Útvarpslög og samkeppnislög

Fimmtudaginn 13. maí 2004, kl. 23:47:08 (8144)

2004-05-13 23:47:08# 130. lþ. 114.1 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, KolH
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur, 130. lþ.

[23:47]

Kolbrún Halldórsdóttir:

Frú forseti. Ég kem nú í síðara sinnið í ræðustól í 2. umr. um breytingar á útvarpslögum og samkeppnislögum. Það er auðvitað orðið heyrinkunnugt og þjóð og landslýð ljóst að þingmönnum liggur afar mikið á hjarta í því máli sem eðlilegt er. Hefur verið tekist á um atriði er lúta að meðferð málsins í eina þrjá daga í þingsalnum og enn eru ekki útkljáð öll álitamál varðandi málsmeðferðina þar sem málið er formlega enn þá hjá efh.- og viðskn. og áliti menntmn. hefur ekki enn verið dreift í þingsölum, hvorki meirihlutaáliti né minnihlutaáliti, enda eðlilegt að málið verði kallað aftur inn í allshn. til þess að nefndin geti gefið framhaldsálit sem tryggði það að álit menntmn. kæmi á formlegum þingskjölum inn í þingsali.

Sú sem hér stendur tók þátt í umfjölluninni um málið bæði í allshn. og í menntmn. Hv. þm. Mörður Árnason gerði á ákaflega greinargóðan hátt grein fyrir því í ræðu sinni hvernig málin gengu fyrir sig í menntmn. og óþarfi fyrir mig að endurtaka það hér. Vil ég einungis ítreka að nefndin hafði efnivið í miklu meiri umfjöllun en tími eða ráðrúm gafst til. Nefndin kaus að fjalla um beiðni allshn. á þeim nótum að tala fyrst og fremst um hinn menningarlega þátt fjölmiðlunar á Íslandi og fjölbreytni út frá þeim sjónarmiðum og þeim málum sem heyra málefnalega undir menntmn. þannig að af nógu var að taka í þeim efnum, en eins og ég sagði gafst ekki tími til þess að ræða það mál til hlítar. Þar er því efniviður eftir í frekari umfjöllun sem ég geri ekki ráð fyrir að eigi eftir að fara fram miðað við hvernig málinu vindur fram.

Virðulegi forseti. Það eru þrjú atriði sem mér eru ofarlega í huga eftir alla þá löngu umræðu sem ég hef reynt að fylgjast með eftir megni. Mér finnst vera deginum ljósara að með frv. séu ekki bara áhöld um að markmiðin náist, verði það að lögum, heldur finnst mér það beinlínis liggja í augum uppi hvað varðar markmið frv., sem sögð eru vera fjölbreytni í fjölmiðlun, að það er ekkert sem bendir til þess að frv. nái því markmiði. Fjöldi þingmanna er búinn að rekja málið og rökstyðja það að sennilega snúist afleiðingar frv., verði það að lögum, upp í andhverfu sína og það ali fremur á einhæfni en fjölbreytni.

Annað sem mér er ofarlega í huga er að það er jafnframt deginum ljósara að ekki er farið eftir meðalhófsreglu í þessu máli. Hér eru ekki farnar þær leiðir sem meðalhófsreglan krefst að farnar séu þegar lög eru sett því að gengið er mun lengra til að ná ákveðnum markmiðum en þörf er á og það hafa menn líka rökstutt hér og leitað í rökstuðning skýrslu fjölmiðlanefndar menntmrh. máli sínu til stuðnings.

Í þriðja lagi er mér ofarlega í huga skortur á svigrúmi til að umræðan fái að þroskast og dafna. Mér finnst það, ég segi kannski ekki það alvarlegasta en það er a.m.k. afskaplega alvarlegt þegar stjórnvöld, ríkisstjórn Íslands fer þannig fram í slíku máli að ekki er gefið svigrúm fyrir umræðuna til þess að hún geti orðið skapandi.

Ég hef ævinlega sagt að ég sé hlynnt því og ég vilji taka fjölmiðlun á Íslandi til skoðunar og það eigi að taka fjölmiðlun á Íslandi til skoðunar á Alþingi. Ég hef líka haldið því fram frá 1986, þegar frelsið hélt innreið sína á ljósvakann eins og menn hafa gjarnan kallað það, að skoða þyrfti möguleikann á því hvort við ættum ekki að setja reglur um þann fjölmiðlamarkað. Og ég hef saknað þess að löggjafarsamkundan hafi ekki tekið á slíkum málum af einhverri alvöru og festu.

Satt að segja verður maður fyrir miklum vonbrigðum þegar fara á að skoða fjölmiðlamarkaðinn og velta upp möguleikum á reglusetningu og því hvernig best væri, svo ég sletti nú, að ,,regúlera`` markaðinn að þá skuli það gert með því offorsi og óðagoti sem við höfum upplifað síðustu daga.

Hverjar eru aðstæður okkar í fjölmiðlaheiminum í dag? Þar er varhugaverð staða uppi. Það er samþjöppun á fjölmiðlamarkaði. Það er viðurkennt hjá Evrópuráðinu og í skýrslu fjölmiðlanefndar menntmrh. og í þeirri umræðu sem hér hefur farið fram og í fjölmiðlum síðustu daga að staðan er varhugaverð. Ákveðnar vísbendingar eru um að það þurfi að taka virkilega í taumana og skapa hér einhvern jarðveg sem mótar markaðinn.

Mér verður hugsað til finnsku framtíðarnefndarinnar. Framtíðarnefnd finnska þingsins hefur það að sínum aðalstarfa að skapa framtíðina sem stjórnvöld vilja sjá. Það gerir hún með því að rýna í stöðu mála og efla skapandi umræðu um framtíðarmál, þ.e. hún býr til jarðveg fyrir umræðu. Við höfum því miður ekki orðið þeirrar gæfu aðnjótandi í þessu máli að ríkisstjórnin tæki finnsku framtíðarnefndina sér til fyrirmyndar því að í þeim fjölmiðlaheimi sem við höfum nú fyrir augunum, og ég segi að þar ríki varhugaverð staða, hefði ég auðvitað viljað sjá að menn opnuðu augu sín fyrir því að það er fullt af fólki úti á akrinum sem er tilbúið til að takast á við málið, innan fjölmiðlanna, meðal fræðimanna, innan háskólanna, á Alþingi og meðal stjórnmálamanna almennt. En mikilvægi þess að fást við ástandið og láta gott af sér leiða þar hefur orðið að lúta í lægra haldi fyrir óbilgirni, óðagoti og ósanngirni fyrst og fremst eins manns, hæstv. forsrh. Davíðs Oddssonar. Satt að segja verður að viðurkenna að hæstv. forsrh. hefur verið afskaplega seinheppinn við alla framlagningu málsins. Honum hefur farist það einkar óhönduglega, alveg sama hvernig á það er litið. Ímyndum okkur bara hverju hefði mátt koma til leiðar ef öðrum aðferðum hefði verið beitt, ef við hefðum átt hér samtal í stað valdboðs, en það er það sem hér hefur gerst. Sérstaklega verður maður þess áskynja hvað varðar stjórnarliða í þingsalnum að þeir þurfi að beygja sig undir valdboð forsrh. Þeir þora ekki einu sinni að eiga samtal við okkur stjórnarandstæðingana í þingsalnum.

Ég held að ég sé ekki að fara með fleipur þegar ég segi að fyrir utan stjórnarliðann hv. þm. Bjarna Benediktsson, formann allshn., hafi einungis tveir þingmenn úr stjórnarflokkunum haldið ræður í þeirri umræðu sem nú hefur staðið í þrjá daga. Mér finnst það miður og mér finnst það alvarlegt þegar offors, óðagot og óbilgirni og ósanngirni verður þess valdandi að stjórnmálamenn og kjörnir fulltrúar þjóðarinnar sem hér sitja skuli ekki fá ráðrúm eða tækifæri til að eiga samtal sín í milli. Satt að segja hafa hæstv. ráðherrar svarið sig í ætt þessarar hegðunar og þessa háttalags hæstv. forsrh.

Ég hef saknað viðveru hæstv. samgrh. í umræðunni. Hvern hefði ekki langað til að eiga samtal við hann um stöðuna á, hvað eigum við að segja, á tíðnimarkaðnum, rása\-markaðnum? Stór hluti þessara mála heyrir undir hæstv. samgrh. Og hvers vegna hefur hæstv. viðskrh. ekki látið svo lítið sem sjást hér í salnum þegar ljóst er að eitt af stærstu fyrirtækjum þjóðarinnar verður að öllum líkindum, sem afleiðing af þessari lagasetningu, limað í sundur og mun þar með koma til með að falla á skuldara sem standa að því fyrirtæki lán sem nema á sjötta milljarð króna? Hefur hæstv. viðskrh. engar áhyggjur af málinu? Hefur hún enga löngun til þess að fylgjast með því í þingsölum hvernig umræðunni vindur fram? Það er satt að segja þyngra en tárum taki að hæstv. ráðherrar skuli ekki leyfa sér að fara sínar eigin leiðir í þessum efnum, að þeir skuli apa eftir hegðun hæstv. forsrh. og sýna það tómlæti sem þeir hafa sýnt með fjarveru sinni. Sama má auðvitað segja um hæstv. menntmrh. sem hefði undir öllum eðlilegum kringumstæðum átt að leggja frv. fram. En hér fer ekki fram samtal, hér hefur átt sér stað valdboð og við, hv. þingmenn stjórnarandstöðunnar, sem erum að reyna að efna til málefnalegrar umræðu í salnum tölum fyrir daufum eyrum stjórnarliða.

Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon hefur farið um það nokkrum orðum við hvað eigi helst að líkja þessu. Hann líkti frv. helst við hrossalækningu og hafði Orðabók Menningarsjóðs sér til fulltingis í ræðustól, og háttalag ríkisstjórnarinnar og hæstv. forsrh. flokkar hann undir valdníðslu. Ég held að áður en yfir lýkur verði það þau tvö orð sem verða höfð um þetta. Þegar sagan verður skráð verða það orðin sem höfð verða yfir þennan gjörning, að frv. sé í hæsta lagi hrossalækning og framganga hæstv. forsrh. í málinu hafi einkennst af valdníðslu.

Ég talaði um það áðan að ekki voru settar neinar reglur þegar ljósvakinn var gefinn frjáls á sínum tíma. Ég hef líka skoðað aðeins hvernig útvarpsréttarnefnd hefur sinnt störfum sínum og hvernig hún hefur farið eftir þeim lögum sem um hana hafa gilt, þ.e. útvarpslögin, þau lög sem við erum að breyta. Ég verð að viðurkenna að mér hefur þótt skorta á að þeim lögum hafi verið beitt sem skyldi af útvarpsréttarnefndinni. Mér hefur fundist nefndin nokkuð frjálsleg í sambandi við leyfin, fólk sem sótt hefur um leyfi hefur bara fengið þau leyfi sem beðið hefur verið um. Ég hef haft á tilfinningunni að sáralítið ef nokkurt eftirlit hafi verið haft af hálfu nefndarinnar með markaðnum og ég er sannfærð um að skilyrðin sem nefndin hefur sett fyrir leyfisveitingum sínum hafa ekki farið eftir neinu öðru en því sem lagaramminn sjálfur setur. Það hefur a.m.k. ekki sýnt sig í framkvæmdinni að útvarpsréttarnefnd hafi sett sér nokkrar aðrar reglur.

[24:00]

Mér finnst sú hegðun útvarpsréttarnefndar að miklu leyti vera ástæða þess ástands sem við í sjálfu sér búum við í dag, í öllu falli liður eða þáttur í því. Mér finnst skipta verulegu máli að við skoðum það mál núna í samhengi við það sem lagt er hér fram af meiri hluta allshn., sem leggur nú til að greininni um útvarpsréttarnefndina í útvarpslögunum verði breytt þannig að ekki verði lengur skipuð sjö manna nefnd, eins og verið hefur hingað til, sem kjörin hefur verið með hlutfallskosningu á Alþingi til fjögurra ára, heldur er gert ráð fyrir í brtt. meiri hluta allshn. að menntmrh. skipi nú þrjá menn í útvarpsréttarnefnd til fjögurra ára og jafnmarga til vara. Gert ráð fyrir að tveir skuli skipaðir samkvæmt tilnefningu Hæstaréttar en einn skipar ráðherra án tilnefningar og gert er ráð fyrir að hann verði jafnframt formaður nefndarinnar. Varamenn skulu svo skipaðir á sama hátt og skal varamaður formanns jafnframt vera varaformaður nefndarinnar. Nefndarmenn og varamenn þeirra skuli uppfylla starfsgengisskilyrði héraðsdómara og nefndinni er heimilt að kalla sér til ráðgjafar og aðstoðar sérfróða aðila eftir því sem hún telur þörf á.

Á þennan hátt hljóðar brtt. meiri hluta allshn. við 1. gr. frv. að því er lýtur að útvarpsréttarnefnd.

Ég álít að ákveðin málefnaleg rök séu fyrir því að setja útvarpsréttarnefnd saman á einhvern þann hátt sem hér er bryddað upp á en finnst þó vera ákveðnar hættur til staðar. Ég fer að hugsa til þeirrar valdstjórnar sem við búum við. Valdstjórnin sem hér ræður ríkjum hefur upp á síðkastið þurft að sæta gagnrýni fyrir hegðun sína gagnvart Hæstarétti og núna þessa dagana og undanfarnar vikur hafa staðið yfir miklar deilur út af ráðningu hæstaréttardómara.

Þegar maður skoðar það að útvarpsréttarnefnd skuli samkvæmt brtt. meiri hluta allshn. einungis eiga að vera skipuð þremur einstaklingum og þar af eigi ráðherra að skipa einn og tveir eigi að vera samkvæmt tilnefningu Hæstaréttar þá hringja einhverjar bjöllur. Valdstjórnin, sem búin er að reyna að hafa áhrif á Hæstarétt með gjörðum sínum og hefur þurft að sæta gagnrýni fyrir slíkt, ætlar sér að setja þessa sömu hæstaréttardómara, skyldi maður ætla, í útvarpsréttarnefndina. Þá spyr maður sig: Er ekki hættumerki hér á ferðinni með þá valdstjórn sem við búum við hvað hana varðar? Hún hefur sætt gagnrýni fyrir að vera að seilast til of mikilla áhrifa innan Ríkisútvarpsins, hún hafi tilhneigingu til þess að gera Ríkisútvarpið að ríkisstjórnarútvarpi. Hún hefur verið sökuð um að beita áhrifum sínum í Hæstarétti og nú á útvarpsréttarnefnd að vera skipuð tveimur hæstaréttardómurum ásamt einum fulltrúa sem ráðherrann skipar. Er ekki hættumerki hér til staðar sem vert væri að hafa í huga og skoða nánar? Mitt svar við því er auðvitað jú. En slíkt gerist þegar hlutirnir eru gerðir of hratt og menn hafa ekki ráðrúm til þess að skiptast á skoðunum um hlutina.

Þetta atriði hefur ekki fengið nægilega mikla umfjöllun í þingsölum, leyfi ég mér að fullyrða, til þess að það sé orðið tímabært að skutla því í lög sisona.

Það er afar mikilvægt þegar svo róttækar breytingar eru gerðar á lögum sem varða fjölmiðlamarkaðinn, markaðinn sem fjórða valdið starfar á, að við fáum tækifæri, svigrúm og ráðrúm til þess að skiptast á skoðunum um hlutina og velta upp öllum mögulegum flötum málsins.

Herra forseti. Ég hef leyft mér að tala um valdstjórn í þessu sambandi alveg á sama hátt og Hreinn Loftsson, stjórnarformaður Baugs og fyrrum samstarfsmaður hæstv. forsrh., hefur leyft sér að tala um ógnarstjórn í þessu sambandi, þ.e. hvernig ríkisstjórnin fer fram á sinn valdagíruga hátt, og ég held að ég geti verið nokkuð samdóma stjórnarformanninum í mínum dómum hvað það varðar. Hér er unnið gegn lýðræðinu og unnið í anda ógnarstjórnar eða valdstjórnar sem Íslendingar eiga ekki skilið að hafa yfir sér.

Eitt af því sem komið hefur upp í umræðunni, og hefði sannarlega með réttu þurft meiri skoðun, eru tilmæli Evrópuráðsins um hvernig tryggja megi fjölbreytni í fjölmiðlun. Evrópuráðið tekur fram í tilmælum sínum nr. 1/1999 að það séu margar leiðir að því marki. Ein þeirra leiða er að skoða eignarhald á fjölmiðlum, en einungis ein af mörgum leiðum. Aðrir hlutir sem koma til greina og skoða þarf eru aðstæður á markaði, stærð á markaði, gagnsæi eignarhalds og fleiri þættir. Ein leiðin sem Evrópuráðið leggur til að stjórnvöld athugi til þess að tryggja fjölbreytni á fjölmiðlamarkaði er sú að tryggja öflugt ríkisútvarp. Það kemur afar vel og skýrt fram í skýrslu fjölmiðlanefndar hæstv. menntmrh., það er kannski orðið hættulegt að vitna í blaðsíðutöl eins og komið hefur fram áður í máli þingmanna, en í kafla 6.4.1. sem fjallar um traust almenningsútvarp kemur skýrt fram að nefndarmenn deili því almenna viðhorfi að takmarka beri afskipti ríkisins af fyrirtækjarekstri og atvinnustarfsemi almennt sem einkaaðilar geti sinnt. Engu að síður leggur nefndin áherslu á og telur eðlilegt að leggja það til að að því verði hugað að tryggja stöðu Ríkisútvarpsins sem almenningsútvarps.

Auðvitað hefði ríkisstjórnin átt að sjá sóma sinn í því í umræðunni að fjalla um Ríkisútvarpið og málefni þess í tengslum við umræðu um stöðuna á fjölmiðlamarkaði. Og þegar við höfum orðið þess áskynja og vitum af því að hæstv. menntmrh. er með málefni Ríkisútvarpsins í sérstakri skoðun í menntmrn. þá spyr maður: Hvers vegna í ósköpunum er það ekki látið fylgjast að, umræðan um einkareknu fjölmiðlana og umræðan um Ríkisútvarpið? Enn eitt dæmi um hversu óskynsamlega er hér á málum haldið.

Í skýrslu nefndar hæstv. menntmrh. kemur fram að færa megi fram ýmis rök til stuðnings því sjónarmiði að Ríkisútvarpið og trygg staða þess sem almenningsútvarps geti verið tæki í þá átt að tryggja fjölbreytni á markaði. Þau hafa verið í fyrsta lagi að það sé æskileg leið til að tryggja þá hagsmuni sem sem felast í pólitískri og menningarlegri fjölbreytni í lýðfrjálsu þjóðfélagi og þar með til að mæta skyldum ríkisins í þeim efnum. Bent er á það í skýrslunni að því sé gjarnan haldið fram að einkareknir fjölmiðlar hafi tilhneigingu til að verða mun einsleitari í dagskrá en almenningsútvarpið til að mæta kröfum þorra neytenda um skemmtun og létta afþreyingu. Slíkt efni verði þá jafnvel uppistaðan í dagskrá einkarekins miðils, gjarnan á kostnað upplýstrar og málefnalegrar umræðu um mikilvæg samfélagsleg málefni, einkum þeirra miðla sem byggja rekstur sinn á auglýsingum og kostun.

Sömuleiðis bendir nefndin á að sú leið að tryggja stöðu Ríkisútvarpsins feli í sér reglusetningu sem þó beinist ekki gegn einkareknu fjölmiðlunum. Hún samræmist þar með að því leyti vel meginreglunum um frelsi markaðarins að öðru leyti en því að almenningsútvarpi yrði tryggður hluti markaðarins en einkaaðilar skipti honum að öðru leyti á milli sín í frjálsri samkeppni.

Svo segir nefndin í niðurlagi kafla 6.4.1., með leyfi forseta:

,,Í fjórða lagi sýnist vera hægt að hrinda slíkum áformum í framkvæmd að mestu án breytinga á gildandi lögum.``

Þetta er afar athyglisverður kafli í skýrslu nefndarinnar sem segir okkur ekki bara það að hægt hefði verið að fara vægari leiðir til að tryggja fjölbreytni á markaði í fjölmiðlun, heldur til að tryggja traust ríkisútvarp og við hefðum getað farið nánast bara þá leið, það hefði nægt, ekki hefði þurft þessa lagasetningu.

En það er afar merkilegt að skoða við hvaða aðstæður þessir ólíku miðlar búa á Íslandi því við skulum ekki gleyma því að Ríkisútvarpið hefur mun ríkari skyldur en einkareknu fjölmiðlarnir. Það hefur skyldur sem eru tíundaðar í lagarammanum, lögunum um Ríkisútvarpið, sem síðast var breytt á árinu 2000, en þar eru aðallega í 3. gr. tíundaðar skyldur Ríkisútvarpsins sem fela það m.a. í sér að það eigi að leggja rækt við íslenska tungu, sögu þjóðarinnar og menningararfleifð, það eigi að halda í heiðri lýðræðislegar grundvallarreglur og mannréttindi og frelsi til orðs og skoðana, það eigi að gæta fyllstu óhlutdrægni í frásögn, túlkun og dagskrárgerð og svo mætti áfram telja.

Þessar skyldur eru miklu ríkari en þær skyldur sem einkareknu miðlarnir hafa á sínum herðum. Reyndar er sagt í almennu útvarpslögunum að útvarpsstöðvar skuli stuðla að almennri menningarþróun og efla íslenska tungu. Talað er um að sjónvarpsstöðvar skuli kosta kapps um að meiri hluta útsendingartíma sé varið í íslenskt dagskrárefni og annað dagskrárefni frá Evrópu. Þar er líka talað um að útvarpsstöðvar skuli í starfi sínu halda í heiðri lýðræðislegar grundvallarreglur, þeim beri að virða tjáningarfrelsi og stuðla að því að fram komi í dagskrá rök fyrir mismunandi skoðunum í umdeildum málum.

Nú vil ég fullyrða það, herra forseti, að hvorki er verið að fara eftir þessum lögum til hlítar né heldur er nokkurt eftirlit með því hvernig þeim er framfylgt. Ég tel því að hér sé um að ræða ástand á markaði sem er að mörgu leyti því að kenna að lögum sem við búum við hefur ekki verið framfylgt og eftirliti með þeim hefur ekki verið sinnt. Því spyr ég: Hvaða lækning er þá fólgin í því að rjúka upp til handa og fóta og setja lög sem eru önnur eins hrákasmíð og þetta frv. gefur til kynna, með því offorsi og óðagoti og óbilgirni sem ég hef talað um í ræðu minni? Hvers vegna er ekki heimiluð umræða um málið? Samtal og rökræða sem, eins og Norðmenn gerðu á fjórum árum, gæti fætt af sér skynsamlega lagasetningu.

Enn hefur ekki eitt einasta svar komið frá ríkisstjórninni eða hæstv. forsrh. við þessum spurningum sem þingmenn, hver á fætur öðrum, hafa varpað fram og beðið um rökstuðning fyrir. Hvað er það sem hastar, hver er háskinn? Er húsið að brenna, eru himinn og jörð að farast? Engin svör frá hæstv. forsrh., ekkert samtal, bara valdboð.

Herra forseti. Ég fer nú að ljúka máli mínu. Meginsjónarmið mín eru þau að mér finnst ekki óeðlilegt að sett séu lög sem tryggja að það sé fjölbreytni á markaði í fjölmiðlun en alls ekki með þeim hætti sem hér er gert. Slíkar aðferðir eru til háborinnar skammar fyrir stjórnvöld og sannarlega ekki til eftirbreytni. Og það er ekki nokkur leið, miðað við þá framkomu sem t.d. stjórnarandstaðan hefur þurft að þola í þessu máli, að koma hér nærri, ekki einu sinni með töngum.

[24:15]

Ég veit ekki hvað við eigum að gera í sambandi við allar þær vísbendingar sem eru uppi um að hér sé verið að brjóta stjórnarskrána, tjáningarfrelsisákvæði hennar, eignarréttarákvæðin og atvinnufrelsisákvæðin, en ég tel þær ásakanir vera það vel rökstuddar hjá þeim sem þær hafa fært fram að mér finnst óhjákvæmilegt að skoða þá hluti hér nánar og yfirvegað. En það er eins og menn hafi bara sett bananana í eyrun, þeir eru hættir að hlusta, ekki er tekið mark á einu né neinu, heldur anað áfram í blindni.

Virðulegi forseti. Ef þessi hrákasmíð, þetta frv. verður að lögum er ég sannfærð um að afleiðingarnar verða aðrar en hin háleitu markmið þykjast vera,. Ég er hrædd um að lagasetningin eigi eftir að leiða af sér fábreytni en ekki fjölbreytni. Ég held að sú lækning sem hæstv. forsrh. þykist vera að færa hér fram sé ekkert annað en það sem hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon kallaði hana, hrossalækning.

Satt að segja finnst mér ekkert réttlæti í því, herra forseti, að hæstv. forsrh. skuli vera að takast að knýja í gegn lagasetningu á þessum nótum. Og af því verið var að frumsýna í Borgarleikhúsinu í kvöld söguna um Don Kíkóta sem lagði af stað út í heim til að endurheimta það sem heiminum var að eilífu glatað, þ.e. réttlætið, þá verð ég að segja eins og er að það væri betur að hér væri eitthvert réttlæti til staðar við þessa umfjöllun, við þessa málsmeðferð, við framlagningu þessa frv. en því hefur ekki verið fyrir að fara og það er mikil synd, mikil skömm.