Útvarpslög og samkeppnislög

Föstudaginn 14. maí 2004, kl. 11:47:16 (8167)

2004-05-14 11:47:16# 130. lþ. 115.1 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, JBjarn (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 115. fundur, 130. lþ.

[11:47]

Jón Bjarnason (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég vil ítreka það sem stendur í þingsköpum að forseta þingsins ber að sjá til þess að umræður í salnum fari fram eins og nauðsynlegt er gagnvart málinu.

Ég vil minna á að hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon bar fram sömu ósk við fyrri ræðu sína í þessari umræðu. Hver þingmaður hefur einungis heimild til að halda tvær ræður í þessari umferð. Þá var ekki orðið við þeirri beiðni hv. þm. um að hæstv. forsrh. og hæstv. viðskrh. yrðu hér við þannig að forseti er búinn að hafa þetta mál til úrlausnar í tvo sólarhringa. Hv. þm. hefur ítrekað óskað eftir því að hæstv. forsrh. og hæstv. viðskrh. séu viðstaddir og gerði það í upphafi ræðu sinnar. Ég tel að ef forseti ræður ekki betur við stjórnun þingsins, því að þingmenn eiga jú að taka tillit til forseta hvort sem þeir eru ráðherrar eða óbreyttir þingmenn, því inni í þinginu ræður forseti ferð og mér finnst að ef forseti ræður ekki þeirri ferð þurfi bæði forsn. og forseti með formönnum þingflokka að hittast og eiga fund um það með hvaða hætti hægt sé að styðja forseta þingsins í því að geta látið þinghald fara fram með eðlilegum hætti og þingmenn, hvort sem þeir eru ráðherrar eða óbreyttir þingmenn, geti gegnt þingskyldum sínum.