Útvarpslög og samkeppnislög

Föstudaginn 14. maí 2004, kl. 12:00:30 (8175)

2004-05-14 12:00:30# 130. lþ. 115.1 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, GAK (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 115. fundur, 130. lþ.

[12:00]

Guðjón A. Kristjánsson (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Það er alveg rétt sem hæstv. forseti sagði hér áðan þegar hann gaf yfirlit yfir hversu lengi þessi umræða hefði staðið, það er í rúman þrjá og hálfan dag, að það hefur ekki verið auðvelt að ná ráðherrum hér í salinn. Mig minnir, hæstv. forseti, og held ég að ég hafi nú verið viðstaddur megnið af umræðunni, að það hafi ekki enn tekist að fá neinn ráðherra til þess að koma hér í salinn til þess að svara spurningum í þennan þrjá og hálfa dag.

Þetta er ekki í fyrsta skipti sem menn hafa óskað eftir því að hæstv. forsætisráðherra væri hér til staðar til þess að svara spurningum. Ég vil þess vegna láta þá skoðun mína í ljós að ég tel það ákaflega furðulegt, hæstv., forseti, að hér getum við þingmenn rætt dögum saman um mjög mikilsvert mál og lendum í þeirri stöðu að jafnvel þó að umræðan hafi staðið hér á fjórða sólarhring sé ekki hægt að fá ráðherra til að svara spurningum og það takist ekki enn, hæstv. forseti.

Ég skil erfiða stöðu forseta í þessu máli. En það er auðvitað mjög snúið gagnvart hv. þingmönnum að setja okkur í þá stöðu að geta með engum hætti fengið ráðherra til að svara neinum spurningum. Ég geri mér grein fyrir því að hæstv. forseti hefur ekki vald á því að reka ráðherra hér inn í salinn. En það er hins vegar mjög undarlegt að verða vitni að því að umræðan þurfi að fara fram með þeim hætti að á mörgum dögum náist aldrei ráðherra inn í salinn til þess að svara einni einustu spurningu.

Ég hlýt að lýsa því yfir, hæstv. forseti, að ég tel þetta mjög óeðlilegt og skil ekki þann feluleik sem ráðherrarnir eru í í þessu máli.