Útvarpslög og samkeppnislög

Föstudaginn 14. maí 2004, kl. 11:43:09 (8162)

2004-05-14 11:43:09# 130. lþ. 115.1 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, SJS (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 115. fundur, 130. lþ.

[11:43]

Steingrímur J. Sigfússon (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Ég mótmæli þessu. Ég læt ekki brjóta hér á mér rétt, ég mótmæli því. Ég óska eftir því að fresta ræðu minni og forseti verður þá að fresta fundinum ef hæstv. ráðherra kemst ekki í salinn. Auk þess á þessi umræða ekkert að halda áfram nema hæstv. forsrh. eða a.m.k. annaðhvort hann eða formaður allshn. séu hér til staðar.

Formaður allshn., hv. þm. Bjarni Benediktsson, hefur ekki sést í morgun. (BÁ: Hann er á skrifstofu sinni að fylgjast með umræðunni.) Það er ekki það sama. Menn eiga að gjöra svo vel og vera í salnum undir umræðum af þessu tagi þannig að það sé hægt að horfa í augun á þeim ef þeir þora að líta upp og leggja fyrir þá spurningar. Ég mótmæli þessu, herra forseti, og krefst þess að forseti fresti fundi þangað til forsrh. er kominn í salinn og ég get lagt fyrir hann spurningar.