Útvarpslög og samkeppnislög

Föstudaginn 14. maí 2004, kl. 12:15:39 (8179)

2004-05-14 12:15:39# 130. lþ. 115.1 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 115. fundur, 130. lþ.

[12:15]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Það er hárrétt hjá hv. þm. Pétri Blöndal að málið er til meðferðar á Alþingi. Það er líka hárrétt að formaður fastanefndar, sá sem mælti fyrir meirihlutaáliti, á að sjálfsögðu að sjá sóma sinn í að vera við umræðuna. En hann er hér ekki heldur. Ég get því ekki heldur beint spurningum mínum til hans.

Hitt er líka alveg ljóst, og það verður hv. þm. Pétur H. Blöndal að viðurkenna, að viðveru ráðherra er iðulega krafist. Það er hefð fyrir því að ráðherrarnir séu líka til staðar. Ég nefndi dæmi um 2. umr. fjárlaga. Það er á hreinu að það kæmi aldrei til greina að 2. umr. fjárlaga færi fram að fjmrh. fjarstöddum og hann væri ekki hér til að taka niður spurningar og svara þeim í lokin. Það er hefðin. Yfirleitt er þetta svona með hvaða mál sem er, eða var a.m.k. Það er að vísu rétt að á þetta hefur komið meira los allra síðustu ár af því að núverandi ríkisstjórn og síðustu ríkisstjórnir hafa í stórauknum mæli hunsað Alþingi í þessum efnum. Ef við færum 10--15 ár til baka hefði þótt algerlega óhugsandi að umræður um stórmál af þessu tagi færu fram án þess að viðkomandi ráðherra væri hér til svara.

Alþingi meira en lagasetningastaður. Alþingi er líka einn helsti vettvangur pólitískra skoðanaskipta í landinu. Hér tölumst við við, forustumenn í stjórnmálum landsins. Mér er sýnd lítilsvirðing sem formanni í stjórnmálaflokki þegar annar formaður í stjórnmálaflokki virðir mig ekki viðlits og kemur ekki til svara. Ég mótmæli því. Ég tel að mér beri sú virðing að á mig sé hlustað eins og aðra. Ég tek því mjög þunglega þegar komið er fram við mig eins og hér var gert. Ég held að ég hafi öll efni til þess að gera það.

Varðandi Kauphöllina þá byggi ég á því sem nefndarmenn í efh.- og viðskn. hafa sagt undanfarna daga, svo ég svari því. Í öllu falli er alveg ljóst að áform þessa fyrirtækis, í óbreyttu formi, um skráningu í Kauphöllinni renna út í sandinn. Það er a.m.k. alveg morgunljóst.