stærri og öflugri sem innlend fyrirtæki eru, því minni hætta er t.d. á yfirtöku eða uppkaupum erlendra aðila. Þá er það einnig forsenda þess að þau hafi burði til þess að standa undir innlendri dagskrárgerð. Þetta sjónarmið skiptir máli varðandi eflingu innlendrar menningar sem mótvægis gegn erlendri fjöldamenningu, sem nú þegar er mjög áberandi í íslenskum fjölmiðlum, einkum sjónvarpi.``

Þarna segir nefndin okkur að gæta þurfi þess að ganga ekki svo hart að þeim fyrirtækjum sem á markaðnum eru að þau veikist og verði smærri en nú er og þau þurfi að hafa afl og getu til að stunda innlenda dagskrárgerð í samkeppni við erlent sjónvarpsefni sem flæðir yfir.

[23:15]

Ekki get ég séð, frú forseti, að þess sjónarmiðs sem þarna kemur fram gæti nokkurs staðar í frv. sem hér liggur fyrir. Miðað við frv. ætla menn sér þvert á móti að gera þessi fyrirtæki smærri og veikari þannig að ekki þurfi að hafa af þeim áhyggjur, þ.e. ef einhver telur sig þurfa að hafa af þeim áhyggjur. Með þessu móti verða þau ekki það öflug að þau geti staðið fyrir innlendri dagskrárgerð sem keppt getur við erlent sjónvarpsefni.

Ýmislegt í skýrslu nefndar hæstv. menntmrh. er eins og talað úr mínu hjarta en er algjörlega á skjön við það sem fram kemur í frv. Þó er frv. lagt fram vegna sömu skýrslu og erfitt að gera sér í hugarlund, frú forseti, hvernig menn geta leyft sér að segja að umrædd skýrsla kalli á það frv. sem fyrir liggur. Ef maður les í gegnum skýrsluna er engan veginn hægt að skilja hana svo að hún kalli eftir lagasetningu á borð við þá sem lögð hefur verið fyrir okkur.

Eins og fram kom í upphafi máls míns vitum við öll að hæstv. forsrh. lagði frv. fram um leið og skýrslan var lögð fyrir ríkisstjórnina. Það frv. hefur enginn fengið að sjá vegna þess að það var þannig að formaður Framsfl., hæstv. utanrrh., lýsti því á þann hátt að það yrði að laga það til. Nú hefur frv. verið lagað til og samt höfum við þann óskapnað sem hér liggur fyrir. Það liggur við að mann langi að sjá hið upprunalega frv. og hvernig í ósköpunum það leit út. Getur verið að það hafi verið í anda Baggalúts, eins og einhverjum hefur dottið í hug? Maður getur vart ímyndað sér hvernig textinn í frv. sem fyrst var lagt fram hefur verið.

Frv. sem við fengum að sjá, eftir að búið var að draga úr upprunalegum kröfum um að setja hömlur á eignarhald, er á þskj. 1525. Allshn. hefur sett fram tillögur um breytingar á því frv. eftir að það var rætt í nefndinni. En eftir sem áður eru flestir þeir sem komu fyrir allshn. --- reyndar ekki þeir sem eru að keppa við fyrirtæki Norðurljósa --- sammála um að málið þurfi að skoða mun betur. Menn voru almennt sammála um að velta þyrfti fyrir sér hvort frv., eins og það lá fyrir, stæðist stjórnarskrá lýðveldisins og ýmsa alþjóðlega samninga.

Eins og ég fór yfir áðan hefur rekstrarumhverfi fjölmiðla á Íslandi mótast af sterkri stöðu Ríkisútvarpsins. Meðan Ríkisútvarpið hefur svo sterka stöðu á ljósvakamarkaðnum sé ég ekki að við þurfum að hafa miklar áhyggjur af því að hér verði lítil fjölbreytni. Fjölbreytnina mun þessi ríkisrekna stöð tryggja okkur.

Fyrir framan okkur höfum við frv. og brtt. sem allir stjórnarliðar sem ég veit um, utan einn, hafa tjáð sig um að þeir muni styðja. Því liggur fyrir, nánast kristaltært, að ef flokksagi ræður og þingmenn fylgja ekki sannfæringu sinni verði frv. að lögum með þeim breytingum sem búið er að leggja fram. Ég verð að segja, frú forseti, að ég vona í lengstu lög að einhverjir hv. þingmenn stjórnarliðsins sjái að sér, meðan umræðurnar fara fram. Það er ekki eins og stjórnarandstaðan standi ein í málþófi, eins og stjórnarliðar segja. Menn eru ekki að reyna að koma í veg fyrir að þingstörf geti haldið áfram með eðlilegum hætti. Ég held að allir lögfræðingar sem hafa tjáð sig um þetta frv., utan einn, séu á þeirri skoðun að gefa þurfi málinu lengri tíma. Flestir þeirra --- þrátt fyrir að þeir hafi ekki haft mjög mikinn tíma til að fara yfir það --- treysta sér þó til að gefa til kynna þá skoðun sína að miklar líkur séu á að frv. standist ekki stjórnarskrá og samninginn um Evrópska efnahagssvæðið.

Hvað sagði í nál. meiri hluta allshn. sem ég las áðan? Jú, að frv. væri fram komið vegna þess að í skýrslu menntmrh. kæmi fram að setja þyrfti slík lög og fram hefðu komið tilmæli um það frá Evrópuráðinu. Allt í einu er ríkisstjórnin farin að segja okkur að tilmæli frá Evrópuráðinu, sem hafa ekkert stjórnsýslulegt gildi í sjálfu sér og ekkert lagalegt gildi á Íslandi, hafi uppgötvast og þar af leiðandi þurfi að bregðast skjótt við.

Í skýrslu nefndar menntmrh. kemur fram að Evrópuráðið hafi samþykkt tilmæli til aðildarríkjanna um að þau hlutist til um að setja lög til að tryggja fjölbreytni í fjölmiðlun. Á íslenska ríkinu hvíla skyldur, eins og ég sagði áðan, samkvæmt þjóðarrétti, til að setja slíkar reglur þó að þessi tilmæli séu á engan hátt bindandi fyrir aðildarríki Evrópuráðsins. Þetta er svolítið undarlegt í ljósi þess, frú forseti, að það er ekki langt síðan við ræddum í sölum Alþingis um önnur slík tilmæli sem Evrópuráðið hafði sett fram varðandi fjármál stjórnmálaflokka. Við spurðum ríkisstjórnina að því hvernig stæði á því að hún ætlaði sér ekki að skoða tilmæli frá Evrópuráðinu um fjármál stjórnamálaflokka. Þá var okkur sagt að þær tilskipanir hefðu ekkert gildi hér og við þyrftum ekki að hafa af þeim neinar áhyggjur. En örfáum dögum síðar var farið að tala um sams konar tilmæli frá Evrópuráðinu varðandi fjölmiðla. Samkvæmt því sem fram kemur í áliti meiri hluta allshn. er það önnur meginstoðin undir frv. að við verðum að horfa til tilmæla Evrópuráðsins.

Nú er það svo að tilmæli Evrópuráðsins eru sett fram á ensku. Þegar ég fór í dag yfir málið þá sá ég að ef ég mundi reyna að snara þeim texta á íslensku mundi hann að einhverju leyti missa þá meiningu sem er í enska textanum. Ég ætla því að leyfa mér, með leyfi forseta, að lesa upp stuttan texta á ensku. Ég get síðan reynt að snara honum á íslensku ef þörf er talin á.

Við erum hér með tilmæli 1516/2001 frá Evrópuráðinu. Þau fjalla um fjármál stjórnmálaflokkanna.

Í þeim segir, með leyfi forseta:

,,A number of scandals linked to the financing of political parties in several Council of Europe member states in all parts of Europe over recent years has demonstrated that this issue must be addressed as a matter of urgency in order to prevent the loss of citizens´ interest in the political life of their respective countries.

In order to maintain and increase the confidence of citizens in their political systems, Council of Europe member states must adopt rules governing the financing of political parties and electoral campaigns.``

Hér eru sett fram tilmæli sem segja að þjóðirnar verði að setja reglur um þetta atriði til að koma í veg fyrir hneyksli sem orðið hafa í ýmsum löndum og koma í veg fyrir að þau endurtaki sig. Til þess að svo megi verða er hvatt til að íbúar megi sjá með gagnsæjum hætti yfirlit um fjármál stjórnmálaflokka. Þeir tala um þetta sem ,,matter of urgency``. Evrópuráðið telur áríðandi að þjóðirnar setji þessar reglur og þeir segja í textanum að þjóðir verði að setja slíkar reglur.

Hinir háu stjórnarherrar á Íslandi segja okkur að á þessu þurfi ekki taka mark, þetta hafi ekkert gildi og við þurfum ekkert að hlusta á þetta. Þá fer maður og skoðar hvað fram hefur komið hjá Evrópuráðinu varðandi fjölmiðlana. Nú er okkur sagt að það sé önnur meginstoðin sem þetta frv. hvílir á, þ.e. tilmæli frá Evrópuráðinu.

Þar segir einnig á ensku, með leyfi forseta, í tilmælum Evrópuráðsins:

,,examine the measures contained in the appendix to this recommendation and consider the inclusion of these in their domestic law or practice where appropriate, with a view to promoting media pluralism ...

evaluate on a regular basis the effectiveness of their existing measures to promote pluralism and/or anti-concentration mechanisms and examine the possible need to revise them in the light of economic and technological developments in the media field.``

Þetta eru tilmælin sem ríkisstjórnin byggir frv. á. Takið eftir því að orðalagið er allt annað en í þeim tilmælum sem ég las á undan. Hér er talað um að aðildarríki skuli íhuga --- ,,consider`` og ,,examine the possibility`` --- og skoða möguleikann á hvort þau eigi að skoða sérstaklega einhver atriði --- ,,pay particular attention to`` og ,,may consider``. Þannig er orðalagið, að þau mættu hafa þessi atriði í huga. En í þeim tilmælum sem ég las upp um fjármál flokkanna var sagt ,,þau verða`` --- ,,they must``. Menn sjá því að það er ekkert í tilmælum Evrópuráðsins sem kallar á framlagningu þessa frv.

Í greinargerð með frv. sem hér um ræðir er fjallað almennt um fjölmiðla. Hæstv. forsrh. Davíð Oddsson mælti fyrir því en þar segir, með leyfi forseta:

,,Fjölmiðlar gegna lykilhlutverki sem vettvangur ólíkra viðhorfa til stjórnmála, menningar og samfélagslegra málefna í víðum skilningi. Þeir eru því mikilvæg forsenda þess að einstaklingar fái notið tjáningar- og skoðanafrelsis. Af þessu mikilvæga hlutverki fjölmiðla sprettur sú krafa í lýðræðisþjóðfélagi að almenningur hafi aðgang að fjölbreyttum, sjálfstæðum og öflugum fjölmiðlum.``

Maður velti fyrir sér þegar frv. kom fram hver hefði samið það. Í raun hefur ekki komið fram hver samdi frv. Ég sé hins vegar nú, þegar ég les úr athugasemdum með frv., textabrot úr skýrslu nefndar hæstv. menntmrh. Það hefur verið sett í greinargerð með frv. án þess að þess að getið sé um að það sé tilvitnun og um það settar gæsalappir.

[23:30]

Ég tek einnig eftir að textabrotinu úr skýrslunni hefur lítillega verið breytt. Textinn er nánast eins og hann er í skýrslu nefndarinnar en hefur verið breytt að litlu leyti. Í skýrslu nefndarinnar segir, með leyfi forseta:

,,Fjölmiðlar gegna lykilhlutverki sem vettvangur ólíkra viðhorfa til stjórnmála, menningar og samfélagslegra málefna í víðum skilningi, eins og nánar er rakið hér á eftir.``

Í greinargerðinni endar setningin hins vegar á ,,í víðum skilningi`` en ekki ,,eins og nánar er rakið hér á eftir``.

Svo kemur: ,,Fjölmiðlar eru því mikilvæg forsenda ...`` en í greinargerðinni stendur: ,,Þeir eru því mikilvæg forsenda þess að einstaklingar fái notið tjáningar- og skoðanafrelsis.`` --- Þetta er eins í báðum textum. --- ,,Af þessu mikilvæga hlutverki fjölmiðla sprettur sú krafa í lýðræðisþjóðfélagi að almenningur hafi aðgang að ...`` --- í skýrslutextanum er talað um almenningur hafi aðgang að: ,,fjölbreyttum og öflugum fjölmiðlum`` en í athugasemdum með frv. stendur: ,,fjölbreyttum, sjálfstæðum og öflugum fjölmiðlum``.

Getur verið að hin landsfræga kímnigáfa hæstv. forsrh. Davíðs Oddssonar komi fram í að bæta þessu orði ,,sjálfstæður`` inn í athugasemdir með frv.? Eða læðist að mönnum sá grunur að hér sé beitt sömu aðferð og fræg varð í jólabókaflóðinu, þar sem höfundur einnar bókar hafði tekið mikinn texta og sett inn í bókina án þess að setja um hann gæsalappir og breytti honum lítillega? Vinnubrögðin virðast a.m.k. nákvæmlega hin sömu miðað við notkunina á þessum textabrotum úr skýrslu nefndarinnar. Þau eru sett inn í athugasemdir með frv. og þar með gæti farið að skýrast hverjir hafi að einhverju leyti komið að samningu þessa frv.

Ég ætla að geyma mér til seinni ræðu minnar að fara yfir ummæli hæstvirtra ráðherra varðandi framlagningu þessa frv. og tilganginn með því. Satt best að segja veit ég ekki hve mikinn tíma hv. þingmenn hafa getað gefið sér í að fara yfir ummæli þeirra frá því að frv. var lagt fram. Það er aldeilis kostulegt að hlusta á eða lesa það sem hæstv. ráðherrar hafa látið frá sér fara frá því að frv. leit dagsins ljós um ástæðurnar fyrir framlagningu þess. Það væri hægt að gefa út bók undir nafninu ,,Íslenskt stjórnmálaskop`` um það sem ráðherrar hafa sagt í því sambandi. Þar talar hver í sína áttina og oft á tíðum hver gegn öðrum. Líkt og gerðist þegar ég las áðan upp texta sem ég hafði ekki áður lesið upphátt þá fer léttur hrollur um bakið á manni þegar maður sér hvað þeir láta frá sér fara á prenti og almennt í fjölmiðlum.

Eftir stendur að hér hefur verið lagt fram frv. sem á í meginatriðum að breyta fjölmiðlamarkaði á Íslandi. Það á að gera með því að öll fyrirtæki sem á markaðnum starfa geti gert það áfram utan eitt. Það er sama hvað menn segja um göfugan tilgang frv. Ef maður gefur sér góðan tíma og fer nákvæmlega í gegnum hvernig frv. er stillt upp og hvaða áhrif það mundi hafa á fjölmiðlamarkaðinn þá stendur eftir ein æpandi niðurstaða. Hún er sú að þessu frv. er beint að einu fyrirtæki. Þetta er sértækt frv. nema höfundarnir hafi verið svona einstaklega óheppnir að það sem þeim datt í hug að setja í frv. raðist svo ólíklega saman að eftir standi að aðeins eitt fyrirtæki finni fyrir breytingunum. Vonandi, frú forseti, gerðist það þannig, ólíklegri hlutir hafa gerst af hreinni tilviljun. En ef svo er væri rétt að biðja höfunda frv. og þá sem lögðu það fram að lesa það yfir, lesa það upphátt eins og ég gerði áðan og velta fyrir sér hvort þeir ætli sér að láta það virka eins og útlit er fyrir að það geri.

Það er búið að fara yfir frv. í allshn. Það var rifið úr nefndinni án þess að umræðu um það væri lokið. Eins og ég sagði áðan lágu fyrir umsagnir frá fjölmörgum aðilum sem flestar hnigu í eina átt. Þær hnigu í þá átt að --- lögmenn fullyrða sjaldnast um hlutina og sérstaklega ekki þegar þeir hafa skamman tíma --- ætla mætti að frv. stæðist ekki jafnræðisreglu stjórnarskrár, ekki ákvæði um vernd eignarréttar, tjáningarfrelsisákvæði stjórnarskrárinnar og stæðist ekki atvinnufrelsi sem kveðið er á um í stjórnarskránni.

Flestir voru sammála um að frv. stæðist trúfrelsið, það væri nánast skothelt að það stæðist trúfrelsið. Frv. var hins vegar talið snerta allt annað frelsi sem okkur er tryggt í stjórnarskrá lýðveldisins. Það eru miklar líkur á því að frv. brjóti gegn öllum þeim ákvæðum sem tryggja okkur frelsi. Lái mér hver sem vill þó að ég spyrji bæði sjálfan mig og aðra úr ræðustól á Alþingi: Getur það verið að sá flokkur á Íslandi sem helst hefur kennt sig við frelsi, frelsi einstaklingsins, styðji frv., tiltölulega stutt og hnitmiðað, sem flestallir löglærðir menn, sem yfir fara og ekki hafa sérsniðin flokksgleraugu, segja okkur að brjóti að öllum líkindum gegn flestöllum ákvæðum stjórnarskrárinnar sem varða frelsið.

Til viðbótar þessu má ætla að frv. hitti fyrir fyrirtæki með fleiri hundruð starfsmenn, fleiri þúsund einstaklinga, ef við teljum saman maka og börn, sem reiða sig á að viðkomandi fyrirtæki geti starfað áfram. Maður verður í raun hálfgalinn af því að velta fyrir sér hvernig það gat gerst að setja á lög sem flestir telja að geti orðið til að þetta fyrirtæki geti ekki starfað áfram. Hvers vegna leggja menn á sig að starfa fram á sumar við að keyra slíkt mál í gegn? Ég spyr sérstaklega hv. stjórnarliða þótt þeir séu nú kannski ekki mikið í salnum. Menn á mínum aldri hafa aftur og aftur orðið vitni að því að íslenska ríkið hafi farið í sértækar aðgerðir um allt land til þess að búa til störf og bjarga störfum. Ég minni á flokkinn sem dregur alltaf á eftir sér störf, Framsfl. --- þeir roguðust einu sinni með 12 þús. störf. En þeir menn leggja hins vegar lykkju á leið sína til þess að setja lög sem hugsanlega gætu orðið til þess að um 700 starfsmenn eða einhver hluti þeirra missti vinnuna.

Þetta gerist á sama tíma er talað um mikilvægi þess að byggja virkjun og álver á Austfjörðum þar sem til framtíðar verða kannski 600 störf. Við leggjum í verulega áhættu í virkjunarframkvæmdum og leggjum mikla fjármuni fram til að þar rísi stóriðja, sem ég vil taka fram að ég er algjörlega sammála. Við sjáum ástæðu til að leggja milljarða í vegi, borum göt í fjöll og förum í hafnarframkvæmdir til að búa til störfin fyrir austan. Ég sé ekki eftir þeim peningum. Við leggjum það sérstaklega á okkur að búa til störf og öllum stjórnmálaflokkum og öllum þeim sem ég hef heyrt í hér á Alþingi finnst sjálfsagt að við leggjum svolítið á okkur til að búa til störf en svo standa menn hér og ætla að rífa niður fyrirtæki og setja 700 störf í hættu, fyrirtæki sem mengar ekki nokkurn skapaðan hlut. (Gripið fram í: Nema hugi fólksins.) Er það kannski það sem er að gerast að þetta fyrirtæki mengi of mikið út frá sér hugi fólksins eða verði til þess að upp spretti svart óveðursský yfir höfðum einhverra sem ekki líður vel við að lesa það sem í blöðunum stendur eða horfa á það sem kemur frá sjónvarpsstöðvum?

Ég hef talað lengi, frú forseti, í þessari umræðu. Eins og ég sagði í upphafi máls míns er þetta í fyrsta skipti sem ég tek þátt í umræðunni um þetta mál. Það verður bara að hafa það ef einhver vill kalla það málþóf að ég hafi staðið hér og talað um efnisatriði frv. í klukkutíma. Ef það er málþóf þá verður bara svo að vera. Ég bið bara hæstv. forseta Halldór Blöndal að tilkynna það í næsta fjölmiðlaviðtali að hér hafi staðið maður í klukkutíma og fjórtán mínútur og talað um málið og býsnast yfir því.

Eitt af því sem við, sem höfum verið að skoða málið á Alþingi, höfum fengið í hendur er greinargerð sem samin var fyrir hið ógurlega fyrirtæki Norðurljós. Auðvitað les maður allt sem fram kemur í svona máli, þar sem hagsmunir eru miklir, út frá því að menn séu að verja hagsmuni sína. En hér er lögð fram álitsgerð sem fimm lögmenn standa að. Ég held, frú forseti, að ég eyði kannski örlitlum tíma í að segja frá hverjir það eru: Gestur Jónsson hæstaréttarlögmaður, Gísli Guðni Hall héraðsdómslögmaður, Gunnar Jónsson hæstaréttarlögmaður, Margrét Einarsdóttir héraðsdómslögmaður og Ragnar Halldór Hall hæstaréttarlögmaður. Þetta er álitsgerð sem þessir lögmenn setja frá sér og hún ber titilinn ,,Nokkur álitaefni varðandi frumvarp til laga um breytingu á útvarpslögum, nr. 53/2000, og samkeppnislögum, nr. 8/1993``

Til að halda því til haga skulum við á engan hátt horfa fram hjá því að þetta er tekið saman að beiðni Norðurljósa og fyrir Norðurljós, en af öllum þessum lögmönnum sem ég vona nú að flestir trúi að séu óvilhallir. Undir lok álitsgerðarinnar eru settar fram niðurstöður og lokaorð, eftir að þeir eru búnir að fara gegnum málið nánast frá A til Ö. Ég ætla ekki að lesa þessa greinargerð, hún er allt of viðamikil til þess en þeir benda okkur, sem hér munum taka ákvörðun, á það hvernig málið brýtur í bága við mörg ákvæði stjórnarskrár o.s.frv. Þeir segja að í lok álitsins, með leyfi forseta:

,,Hér að framan hefur verið komist að eftirtöldum niðurstöðum:

1. Verulega skortir á að undirbúningur fyrirhugaðrar lagasetningar geti talist fullnægjandi og nauðsynlegar athuganir hafa ekki verið gerðar á fjölmörgum þáttum til þess að skynsamleg og upplýst umræða gæti átt sér stað um hana. Greinargerð nefndar menntamálaráðherra er innlegg í þá umræðu, en því fer fjarri að hún taki til allra nauðsynlegra þátta slíkrar umræðu.``

Lögmennirnir telja sem sagt skorta verulega á að málið sé þroskað þannig að hægt sé að taka það til eðlilegrar umfjöllunar. Síðan segir:

,,2. Efni frumvarpsins er sértækt, þ.e. lagasetningin lýtur aðeins að starfsemi eins fyrirtækis þótt orðalag frumvarpsins sé almennt.

3. Reglur frumvarpsins ganga miklu lengra en annars staðar þekkist og fela í sér mun harðari tök opinberra aðila á viðkomandi markaði en nauðsynlegt getur talist til að ná þeim markmiðum með lagasetningunni sem lýst er í greinargerð með frumvarpinu.

4. Efni frumvarpsins er andstætt meðalhófsreglu stjórnarskrárinnar um að ekki skuli með almennri lagasetningu gengið lengra í skerðingu stjórnarskrárvarinna réttinda en hægt sé að komast af með til að ná lögmætu markmiði.

5. Efni frumvarpsins brýtur gegn jafnræðisreglu 65. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. einnig 26. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi.

6. Efni frumvarpsins felur í sér afturvirka skerðingu á eignarréttindum sem brýtur gegn 72. gr. stjórnarskrárinnar um friðhelgi eignarréttar.

7. Efni frumvarpsins brýtur gegn ákvæðum 73. gr. stjórnarskrárinnar um tjáningarfrelsi og vernd þess, sbr. einnig 10. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu.

8. Efni frumvarpsins er ósamþýðanlegt samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, sbr. lög nr. 2/1993.``

Í fjölmiðlum hafa stjórnarliðar haldið því fram að lítils háttar athugasemdir hafi verið settar fram við efni frv. Ég ætla, frú forseti, ekki að hafa þessa ræðu mína lengri í þetta skiptið þótt af nógu sé að taka. Ég lýk máli mínu kannski sérstaklega til að hleypa öðrum þingmönnum að þannig að hægt sé að skiptast á skoðunum um þetta viðamikla frv. Í forheimsku minni, sem nýr þingmaður, hélt ég að það væri gert í sölum Alþingis, að við skiptumst á skoðunum um frumvörp sem lögð væru fram og reyndum að rökræða af einhverju viti hvort þau gangi nægjanlega langt, eða of skammt eða mátulega í átt að markmiðum þeirra. Ég taldi að ef hægt væri að sýna fram á það með tiltölulega skynsamlegum rökum að einhver atriði í bæri að skoða þá mundi gefast tóm til að a.m.k. ræða það við flutningsmenn málanna. (GAK: Það er allt á misskilningi byggt.) Í þessu tilfelli væri best að ræða málið við þá sem bjuggu til frv., til að reyna að komast að því hvaða hugsun er á bak við hverja grein.

Okkur stendur hins vegar ekkert slíkt til boða, frú forseti. Það sem okkur stendur til boða er að standa í ræðustól Alþingis klukkan að verða tólf á fimmtudagskvöldi, með tvær hv. þingkonur sitjandi í salnum og einn hv. þm. standandi við dyr í hliðarsal. Ég vil ekki vera vanþakklátur í garð þeirra þingmanna sem gefa sér tíma til að hlýða á ræðu mína en vek hins vegar athygli á nánast tilgangsleysi þess að standa hér.