2004-05-14 10:10:29# 130. lþ. 115.91 fundur 560#B fréttir af samskiptum forsætisráðherra og umboðsmanns Alþingis, viðvera ráðherra á þingfundum o.fl.# (aths. um störf þingsins), EKG
[prenta uppsett í dálka] 115. fundur, 130. lþ.

[10:10]

Einar K. Guðfinnsson:

Virðulegi forseti. Í þeim löngu umræðum sem hér hafa staðið yfir um útvarpslögin er auðvitað ekki mjög margt sem veldur sérstakri tilbreytni en það er eitt sem hefur þó aðeins valdið því að við komum stundum spennt til fundarins, við sem höfum setið yfir þessari umræðu daga langa, þ.e. að velta fyrir okkur hvar stjórnarandstaðan muni bera niður í hugkvæmni sinni við að finna mál til að brjóta upp umræðuna undir dagskrárliðnum fundarstjórn forseta eða eitthvað álíka. (SJS: Á þá ekki að ...?) Það er ástæða til að hrósa hv. þingmönnum fyrir ótrúlega fundvísi á undarlegt mál, að þetta skyldi vera tilefnið þennan morguninn. (Gripið fram í: Okkur ...) (Gripið fram í.)

Núna virðist þetta vera orðin keppni milli manna um að láta reyna á hugkvæmni sína (Gripið fram í: Þið eruð orðnir svo ...) en ég verð að játa að þetta er samt sem áður það undarlegasta og vitlausasta sem ég held að stjórnarandstaðan hafi komið fram með, að éta upp úr Dagblaðinu hviksögur og gera þær að umræðuefni í sölum Alþingis er fyrir neðan allar hellur og þeim hv. þingmanni til skammar sem hóf þetta mál. (Gripið fram í: ... nægilegt ...)

Það sem hér er verið að reyna að gera er gamalkunnugt úr stjórnmálum og það heitir á ensku ,,Let them deny it``, látum þá neita því. Það eru bornar fram ásakanir og gripið til hviksagna úr Dagblaðinu (Gripið fram í.) og síðan á einfaldlega að reyna að stilla mönnum upp og láta þá neita því. Það er þetta sem hér er verið að gera með þessari umfjöllun í þinginu og undarlegt enn og aftur að þetta skyldi verða fóðrið sem menn kusu að tyggja á í upphafi fundarins í dag.