Útvarpslög og samkeppnislög

Föstudaginn 14. maí 2004, kl. 10:14:23 (8156)

2004-05-14 10:14:23# 130. lþ. 115.1 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, BjörgvS
[prenta uppsett í dálka] 115. fundur, 130. lþ.

[10:14]

Björgvin G. Sigurðsson:

Virðulegi forseti. Síðustu dagana hefur farið hér fram ítarleg efnisumræða um það mál sem fyrir þinginu liggur, frv. hæstv. forsrh. um eignarhald á fjölmiðlum. Það sem hefur kannski borið hvað hæst í umræðunni að margra mati er það sem fram kom mjög skýrt í gærkvöldi í ræðu hv. þm. Kristins H. Gunnarssonar. Þar fjallaði hann með nokkuð skýrum og glöggum hætti um að fram væru komnar mjög vel rökstuddar upplýsingar um að hér væri á ferðinni ólögmæt löggjöf sem snerti mannréttindaákvæði stjórnarskrárinnar og að um það lægju fyrir nokkuð margar álitsgerðir sem rökstyddu þær fullyrðingar að hér væri um að ræða mál sem snerti hreint og klárt og bryti í bága við stjórnarskrána. Hins vegar liggur ekkert álit fyrir hjá hv. allshn. um að málið geri það ekki heldur lúti allt að því og bendi til þess að frv. sem liggur fyrir þinginu brjóti í bága við mannréttindaákvæði stjórnarskrárinnar.

[10:15]

Hér er því um grafalvarlegt mál að ræða og verður að fara ítarlega yfir það hvort hér sé um að ræða gerning sem vegi að tjáningarfrelsi Íslendinga og skerði rétt okkar til tjáningar, atvinnufrelsi og eignarfrelsi, eignarrétt okkar. Fjalla verður mjög ítarlega um málið í því ljósi. Mér og þingheimi til upplýsingar og glöggvunar á mikilvægi borgaralegs frelsis og á því að hve miklu leyti hið lýðræðislega samfélag hvílir á þeim grunni hef ég lesið mér til í því fræga grundvallarriti Frelsið eftir John Stuart Mill. Ég hef vitnað til þess áður við umræðuna að þessi bók liggi til grundvallar því borgaralega lýðræðissamfélagi sem við byggjum upp og trúum á, því frjálslynda, lýðræðislega borgaralega samfélagi sem við viljum vernda og teljum hið eina rétta.

Það kemur nöturlega fyrir sjónir, þegar maður grípur niður í þessu riti að núna, tæpum 150 árum eftir að það kom fyrst út, er hér á Íslandi vegið að tilverugrundvelli þess réttarríkis sem við byggjum. Það kemur mann spánskt fyrir sjónir hve hressilega höfundur ritsins John Stuart Mill kemur við kaunin á íslenskum ráðamönnum. Þess má geta að ritið kom fyrst út á Íslandi árið 1900, gefið út af Jóni nokkrum Ólafssyni. Það kom út aftur árið 1970 í þýðingu Þorsteins Gylfasonar og Jóns Hnefils Aðalsteinssonar. Það er sú útgáfa sem ég styðst við, úr flokknum Lærdómsrit Bókmenntafélagsins sem kom út árið 1970. Þetta er mjög vönduð útgáfa sem hefur fært okkur Íslendingum mikið að hugsa um í umræðunni um frelsi og borgaraleg réttindi. Þetta rit liggur miklum lærdómsritum til grundvallar og allri umræðu um þessi mál.

Til að bæði þjóð og þingi verði ljóst hve illan gjörning ég tel á ferðinni í frv. sem hér er til umræðu ætla ég næstu mínúturnar að styðjast við ritið, lesa upp valda kafla úr Frelsinu og fjalla um þá um leið. Ég ítreka að hér er um efnislega og vandaða umræðu um málið að ræða og ekki neitt málþóf. Þótt ég hafi ótakmarkaðan ræðutíma í annarri ræðu minni í 2. umr. um frv. ætla ég ekki að misnota hann með neinum hætti og standa hér tímunum saman og lesa upp úr ritinu og fjalla um það. Ég flyt ræður við 2. og 3. umr. Ég á kost á að tala tvisvar við 3. umr. og mun þá halda áfram umfjöllun um frelsið, lesa upp úr því og fjalla um kaflana. Hið sama gildir um hv. þm. Einar Má Sigurðarson. Hann mun einnig grípa til þess rits enda ritið honum hjartfólgið og kært. Hann mun einnig byggja ræður sínar að einhverju leyti á Frelsinu eftir John Stuart Mill.

Hér er ekki á ferðinni neitt sem hægt væri að kalla málþóf. Það er ekki hægt að gera því skóna að við viljum þvælast fyrir öðrum þingmönnum og alls ekki þingmönnum stjórnarliðsins sem hafa nánast ekkert sagt um skoðanir sínar á málinu. Við bíðum í ofvæni eftir að heyra frá þeim og buðust til þess í gær að færa okkur til á mælendaskrá þannig að þeir mættu komast fram fyrir okkur og viðra skoðanir sínar á málinu. Við vonum að sjálfsögðu að það muni verða og mun ég takmarka lestur minn og umfjöllun í þessari umræðu við valda kafla þannig að lífleg og fjörug skoðanaskipti geti átt sér stað í dag. Við munum gera þetta allt með málefnalegum og lýðræðislegum hætti þannig að sem flestir geti komið að og rökrætt við mig í dag um það hvort frv. hæstv. forsrh. um eignarhald á fjölmiðlum vegi að borgaralegu og félagslegu frelsi Íslendinga eða ekki.

Sérstaklega hlakka ég til að heyra viðhorf yngri sjálfstæðismanna til þess hvort þeir telji að með frv. þessu sé frelsi Íslendinga að einhverju leyti fyrir borð borið og hvort það vegi að grundvallarmannréttindum okkar. Þeir menn hafa mikið stúderað frelsið og ég taldi a.m.k. að þeir vildu berjast fyrir auknu frelsi í íslensku samfélagi. Ég hef oft litið til málflutnings þeirra og verið sammála að sumu leyti enda tel ég mig til frjálslyndra manna. Það kemur því undarlega fyrir sjónir að heyra málflutning þeirra síðustu daga, þótt hann hafi að litlu leyti farið fram í þinginu enda hafa þeir ekki fjallað efnislega um málið, nema hv. formaður allshn. Bjarni Benediktsson. Hinir hafa einungis komið upp í andsvör og því brýni ég þá til að koma upp í efnislegar umræður síðar í dag um það hvort frv. vegi með einhverjum hætti að mannréttindaákvæðum stjórnarskrárinnar og skerði með einhverjum hætti tjáningarfrelsið í landinu.

Ég skora á hv. þingmenn Sjálfstfl. sem tóku sæti á Alþingi um leið og ég í fyrravor, fyrir rúmu ári, en það var kosið 10. maí, að koma í hressilega rökræðu við mig um hvort færa megi fyrir því rök að vegið sé að frelsi manna. Ég sé það á svipnum á hv. þm. Birgi Ármannssyni að hann hefur örugglega marglesið Frelsið eftir John Stuart Mill. Hann er örugglega í stakk búinn til að koma í efnislega umræðu um það hvort frv. sem hér um ræðir reisir skorður að borgaralegu og félagslegu frelsi okkar Íslendinga.

Ég byrja lestur minn á fyrsta kafla bókarinnar Frelsið eftir John Stuart Mill. Þetta er fyrsti kaflinn á eftir forspjalli þýðandans, Þorsteins Gylfasonar, sem einnig er afar gott. Þar er að finna ákaflega athyglisverða setningu, með leyfi forseta:

,,Þessi ritgerð fjallar um svonefnt frelsi viljans, sem hefur því miður verið talið brjóta í bág við þá kenningu, sem ranglega er nefnd nauðhyggja. Hún fjallar um borgaralegt eða félagslegt frelsi, um eðli og takmörk hins réttmæta valds þjóðfélagsins yfir einstaklingnum. Þetta vandamál er sjaldan nefnt og næstum aldrei rætt frá almennu sjónarmiði. Engu að síður býr það undir flestum ágreiningi og átökum þessarar aldar. Og það mun að líkindum verða talið eitt af mikilvægustu úrlausnarefnum framtíðarinnar. Fjarri fer, að hér sé um nýtt vandamál að ræða, því að í vissum skilningi hefur menn greint á um það frá fyrstu tíð. En á því framfarastigi, sem hinn menntaði hluti mannkyns hefur nú náð,`` --- ég ítreka það, virðulegi forseti --- ,,sem hinn menntaði hluti mannkyns hefur nú náð, birtist þessi vandi við nýjar aðstæður og krefst því nýrrar rannsóknar og viðameiri en áður.``

Hér er höfundur bókarinnar að fjalla um það sem við erum að fást við í dag. Umræðan snýst um hvort frv. reisi með einhverjum hætti skorður við félagslegu borgaralegu frelsi og vegi að tjáningarfrelsi Íslendinga. Ég tel að margoft hafi verið sýnt fram á það við þessa umræðu og álitsgerðin styðji það ítarlega. Því gríp ég til þess, virðulegi forseti, að styðja mál mitt með þeim efnislegu rökum að grípa niður í rit sem nokkuð víðtæk sátt hefur verið um að sé ein af meginstoðum þess að við búum í borgaralegu samfélagi og teljum að tjáningarfrelsið sé háheilagur réttur sem ekki megi skerða.

Áfram segir höfundur, með leyfi forseta:

,,Barátta frelsis og valds er augljósasti þáttur þess hluta veraldarsögunnar, sem við kynnumst fyrst, einkum sögu Grikklands, Rómarveldis og Englands. En fyrr á tímum stóð þessi barátta milli þegnanna eða einhvers hluta þeirra annars vegar og stjórnarinnar hins vegar. Frelsi merkti þá vernd gegn harðstjórn valdhafa.`` --- Þar er athyglisverð setning, virðulegi forseti. ,,Frelsi merkti þá vernd gegn harðstjórn valdhafa.`` Hér er grundvallaratriði í þessu riti.

Neðar á sömu síðu segir:

,,Og þessi takmörkun valdsins var frelsi að þeirra skilningi. Slíkt frelsi mátti öðlast með tvennu móti. Önnur aðferðin var að fá ýmis ákvæði sett, sem kölluð voru stjórnfrelsisákvæði eða réttarskrár. Þessi ákvæði töldu menn saknæmt af stjórnanda að brjóta: ef hann gerði það, var mótspyrna eða almenn uppreisn talin réttlætanleg. Hin aðferðin, sem oftast kom síðar til sögunnar, var að setja stjórnarskrá sem gerði samþykki þegnanna eða einhverrar samkomu, sem gætti hagsmuna þeirra,`` --- takið nú eftir, virðulegi forseti --- ,,að ófrávíkjanlegu skilyrði ýmissa mikilvægra aðgerða stjórnvalda.``

Þetta er kjarni málsins. Strax í upphafi bókarinnar fjallar John Stuart Mill um mikilvægi stjórnarskrár sem valdhafi megi aldrei brjóta. Þetta er kjarni málsins og efnislega megininntak þess máls sem hér er til umræðu, að það brýtur að öllum líkindum í bága við mannréttindaákvæði íslensku stjórnarskrárinnar. Ég bendi á það hér og byggi á þeim rökum sem hér koma fram og held áfram lestrinum, með leyfi forseta:

,,Í flestum ríkjum Evrópu neyddust valdhafar til að láta undan stjórnfrelsiskröfum að meira eða minna leyti. En þeir reyndust tregari til að setja stjórnarskrár. Stjórnarskrármálið varð því helsta baráttumál frelsisvina, og þar sem vísir var að stjórnarskrá, börðust þeir fyrir endurbótum á henni. Og meðan mannkynið lét sér lynda að etja einum fjandmanni gegn öðrum og lúta einum herra að misjafnri tryggingu gegn harðstjórn hans, var viðleitni þess markaður sá bás sem nú er lýst.

Sá tími kom þó í framfarasögu mannkynsins, er menn hættu að telja það náttúrulögmál, að ríkisvaldið væri óháð og andsnúið hagsmunum þegnanna. Þeim virtist þó betur fara á, að hin ýmsu yfirvöld væru þjónar eða fulltrúar almennings,`` --- virðulegi forseti, ekki andsnúnir þegnunum heldur þjónar þegnanna.

Stjórnarherrarnir eiga að vinna í þágu þegnanna. Ég tel að það sé ekki gert með þessu frv. Það vegur að almannahagsmunum í landinu og vinnur gegn þegnum landsins. Með því eru stjórnvöld farin að vinna gegn þegnum landsins en ekki sem þjónar þeirra í þágu almannahagsmuna. Um þetta snýst málið. Að mínu mati, herra forseti, mun það koma í ljós, ef málið nær fram að ganga og fer fyrir dómstóla, að frv. vegur að mannréttindaákvæðum íslensku stjórnarskrárinnar og reisir tjáningarfrelsi okkar skorður. Þetta er algert grundvallarmál. Því er mikilvægt að hér fari fram mjög ítarleg efnisumræða um málið og menn styðji skoðanir sína, hvort heldur það er ég, sem tel að málið reisi tjáningarfrelsinu skorður, eða hv. þm. Sjálfstfl., sem telja að þær frelsisskorður sem til stendur að setja Íslendingum eigi rétt á sér. Þeir verða að rökstyðja það hér og hlaða mál sitt þeim rökstuðningi að trúverðugur þyki. Af hverju telja þeir réttlætanlegt að reisa Íslendingum þær frelsisskorður sem þetta frv. gerir? Ég tel það óréttlætanlegt að valdhafar gangi fram með þeim hætti og vegi svo gróflega að grundvallarmannréttindum okkar Íslendinga, tjáningarfrelsinu.

Á bls. 35 segir jafnframt, með leyfi forseta:

,,Eftir því sem baráttunni miðar áfram í þá átt, að almenningur kysi sér yfirvöld til ákveðins tíma, hvarflaði sú hugsun að sumum mönnum, að áður hefði of mikil áhersla verið á það lögð að takmarka valdið sjálft. Takmörkun valdsins virtist mönnum aðeins vera baráttumál, þar sem yfirvöld ættu andstæðra hagsmuna að gæta hagsmunum þegnanna. Nú þótti brýnast, að yfirvöld samrættust almenningi og þjóðarhagur og þjóðarvilji yrðu jafnframt hagsmunir og vilji þeirra. Gegn eigin vilja þurfti þjóðin engrar verndar við. Engin hætta var á, að hún beitti sjálfa sig ofríki. Ef yfirvöld bæru einungis fulla ábyrgð gagnvart þjóðinni, sem gæti vikið þeim frá án tafar, þá mætti veita þeim víðtækt vald þar sem þjóðin sjálf réði beitingu þess. Ríkisvaldið var einungis vald þjóðarinnar sjálfrar, samandregið og í þeirri mynd, sem auðveldaði beitingu þess. Þessi tilhugsun eða öllu heldur tilfinning var almenn meðal síðustu kynslóðar evrópskra frjálshyggjumanna.`` --- Takið eftir, virðulegur forseti.

[10:30]

,,Á meginlandi Evrópu virðist hún ríkja enn.``--- Segir John Stuart Mill fyrir 150 árum síðan um þessa frelsishugsun. --- ,,Allir vilja takmarka vald þeirra ríkisstjórna, sem þeir telja alls óhæfar til stjórnarstarfa. En hinir, sem takmarka vilja allt ríkisvald að einhverju marki, eru glæsilegar undantekningar í hópi stjórnvitringa meginlandsins. Nú kynnu áþekk viðhorf að vera almenn á Englandi, ef þær aðstæður, sem stuðluðu að þeim um skeið, hefðu haldist óbreyttar.

En kenningar um stjórnmál og heimspekileg efni eiga það sammerkt við manneskjur, að góður árangur þeirra birtir okkur ýmsa ágalla og breyskleika, sem slæmur árangur hefði aldrei leitt í ljós. Sú hugmynd, að þjóð þurfi ekki að takmarka vald sitt yfir sjálfri sér, gat virst liggja í augum uppi, þegar lýðræði var einungis draumsýn eða minning um löngu liðna tíð.`` --- Takið eftir, virðulegi forseti. Þegar lýðræðið var einungis draumsýn eða minning um löngu liðna tíð.

Hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson sagði eitthvað á þá leið í minnisstæðri ræðu í gær að lýðræðið væri síbreytilegt og stöðug vinna. Lýðræði getur bæði batnað og versnað. Þarna fléttast saman málflutningur hv. þm. Kristins H. Gunnarssonar og heimspekingsins mikla, Johns Stuarts Mills, 150 árum áður. Báðir færa þeir rök fyrir því að málið sem hér er á ferðinni vegi að lýðræðinu og geri lýðræði í landi okkar verra og minna en það var áður. Það er kjarni viðhorfs míns til málsins. Ég tel að frv. um eignarhald á fjölmiðlum vegi að lýðræði okkar, takmarki lýðræði okkar og reisi tjáningarfrelsi okkar skorður. Það er kjarni málsins, virðulegi forseti. Hér er um svo grafalvarlegt mál að ræða að það getur ekki farið í gegnum þingið án þess að menn ræði það út í hörgul og dragi inn í þá umræðu öll þau rök sem hugsast geta. Menn þurfa að styðja mál sitt traustum rökum þannig að þingheimur og þjóðin geti myndað sér heildstæða skoðun á því hvort frv. sem hér um ræðir taki með þeim hætti til mannréttindaákvæða íslensku stjórnarskrárinnar. Ég tel það svo sannarlega vera. En áfram ætla ég að lesa valdar málsgreinar úr fyrsta kafla bókarinnar Frelsið eftir John Stuart Mill, með leyfi forseta:

,,Í stjórnmálaumræðum er ,,ofríki meiri hlutans`` nú á allra vörum og talið ein af þeim hættum, sem samfélaginu ber að varast.``

Í þessari setningu hittir hann naglann á höfuðið. Ofríki meiri hlutans er talið ein af þeim hættum sem samfélaginu ber að varast. Ég held að það geti margir tekið undir að það sé að gerast núna, að samfélaginu stafi hætta af ofríki meiri hlutans á þingi.

Ég les áfram, með leyfi forseta:

,,Í upphafi stóð mönnum einkum ógn af ofríki meiri hlutans sem annarri harðstjórn, er það birtist í aðgerðum opinberra yfirvalda. Og öllum almenningi stendur ógn af því ofríki enn. En hugsandi mönnum varð ljóst að ofríki samfélagsins í heild yfir einstökum þegnum sínum er ekki einskorðað við eiginlegar stjórnarathafnir. Almenningur getur sjálfur framfylgt eigin fyrirmælum og gerir það. En ef þessi fyrirmæli eru röng, en ekki rétt, eða varða efni sem almenningur ætti ekki að skipta sér af, þá er um að ræða félagslega harðstjórn, sem er ægilegri en margar myndir einræðis.`` --- Félagslega harðstjórn, virðulegi forseti, er ægilegri en margar myndir einræðis, segir John Stuart Mill. --- ,,Að vísu styðst vald almennings yfirleitt ekki við jafnströng viðurlög og einræðisvald, en undan því er minna undanfæri, og það gagnsýrir einkalíf manna og hneppir jafnvel sálir þeirra í fjötra. Þess vegna er ekki nóg að verjast harðstjórn valdhafanna, heldur hljóta menn líka að verjast ofríki ríkjandi skoðana og tilfinninga. Þjóðfélagið reynir án viðlagðrar refsingar að þröngva hugmyndum sínum og háttum að þeim, sem eru ekki sama sinnis.``

Síðan spyr Mill, til að draga þetta saman:

,,Hvar á að setja mörkin? Hver eru réttu hlutföllin milli einstaklingsfrelsis og félagslegs aðhalds?``

Það er ljóst að stjórnarmeirihlutinn á Alþingi, Sjálfstfl. og Framsfl., telur í þessum umræðum rétt hlutföll á milli einstaklingsfrelsis og félagslegs aðhalds. Það er réttlætanlegt að takmarka tjáningarfrelsið í landinu. Sjálfstfl. er stjórnmálaafl sem margir telja með röngu einn dyggasta vörð um einstaklingsfrelsið. Það hefur lengi legið til grundvallar viðhorfum fólks til Sjálfstfl., að það sé flokkurinn sem umfram allt stæði vörð um einstaklingsfrelsi gegn ofríki ríkisvaldsins. Menn töldu þann flokk á þeirri skoðun að réttu hlutföllin milli einstaklingsfrelsis og félagslegs aðhalds væru einstaklingnum í hag og frelsi einstaklingsins væri alltaf í fyrirrúmi, að það væri sem mest. Lengi var talið að Sjálfstfl. ynni kerfisbundið að því að takmarka og minnka ríkisvaldið, reisa ríkisvaldinu skorður en ekki einstaklingsfrelsi, mannréttindum og tjáningarfrelsi. Það er hins vegar að gerast núna, virðulegi forseti, með frv. hæstv. forsrh. um eignarhald á fjölmiðlum. Það reisir einstaklingsfrelsinu skorður, reisir tjáningarfrelsinu skorður og skerðir mannréttindi Íslandi.

Að mínu mati, virðulegi forseti, reisir frv. þetta tjáningarfrelsinu og mannréttindum okkar Íslendinga skorður. Það gerir málið grafalvarlegt og gjörninginn svo hrikalegan. Við verðum að grípa til alls þess rökstuðnings sem við finnum til að varpa ljósi á málið og skýra fyrir þingheimi og þjóð hve ægilegur gjörningur er á ferðinni. Þess vegna vitna ég í öndvegisritið Frelsið eftir John Stuart Mill. Þar er að finna besta rökstuðninginn sem ég hef rekist á fyrir því hve mikilvægt er að vernda einstaklingsfrelsið og takmarka afskipti ríkisvaldsins af athöfnum þegnanna. Af þeim lestri má ljóst vera hve mikilvægt er að vernda mannréttindaákvæði stjórnarskrárinnar og tryggja að valdhafar á hverjum tíma skerði ekki mannréttindi, skerði ekki ákvæði um tjáningarfrelsið, um athafnafrelsið og um eignafrelsið. Frv. vegur að öllum þessum þáttum að mínu mati. Það skilur að vísu trúfrelsið eftir. En hver veit hvað kemur næst?

Ekki er annað en hægt en að óttast hvað í vændum er, þegar svona frv. liggur fyrir Alþingi vorið 2004, 150 árum eftir að John Stuart Mill skrifaði hina miklu bók um frelsið þar sem hann færði, að margra mati, hinn endanlega rökstuðning fyrir því að tjáningarfrelsi væri heilagt og frelsi borgaranna þyrfti að vernda með öllum tiltækum ráðum gegn ofríki valdhafanna hverju sinni, hverjir sem þeir væru. Þeir koma og fara. Mannanna verk eru misjöfn og ráðamenn misstíga sig eins og allir aðrir. Þess vegna þurfa að vera til óbreytanleg mannréttindi sem liggja öllu lífi okkar til grundvallar. Það er kjarni málsins, virðulegur forseti.

Til að draga þetta allt saman hef ég flett upp á bls. 45 í Frelsinu þar sem Mill útskýrir tilgang ritsins. Umfjöllun mín um Frelsið er til þess eins að gera Íslendingum og þingheimi glögga grein fyrir því hvaða ólög eru hér á ferðinni. Með leyfi forseta:

,,Tilgangur þessa rits er að setja fram eina ofureinfalda reglu sem skorið getur úr því afdráttarlaust, hvenær samfélaginu leyfist að hlutast til um málefni einstaklingsins ...`` --- Ég ætla að lesa þetta aftur, virðulegi forseti. Þetta er merkileg setning:

,,Tilgangur þessa rits er að setja fram eina ofureinfalda reglu sem skorið getur úr því afdráttarlaust, hvenær samfélaginu leyfist að hlutast til um málefni einstaklingsins, hvort sem viðurlögin eru líkamlegt ofbeldi í mynd lagarefsinga eða siðferðileg þvingun almenningsálitsins. Reglan er þessi: því aðeins er öllu mannkyni, einum manni eða fleirum, heimilt að skerða athafnafrelsi einstaklingsins að um sjálfsvörn sé að ræða. Í menningarsamfélagi getur nauðung við einstakling helgast af þeim tilgangi einum að varna þess, að öðrum sé unnið mein. Heill og hamingja einstaklingsins sjálfs til líkama eða sálar er ekki næg ástæða til frelsisskerðingar. Það er óréttlætanlegt að neyða mann til að gera nokkuð eða láta ógert af þeim sökum, að hann verði sælli fyrir bragðið, eða hinum, að aðrir telji skynsamlegt eða rétt að breyta svo. Ástæður sem þessar eru góðar eða gildar í fortölum eða rökræðum. Til þeirra má höfða, vilji maður telja öðrum hughvarf eða biðja hann einhvers. Þær réttlæta ekki að aðrir neyði mann eða meiði ef hann skyldi breyta öðruvísi en til er ætlast. Nauðung réttlætist af því einu að verknaður sá sem komið er í veg fyrir sé öðrum til tjóns.``

Hér tel ég, virðulegur forseti, að sú nauðung sem ríkisvaldið er að þröngva upp á íslenska þegna, með þessu lagafrv., sé alls ekki til að koma í veg fyrir nokkurn skapaðan hlut sem hægt væri að færa rök fyrir að sé öðrum til tjóns. Ég held þvert á móti að komið sé í veg fyrir að fjárvana og fjársveltir fjölmiðlar geti risið úr öskustó fjárhagsörðugleika, enda hafa þeir flestir rambað á barmi gjaldþrots á undanförnum árum. Megintilgangur eigendanna er margyfirlýstur, okkar er að veita því aðhald og fylgja eftir, þ.e. að koma umræddu fyrirtæki, Norðurljósum, á markað. Lög þessi eru að mínu mati sértæk aðgerð til að knésetja Norðurljós og koma þeim út úr rekstri. Af einhverjum óskiljanlegum ástæðum virðist það, virðulegi forseti, meginmarkmið þessa frv. Í leiðinni vega þau sértæku lög skefjalaust að mannréttindum Íslendinga. Um þetta vildi ég ræða í þessari síðari ræðu minni við 2. umr., að við megum aldrei láta það yfir okkur ganga að tjáningarfrelsi okkar og mannréttindi séu skert af valdhafanum, hver sem tilgangurinn með gjörningum er. Við megum aldrei láta það yfir okkur ganga. Íslendingar verða að rísa upp gegn þessum ólögum, rísa upp gegn þessum gjörningi, verði hann að lögum. Hér er vegið að mannréttindum og ekkert annað, virðulegi forseti. Svo grafalvarlegt er málið.

John Stuart Mill setur segir hinn eina tilgang rits síns að setja fram eina ofureinfalda reglu sem skorið geti úr þessu afdráttarlaust. Við þurfum að skoða það við þessa umræðu, virðulegi forseti, hvenær samfélaginu leyfist að hlutast til um málefni einstaklingsins hver sem viðurlögin eru. Við verðum að ræða um þetta á næstunni, þ.e. hvort samfélaginu leyfist að reisa einstaklingnum þær skorður sem umrætt frv. gerir. Ég met það svo að því leyfist það alls ekki og ekki undir neinum kringumstæðum, sama hvert markmiðið er. Ríkisvaldinu leyfist ekki að hrifsa hluta mannréttinda sem bundin eru í stjórnarskrá af einstaklingnum. Það er útilokað. Það má aldrei gerast, virðulegi forseti. Það má aldrei nokkurn tíma gerast að stjórnvöld og valdhafar komist upp með að skerða mannréttindi okkar Íslendinga.

Frumvarp hæstv. forsrh. um eignarhald á fjölmiðlum gerir skerðir mannréttindi að margra mati, líkt og hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson færði svo ágæt rök fyrir í gærkvöldi eins og margir tóku eftir. Ég held að margir hafi hlustað á þá ræðu, enda margir á pöllum og margir að fylgjast með þingmanninum þegar hann flutti sitt ágæta mál í gær. Hann færði þar rök fyrir því að allt benti til þess að umrætt frv. reisti tjáningarfrelsinu skorður og tæki til mannréttinda Íslendinga. Mér fannst athyglisvert að hlýða á þingmanninn flytja þessa rökföstu ræðu. Ég spurði hann í andsvörum í gær, virðulegi forseti, hvort það væri rétt skilið hjá mér að hann teldi frv. brjóta í bága við stjórnarskrá og skerða mannréttindi. Ég gat ekki skilið orð hans öðruvísi en svo að hann teldi svo vera, þótt hann benti í leiðinni á að hann byggi ekki yfir júrískri menntun, enda er hann stærðfræðingur. En það skiptir engu máli. Hver metur málin með sínum hætti. Við búum í lýðræðissamfélagi sem kýs sér valdhafana og því verður hver og einn að vega og meta hvenær valdhafar vega að mannréttindum. Til þess þarf ekki júríska menntun heldur verður hver og einn að finna það á eigin skrokki hverju sinni hvort slíkt sé um að ræða. Ég tel svo vera, virðulegi forseti, og leita mér rökstuðnings fyrir því í því besta riti sem ég hef nokkurn tíma fundið um félagslegt og borgaralegt frelsi manna.

[10:45]

Í Frelsinu segir, með leyfi forseta:

,,Reglan er að kalla mann til ábyrgðar fyrir tjón, sem hann veldur öðrum. Hitt er undantekning, að kalla megi mann til ábyrgðar fyrir að hafa ekki reist skorður við tjóni. Þó eru ýmis atvik nógu ótvíræð og alvarleg til að réttlæta þessa undantekningu. Í öllum skiptum einstaklings við aðra menn ber hann ábyrgð á lögum gagnvart þeim, sem eiga hagsmuni í húfi, og gagnvart samfélaginu sem verndara þeirra, ef nauðsyn ber til.``

Síðar í þessum kafla segir, með leyfi forseta:

,,Ekkert þjóðfélag er frjálst, nema það virði þessi réttindi, hver svo sem stjórnskipan þess er. Og ekkert þjóðfélag er fyllilega frjálst nema þessi réttindi séu ótvíræð og afdráttarlaus.``

Þetta er alger lykilsetning, virðulegi forseti. Ekkert þjóðfélag er fyllilega frjálst nema þessi réttindi séu þar ótvíræð og afdráttarlaus. Það er lykilatriði. Eftir stendur að ef þetta frv. nær fram að ganga verður Ísland að okkar mati ekki jafnfrjálst land og það var áður af því að réttindi borgaranna til tjáningarfrelsis eru ekki lengur ótvíræð og afdráttarlaus. Það er svo einfalt.

Mill segir síðan:

,,Hið eina frelsi, sem á nafnið skilið, er frelsið til að freista gæfunnar að eigin vild, svo lengi sem menn reyna ekki að svipta aðra gæfunni eða varna þeim vegar í leit sinni að lífshamingju. Hver maður er sjálfur best til þess fallinn að vaka yfir velferð sinni til líkama eða sálar, þessa heims eða annars. Mannkyninu er meiri akkur í að leyfa mönnum að lifa eins og þeim best þykir en að þröngva þeim til að lifa eins og allir aðrir telja fyrir bestu.``

Hér er um það að ræða að Sjálfstfl. reynir að þvinga fólk til að lifa eftir hans forskrift. Framsfl. fylgir í kjölfarið, fylgir í frelsarans slóð. Mannkyninu er meiri akkur í, eins og ég las áðan, að leyfa mönnum að lifa eins og þeim þykir best en þröngva ekki upp á menn frelsisskorðum sem vega að réttindum þeirra. Í lok fyrsta kafla dregur Mill mál sitt saman, í inngangi sínum að þessu mikla riti. Því næst tekur við kaflinn um hugsanafrelsi og málfrelsi sem ég fjallaði um í fyrri ræðu minni. Fyrsta málsgrein þess kafla rammaði svo inn samfélagsástandið á Íslandi árið 2004. En í lok inngangskaflans segir, með leyfi forseta:

,,Í stað þess að víkja að þeirri almennu frumreglu, sem nú er lýst, er hentara að hyggja fyrst að sérstöku dæmi hennar. Á þessu tiltekna sviði er frumreglan að vissu marki viðurkennd af almenningsálitinu, en ekki til fulls. Hér á ég við hugsunarfrelsið, en málfrelsið og ritfrelsið eru því svo nátengd, að engri aðgreiningu verður við komið.``

Virðulegi forseti. Hér er komið að kjarni málsins. Hugsunarfrelsið, málfrelsið og ritfrelsið eru svo nátengd fyrirbrigði að engri aðgreiningu verður þar við komið. Þar með er John Stuart Mill að segja okkur, og ég er sannfærður um að það er rétt greining hjá honum, að skerði menn málfrelsi, ritfrelsi, tjáningarfrelsi og prentfrelsi sé í leiðinni verið að skerða hugsunarfrelsi. Með þessu frv. er vegið að tjáningarfrelsi okkar og þar með hugsunarfrelsinu af því að um leið og mönnum eru reistar skorður við því hvað þeir megi segja og hvernig þeir megi miðla skoðunum sínum eru að sjálfsögðu reistar alvarlegar skorður við öðru frelsi, öllu frelsi Íslendinga.

Svo slæmt er þetta mál, virðulegi forseti, að það tekur engu tali. Því meira sem fjallað er um málið, eins og komið hefur fram í umræðum á þinginu, virðist ekki mikill vafi leika á því að frv. skerði mannréttindaákvæði stjórnarskrárinnar. Það kom m.a. fram í ræðu hv. þm. Kristins H. Gunnarssonar. Hann benti á að margar álitsgerðir styddu að frv. tæki til mannréttindaákvæða stjórnarskrárinnar og reisti tjáningarfrelsinu skorður en engin álitsgerð segði þetta í lagi. Það er stórmerkileg staðreynd sem þingmaðurinn bendir á, að engin álitsgerð styður að þetta sé í lagi. Margar benda hins vegar til þess að hér sé um að ræða stjórnarskrárbrot. Því hljóta menn að fara í djúpa umræðu um málið á hinu háa Alþingi, ekki gafst mönnum kostur á því í aðdraganda málsins enda bar það svo brátt að. Frv. var lagt fram um leið og skýrslan fræga um fjölmiðlamarkaðinn var loksins kynnt almenningi, eftir að hafa rykfallið uppi í menntmrn. í 2--3 vikur. Það er ótrúleg aðferðafræði, að koma þannig inn í þingið með grundvallarmál. Þetta er eitthvert mikilvægasta og ótrúlegasta mál sem lagt hefur verið fyrir Alþingi í óratíma. Áfram segir Mill:

,,Þessi mannréttindi eru allríkur þáttur í stjórnmálasiðferði allra þjóða, sem viðurkenna trúfrelsi og frjálsar stofnanir.``

Maður hlýtur að spyrja hvort við Íslendingar, ef þetta frv. nær fram að ganga, viðurkennum að fullu frjálsar stofnanir og frelsi einstaklinganna til orðs, æðis, athafna, tjáningar og hvers konar frjálsrar hugsunar. Mill segir, með leyfi forseta:

,,Samt má segja, að rökin, sem að þeim hníga, jafnt heimspekileg sem hagnýt, séu hvorki svo kunn almenningi né jafnvel svo í heiðri höfð af leiðtogum almenningsálitsins sem við hefði mátt búast. Séu þessi rök rétt skilin, má heimfæra þau að mörgum öðrum sviðum efnisins, og nákvæm rannsókn þeirra mun reynast besti inngangur að því sem á eftir fer. Þeir, sem ekkert finna nýtt í máli mínu, munu því vonandi afsaka, að ég skuli dirfast að gera enn eina tilraun til að ræða efni, sem svo oft hefur verið um rætt og ritað um þriggja alda skeið.``

Nú má bæta við tæpum tveimur öldum og segja að mikið hafi verið ritað og rætt um frelsi einstaklingsins um nánast fimm alda skeið. Það er liðinn langur tími frá því að þetta rit kom út. Þetta mál færir okkur hins vegar heim sanninn um það að því fer fjarri að þetta rit eigi að rykfalla í skúffum heldur á það, rétt eins og önnur meginverk mannkynsins og stjórnmála- og hugmyndasögunnar, að liggja umræðum okkar til grundvallar. Sígild meistaraverk um mannréttindi hljóta að eiga að liggja þeirri umræðu sem hér fram fram til grundvallar. Við verðum að leita okkur rökstuðnings í slíka ritsmíð til að setja fram sígildan rökstuðning fyrir frelsi einstaklinganna og mikilvægi þess að tryggja frelsi einstaklinganna gegn hömlum eða skerðingum á mannréttindum eða borgaralegu og félagslegu frelsi. Það er algert grundvallaratriði, virðulegi forseti.

Næst vil ég lesa úr upphafi annars kafla. Ég vil fyrir alla muni liðka fyrir þingstörfum og gefa sem flestum kost á að rökræða við mig um þetta mál. Nú sé ég blik í augum hv. þm. Ásgeirs Friðgeirssonar, sem tók sæti á Alþingi á ný fyrir klukkustund. Ég hlakka til að heyra viðhorf hans, sem annarra þingmanna, því að það er mikið varið í að sem flestir komist að þessari umræðu með viðhorf sín. Það er engin önnur leið til að komast til botns í þessu máli og rökræða það til fulls og til hins ýtrasta, þ.e. að þingheimur tjái sig með greinargóðum hætti um málið. Eins og fram kom í umræðunni í gær þá söknum við þess sérstaklega að stjórnarliðar séu ekki fleiri á mælendaskrá. Stjórnarandstæðingar buðust til þess í gær að víkja af mælendaskrá fyrir þeim og hleypa þeim upp fyrir okkur svo þeir gætu tekið til máls. Hver veit nema þeir þiggi það? Það er ekki langt liðið á daginn. Dagurinn er nýr og við skulum vona að við fáum að heyra viðhorf stjórnarliða til þessa frv., þeir tali hver á eftir öðrum í kjarnyrtu og skorinorðu máli, líkt og við stjórnarandstæðingar höfum gert. Hér hafa verið haldnar margar ágætar ræður og eingöngu um efnisinnihald málsins fyrir utan að sjálfsögðu átök við forustumenn þingsins um hvernig haldið skuli á málum. Það fylgir jafnheitri og yfirgripsmikilli umræðu.

Að lokum, virðulegi forseti, ætla ég að vitna í upphaf annars kafla sem hv. þm. Einar Már Sigurðarson mun annars fjalla um á eftir. Líkt og fyrsti kaflinn tekur annar kaflinn til grundvallaratriða í umræðunni. Út frá honum má færa fyrir því sígild og glæsileg rök fyrir að frv. sem hér um ræðir, um eignarhald á fjölmiðlum, vegi að mannréttindaákvæðum stjórnarskrárinnar og reisi tjáningarfrelsi okkar skorður. Það er kjarni málsins, virðulegi forseti. Við verðum að leita allra leiða til að draga það fram í umræðunni að þetta frv. skerði tjáningarfrelsið.

Hér segir, virðulegi forseti, um hugsanafrelsi og málfrelsi, með leyfi forseta:

,,Sú tíð er nú vonandi liðin, er verja þurfti prentfrelsið með ráðum og dáð sem eina helstu tryggingu gegn spilltri og ofríkisfullri landsstjórn. Nú verður að ætla, að óþarft sé að ráðast með rökum gegn þingi eða stjórn, sem á aðra hagsmuni í húfi en þegnarnir, skipar þeim fyrir um skoðanir og ákveður, hvaða kenningar og rökræður þeir megi heyra. Að auki hafa fyrri höfundar rætt þessa hlið málsins svo oft og með svo ágætum árangri, að ástæðulaust er að fjölyrða um hana á þessum stað.``

Nokkru síðar segir, með leyfi forseta:

,,Hvort sem ríkisstjórnir þingræðislanda bera fulla ábyrgð gagnvart þjóðunum eða ekki, mun að öllum jafnaði ástæðulaust að óttast, að þær reyni að hafa hemil á frjálsum umræðum, nema ef vera skyldi í umboði almenns ofstækis hverrar þjóðar. Gerum því ráð fyrir, að ríkisstjórn sé sammála þjóð sinni í einu og öllu. Þá hvarflar valdbeiting ekki að henni, nema þá í fullu samræmi við rödd þjóðarinnar, sem hún kallar. En ég neita því, að þjóðin hafi rétt til slíkrar nauðungar, hvort heldur hún beitir henni sjálf eða lætur stjórnina eina um það. Þetta vald er óréttlátt í sjálfu sér.``

Það er óréttlátt í sjálfu sér, virðulegi forseti, það vald sem beita á með frv. þessu, að mínu mati. Það kemur skýrt fram í þessari frábæru bók sem ég er að lesa upp úr og legg út af í ræðu minni.

,,Hin besta stjórn hefur engu meiri rétt til þess en hin versta. Það er jafnskaðlegt eða enn skaðlegra, þegar almenningur leggur blessun sína yfir beitingu þess en þegar því er beitt í andstöðu við almenningsálitið. Þótt gervallt mannkyn, að einum frátöldum, væri sömu skoðunar og aðeins þessi eini á öndverðum meiði, þá hefur mannkynið engu meiri rétt til að þagga niður í honum en hann til að þagga niður í því.``

Virðulegi forseti. Þetta er einstök setning og rammar inn þá umræðu sem hér er á ferðinni. Mannkynið hefur engu meiri rétt til að þagga niður í þessum eina en hann til að þagga niður í mannkyninu. Þetta er algert grundvallaratriði og dregur, að mínu mati, saman alla þá umræðu sem hér er á ferðinni.

,,Ef skoðun manns væri einkaeign og öðrum mönnum einskis virði og eigandanum einum til meins að vera varnað skoðunar sinnar, þá skipti máli, hvort einungis fáir væru beittir slíkum órétti eða fjöldi manna. En skoðanir eru ekki einkaeign. Ef skoðun er meinað að njóta sín, þá er gervallt mannkyn rænt eign sinni.`` --- Svo alvarlegt er málið. --- ,,Komandi kynslóðir bíða tjón ekki síður en þær, sem nú lifa, og þeir, sem öndverðir eru skoðuninni, bíða meira tjón en hinir sem aðhyllast hana.`` --- Það er málið. Við bíðum meira tjón heldur en þeir sem aðhyllast hana.

,,Sé skoðunin rétt,`` --- segir hér, með leyfi forseta --- ,,glata menn færi á að hverfa frá villu síns vegar. Sé hún röng, missa menn næstum jafnmikils, þeirrar skýrari skynjunar og fjörmeiri myndar af sannleikanum, sem birtist, þegar sönnu og lognu lýstur saman.

Rétt er að hugleiða hvora þessa staðhæfinga um sig, því að hvor þeirra svarar til sérstakrar greinar rökfærslunnar. Við getum aldrei verið viss um, að skoðun, sem við viljum kveða niður, sé röng.``

Virðulegi forseti. Við getum aldrei verið viss um það. Því verða allar skoðanir að fá að koma fram án þess að ríkisvaldið, valdhafar, reisi því skorður.

Ég sagði í upphafi máls míns að ég vildi greiða fyrir þingstörfum og tryggja að sem allra flestir þingmenn geti vegist á með rökum og tekið þátt í umræðunni í dag. Dagurinn er að byrja og margir á mælendaskrá. Það verður fróðlegt, gaman og spennandi að fylgjast með málflutningi manna í dag, hvaða nýju hliðar við fáum að sjá á málinu. Hér á eftir mér mun hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon fara yfir málið. Það verður athyglisvert að heyra skoðun hans á málinu, enda þingreyndur maður. Ég vona að hann komi einnig inn á það hvernig hann líti þessi mál, sem lúta að tjáningarfrelsinu, skoðanafrelsinu og prentfrelsinu. Það verður fróðlegt að heyra hann fjalla um það.

Við munum halda áfram að grundvalla málflutning okkar á Frelsinu eftir John Stuart Mill. Hv. þm. Einar Már Sigurðarson, fyrrv. guðfræðinemi, kennari og nú þingmaður, er fróður um ritið og las það sér til menntunar á yngri árum. Hann þekkir það í hvívetna og mun fjalla um það á eftir, viðhorf sín og hvernig hann dregur röksemd ritsins til eigin viðhorfa. Hann mun nota það til að berjast fyrir því að löggjafinn komist ekki upp með að hefta tjáningarfrelsið.