Útvarpslög og samkeppnislög

Föstudaginn 14. maí 2004, kl. 12:03:07 (8176)

2004-05-14 12:03:07# 130. lþ. 115.1 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, SJS
[prenta uppsett í dálka] 115. fundur, 130. lþ.

[12:03]

Steingrímur J. Sigfússon (frh.):

Herra forseti. Ég neyðist til að mótmæla því hvernig umræðunni er hér fram haldið við aðstæður sem ég fullyrði að eru brot á hefðum. Enn ein hefðin er að fara hér í vaskinn sem hefur ríkt um samskipti þingmanna og ráðherra eða formanna nefnda á Alþingi. Ég minnist þess aldrei að neitað hafi verið réttmætum óskum um að þeir sem bera ábyrgð á máli og eru til að svara fyrir það, það er flutningsmaður málsins og það er formaður þeirrar nefndar sem hefur haft það til umfjöllunar, séu til staðar við umræðuna og svari spurningum.

Ég bið t.d. hæstv. forseta að hugleiða hvort það kæmi einhvern tíma til greina að láta 2. umr. fjárlaga fara fram við þær aðstæður að hvorki fjármálaráðherra né formaður fjárlaganefndar væru í salnum til þess að hlýða á umræðuna og svara spurningum. Það kæmi ekki til greina, og hæstv. forseti veit þetta vel. Mér er alveg ljóst að hæstv. forseti er í þeirri erfiðu stöðu að vera stjórnarandstæðingur á forsetastóli núna og hann vill sjálfsagt ekki fá á sig ásakanir um að sýna neina linkind. Ég er ekki að segja að hæstv. forseti geti ekki staðið á sínu máli. En mér finnst að hæstv. forseti hefði átt að fresta fundi.

Hvers vegna finnst mér það, herra forseti? Líka vegna þess að það er ríkisstjórnin sem er að knýja þetta mál í gegn. Það er hæstv. forsætisráðherra Davíð Oddsson sem semur þetta frumvarp eða lætur gera, flytur það hingað inn og er að pína það í gegnum þingið. Ef hæstv. ráðherra er svona mikið í mun að fá þetta að lögum þá ber honum að greiða fyrir meðferð málsins hér á þingi. Þannig hefur þetta alltaf verið. Það eru ráðherrarnir sem eru sekir ef þeir ekki koma hér og eru til svara fyrir sín mál þannig að umfjöllun um þau geti farið fram með eðlilegum hætti. Þannig lærði ég þetta. Þannig var þetta meðan ég var ráðherra og ég geri ráð fyrir því að þannig hafi þetta líka verið meðan hæstv. forseti var ráðherra, að það var sjálfsagður hlutur að koma hér til þings ef mál sem heyrðu undir manns málasvið voru þar til umfjöllunar og óskað var eftir því að ráðherra væri til svara. Maður gerði það strax vegna þess að annars tafðist málið og maður leit á það sem skyldu sína að greiða fyrir því að það færi í gegn, vera til svara og svo framvegis.

Fyrir nú utan það auðvitað, herra forseti, að þetta er ekkert annað en lítilsvirðing. (Gripið fram í.) Þetta er lítilsvirðing við Alþingi. Ráðherrar bera ábyrgð gagnvart þinginu. Það er ekki öfugt. Það er þingbundin ríkisstjórn á Íslandi (PHB: ... og framkvæmd laga.) og framkvæmdarvaldið ber skyldur gagnvart þinginu. Þess vegna m.a. sitja ráðherrar á Alþingi óháð því hvort þeir eru kosnir þingmenn eða ekki. Þeir hafa hér málfrelsi og tillögurétt en auðvitað ekki atkvæðisrétt nema þeir séu jafnframt alþingismenn. Það er til þess að þeir geti uppfyllt þessar skyldur sínar og það er til þess að Alþingi hafi aðgang að þeim.

Ég læt ekki bjóða mér þetta, herra forseti. Ég ætla ekki á meðan ég stend hér á Alþingi að verða til þess að gefa þetta eftir --- það verða þá aðrir að gera það --- að vera þær lyddur að láta líka þennan rétt þingmanna fara í vaskinn, að ráðherrar komi hér, taki niður spurningar og svari þeim eða reyni það að minnsta kosti. Þau eru auðvitað ekki alltaf burðug svörin en það verður þá að taka viljann fyrir verkið. En að þeir sýni Alþingi svona algera lítilsvirðingu, það læt ég að minnsta kosti ekki yfir mig ganga þegjandi og hljóðalaust.

Auðvitað hefur hæstv. forsætisráðherra Davíð Oddsson iðulega áður gert sig sekan um þetta sama. Hann var eins og naut í flagi þegar hann kom úr Ráðhúsinu yfir í Alþingishúsið og ætlaði hér að valta yfir með þeim hinum sömu vinnubrögðum og hann hafði ástundað þar. (Gripið fram í: Gaggó Vest.) Það reyndist ekki eins auðvelt og hann hafði ætlað og hann kallaði þessa stofnun gagnfræðaskóla vel á minnst. Það fór svo í taugarnar á hæstv. forsætisráðherra Davíð Oddssyni þegar Alþingi var ekki jafnauðsveipt og liðið sem hann hafði haft undir sér í borginni að hann rauk hér í ræðustólinn og rak þingið heim vorið 1992, ef ég man rétt. Forseti sat hér nötrandi á forsetastóli tilbúinn með lokaræðu sína og þakkir og þær voru aldrei fluttar af því að Davíð Oddsson þoldi það ekki að geta ekki farið með Alþingi bara eins og gólftusku. (Gripið fram í: Eins og ...) Hann gerir það að minnsta kosti kosti ekki með mínu samþykki og á meðan ég er hér. Ég lýsi mikilli skömm á því að Davíð Oddsson skuli sýna mér og Alþingi þetta virðingarleysi. Hann er hér í þinghúsinu, maðurinn. Hvað er mikilvægara en að hann sinni sínum lögbundnu þingskyldum og skyldum sem ráðherra? Ekkert, nema að landið sé að farast. Um hvað er verið að funda þarna yfir kaffibollum sem er svo mikilvægt að forsætisráðherra telji það réttlætanlegt að verða hér ekki við réttmætum kröfum um að koma og svara fyrir þetta hjartans mál sitt, þetta barn sitt, steinbarn sitt sem það vonandi verður honum ef hann treður því hér í gegn?

Herra forseti. Ég mótmæli þessu mjög harkalega, mjög harkalega og ég lýsi skömm á hæstv. forsætisráðherra ef hann ætlar að láta þetta ganga svona til. Ég ætlaði ekki að standa hér í ræðustól og fara með einhverjar langlokur. Ég er hér ekki í málþófi. Mér gengur það ekki til að tefja sérstaklega fyrir þessu máli. Ég ætlaði að ljúka mínu máli á þremur einföldum spurningum til forsætisráðherra og það er auðvitað algjört hneyksli að hann skuli ekki koma hér og taka þær niður og svara þeim jafnvel þó bara í andsvari væri. Ég mundi sætta mig við það. En ég læt ekki bjóða mér þetta þegjandi og hljóðalaust, herra forseti.

Spurningarnar sem ég ætlaði að leggja fyrir hæstv. forsætisráðherra voru þessar því það er svo sem allt í lagi að koma þeim inn í þingtíðindin til að byrja með:

Í fyrsta lagi. Úr því að gildistaka þessa frumvarps er ekki fyrr en 2006, hvað liggur þá á að keyra það hér í gegnum þingið með þessum vinnubrögðum á þessum vordögum? Hvernig í ósköpunum rökstyður hæstv. forsætisráðherra það að það sé lífsnauðsynlegt að þetta verði að lögum nú í maímánuði 2004 þegar það á ekki að taka gildi fyrr en 1. júní 2006? (Gripið fram í: Afsögn á þingi.) Hver eru rökin fyrir því að vinna þetta þá ekki betur? Málið er komið fram. Lagasetningin er þá fyrirhuguð. Menn vita af því og geta byrjað að undirbúa sig undir hana ef hún verður í þessum anda. En menn hefðu þó tíma til að vinna þetta sómasamlega og það er auðvitað ekki búið að því.

Það er til mikillar skammar að ungir menn eins og hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson sem þykist vera sérstakur velunnari laga og reglu og vera annt um viðskiptalífið og frelsi og frjálsræði, skuli láta standa svona að verki, t.d. með umsögn Samkeppnisstofnunar um að þetta sé brot á góðum leikreglum í viðskiptalífinu.

Ég ætlaði í öðru lagi að spyrja hæstv. forsætisráðherra um stjórnarskráróvissuna í þessu máli. Ég ætlaði að spyrja þann hæstv. forsætisráðherra sem er með á bakinu eitthvert vafasamasta Íslandsmet stjórnmálasögunnar, að hafa brotið stjórnarskrána tvisvar í einu og sama málinu, öryrkjamálinu, ég ætlaði að spyrja hann: Er honum alveg sama þó að hann bjóði upp á að gera það einu sinni enn? Er hann að safna metum? (Gripið fram í: Síbrot.) Er hann að safna brotum á stjórnarskránni? Langar hann í eitt enn á ferlinum? Nei, er ekki ástæða til að staldra hér við?

Ég ætlaði að spyrja hæstv. forsætisráðherra í þriðja lagi, sérstaklega vegna þess að ég hef ekki náð hér í hæstv. viðskiptaráðherra eða utanríkisráðherra: Kemur til greina ef ríkisstjórnin situr og meiri hluti hennar --- ef svo illa fer --- kemur til greina, jafnvel þó svo að þetta verði gert að lögum nú að þessi lög verði endurskoðuð í millitíðinni áður en þau fara að verka 2006, því að auðvitað væri það hægt? Segjum nú sem svo að menn verði að lokum sammála um að þessi löggjöf hreinlega gangi ekki svona, eru menn þá nógu stórir til þess að viðurkenna mistök sín og bjóða upp á endurskoðun málsins t.d. næsta vetur? Auðvitað er það arfavitlaust verklag að setja lögin. En það mætti þó reyna að einhverju leyti að bæta fyrir skaðann með því að breyta þeim.

Virðulegur forseti. Þetta voru þessar þrjár einföldu spurningar sem ég ætlaði að leggja fyrir hæstv. forsætisráðherra. Eru þær ekki gildar? Eru þær ekki gildar, hv. þm. Birgir Ármannsson? Er ekki réttmætt að spyrja svona? Og finnst hv. þm. formaður sinn verða sér til sæmdar með því að vera ekki hérna til þess að svara þeim eða getur hann það ekki? Vill hann það ekki? Þorir hann það ekki? Er þetta kannski orðið þannig að hjartað sé orðið svona lítið í mönnum?

Hvers vegna í ósköpunum þora menn ekki að vera hér og standa fyrir máli sínu? Hvers vegna ekki? Af hverju er til dæmis ekki Framsóknarflokkurinn til staðar hér í þessari umræðu? Það er búið að flytja eina aularæðu af hálfu Framsóknarflokksins hér í umræðunni. Hv. þm. Hjálmar Árnason kom hér og flutti aularæðu þar sem hann hafði allt á hornum sér vegna afleiðinga stjórnarstefnunnar undanfarin ár og kenndi okkur stjórnarandstæðingum um. Við vorum orðnir sökudólgarnir og ábyrg fyrir samþjöppun í viðskiptalífinu sem hefur skeð undir nefinu á viðskiptaráðherrum Framsóknarflokksins.

Svona er þetta nú. Þetta er frammistaða Framsóknar og við sjáum hvernig Sjálfstæðisflokkurinn stendur sig hér.

Þetta eru mikil endemi og auðvitað er það alveg ljóst að málið er orðið að svo baneitruðum kaleik í höndum stjórnarflokkanna og stjórnarsamstarfsins að þeir sitja bara og drekka kaffi, þora ekki í þingsalinn. Ég hlýt að líta svo á, herra forseti, af því að hæstv. forsætisráðherra getur hér ekki haft nein lögmæt forföll --- bráðfrískur maðurinn var á vappi hérna í kringum salinn áðan. (Gripið fram í.) Hann getur ekki haft nein lögmæt forföll. --- Ég hlýt að líta svo á að hann þori ekki að koma hér og eiga orðastað við mig. Ég hlýt að líta svo á. Og það skal þá standa að Davíð Oddsson sé slík gunga og drusla að hann þori ekki að koma hér og eiga orðastað við mig.